Morgunblaðið - 26.01.1990, Page 14
14
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 26. JANÚAR 1990
Minning’:
Ólafur Ásgeirsson
sagnfræðingur
Fæddur 5. september 1956
Dáinn 16. janúar 1990
Að hugsa um Ólaf Ásgeirsson í
þátíð er býsna fj'arlægt. Hann
stendur manni svo ljóslifandi fyrir
hugskotssjónum; stór og stæðileg-
ur, kraftmikill og hiklaus, stað-
fastur og röggsamur, glaðlyndur,
skrumlaus, einlægur og hugmynda-
ríkur — góður félagi í leik og starfí.
Nú er hann allur, aðeins 33 ára að
aldri. Minningamar leita á hugann.
Og stundimar með honum verður
maður ævinlega þakklátur fyrir.
Þær voru mikilvægar.
Ólafur var óvenjulegur maður,
þræddi ótroðnar slóðir. Hann settist
á skólabekk í Garðyrkjuskóla ríkis-
ins í Hveragerði og lauk þaðan prófi
árið 1976. Ekki leið á löngu uns
hann hóf sjálfstæðan rekstur á því
sviði í Reykjavík. Að garðyrkju
starfaði hann síðan ætíð ötullega.
Þar naut hann sín vel, hafði „græna
fingur“ og yndi af að skipuleggja
garða — unun af að skapa. Jafn-
hliða garðyrkjustörfunum hélt hann
áfram námi, lauk stúdentsprófi frá
Menntaskólanum við Hamrahlíð
árið 1981 og innritaðist í sagnfræði
við Háskóla íslands um haustið.
Þrátt fyrir miklar annir sóttist hon-
um sagnfræðinámið vel og lauk
BA-prófi í þeirri grein vorið 1984.
Og áfram hélt hann. Hugurinn
hneigðist í æ ríkari mæli að sagn-
fræðirannsóknum. Vorið 1988
brautskráðist hann síðan frá Há-
skólanum með cand.mag.-próf í
sagnfræði upp á vasann. Þá um
haustið lagðist hann í víking til
Skotlands með fjölskyldu sinni og
hugði á frekara háskólanám og
rannsóknir í Edinborg. Þangað átti
hann hins vegar ekki afturkvæmt
úr jólaleyfi hér heima 1988. Hann
lést í Landspítalanum hinn 16. janú-
ar sl. eftir erfið veikindi.
Leiðir okkar Ólafs lágu saman í
sagnfræðináminu við Háskólann.
Þar myndaðist samheldinn hópur
fólks sem bast traustum vináttu-
böndum. í þessum hópi var Ólafur
ákaflega mikilvægur. Hann geislaði
af orku og hugmyndaauðgi og hafði
unun af að ræða um landsins gagn
og nauðsynjar, stjómmál á líðandi
stund, alþjóðamál, sagnfræði, bók-
menntir, heimspeki. Allt milli him-
ins og jarðar. I hópnum vógu orð
hans þungt og hann kenndi okkur
hinum margt. Hvort sem var á
kaffistofunni í Árnagarði í hléi milli
kennslustunda eða í Norræna hús-
inu á laugardagsmorgnum eftir fót-
bolta var hann yfirleitt þungamiðja
samræðnanna og bryddaði upp á
umræðuefnum sem voru hvert öðru
áhugaverðara. I kringum hann var
aldrei ládeyða. Hann var eldhugi,
talaði tæpitungulaust, kom til dyr-
anna eins og hann var klæddur, var
rökfastur og alltaf reiðubúinn til
að skiptast á skoðunum og hug-
myndum. Vitaskuld var hann ekki
ætíð sammála því sem síðasti ræðu-
maður sagði en hann virti skoðanir
annarra.
í sagnfræðináminu vakti Ólafur
athygli fyrir brennheitan áhuga á
fræðunum, áhuga sem smitaði aðra
nemendur. Hann lét til sín taka í
kennslustundum og varpaði iðulega
nýju ljósi á þau viðfangsefni sem
verið var að taka fyrir. Hann vildi
sjá mál í víðu samhengi. Þröngu
sjónarhornin voru honum lítt að
skapi. í rannsóknum sínum lagði
hann óhræddur á brattann, tókst á
við goðsagnir, hefðir og venjur í
túlkun á Islandssögunni. Áhuginn
beindist einkum að sögu íslendinga
á 20. öld og heildarþróun íslensks
þjóðfélags. Greinar sem eftir hann
liggja í blöðum og tímaritum um
þjóðfélagsmál og sögu þjóðarinnar
á þessari öld bera því glöggt vitni.
Hann ritaði m.a. um Ólaf Friðriks-
son og „anarkismann" (Ný saga
1987), um Jón Baldvinsson og hlut-
verk hans í Alþýðuflokknum og
íslenskum stjómmálum á árunum
milli stríða (Sagnir 1985 og 1986)
og jafnframt um lýðveldisstofnun-
ina og afstöðu „lögskilnaðar-
manna“ til hennar (Sagnir 1983).
Sjálfstæð vinnubrögð, kenningar,
tiigátur og hugmyndasmíð ein-
kenndu yfirleitt skrif hans. Á því
sviði var hann völundur.
Hæfileikar Ólafs Ásgeirssonar
sem sagnfræðings komu greinilega
,í ljós er bók hans, Iðnbylting hugar-
farsins. Átök um atvinnuþróun á
íslandi 1900-1940, kom út árið
1988 hjá Menningarsjóði. Bókin
vakti mikla athygli fyrir nýja og
ferska sýn á íslenska þjóðfélags-
þróun á 20. öld og djarfhuga túlkun
á henni. I ritinu fjallar hann um
og greinir þau átök sem urðu í
íslensku samfélagi er sveitamenn-
ingin og „gamla samfélagið“ varð
að þoka fýrir hinu „nýja samfélagi"
þéttbýlis og iðnvæðingar. Hann
vildi kanna hugmyndir landsmanna
um iðjumenninguna í víðasta skiln-
ingi, þá menningu sem iðnbyltingin
skapaði, og hvemig þeir töldu
mögulegt að temja þau sterku öfl
sem knúðu hana áfram. Togstreita
þéttbýlis og sveita var honum hug-
stæð og hann vildi ýta til hliðar
hugtökum eins og „hægri“ og
„vinstri", taldi þau villa mönnum
sýn og löngu úrelt. Hann vildi horfa
á samfélagsþróunina frá nýjum
sjónarhóli. Skapa nýja sögu. Og
honum tókst vel upp. Ekki aðeins
með því að gæða frásögn sína lífi
og fanga lesandann, heldur miklu
fremur vegna þess _að rannsóknin
varpar nýju ljósi á íslandssöguna.
í ritdómi um bókina í einu dag-
blaðanna sagði prófessor í hagfræði
m.a. að rit Ölafs ætti það „sameig-
inlegt með öðrum snilldarverkum
að hún fær lesandann til að sjá í
nýju Ijósi fyrirbæri sem hann taldi
sig þekkja ... Vel má vera að fróð-
ir menn sjái annmarka á einhveiju
sem þar er ritað og vafalaust mun
þessi nýstárlega bók vekja deilur,
en hún er skrifuð af meiri snilld,
hugmyndaauðgi og víðsýni en flest-
ir íslenskir höfundar ráða yfir.“ Og
í sérfræðitímariti sagnfræðinga
sagði m.a. að bók Ólafs hefði „þá
ótvíræðu kosti að bera að þar er
viðfangsefnið sett fram með djörf-
um og ögrandi hætti sem hvetur
til áframhaldandi athugana og
skoðanaskipta á sviði sögurann-
sókna. Árangurinn er metnaðarfullt
verk sem vekur margar áleitnar
spumingar.“ Þeir sem ætla sér að
reyna að skilja og skoða íslenska
þjóðfélagsþróun á 20. öld geta ekki
gengið framhjá þessari bók. Hún
er og verður órækur vitnisburður
þess hversu frjór sagnfræðingur
Ólafur Ásgeirsson var. Hann var
boðberi nýrra strauma í íslenskri
sagnfræði og fór ótroðnar slóðir í
rannsóknum sínum. í Edinborg
hugðist hann leggja grunn að frek-
ari könnun á sögu Islendinga á 20.
öld, takast á við þjóðfélagsþróunina
frá 1940. Miðað við þær hugmynd-
ir sem hann hafði á pijónunum er
enginn vafi að sú rannsókn hefði
ekki verið síðri en þær sem þegar
voru komnar frá honum. Hann hefði
getað sagt þjóð sinni margt. Við
hana vildi hann tala. Hann vildi að
sagnfræðingar tækju virkan þátt í
þjóðfélagsumræðunni og lagði sitt
af mörkum til þess að svo mætti
verða.
Auk þess að sinna sagnfræði með
rannsóknum og skrifum lagði hann
fræðigreininni lið á ýmsan annan
hátt. Hann var virkur í félagsstarfí
sagnfræðinema við Háskólann, sat
tvö ár í ritstjórn tímaritsins Sagnir
sem nemendur þar standa að, átti
þátt í að hleypa nýju sagnfræði-
tímariti af stokkunum árið 1987,
Nýrri sögu, sem Sögufélag gefur
út, og átti sæti í fyrstu ritstjórn
þess, kenndi sögu við Fjölbrauta-
skólann í Breiðholti skamma hríð,
flutti erindi á vegum Sagnfræðinga-
félags íslands, sótti sagnfræðiráð-
stefnur heima og erlendis og var
óhræddur að taka til máls ef því
var að skipta. Raunar var með ólík-
indum hvað hann komst yfir sam-
hliða garðyrkjustörfunum.
Ólafur Ásgeirsson var fæddur
5. september 1956 í Reykjavík, son-
ur hjónanna Ásgeirs Olsen og Unn-
ar Ólafsdóttur, og var þriðji í röð
fimm systkina. Ur foreldrahúsum
hefur hann fengið gott veganesti,
um það vitna mannkostir hans,
dugnaður og stefnufesta. Hann var
kvæntur Ragnheiði Guðjónsdóttur,
fóstru í Reykjavfk, og eignuðust þau
tvö böm, Baldur, f. 1982, og Guð-
jón Þór, f. 1987. Fjölskylda hans
hefur misst meira en hægt ér að
tjá eða túlka með orðum. Henni
færi ég innilegustu samúðarkveðj-
ur, sem og öðrum vinum og vanda-
mönnum.
Minningarnar um Ólaf Ásgeirs-
son eru margar og allar góðar. Þær
geymi ég vel og vandlega í huga
mínum og þakka forlögunum fyrir
að hafa kynnst honum. Það er sárt
að sjá á eftir slíkum mannkosta-
manni, manni sem átti framtíðina
fyrir sér og mikils var af vænst.
Góðum vini.
Eggert Þór Bernharðsson
Mig langar að minnast Ólafs
Ásgeirssonar nokkrum orðum, en
ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að
vinna hjá honum i garðyrkjunni tvö
síðustu sumrin áður en hann hélt
utan ásamt fjölskyldu sinni til
áframhaldandi náms í sagnfræði.
Snemma vors 1987 hugðist ég
leita mér að sumarvinnu en ætlaði
alls ekki í garðyrkju þar sem ég
hafði reynt það áður og taldi mig
fullsaddan á því. Að lokum fór þó
svo að ég sótti um vinnu hjá Óla
vegna þess hve mágur minn talaði
vel um hann, en hann hafði verið
hjá honum sumarið á undan. Ég
átti ekki eftir að iðrast þeirrar
ákvörðunar og sumrin mín hjá Óla
urðu tvö eins og áður sagði og það
þriðja hefði væntanlega bæst við
ef hann hefði ekki farið utan.
í vinnunni var mikið talað og
margt rætt án þess að það bitnaði
á vinnuafköstum og því fékk ég að
kynnast honum vel og aldrei fór svo
að mér leiddist í vinnunni eða lang-
aði ekki í hana að morgni, jáfnvel
þótt veðurspáin væri afleit. Við
ræddum þjóðfélagsmál, innlend og
erlend í víðasta skilningi þess orðs,
söguna auðvitað af sömu vídd og
margt fleira. Alls staðar var Óli vel
heima og ekkert sem frá honum
kom var vanhugsað enda tel ég
hann í hópi minna bestu kennara
þótt hann hafi ekki litið á sig sem
slíkan enda fátítt að nemendur
þiggi af kennara sínum laun. Sú
söguþekking t.a.m. sem ég bý yfir
er miklu fremur frá honum komin
heldur en kennurum mínum úr
menntaskóla. Víðsýni hans var mik-
il og gerði honum kleift að tengja
söguna og sjá hvar orsök og afleið-
ing lágu og aldrei var kímnin langt
undan þegar því var að skipta, án
þess að umræðan færðist á lægra
plan. Það fyrsta sem ég tók eftir í
fari Óla og trúi að hafi verið nokk-
uð einkennandi fyrir hann var
hversu ríka réttlætiskennd hann
hafði. Það kom stöðugt fram, bæði
í því sem hann sagði og því hvern-
ig hann vann, hvernig hann kom
fram við viðskiptavini sína og okkur
sem unnum með honum. Hann kaus
að hafa aðeins tvo til þijá starfs-
menn af því að hann vildi sjálfur
vinna verkin í stað þess að standa
í-snatti milli staða eins og vill verða
þegar menn eru með marga í vinnu.
Hann kaus sjálfur að vera með í
því sem hann hafði tekið að sér.
Við vissum alltaf nákvæmlega hvar
við höfðum hann og hann stóð allt-
af við það sem hann sagði og lét
okkur sem unnum hjá honum vita
hvaða verkefni lægju fyrir jafnóðum
og hann tók þau að sér. Óli hafði
ákveðnar skoðanir sem hann átti
auðvelt með að rökstyðja án nokk-
urs ofstækis og bera greinar sem
hann skrifaði þess glöggt vitni.
Ég kveð mann sem skildi mikinn
auð eftir í hjörtum okkar sem
þekktum hann og varð stór þáttur
í okkar sögu.
Ragnheiði konu hans, sonum og
fjölskyldunni allri votta ég mína
dýpstu samúð. Hugur minn er hjá
ykkur.
Erlendur Helgason
Sumarið 1985 var haldið í Stutt-
gart í Vestur-Þýskalandi heimsþing
sagnfræðinga. Annar okkar var þá
við nám í Þýskalandi og hélt til
móts við íslensku fulltrúana. í þeim
hópi gat þá að líta nýtt andlit, ung-
an sagnfræðing, sem við nánari
eftirgrennslan var sagður „maður-
inn sem leysir vanda sjávarútvegs-
ins þrisvar á dag“. Seinna kom í
ljós að þessi orð áttu ekki alls kost-
ar við rök að styðjast því að það
var miklu fremur landbúnaðurinn
en sjávarútvegurinn sem átti hug
hans allan.
Ólafur Ásgeirsson leit ekki á sög-
una sem dauða fortíð heldur lifandi
nútíð. Áhugi hans á sagnfræði var
svo samofin áhuga hans á þjóð-
félagsmálum að tíminn rann saman
í eina órofa heild. Þegar hann ræddi
um sögu og samtíð þá urðu Jón
Sigurðsson, Jónas Jónsson frá
Hriflu og Steingrímur J. Sigfússon
allir samtímamenn. Ólafur var
óragur við að mynda sér skoðanir
og hélt þeim ákaft á lofti. Rökræð-
ur voru hans ær og kýr. Hann var
oft fastur fyrir, oftar en ekki til að
stríða eða ögra viðmælendum
sínum. Stundum komu hugmyndir
hans þeim í opna skjöldu og þá
glotti Ólafur eða hló við. Hann var
fijór í hugsun og gaf sig allan að
hugðarefnum sínum. Þessir eigin-
leikar koma berlega í ljós í ritverk-
um hans, ekki síst í bókinni „Iðn-
bylting hugarfarsins".
Genginn er góður drengur og
félagi, langt fyrir aldur fram. Við
þökkum fyrir góð og skemmtileg
kynni. Fjölskyldu hans sendum við
okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Megi minning hans lifa lengi.
Gunnar Þór Bjarnason
Sveinn Agnarsson
í dag verður Ólafur Ásgeirsson
sagnfræðingur og garðyrkjumaður
jarðsunginn frá Langholtskirkju.
Mér hnykkti við þegar mér bárust
þær fréttir 16. þessa mánaðar að
hann hefði látist fyrr um daginn á
Landspítalanum. Ef til vill var það
óraunsæi að búast við því að honum
yrði langra lífdaga auðið eftir að
hafa barist undanfarið ár við þann
sjúkdóm sem Iagði hann að lokum
að velli. Samt heldur maður alltaf
í vonina, hversu veik sem hún er.
Ólafur vár menntaður garðyrkju-
maður. Eftir skyldunám fór hann í
Garðyrkjuskóla ríkisins í Hvera-
gerði og lauk þaðan prófí 1976,
tvítugur að aldri. Síðan innritaðist
hann í öldungadeild Menntaskólans
við Hamrahlíð og brautskráðist
þaðan 1981 með stúdentspróf. Eftir
það hóf hann nám í sagnfræði.
Lauk hann BA-prófi 1984 og
cand.mag.-prófi vorið_ 1988. Sam-
hliða námi sínu vann Ólafur öll árin
við garðyrkjustörf.
Við Ólafur kynntumst fyrir
nokkrum árum í gegnum nám okk-
ar í sagnfræði við Háskóla íslands.
Einkum kynntist ég honum þó eftir
að ég kom inn í hóp nokkurra há-
skólastúdenta, aðallega sagnfræði-
nema, er léku fótbolta saman um
hveija helgi. Þessi hópur hefur
haldið vel saman og góður félags-
skapur myndast innan hans. Það
er því stórt skarð í hópi okkar við
fráfall Ólafs, sem var hrókur alls
fagnaðar meðal okkar.
Haustið 1988 fór hann með fjöl-
skyldu sinni út til Edinborgar til
að hefja doktorsnám í sagnfræði.
Örlögm gripu þá skyndilega í taum-
ana. I jólaleyfinu komu hann og
fjölskyldan upp til íslands og áttu
þau ekki afturkvæmt til Edinborg-
ar. Kom þá í ljós sá sjúkdómur sem
hann átti við að stríða uns yfir lauk.
Þrátt fyrir það var Ólafur ekki á
því að gefast upp og mætti nokkrum
sinnum á æfingar síðastliðið sumar.
Mér vefst tunga um tönn þegar
ég hugsa um á hvern hátt hægt
er að lýsa skapgerð Ólafs og per-
sónu. Mér finnst að honum hafi
verið svo margt vel gefið og kynnin
við hann hafi auðgað þær mann-
eskjur sem mættu honum á lífsleið-
inni. Að upplagi var Ólafur kapp-
samur við það seni hann tók sér
fyrir hendur og áhugasamur. Öll
hans handverk einkenndust af
þessu, bæði í garðyrkjunni og í
fræðunum.
Þjóðfélagsmál í víðum skilningi
áttu hug Olafs; hann hugsaði, tal-
aði og skrifaði um þau af ástríðu.
Einmitt þess vegna var svo
skemmtilegt og lærdómsríkt að
hlusta á skoðanir hans og rök fýrir
þeim. Hann hafði sterka pólitíska
sannfæringu og það efldi áhuga
hans á stjómmálum og samfélags-
málefnum okkar tíma. Lestur hans
og kynni af ritum hugsuða og rit-
höfunda af vinstri væng stjórn-
málanna dýpkuðu ennfremur skiln-
ing hans á þessum málum. Hann
var vel heima í kenningum sósíal-
ista af ýmsu tagi allt frá Marx og
Engels, sem og anarkista eða
stjómleysingja eins og Krapotkins
fursta.
Ekkert lýsir Ólafí betur en að
segja að hann hafi verið fullkomin
andstæða þess fræðimanns sem ein-
angrar sig í fræðunum. Það var í
andstöðu við eðli hans og upplag.
Sterk sannfæring hans í þjóðfélags-
málum kom auk þess í veg fyrir
að hann gæti það samvisku sinnar
vegna. Sagnfræðin var fyrir honum
tæki til að varpa ljósi á samfélag
okkar tíma, uppbyggingu þess, eðli
og tilurð. Hann hafði áhuga á sagn-
fræði nútímans vegna, en ekki for-
tíðarinnar. Hann vildi skilja samtíð
sína betur og sagnfræðin var hon-
um leið til þess. Ólafur lét samt
ekki pólitíska sannfæringu sína
leiða sig á villigötur i rannsóknum
sínum, í þeim efnum hafði hann í
heiðri ströngustu reglur sagnfræð-
innar.
Þegar Ólafur byijaði sagnfræði-
nám hafði hann fjölbreytilegri
reynslu og víðari sjóndeildarhring
en flestir sem koma beint úr skóla.
Ég hygg að það sé ástæðan fyrir
því hve frjór og frumlegur sagn-
fræðingur Ólafur var. Upplag hans
og hugðarefni stuðluðu einnig að
því. í sagnfræðinni naut skarp-
skyggni Ólafs og analýtísk hugsun
sín til fulls þegar hann krufði heim-
ildir sínar og lagði fram túlkun sína.
Það eru stór orð en ég leyfí mér
að fullyrða að hann var einhver
frumlegasti og frjóasti sagnfræð-
ingur sem við áttum um þessar
mundir. Hann hafði kapp og áhuga
á að gera góða hluti svo íslensk
sagnfræði hefur misst mikils. Sem
betur fer eigum við góða sagnfræð-
inga, sem með elju og dugnaði
munu eija í víngarði fræðanna. En
frumleiki og fijó hugsun er viss
náðargáfa sem lestur og iðni getur
ekki fært manni.
Þessir kostir Ólafs komu þeim
mun betur í ljós að hann hafði ríka
þörf fyrir að tjá sig um hugðarefni
sín og skoðanir, fá gagnrýni og
vekja viðbrögð. Honum var ekkert
ijær en að lúra á skoðunum í sagn-
fræðilegum álitaefnum og pukrast
með þær. Hann var stundum harð-
orður um þá sem vildu „helga“ sér
svið innan sögunnar í stað þess að
bjóða aðra velkomna til samvinnu
og skoðanaskipta í fræðunum.
Stærsta verk Ólafs á sviði sagn-
fræðinnar var cand.mag.-ritgerð
hans sem kom út árið 1988 undir
heitinu Iðnbylting hugarfarsins.