Morgunblaðið - 25.07.1992, Qupperneq 21
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 25. JÚLÍ 1992
21
þurfti að kenna og aðstoða á ýmsa
lund. Af miklum hagleik og natni
smíðaði hann mér margs konar leik-
föng, sem ég sé enn fyrir mér, og
voru sum þeirra glæsileg og vönduð;
eru þau enn eftirminnilegri fyrir það
að á þeim tímum var fátt til fanga
um þess háttar munaðarvöru í versl-
unum.
Fyrir allnokkrum árum sagði
Haukur skilið við málaraiðnina og
sneri sér að öðrum og ólíkum starfs-
vettvangi, sem varð honum afar
hugleikinn. Hóf hann nú skrifstofu-
störf á saumastofunni Vöku á Sauð-
árkróki; keypti hann það fyrirtæki
nokkru síðar, ásamt Sigurði Frosta-
syni, og starfaði þar síðan sem fram-
kvæmdastjóri til dauðadags. Hefur
sú vara, sem þar er framleidd, vakið
athygli fyrir smekkvísi og vandaðan
frágang. í banalegu Hauks var hug-
ur hans mjög bundinn við framtíð
fyrirtækisins og hag starfsfólksins,
en starfsemi af þesu tagi hefur —
svo mikilvæg sem hún er — reynst
afar áhættusöm. Ég tel mig geta
mælt fyrir munn fleiri er ég segi,
að sjaldan hafí ég komið á vinnu-
stað, er bauð af sér öllu betri þokka
en saumastofan Vaka.
Hæfileikar Hauks Stefánssonar
voru margþættir og umtalsverðir,
þótt eigi væri honum gjarnt að halda
þeim á loft. Áhugasviðið var einnig
afar víðtækt framan af árum þótt
síðar færðust áhugamálin í fastari
en um leið þrengri farveg. Hann var
listelskur frá unga aldri og hafði
einkum áhuga á myndlist; var hann
reyndar sérlega listfengur, manna
drátthagastur og jafnframt oddhag-
ur. Á yngri árum teiknaði hann vel
og mikið. Fer alls ekki á milli mála,
að hann hefði hæglega getað lagt
fyrir sig dráttlist, með góðum
árangri, ef hugur hans hefði staðið
einbeittur til þeirra hluta. Hvers
kyns hönnun lék honum alla tíð í
höndum, enda nýttust honum þá
verkhyggindi með listfenginu. Ég
minnist þess t.d., að fyrir mörgum
árum gerði hann fullkomnar vinnu-
teikningar af fallegri einkaflugvél,
sem hann hugðist sjálfur smíða, og
mun sú teikning hafa hlotið sam-
þykki flugmálayfirvalda. Stundum
greip hann til fíngerðra smíða, sem
báru hagleik hans gott vitni, en stað-
næmdist sjaldan lengi við þau verk-
efni. Hann var listaskrifari og gat
brugðið fyrir sig skrautritun. Líklegt
er, að listfengi Hauks hafí á stundum
fengið einhveija útrás í húsamálun-
inni og þá ekki síður við framleiðslu
vandaðs tískufatnaðar úr íslenskri
ull, auk þess sem hann fékkst við
leiktjaldamálun um skeið, en ekki
orkar þó tvímælis, að honum hefði
getað orðið mun meir úr þessum
hæfileikum sínum hefði hann öðlast
nauðsynlega þjálfun og síðar fengið
starfsvettvang á því sviði.
Haukur var mjög bókelskur og las
mikið, enda bjó hann alla tíð að
góðum bókakosti. .Fyrr á árum var
lestrarefni hans nokkuð sundurleitt
og af ýmsum sviðum, þó einna helst
fagurbókmenntir, en með tímanum
beindist lesturinn í vaxandi mæli að
ritum um flugmál, svo sem brátt
verður vikið að. Ætíð hafði hann
áhuga á þjóðlegum efnum og þess
má vel minnast hér, að hann átti
frumkvæði að því, að Hannes Pét-
ursson skáld bjó til útgáfu úrval rit-
aðs máls eftir föður hans, Stefán
Vagnsson (Úr fórum Stefáns Vagns-
sonar, Reykjavík 1976).
Haukur unni ferðalögum og naut
þess mjög að kynnast framandi stöð-
um. Á ég þá fyrst og fremst við
utanlandsferðir, sem hann fór marg-
ar um dagana og sem voru honum
kært umræðuefni, en minna fór hann
um hér innanlands og undi sér að
jafnaði best á heimaslóðum. Meðal
þeirra landa, er hann hreifst mjög
af, var Frakkland, en þangað fóru
þau hjónin nokkrum sinnum, ýmist
með ferðahópi eða á eigin vegum.
Fyrir nokkrum árum hittist svo á,
að ég og kona mín dvöldumst nokkra
daga í París á sama tíma og Haukur
og Minnie gistu borgina; áttum við
þar saman góðan tíina og duldist
ekki hve Haukur naut sín vel í þess-
ari heimsborg, enda heimsvanur.
Þessar stundir rifjaði hann upp með
mér eigi löngu fyrir dauða sinn og
fann ég glöggt hve endurminningin
um þessa daga ornaði honum.
Allt frá æskuárum hafði Haukur
brennandi áhuga á flugmálum. Á
ungum aldri hafði hann hug á að
leggja fyrir sig atvinnuflugmennsku
en örlögin ætluðu honum aðra
starfsbraut. Einkaflugmannsprófí
iauk hann hins vegar og tók einnig
þátt í svifflugi á Sauðárkróki síðar
meir. þar var hann alla tíð í fremstu
röð flugáhugamanna og vænti ég
þess, að þar megi lengi sjá ummerki
áhuga hans og kunnáttu. Hvatti
hann og örvaði aðra til dáða í þess-
um efnum. Hann beitti sér m.a. fyr-
ir því, að á sumrin voru haldnir
„flugdagar" á Sauðárkróki, sem
mikla athygli vöktu í hópi íslenskra
flugáhugamanna — og jafnvel einnig
erlendra. Hafði hann lengi náin sam-
skipti við ýmsa flugáhugamenn,
bæði hér á landi en jafnframt erlend-
is, einkum á Bretlandi. Dæmi eru
þess, að hann fengi kunnáttumenn
á þessu sviði til að leiðbeina áhuga-
mönnum á Sauðárkróki eða sýna
listir sínar þar. Er vafalaust mörgum
minnisstætt, er hann fékk breska
kunnáttumenn í loftbelgjaflugi til
að sýna kúnst sína á Sauðárkróki,
á óvenjuhátíðlegum flugdegi, er þar
var haldinn sumarið 1988. Var sá
flugdagur Hauki á allan hátt sér-
stakt gleðiefni. Við þetta sama tæki-
færi hafði hann m.a. forgöngu um
veglega sýningu í Safnahúsi Skag-
firðinga, er helguð var minningu dr.
Alexanders Jóhannessonar, prófess-
ors og háskólarektors, sem var einn
hinn helsti forystumaður í flugmál-
um íslendinga fyrr á öldinni, en
Alexander ólst upp á Sauðárkróki
og fæddist á bænum Gili í Borgar-
sveit þar skammt frá. Má með sanni
segja, að Haukur hafi látið sig minn-
ingu dr. Alexanders miklu varða og
ástæðulaust er að í gleymsku falli,
að hann bar fyrstur manna fram
tillögu um það, opinberlega, að flug-
vellinum á Sauðárkróki yrði form-
lega gefíð nafnið „Alexandersflug-
völlur“ (sjá ágæta grein Hauks um
það efni í Morgunblaðinu 9. janúar
1976), en á fyrrnefndum flugdegi
1988 staðfesti samgönguráðherra
að lokum þá nafngift. Svo sem
vænta mátti fór Haukur m.a. oftar
en einu sinni á hinar nafnkunnu flug-
sýningar sem haldnar eru í Farn-
borough í Englandi og flugsögusöfn
heimsótti hann í nokkrum löndum,
m.a. Bretlandi og Frakklandi, enda
var honum flugsagan einkar hug-
leikin þótt hugurinn væri samt eigi
síður bundinn við nýjustu tækniþró-
un og framtíðarsýn. Við iðkun þessa
áhugamáls síns kynntist Haukur að
sjálfsögðu fjölda góðra manna og
veit ég, að hann verður mörgum
þeirra minnisstæður. í framhaldi af
því, sem nú var sagt um þetta hjart-
ans mál Hauks, skal þess einnig
getið, að um áratuga skeið safnaði
hann að sér miklu efni — einkum
erlendum bókum og tímaritum —
um flugmál og kynnti hann sér þetta
fræðiefni af gaumgæfni. Þykir mér
ólíklegt að margir hafí þeir verið hér
á landi, sem betur hafí verið að sér
en hann á ýmsum þeim sviðum, sem
þetta heimildasafn tók til, né heldur
átt sambærilegt safn.
Haukur hafði um dagana marg-
vísleg afskipti af félagsmálum á sín-
um heimaslóðum. Auk félagsstarfa
að flugmálum, m.a. í Flugklúbbi
Sauðárkróks og Svifflugfélagi Sauð-
árkróks, átti hann árum saman sæti
í stjórn Iðnaðarmannafélags Sauðár-
króks og starfaði í nefndum á vegum
þess félags. Sat hann stundum þing
og ráðstefnur, sem þeim málefnum
tengdust. Af öðrum trúnaðarstörfum
Hauks má einnig nefna, að hin síð-
ari árin var hann iðnfræðslufulltrúi
á Norðurlandi vestra. Fyrir mörgum
árum var hann einnig um sinn fram-
kvæmdastjóri Alþýðuhússins á
Sauðárkróki. Hann mun hafa verið
einn • af stofnfélögum Lionsklúbbs
Sauðárkróks og um árabil starfaði
hann í Leikfélagi Sauðárkróks og
málaði þar leiktjöld ásamt vini sínum
og starfsbróður, Jónasi Þór Pálssyni.
Haukur Stefánsson var um margt
dulur maður og fjarri fór því að
hann flíkaði tilfínningum sínum eða
áhyggjum. Sumum þótti gæta ein-
þykkni í fari hans, sem má vera
rétt að nokkru marki; víst er a.m.k.
að hann skipti ógjarnan um skoðun
á mönnum eða málefnum eftir að
hann hafði komist að niðurstöðu, þá
venjulega eftir rólega íhugun. í
framkomu var hann hægur og frem-
ur hlédrægur, en bak við rólegt fas
hans bjuggu skapsmunir, sem síst
af öllu voru léttvægir en hins vegar
vel tamdir. í öllu var hann hið mesta
prúðmenni. Þótt nokkurs þunga
gætti á stundum ef á móti blés eða
honum þótti réttu máli hallað — þó
að mörg orð hefði hann eigi um —
var skaphöfn hans öfgalaus og við-
mótið að jafnaði ljúfmannlegt og
sannarlega átti hann margar gleði-
stundir í hópi vina og vandamanna
og var þá sjálfur gleðigjafí. Trygg-
lyndur og einlægur var hann vinum
sínum og dýrmætt var að eiga hann
að vini. Yfirbragð Hauks var bjart
og drengilegt, svipfallið í senn góð-
legt og greindarlegt. Helstríð sitt,
sem var þungt en stutt, bar hann
hetjulega. Hann andaðist á Land-
spítalanum í Reykjavík en fær nú
hvíld í skagfírskri mold, í vígðum
reit á hæðum yfír Sauðárkrókskaup-
stað þaðan sem útsýni er mikið og
vítt um héraðið fagra sem hann
unni og þar sem hann átti sterkar
rætur ætternis, uppeldis og starfs.
Blessuð sé minning hans.
Páll Sigurðsson.
Kveðja frá Lionsmönnum.
Hann barst ekki mikið á. Hann
var ekki með málskraf úr ræðustóli
á fundum. Hann kvað ekki dóma
yfír mönnum eða málefnum — eða
því sem klúbbfélagarnir gerðu —
eða gerðu ekki. En hann var á sinn
hógværa og hljóðláta hátt einn af
þeim mönnum sem var kjölfestan í
starfi Lionsklúbbs Sauðárkróks.
Hans vettvangur var fyrst og fremst
í nefndum og stjórn klúbbsins, en
þar gegndi hann á sínum ferli tíðum
þýðingarmiklum störfum. Þrátt fyr-
ir þá litlu mynd sem hér var dregin
upp, var hann þar ráðagóður og
útsjónarsamur og hafði skoðanir á
því sem gera átti og gera þurfti.
Átti hann oftar en ekki þá hvað
stærstan hlut að því að taka ákvarð-
anir — og hrinda þeim í fram-
kvæmd. Þar nutu sín ekki síst hinir
óvenjulegu listrænu hæfíleikar sem
hann bjó yfír í svo ríkum mæli.
Ógleymanlegar eru okkur ýmsar
teikningar og skreytingar sem hann
var aðalhöfundur að, t.d. í tengslum
við árshátíðir. Þar kom líka svo vel
fram hans einstaka kímnigáfa —
oft í léttu gríni um félagana. í minni
okkar eru líka önnur árshátíðar-
verkefni, t.d. þegar var sett upp
u.þ.b. klukkutímadagskrá þar sem
fluttir voru allir söngvarnir úr leik-
ritinu kunna: „Þið munið hann Jör-
und“ og tengdir saman með töluðu
máli og verkið sviðsett. Handrit,
stjóm og uppfærslan öll fýrst og
fremst verk Hauks. Þá lá hann ekki
á liði sínu þegar fjáröflunarverkefni
voru á döfínni og munaði þeim mun
meira um hann í hópnum sem verk-
efnin voru stærri og viðameiri. Við
minnumst t.d. þess tíma sem klúbb-
félagar tóku að sér að mála togara
Útgerðarfélags Skagfírðinga í fjár-
öflunarskyni. Þetta gerðum við í
nokkur ár — og þar var Haukur
fremstur í flokki þeirra sem skipu-
lögðu og stjórnuðu því verki.
' Undirritaður á Hauki sérlega
þakklætisskuld að gjalda. Þegar mál
réðust svo að ég yrði umdæmis-
stjóri Lionsumdæmis 109 B 1984-
1985, var aldrei á því vafí að ég
veldi hann sem minn nánasta sam-
starfsmann. Var hann umdæmisrit-
ari það árið — enda átti hann sinn
þátt í að mál skipuðust á þennan
veg. Hann reyndist góður sam-
starfsmaður, traustur og ráðhollur
og átti dijúgan þátt í að mér tókst
þó að skila þessu verkefni af mér.
Þegar „maðurinn með ljáinn“ fer
um vitum við dauðlegir menn aldrei
hvar hann ber niður næst. Um það
tjóir ekki að fást. Þegar vinimir og
félagamir falla er hinsvegar ómet-
anlegt að eiga um þá slíkar minning-
ar sem við Lionsmenn eigum um
Hauk Stefánsson. Við sendum eftir-
lifandi eiginkonu, Minnie Leósdótt-
ur, og öðmm aðstandendum innileg-
ar samúðarkveðjur.
Jón Karlsson.
Friðfríður Jóhanns-
dóttir - Minning
Fædd 20. mars 1923
Dáin 15. júlí 1992
Með fáeinum orðum langar mig
til að kveðja elskulega ömmu mína,
Friðfríði Jóhannsdóttur, er andaðist
þann 15. júlí síðastliðinn. Mér brá
ónotalega við fregnina um andlát
hennar þó svo að hún kæmi ekki á
óvart þar sem amma hafði lengi átt
við veikindi að stríða. En þegar ein-
hver manni nákominn hverfur frá
þyrlast oft minningamar upp. Ég
ri^aði upp heimsóknimar til ömmu
og afa í Hjaltadalinn hér áður fyrr.
Hvemig amma tók alltaf á móti okk-
ur síkát og brosandi út að eyrum og
smitandi hláturinn í ömmu rak alltaf
á burt alla ferðaþreytu. Ég minnist
þess líka hvemig hún svæfði okkur
á kvöldin með því að fara með bæn-
ir eða Ijóð fyrir okkur en amma hafði
unun af ljóðum og kvæðum og kunni
ógrynnin öll af þeim.
Efst í minningunni er þó lífsgleðin
og kátinan sem ávallt geislaði af
henni.
Amma var mikil útivistarmann-
eskja og þrátt fyrir að veikindin
væru farin að hamla henni þvi að
fara í langar gönguferðir þá kvaddi
hún mig í síðustu heimsókn minni
hjá henni með þeim orðum að ég
yrði endilega að koma aftur norður
í haust og fara með henni í berja-
tínslu. En dauðinn sigraði fyrr en
nokkurn grunaði og amma verður
ekki með í beijatínslunni í haust
nema þá í minningunni þar sem hún
þeysist á milli beijaþúfnanna hress
og brosandi eins og henni var einni
lagið.
Ég kveð ömmu með söknuði og
votta þér elsku afí mína dýpstu sam-
úð sem og öðrum aðstandendum og
vinum Fríðu ömmu.
Birgitta Guðrún.
Góður nágranni er sem fjölskyldu-
meðlimur og þannig var tilfinning
mín gagnvart Friðfríði frá Hlíð í
Hjaltadal, sem var að ljúka dvöl sinni
hér á jörð og verður til moldar borin
á Sauðárkróki í dag. Henni kynntist
ég strax og ég flutti að Hrafnhóli
en hún bjó þá á næsta bæ sem var
mikil gæfa fyrir mig og fjölskyldu
mína. I þessu nábýli vorum við í 27
ár og fjölskyldur okkar tengdust
óslítanlegum böndum. 1 öllum af-
mælum og stórhátíðum voru boð á
milli bæjanna svo og í hversdagsleika
var mjög náin samstilling.
Friðfríður Jóhannsdóttir var fædd
20. mars 1923 að Brekkukoti (nú
Laufskálum) í Hjaltadal. Hún var
lagleg, rösk, greind og hláturmild,
en föst fyrir á meiningu sinni í hví-
vetna og traust. Að öllum konum
ólöstuðum var hún sú hreinlátasta
sem ég hef kynnst. Það var sem
óhreinindi tolldu hvorki við heimili
hennar né í hugskoti. Gift var hún
eftirlifandi manni sínum, Guðmundi
Ásgrímssyni frá Hlíð, og voru þau
hjónin systkinaböm, samrýnd og
samtaka í einu og öllu. Þau eignuð-
ust fímm mannvænleg böm sem em:
Jóhann Birgir, Ásgrímur Sigurvin,
Guðrún Hólmfríður, Margrét Frið-
rika og Guðmundur Gísli.
Er eldur eyddi að mestu heimilinu
á Hrafnhóli haustið 1979 reyndust
vinir okkar margir og er aldrei full-
þakkað Skagfírðingum og öðmm
rausn þeirra og ekki bmgðust Hlíðar-
hjón þá frekar en endranær. Er við
fluttum til Akureyrar 1980, fluttu
þau frá Hlíð til Sauðárkróks og hafa
búið þar æ síðan.
Ég og fjölskylda mín þökkum
Fríðu samfylgdina og biðjum Guð
að blessa minningu hennar og ást-
vini.
Fjóla Kr. ísfeld.
í dag laugardaginn 25. júlí verður
til moldar borin Friðfríður Jóhanns-
dóttir tengdamóðir mín kær eða
Fríða eins og hún var ávallt kölluð.
Hún andaðist á Sjúkrahúsi Skagfirð-
inga, Sauðárkróki, miðvikudaginn
15. júlí eftir stutta legu.
Fríða fæddist og ólst upp í Brekku-
koti, nú Laufskálum í Hjaltadal,
Skagafirði, hún var yngst barna
þeirra hjóna Jóhanns Guðmundsson-
ar bónda, Brekkukoti, og konu hans
Birgittu Guðmundsdóttur. Fríða ólst
upp við leik og störf í Brekkukoti
eins og gerðist í þá daga og gekk í
bamaskóla. Veturinn 1943-1944 sat
hún Kvennaskólann á Blönduósi. 21.
september 1941 giftist hún eftirlif-
andi manni sínum Guðmundi Ás-
grímssyni fæddum 17. maí 1913.
Guðmundur er frá Hlíð í Hjaltadal
og þar bjuggu þau hjónin til ársins
1980 og komu fimm bömum á legg.
Þótt jörðin væri lítil komust þau hjón
í ágæt efni á þessum árum enda fjöl-
skyldan ákaflega samhent um bú-
skapinn.
Börn þeirra Fríðu og Guðmundar
eru: Jóhann Birgir sölumaður, fædd-
ur 1. febrúar 1942, kona hans er
Erla Davíðsdóttir, þau búa í Reykja-
vík og eiga þrjú börn. Ásgrímur Sig-
urvin leigubilstjóri, fæddur 4. apríl
1945, kona hans er Þórhildur J.
Sæmundsdóttir, þau búa í Reykjavík
og eiga tvö böm. Guðrún Hólmfríður
hjúkranarfræðingur og ljósmóðir,
fædd 29. desember 1955, hún á einn
son, barnsfaðir Guðrúnar er Jón Stef-
ánsson, hún býr í Reykjavík. Mar-
grét Friðrika rekur bókhaldsskrif-
stofu, fædd 7. júní 1959, maður
hennar er Kári Sveinsson, þau búa
á Sauðárkróki og eiga saman tvö
börn. Guðmundur Gísli rafvirki,
fæddur 14. apríl 1966, kona hans
er Thelma Knútsdóttir, þau búa í
Reykjavík.
Þegar ég kynntist Fríðu höfðu þau
hjónin bragðið búi og flutt til Sauðár-
króks og var mér strax tekið opnum
örmum á þvt heimili enda þau hjón
bæði mikið sóma fólk. Fríða var
þjarkur til allrar vinnu og í sveitinni
hafði hún yndi af umhirðu skepna
enda glögg á fé og natin. Hún unni
náttúra landsins og hafði gaman af
að ferðast um landið. Fríða var ótrú-
lega létt á fæti og mikill göngugarp-
ur fram á síðustu ár. Hún var vel
gefin og hélt minninu þrátt fyrir
veikindi sín, kunni mikið af vísum
og gat þulið heilu kvæðabálkana ef
því var að skipta. Hún var staðföst
í trúnni og trúði á annað tilverustig.
Á árinu 1986 tók heilsu Fríðu
mjög að hraka en í ágúst það ár
fékk hún heilablæðingu og lá milli
heims og helju á Borgarspítalanum,
ég átti ekki von á eftir að hafa heim-
sótt hana þar, að hún kæmist aftur
á fætur. En Fríða af sinni alkunnu
þrautseigju og festu lét ekki bugast
og var komin á fullt skrið áður en
nokkum varði og enn bættist við
áfall í desember 1991 og annað í
maí 1992 en hún komst enn heim
og brosti bara að klaufaskapnum i
sjálfri sér þegar henni fipaðist. Fríða
var ávallt vel studd af bónda sínum
sem annaðist hana síðustu árin og
sá um heimili þeirra. Það eru ekki
allir sem fá hinstu bón sína uppfyllta
eins og segja má um Fríðu. Hún
hafði oft orð á því dagana áður en
hún veiktist síðast, að hana langaði
að fara til Akureyrar og það varð
úr að sonur hennar og tengdadóttir, j
Gísli og Thelma, fóru með þau hjón- 3
in til tveggja eftirlifandi systra henn-
ar og vinafólks á Akureyri, en dag- *
inn eftir veiktist Fríða og komst ekki *
til meðvitundar eftir það. Kæri
tengdafaðir, ég veit að þú í sorgum ‘
þínum verður styrkur sem hingað ,
til. Megi Guð vera með þér.
Kári Sveinsson. 7