Morgunblaðið - 09.10.1983, Blaðsíða 19

Morgunblaðið - 09.10.1983, Blaðsíða 19
MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 9. OKTÓBER 1983 Á degi sagnamanns Guðmundur G. Hagalín 85 ára Þegar íslenskir lesendur hugsa til Guðmundar G. Hagalíns hálf- níræðs mega þeir minnast margs. Umsvifamikill og frjór ritferill hans spannar rúm sextíu ár, eftir hann liggja fleiri bækur en flesta eða alla höfunda okkar aðra: skáldsögur, smásögur, ævisögur, endurminningar, einnig greinar og ritgerðir sem raunar hafa fæst- ar komist í bækur. Allt er þetta kunnara en frá þurfi að segja, enda ekki ætlun mín hér að gera neina „úttekt“ á ferli Hagalíns og ekkert ráðrúm til þess að sinni. En mig langar til á þessum degi að minnast persónulegrar reynslu minnar af Hagalín og ritum hans. Ekki vegna þess að ég telji þá reynslu merkari en hvers annars lesanda, heldur einmitt sakir hins að ég ímynda mér að hún sé nokk- uð dæmigerð fyrir áhrifagjarna lesendur af þeirri kynslóð sem fór að hnýsast í bækur eftir miðja öldina. Guðmundur Hagalín var fyrsti rithöfundurinn sem ég sá nærri mér og hlýddi á í eigin persónu. Ég var strákur á Dalvík þegar hann bar að garði föður míns sem var stjórnarformaður Lestrarfé- lagsins, en Hagalín þá bóka- fulltrúi og þurfti að fylgjast með bókasöfnum í landinum. Hann var raunar í tvíþættum erindum það sinn sem ég minnist hans best: að líta eftir bókasafni okkar á Dalvík og lesa upp á samkomu sem kall- aðist List um landið. Þar komu fram auk hans Jóhannes úr Kötl- um, Guðmundur Böðvarsson og Indriði G. Þorsteinsson, og Krist- inn Hallsson söng. Engan þessara manna hafði ég fyrir augum litið og má nærri geta hvílíkur við- burður koma þeirra var ungum bókmenntamanni. Hagalín las þarna Konuna að austan, og enn í dag stendur hún mér fyrir hug- skotssjónum sem ein skemmtileg- asta smásaga sem ég þekki. Það er ég þó viss um að áhrifin stöfuðu fullt eins mikið af hinum lifandi og leikræna flutningi höfundar sem fyndni sjálfs textans. Heima hjá okkur sagði Hagalín sögur látlaust, af þeirri íþrótt og eftirhermugáfu sem þjóðkunn er og ræddi margt um hugðarefni sín. Ég góndi ótæpt á hann. Allt i einu vék hann sér að mér, klapp- aði á koll mér og sagði: „Þessi ungi maður hefur gaman af bókum, ég sé það á því hvernig hann horfir á mig.“ Þegar þarna var komið var ég raunar lítið farinn að lesa „betri bókmenntir" sem svo eru nefndar. Og bækur Hagalíns hafði ég varla neitt lesið þótt ég kannaðist auð- vitað við hann af afspurn. Og langur tími átti að lfða áður en ég færi að kynna mér rit hans að ráði og meta kosti þeirra. Til þess lágu sérstakar ástæður. Ég var ekki kominn langt í bókmenntalestri mfnum þegar fyrir mér varð rit Kristins E. Andréssonar, íslenskar nútíma- bókmenntir 1918—1948. Ég las margt í þessari bók og hreifst af mælsku höfundar og sannfær- ingarkrafti. Og þarna gat ég séð svart á hvítu að Guðmundur Hagalín var ómerkilegur höfund- ur sem ástæðulaust var að eyða tíma í. Hann stóð utan við þann meginstraum bókmenntanna sem máli skipti, var skákað í sérkafla sem bar þessa fyrirsögn: Milli skers og báru. Ég hef sjálfsagt ekki hugsað mikið út í hvers Hagalín var lát- inn gjalda að vera talinn milli skers og báru í bókmenntasög- unni. En áhrifamáttur Kristins sem gagnrýnanda spillti lengi fyrir því að ég læsi Hagalín. Svo þegar ég varð nægilega sjálfstæð- ur til að gefa þessum utangarðs- manni nútímabókmenntanna gaum, þóttist ég sjá að hann hafði ýmislegt til brunns að bera sem Kristinn hafði látið sér sjást yfir. Og ég skildi að hér hafði Hagalín goldið þess grimmilega að hafa átt í pólitískum útistöðum við Kristin og félaga hans. Þetta kenndi mér þá lexíu að taka með fyrirvara umsögnum bókmenntagagnrýn- enda, hversu snjallir sem þeir kunna að vera, og fara ekki of „Hin nýrómantíska hetju- hyggja Hagalíns setur mark sitt á þær persónur hans sem þekktastar eru, Kristrúnu í Hamravík, Sturlu í Vogum og Márus á Valshamri, svo ekki séu fleiri taldar. Hann hefur næmt auga fyrir svipmikl- um og sérstæðum mann- gerðum, djúpt skyn á lífsstríð fólks hins gamla tíma sem lýtur skýrum siðferðilegum lögmálum.“ geyst sjálfur þegra ég seinna fór að bera mig að skrifa um bók- menntir. Ég rifja þetta ekki upp til að varpa rýrð á Kristin E. Andrésson því að margt ritaði hann vel um bókmenntir. Ég kynntist honum lítið eitt undir ævilok hans og vakti þá eitt sinn máls á þvi að ég teldi nú að dómur hans um Guð- mund Hagalín í bókmenntasög- unni hefði verið ósanngjarn. Hann bar ekki á móti því, en kvaðst ekki hafa verið vísvitandi hlutdraegur í garð Hagalíns og bætti við: „Eg sá hann bara í þessu ljósi.“ Sannleik- urinn er sá að Kristinn hafði góð- ar forsendur til að skilja og meta rit Hagalíns ef hinar pólitísku erj- ur þeirra hefðu ekki komið til. Þeir áttu sitthvað sameiginlegt, báðir mótaðir af nýrómantískum hugmyndum og þjóðræknisanda, báðir hneigðir til hetjudýrkunar eins og margir jafnaldrar þeirra og litlu eldri menn meðal rithöf- unda og menntamanna. Hin nýrómantíska hetjuhyggja Hagalíns setur mark sitt á þær persónur hans sem þekktastar eru, Kristrúnu í Hamravík, Sturlu í Vogum og Márus á Valshamri, svo ekki séu fleiri taldar. Hann hefur næmt auga fyrir svipmikl- um og sérstæðum manngerðum, djúpt skyn á lífsstríð fólks hins gamla tíma sem lýtur skýrum sið- ferðilegum lögmálum. Sögufólk hans er tíðum stórt ( broti, náttúrumikið og stendur föstum fótum á jörðinni. Kímni hans er hrjúf og safarík og nýtur sín tíð- um ágætlega í smásögunum þar sem höfundur fellur ekki í þá freistni að teygja úr efninu með málalengingum. Eftirtektarvert er einatt hversu Hagalin getur ofið saman skýra mannlífsmynd og sögufléttu við þann siðferðis- boðskap sem honum er einatt hug- haldinn. Ég bendi aðeins á Móður barnanna, hina minnilegu sögu fá- tæku konunnar sem hættir öllu til að verja börn sín; sú saga hefði vel getað orðið tilfinningasöm úr hófi en gamansemi höfundar aftrar þvi. Hóla-Jóna i sögunni er einn hinna harðbundnu einstaklinga Hagalíns. Hún er ekki stéttvís verkakona en lærir hér sína lexíu og gerist félagslega virk eins og nú myndi kallað. Því hefur verið haldið fram að rómantísk ein- staklingshyggja Hagalins sam- rýmist ekki þeim félagslega boðskap sem hann vilji flytja, og má það satt vera. Vafamál er þó að sögurnar hefðu nokkuð grætt á því að höfundur hefði haldið hetj- um sínum betur í skefjum. Real- istinn í Guðmundi Hagalín lýtur óhjákvæmilega í lægra haldi fyrir hinum rómantíska sagnamanni. Guðmundur Hagalín á fleiri hliðar sem sagnaskáld en þá að mála myndir af römmum og mik- ilúðlegum manngervingum af ætt Kristrúnar Símonardóttur. Hann gat í sögunni Blítt lætur veröldin farið mjúkum höndum um við- kvæmt efni og lýst af næmleika sálariífi ungs drengs sem er að vakna til vitundar um þversagnir tilverunnar. Og hann hefur líka samið unglingasöguna Útilegu- börnin í Fannadal sem kunnugir telja í fremstu röð íslenskra unglingabóka síðustu áratugi. Ævisögur Hagalins hafa að verðleikum hlotið mikið lof, enda er gildi hinna bestu þeirra ómet- anlegt. Hér er fram haldið lýsingu svipmikilla einstaklinga og marg- ar bókanna merkar menningar- sögulegar heimildir. Fyrstu og frægustu bækurnar, Virkir dagar og Saga Eldeyjar-Hjalta, hafa báðar komið út oftar en einu sinni og eru flestum aðgengilegar. En hin ógleymanlega hetjusaga af konunni í dalnum og dætrunum sjö er löngu horfin af markaði og lesin upp til agna á bókasöfnum. 19 Hvernig væri að gefa þá bók út á ný? Á hana hefur ekki fallið. Guðmundur Hagalín hefur margt ritað um sjálfan sig og þótti ýmsum vel í lagt er hann samdi fimm bækur um æskuár sín fram til tvítugs. í þessum bókum er þó margt verðmætt, til að mynda lýs- ingar á skáldum og mennta- mönnum sem höfundur kynntist í Reykjavík á skólaárum. Annars er handhægast þeim sem vilja fá for- smekk af sagnamanninum Haga- lín að glugga í bók sem út var gefin á sjötugsafmæli hans fyrir fimmtán árum og heitir íslending- ur sögufróði. Þar völdu allmargir menn hver sinn kafla úr ritum hans og er það hið fjöibreyttasta sýnishorn. Guðmundur G. Hagalín verður ekki talinn forgöngumaður nýs stíls eða frásagnaraðferðar í ís- lenskum sagnaskáldskap. Hann er miklu fremur arfþegi mótaðrar hefðar, nánasti fyrirrennari hans er Jón Trausti með sínar breiðu sveitalífssögur, og frásagnargáf- una og hetjuhyggjuna eiga þeir sameiginlegar. Hagalín stendur föstum fótum í samfélagsháttum og viðmiðunum gamla tímans, þess heims þar sem maðurinn lifði í ótruflaðri hrynjandi náttúrunn- ar. Slíkum höfundi má bregða um afturhald og var enda óspart gert er hann stóð í stríði við kommún- ista og aðra sem róttækir vildu kallast þótt það væri raunar tíð- um meir í orði en á borði, og vafa- samt hvort sumir þeirra voru ekki jafnmiklir íhaldsmenn og hann. Áfellisdómi sínum um Guð- mund Hagalín lýkur Kristinn E. Andrésson á þessum orðum: „Af- sprengur hinna gömlu sægarpa hafði vikið af leið feðra sinna og siglingargáfan brást honum í hin- um úfna brimgarði nýja tímans." Þetta er ekki rétt. Guðmundur Hagalín vék einmitt ekki af leið feðra sinna. Og siglingargáfan hefur áreiðanlega brugðist ýmsum verr en honum, meðal annars þeim sem sigldu eftir stjörnunum yfir Kreml sem reyndust villuljós. Hagalín átti hins vegar leiðarljós sem ekki brugðust, lífræn tengsl við rótgróna þjóðlega menningu og upprunaleg verðmæti. Kjarn- inn í ritverkum hans er heill og mun vissulega halda gildi sínu þótt tímar líði, verða því dýr- mætari sem sá heimur sem Haga- lín hefur lýst í mörgum lifandi myndum berst lengra á burt í vindsveipum tíðarandans, Gunnar Stefánsson Arkitektar; Björn Kristleifsson og Samúel Orn Erlingsson. Byggingameistari: Gunnar Sv. Jónsson, Markarflöt 10. GARÐABÆR Tilbúið undir tréverk 2ja herb. íbúöir, 79,5 fm. Verö 1.176.000,- Geymsla 5 fm, svalir 12 fm. 3ja herb. íbúöir, 97,44 fm. Verö 1.396.500,- Geymsla 5 fm, svalir 12 fm. Innbyggöur bílskúr getur fylgt sem kostar kr. 200.000,- aukalega. Kostakjör Greiöslutilhögun: 20% viö samning. Seijandi lánar kr. 150 þús. til 7 ára. Verötr. Beðiö eftir veödeildarláni 584 þús. Eftirst. greiðast meö jöfnum greiöslum á næstu 15—18 mánuðum auk veröbóta. Afhending ca. í júní 1984. HUGINN, FASTEIGNAMIÐLUN, SÍMI 25722 — TEMPLARASUNDI 3. 'Á i 1ft'lV'V iLik. bfVUiAÍCrJ VUfUÁI Ktuii/a inunKfxinfium íii lumfv n&ð rjíMi c»s

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.