Morgunblaðið - 29.06.1985, Blaðsíða 33

Morgunblaðið - 29.06.1985, Blaðsíða 33
MORGUNBLAÐIÐ, LAUGARDAGUR 29. JÚNl 1985 33 Þórarinn Jóhanns- son frá Ríp - Minning Mig langar til að skrifa nokkur kveðjuorð um afa minn, Þórarin Jóhannsson, bónda frá Ríp, sem í dag verður jarðsunginn frá Ríp- urkirkju í Skagafirði. Afi var maður sem ég hef frá fyrstu kynnum borið mikla virð- ingu fyrir og litið upp til, og nú þegar hann er allur verður minn- ingin um hann fyrst og fremst tengd slíkum tilfinningum. Ég kom til sumardvalar á Ríp í fyrsta sinni níu ára gömul og var þar upp frá því meira og minna í 11-12 ár. Frá því að ég man fyrst eftir afa var hann heilsulítill, slæmur til gangs og sjón og heyrn farin að dofna. Ekki lét gamli maðurinn þetta á sig fá og var alltaf þvílfkt ljúfmenni í allri umgengni að undrum sætti. „Ég er eins og góðu börnin, geri bara eins og mér er sagt,“ varð honum stundum að orði, þegar verið var eitthvað að vesenast með hann. Hann fylgdist spenntur með öllu því sem í kring- um hann var að gerast og var óspar á spurningarnar, enda var allt á hreinu hjá honum. Skipti þar engu máli hvort verið var að ræða sauðburðinn á Ríp eða ár- angur barnabarns í skóla — allt vissi afi. Hann hafði líka svo gam- an af að lifa, var svo þakklátur fyrir tilveruna og kunni svo vel að njóta hennar. Margoft man ég eft- ir því að hann kallaði á mig og sagði eitthvað á þessa leið: „Komdu hingað Sigga mín og lof- aðu mér að kyssa þig fyrir þetta.“ Svona var hann þakklátur fyrir það sem fyrir hann var gert og vanþakklæti var ég aldrei vör við hjá honum. Hlutur ömmu í lífi afa má held- ur ekki gleymast. Hún létti undir með honum og tók þátt í heilsu- leysi hans, las fyrir hann blöðin og endurtók fyrir hann fréttir þær sem hann heyrði ekki. öll hennar tilvera hefur í gegnum árin snúist kringum afa. Það er víst óhætt að segja, að þau hafi veitt hvort öðru þá hamingju 1 67 ára löngu hjóna- bandi, sem allir sækjast vist eftir. í þessu hjónabandi varð þeim tiu barna auðið og eru afkomendur þeirra nú orðnir milli 90 og 100 talsins. í síðasta skipti sem ég hitti afa vorum við að tala saman um ým- islegt og inn í umræðurnar slædd- ist sú spurning, hvort hann væri ekki ánægður nú, þegar komið væri að leiðarlokum og ferðin hefði gengið svona vel. „Jú,“ hann játti því og sagði að það væri vissulega guðsþakkarvert hversu vel til hefði tekist. Þakklæti væri honum efst í huga og þakklæti var líka það sem hann bað fyrir til allra sem hlut áttu að máli, kvöld- ið sem hann andaðist. Eftir að fjölskyldan varð svo stór sem raun ber vitni, varð það afa mikið keppikefli að reyna að halda henni saman svo sem kostur var. Ríp var í þessari viðleitni hans sannkallað ættaróðal og þangað kom meginhluti ættarinn- ar árlega eða oftar til að heim- sækja ömmu og afa, svo og önnur ættmenni. Þar var því ætíð fjöl- mennt og mikið um að vera og þannig var það einmitt sem amma og afi vildu hafa það. Allar heim- sóknir voru velþegnar og þakkar- verðar. Fyrir rúmlega fjórum árum gerðist sá hörmulegi atburður á Ríp að Ólöf Þórðardóttir, sautján ára gömul dóttir Þórðar Þórar- inssonar, varð bráðkvödd heima hjá sér. Hafði hún þá nýlega eign- ast dóttur. Enginn kunni skýr- ingar á þessum atburði og sorgin lagðist geysilega þungt á nánustu skyldmenni. Gömlu hjónin á Ríp voru niðurbrotin og afi sagði við mig, að hversu mikið hefði hann ekki viljað gefa fyrir að fá að fara í stað ólafar. Amma varð fyrir áfalli stuttu síðar — á svo skömm- um tíma breyttist svo margt. En afi sá sýn, sem veitti a.m.k. honum fullnægjandi skýringu á dauðsfallinu. Ójarðnesk vera kom til hans og sagði honum að Ólöf hefði verið kölluð burt svo skyndi- lega af sérstakri ástæðu. Atburð- urinn hefði ekki mátt gerast fyrr, því að hún varð að fæða af sér dóttur hér á jörðinni áður en hún færi. Þessi dóttir yrði lifandi eft- irmynd móður sinnar, foreldrum Ólafar sálugu til huggunar í harmi þeirra. Sjálf þyrfti ólöf hinsvegar að fara, því að hún varð að fá ákveðinn „aðlögunartíma", og svo átti hún að taka á móti afa sínum og ömmu, þegar þeirra tími kæmi. Hjá afa er sá tími nú kominn. 94urra ára hefur hann þreyttur lokið göngu og verðskuldar hvíld. Ég veit að hann hefði heldur kosið að falla að hausti til — með grös- unum og skepnunum, en enginn ræður sínum næturstað. Ferð hans jarðneska líkama lýkur nú á þeim stað, sem hann helgaði krafta sína og lífsstarf ættaróðalinu Ríp. Þar verður hann lagður við hlið fósturfor- eldra sinna, Ragnheiðar og Mark- úsar, í Rípurkirkjugarði. Mig langar að þakka afa góða samfylgd og votta ömmu innileg- ustu samúð. Guð veri með henni á þessari stund, sem hún hefur kvið- ið svo lengi. Hér hvílast þeir, sem þreyttir göngu luku í þagnar brag. Ég minnist tveggja handa, er hár mitt struku einn horfinn dag. Og ég sem drykklangt drúpi höfði yfir dauðans ró, hvort er ég heldur hann, sem eftir lifir, eða hinn sem dó? Steinn Steinarr Sigga Hallbera K. Þorsteins- dóttir frá Meiðastöðum Fædd 16. janúar 1898 Dáin 8. júní 1985 Þriðjudaginn 25. júní sl. fór fram útför föðursystur minnar, Hallberu Kristbjargar Þorsteins- dóttur. Með Hallberu er gengin litríkur persónuleiki, sem mig langar að minnast með fáum orðum. Hall- bera Kristbjörg, en svo hét hún fullu nafni, fæddist að Melbæ í Leiru. Foreldrar hennar voru Þorsteinn Gíslason, ættaður úr Borgarfirði, og Kristin Þorláks- dóttir, sem ættuð var frá Hofi á Kjalarnesi. Eignuðust þau hjón 15 börn. Voru þau öll kennd við Meiðastaði í Garði, en þangað fluttu þau Kristín og Þorsteinn með börnin sín sem þá voru fædd, eftir að íbúðarhús þeirra, Melbær, brann til kaldra kola. Bjargaðist heimilisfólkið naumlega úr elds- voðanum. Stóðu foreldrarnir þá uppi allslausir með 10 börn, var Hadda þeirra yngst. Á Meiðastöð- um ólst Hadda upp á fjölmennu og athafnasömu heimili. Minntist faðir minn oft á þetta tímabil æfi sinnar. Þá var spilað, dansað og sungið. Þetta var glaðvær hópur og oft yfir 40 manns í heimili á Meiðastöðum. Bræður Höddu urðu kunnir athafnamenn til sjós og lands. Systurnar duglegar og at- hafnasamar húsfreyjur. Ung giftist Hallbera Sveini Stefánssyni og eignuðust þau einn son, Þorstein. Hadda missti mann sinn er hann fórst með Leifi heppna í febrúarmránuði 1925. Stóð hún þá ein eftir með soninn unga. Lagði Hadda allan sinn metnað í að lifa og starfa fyrir son sinn. Eins og hún sagði oft, „Hann Steini minn er mín hamingja". Og varð hún ekki fyrir vonbrigðum. Alla tíð var mjög kært með þeim og síðar hans fjölskyldu. Má segja að Hadda hafi fengið vel launað sitt erfiði. Seinni maður Höddu varð Mey- vant Hallgrímsson prentari. Hall- bera og Meyvant báru mikla um- hyggju hvort fyrir öðru og áttu mörg ánægjuleg ár saman. Mey- vant tók mikla tryggð við fjöl- skyldu Höddu, ekki síst barna- börnin, sem öll reyndust þeim sannir sólargeislar í ellinni. Þau hjón misstu heilsuna fyrir nokkr- um árum, andaðist Meyvant eftir stutta legu en Hadda dvaldi á Hrafnistu og andaðist þar 8. júní sl. Mér er efst í huga þakklæti til Höddu og Meyvants fyrir alla þá vináttu og tryggð sem þau sýndu mér og minni fjölskyldu. Ásgeir sonur minn dvaldi á heimili þeirra hjóna meðan hann var við nám í Reykjavík. Reyndust þau honum alla tíð síðan sem bestu foreldrar. Hélst sú vinátta alla tíð. Það var gaman að heimsækja Höddu og Meyvant. Meyvant var rólegur og hafði skemmtilegan frásagnarhæfileika. Hadda alltaf hress og kát með skemmtileg til- svör, glettin og spaugsöm. Það er mér eftirminnilegt er hún sagði mér frá uppvaxtarárum sínum í Garðinum og sýndi mér gamlar fjölskyldumyndir. Allt þetta er geymt í minning- unni, hafi þau hjónin þökk fyrir allt og allt. Ég og fjölskylda mín öll sendum Þorsteini og fjölskyldu hans okkar innilegustu samúð- arkveðjur. Marta G. Halldórsdóttir Flugleiðir bjóða flug og bíl í tengslum við áætlunarflug félagsins til 11 borga í Evrópu. Þessir staðir eru: Björgvin, Glasgow, Gautaborg, Frankfurt, Kaupmannahöfn, London, Luxemborg, Osló, París, Salzburg og Stokkhólmur. Ef þú vilt hafa fararstjórnina í eigin höndum, þá hentar enginn ferðamáti þér betur en flug og bíll. Það er ódýrt að ferðast um Evrópu á bílaleigubíl. Við hittum ykkur kannski í Búdapest. LEITIÐ FREKARI UPPLYSINGA UM FLUG & BIL A SÖLUSKRIFSTOFUM FLUGLEIÐA, HJÁ UMBOÐSMÖNNUM FELAGSINS. EÐAÁ FERÐASKRIFSTOFUNUM. semviljá heiminnog skiljahannbetur V. ■

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.