Morgunblaðið - 21.03.1984, Blaðsíða 19
MORGUNBLAÐIÐ, MIÐVIKUDAGUR 21. MARZ 1984
19
kringum okkur í formi rangra
opinberra fjárfestinga og einnig í
formi offjárfestingar í sumum at-
vinnugreinum. Fjárfesting sem er
ekki bara arðlaus heldur einnig í
mörgum tilvikum verulega íþyngj-
andi vegna beins taps sem við þurf-
um að bera vegna hennar á kom-
andi árum.
Aðgerðir á
peningamarkaði
Það er skoðun mín að frumað-
gerðir nýrrar efnahagsstefnu hljóti
að verða á peningamarkaðnum.
Stjórnmálamenn verða fyrst af
öllu að gefa eftir þann forgang sem
þeir hafa tekið sér á þessum mark-
aði. Það eitt er þó taepast nóg, ég
tel að hið opinbera verði að sæta
því nú um sinn að draga saman
seglin í baráttunni um lánsféð og
una því að mæta afgangi.
Við núverandi aðstæður í efna-
hagsmálum okkar verða atvinnu-
vegirnir að komast að. Jafnframt
verður nú þegar að gera ráðstafan-
ir til að örva innlendan sparnað á
nýjan leik.
Fljótvirkasta leiðin er örugglega
sú að virkja bankakerfið í landinu
til frjálsrar samkeppni á pen-
ingamarkaðnum og örva á þann
hátt frjálsan sparnað.
Frjáls sparnaður hefur verið
hættulega lítill hér á landi um
mörg undanfarin ár, vegna af-
skipta ríkisstjórna af vaxtamálum.
A þessu sviði verða stjórnmála-
menn einnig að láta af forsjá sinni
og treysta sjálfu fólkinu í landinu
til þess að ráða sínum fjármálum.
Æ fleiri stjórnendur fyrirtækja
gera sér grein fyrir því að góð
stjórnun er ekki fólgin í sífelldum
afskiptum og inngripum í störf
undirmanna sinna. Góður stjórn-
andi er sá sem virkjar samstarfs-
menn sína til átaka í samræmi við
þá meginstefnu sem hann hefur
mótað og reynir að tryggja það að
einstök markmið þeirrar stefnu ná-
ist á tilsettum tíma.
Sömu meginreglur gilda um
stjórnunarhlutverk löggjafar- og
framkvæmdavalds. Það er ekki
jafnaðarmerki á milli magns og
gæða.
Stjórnmálamenn hljóta að ná
meiri árangri með því að laða
þegnana til sjálfstæðra athafna
heldur en með því að skipa þeim
sífellt til verka. Hingað til hefur
a.m.k. verið talið réttara að beita
dráttarklárum fyrir vagninn en að
hengja þá aftan í hann.
Aðgerðir á peningamarkaðnum
eru frumaðgerðir til mótunar nýrr-
ar efnahagsstefnu. I þeim efnum
þarf þó miklu fleira að koma til.
Nauðsyn sumra þeirra aðgerða má
sjá fyrir í dag, annað mun koma í
Ijós þá fyrst er almenn umræða um
nýja efnahagsstefnu hefst sem víð-
ast í þjóðfélaginu.
Stórgallað skattakerfi
Ein er þó sú brotalömin á núver-
andi kerfi sem mönnum hefur verið
ljóst um langt skeið án þess að
verulegar tilraunir hafi verið gerð-
ar til breytinga, en það er stórgall-
að opinbert skattkerfi.
Í langan tíma hafa mönnum ver-
ið ljósir gallar á núverandi skatt-
heimtukerfi jafnt beinna sem
óbeinna skatta. Óbeina skattheimt-
an hefur verið þeim annmörkum
háð að valda kostnaðaruppsöfnun
hjá framleiðsluatvinnuvegunum.
Þannig hefur skattheimta hins
opinbera leitt til hærra fram-
leiðsluverðs en ella og veikt sam-
keppnisstöðu innlendrar atvinnu-
starfsemi og stuðlað að því að
halda aftur af uppbyggingu fram-
leiðslunnar.
Þeir skattar og skattaígildi sem
hér er um að ræða eru margskonar
og þá er víða að finna. í þessu sam-
bandi ætla ég að láta mér nægja að
benda á fjóra. En þeir eru sölu-
skattur, aðstöðugjöld, launaskattur
og verðjöfnunargjald á raforku.
Allar okkar nágrannaþjóðir hafa
leyst vandamál óbeinu skattanna
með því að taka upp virðisauka-
skatt. Umræðan um virðisauka-
skatt hefur nú lifnað aftur við hér
á landi eftir nær 9 ára þögn um
málið. Miklu skiptir nú að fram
fari raunsæ og hlutlæg umræða um
þennan skatt, kosti hans og galla. í
því sambandi verður að líta ákveð-
ið til þeirra vandamála sem núver-
andi óbeinir skattar valda atvinnu-
vegunum. Það er mikiu alvarlegra
mál en það hve áhrif virðisauka-
skatts verða til hækkunar eða
lækkunar á einstökum vöruflokk-
um. Sú umræða verður að leiða til
þess hvort sem það verður gert með
virðisaukaskatti eða með öðrum
hætti, að horfið verði frá þeim
sköttum sem valda kostnaðarupp-
söfnun hjá atvinnuvegunum.
Slík breyting á óbeinni skatt-
heimtu er óhjákvæmileg forsenda
atvinnuppbyggingar og nýrrar
sóknar í atvinnumálum.
Núgildandi lög um tekju- og
eignarskatta einstaklinga og fyrir-
tækja hafa verið nokkrum ann-
mörkum háð. Þeir annmarkar lúta
einkum að reglum laganna um mis-
munandi meðferð sparifjár. Einnig
eru gildandi reglur um fyrningar
fyrirtækja og reglur um varasjóði
gallaðar og örva ekki nægjanlega
fjárfestingu í atvinnulífinu.
Fyrir Alþingi liggja nú laga-
frumvörp sem myndu bæta veru-
lega úr þessum göllum ef samþykkt
verða. Samþykkt þessara frum-
varpa er þýðingarmikill þáttur í
mótun þeirrar nýju efnahagsstefnu
sem mér hefur orðið tíðrætt um.
Nú síðustu daga hefur mátt
heyra þær raddir á Alþingi í hinni
svokölluðu „gatumræðu" að réttast
væri að hætta með öllu við fyrir-
huguð áform um þessar breytingar
á skattalögum.
f því sambandi er full ástæða til
að minna á að fjárlagagatið er m.a.
tilkomið vegna þess samdráttar
sem orðinn er í framleiðslustarf-
semi okkar, en sá samdráttur hefur
aftur leitt til tekjutaps hjá ríkis-
sjóði.
Það er i mínum huga lítil hygg-
indi fólgin í því að leggja þá til að
brúa fjárlagagatið ■ með því að
kasta fyrir borð einu tillögunum
sem fyrir Alþingi liggja og gætu
örvað fjárfestingu i atvinnulífinu
og leitt til aukinnar framleiðslu á
ný. Vonandi sjá þeir þingmenn,
scm þannig tala, nú aftur fram á
veginn og hverfa frá þeim sér-
kennilegu hugmyndum um að leysa
vandamál augnabliksins með þvi
að ráðast á þau mál sem er ætlað
að örva og byggja upp atvinnulífið
í framtíðinni. Aðrar leiðir hljóta að
vera nærtækari og skynsamari.
Tækifærin blasa viö
Ég sagði fyrr í ræðu minni að ég
teldi að okkur skorti trú og fram-
tíðarsýn. Sömuleiðis gerði ég þær
kröfur til stjórnmálamanna að þeir
leiddu umræðu um nýja efna-
hagsstefnu sem gæti skapað trú á
atvinnuuppbyggingu.
Núverandi ríkisstjórn nýtur mik-
ils fylgis meðal þjóðarinnar ef
marka má skoðanakannanir. Þann
stuðning má eflaust rekja til þess
árangurs sem náðst hefur í barátt-
unni við verðbólguna. Það eitt er þó
ekki nægjanleg skýring.
Telja verður líklegt að vegna
þess árangurs sem ríkisstjórnin
hefur náð i verðbólgubaráttunni, sé
að kvikna með fólki sú von að hún
muni jafnframt reynast þess
megnug að leggja grunn að nýrri
efnahagsstefnu sem leiði til nýrrar
atvinnuuppbyggingar. Á miklu
veltur að ríkisstjórnin rísi undir
þeirri eftirvæntingu sem hún hefur
vakið og móti efnahagsstefnu er
leggi grunn að uppgangi og hag-
sæld hér á landi á nýjan leik.
Tækifærin blasa alls staðar við.
Okkur er öllum ljóst sá mikli vaxt-
armöguleiki sem fólginn er í
áframhaldandi uppbyggingu stór-
iðju. Þar er nærtækur möguleiki til
að skapa þúsundir nýrra starfa á
næstu árum.
Sömuleiðis eru miklir möguleik-
ar fólgnir í auknum útflutningi
annarra iðnaðarvara. Á þeim
vettvangi eru nú mörg íslensk
fyrirtæki að reyna fyrir sér í fyrsta
sinn og hafa sum þeirra þegar náð
nokkrum árangri og svo mun verða
um fleiri. Samkvæmt upplýsingum
Utflutningsmiðstöðvar iðnaðarins
urðu 11 iðnfyrirtæki útflytjendur í
fyrsta sinn á síðasta ári og um
þessar mundir eru samtals 50 iðn-
fyrirtæki að huga að útflutnings-
tilraunum í fyrsta sinn.
Á sviði nýiðnaðar eru miklir
möguleikar á næstu árum að nýta
hugvit okkar og orku til aukinhar
framleiðslu. Nægir þar að benda á
rafeindaiðnað, fiskeldi og nú síðast
lífefnaiðnað.
Þó verðum við að varast að ein-
blína um of á einstaka kosti, því
iðnaðarframleiðslan byggir fyrst
og fremst á hugviti og atorku ein-
staklinga. Reynslan hefur sýnt að
örvandi aðgerðir stjórnvalda hafa
ávallt jákvæð áhrif í iðnaði og oft
kemur mesti vöxturinn þaðan sem
enginn sá fyrir.
Góðir ársþingsgestir. Iðnaðurinn
hefur verið að vaxa og hann mun
halda áfram að vaxa á komandi ár-
um. En eitt er víst að hann getur
vaxið miklu hraðar með jákvæðum
stuðningi stjórnvalda og alls fólks-
ins í landinu.
X
e
Þaö er ekki auðvelt að rata um tölvuheiminn og því miður
hafa allt of margir lent inní blindgötu þegar þeir hafa ætlað að
stytta sér leið eða spara sér tíma og fé.
Wang PC tölvan er tvímælalaust einn besti valkostur þeirra
fyrirtækja, sem eru að hefja tölvuvæðingu.
Wang PC býður í senn fullkomið ritvinnslu- og bókhaldskerfi
og örugga möguleika til stækkunar og auknmgar með
tengslum við stærri tölvueiningar.
Heimilistæki hafa selt og þjónustað Wang tölvur í 7 ár með
árangri sem fjöldi ánægðra viðskiptavina staðfestir.
Þú lendir ekki í blindgötu með Wang!
(WANG )
Við verðum hérna líka á morgun!