Morgunblaðið - 07.02.1993, Blaðsíða 17

Morgunblaðið - 07.02.1993, Blaðsíða 17
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 7. FEBRÚAR 1993 8(>f?t RAÍIHiJy''! B'UUAUU/HUB IiklA.ii'l/ JOIIOIV. AF SPJÖLDUM GLÆPASÖGUNNAR/William Burke og William Hare eru meðal alræmdustu ___íbúa Edinborgar fyrr og síðar. Þeir myrtu tugi manna og seldu líkin til krufningar_ ÖRLÖG FÓRNARLAMBANNA BIÐU LÍKRÆNINGJANS „ENGINN núlifandi maður minnist þess að réttarhöld hafi valdið svo almennum áhuga og svo djúpstæðum óhugnaði.“ Þessi ummæli er að finna í dagblaðinu The Edinburgh Observerfrá aðfangadegi árið 1828. Málið sem vitnað er til varð frægt um gjörvallt Bretland og í því koma við sögu tveir af alræmdustu íbúum Edinborgar fyrr og síðar, William Burke og William Hare. Meðal þess sem þeim var gefið að sök var að hafa selt lík til krufninga. Þó voru glæpir af því tagi ekki nýmæli í Edin- borg. Allt frá 1738 þekktust dæmi þess að nýlátið fólk væri í kyrrþey fjarlægt úr hinstu hvílu og selt líffærafræð- ingum, sem með aðstoð nemenda sinna, skáru og brutu fyrrum samborgara sína til mergjar í nafni vísindanna. Kannski var það einmitt þess vegna að líffærafræði fleygði fram í Iæknaskóla Edinborgar í upphafi 19. aldar. Allt að 500 manns - ekki aðeins nemar heldur einnig læknar, lögfræðingar, listamenn og skáld - sóttu fyrir- lestra í líffærafræði hjá skurðlækn- um á borð við dr. Robert Knox. Árlega fékk hver læknaskóli til krufningar lík eins glæpamanns sem tekinn hafði verið af lífi fyrir syndir sínar. Þetta var í engu sam- ræmi við eftirspurnina og því varð í Edinborg frjór jarðvegur fyrir lík- ræningja. Um dimmar nætur, þegar tungls- ljóss naut ekki við, vissu borgarbú- ar að skuggalegir menn voru á ferð í kirkjugörðunum. Stundum glitti í þá skjótast milli legsteinanna, leit- andi fyrir sér hvar væri hægt að komast í feitt. Oft voru þetta lækna- nemar að reyna að tryggja að kenn- ararnir yrðu ekki uppiskroppa með kennslugögn. Sneru á varðmennina Svo mikill var viðbjóður almenn- ings á þessu atferli að við marga kirkjugarða voru reistir háir turnar. Enn má sjá í Edinborg gamla kirkjugarða, umlukta varðturnum, háum varnarmúrum og rimlahlið- um. Þeir eru frá þeim tíma þegar standa þurfti vörð um að nýgreftr- aðir yrðu ekki líkræningjum að bráð. William Burke og William Hare sáu við þessum ráðstöfunum. Þeir gerðu sér að fómarlömbum flökku- konur og stafkarla sem enginn saknaði. Þetta fólk hændu þeir nafnarnir til sín, drápu það og seldu læknaskólunum líkin. Til þessa dags veit enginn fyrir víst hve marga þeir myrtu en á sínum tíma var talið að fórnarlömbin væru 13 til 30 talsins. Réttarhöldin hófust 17. desember 1828, á miðvikudegi. Áhorfendur troðfylltu réttarsalinn og komust færri að en vildu. Þó voru sönnunar- gögn af svo skornum skammti að ákæruvaldið neyddist til að tak- marka málsóknina við eitt morð- anna. William Burke og lagskona hans, Helen McDougal, voru ákærð fyrir að hafa myrt gamla írska flökkukonu, frú Docherty að nafni. William Hare og kona hans vom ekki dregin fyrir dóm. Ólíklegt illmenni Þau höfðu keypt sér frelsi með því að ganga til liðs við ákæruvald- ið og bera vitni gegn samverkafólki sínu. William Hare er svo lýst að hann var tæplega meðalmaður á hæð, þrekvaxinn og rauðbirkinn á hár og skegg. Hann bar það engan veginn með sér að vera illmenni, að sögn blaðamanns Edinburgh Observer. Sá var viðstaddur réttar- höldin og sagði um manninn að andlitsdrættirnir væru hörkulegir og blikið í stálgráum djúpstæðum L augunum allt annað en aðlaðandi. Sami blaðamaður sagði að Helen McDougal væri grannvaxin og bein- asmá og yfir henni væri „þessi venjulegi svipur örbirgðar og eymd- ar sem jafnan er af fólki úr hennar lágu stétt“. Samt væri hún ekki gersneydd kvenlegum þokka. Saga frú Docherty var rakin fýr- ir réttinum. Hún var nýlega komin til Edinborgar frá írlandi. Burke hitti hana í verslun og vingaðist við hana. Verslunarmaður bar að hafa heyrt Burke bjóða henni til morgun- verðar á gististað sem hann rak. Þá þegar virðist sem hann hafi verið stað- ráðinn í að drepa konuna því þennan sama dag bað Burke gesti sína tvo, herra og frú Grey, að finna sér annan dvalarstað um sinn. Hann kvaðst sjálfur skyldu greiða kostnaðinn sem af þessu hlytist. Grey-hjónin sneru aftur næsta morgun og frúin, sem var full grunsemda, fór að spyijast fyrir um frú Docherty. Hún lagði ekki trúnað á það svar að frú Doc- herty hefði verið varpað á dyr fýrir ruddaskap. Þegar Burke sagði henni að koma ekki nærri rúmfleti nokkru juk- ust grunsemdir frú Grey um allan helming og við fyrsta tækifæri rótaði hún í fletinu og fann þar gömlu konuna myrta. Frú Grey sagði að þá hefði Burke ekki verið heima en Helen McDougal hafi lofað henni stórfé - 10 sterl- ingspundum - fyrir að þegja. Mút- umar freistuðu hins vegar ekki Grey-hjónanna, sem létu iögregluna vita skömmu síðar og urðu þannig til þess að rannsókn málsins hófst. Áttu að fá 13 pund Annað lykilvitni í málinu var David Paterson, aðstoðarmaður dr. Knox. Hann sagðist hafa farið á gistihúsið og hitt Burke að máli. Burke hafi sagt að hann væri búinn að útvega lækninum svolítið og bent í átt að fletinu. Paterson sá ekki líkið en skildi hvað átt var við. Skömmu síðar heimsótti Burke lækninn og daginn þann var Paterson sagt að vinna til kvölds því hann þyrfti að taka á móti sendingu frá Burke og Hare. Þeir félagar komu um síðir með burðarmann með sér og sá rogaðist með gamalt koffort upp stigana. Koffortið hafði Burke keypt í búðinni þar sem hann hafði vingast við frú Docherty og nú notaði hann það til að flytja lík hennar hinsta spölinn; á skurðstofu dr. Knox. Læknirinn hafði látið Paterson fá 5 sterlingspund til að greiða þremenningunum upp í kaupverðið. 8 pundin sem á vantaði ætlaði hann að greiða skömmu síðar. Hneyksli Paterson lauk sögu sinni í réttar- salnum með því að segja að læknir- inn hefði áður haft ýmislegt saman að sælda við Hare og Burke. Þeir hefðu margoft komið til hans með lík. Paterson sagðist viss um að því fólki hefði aldrei verið veitt greftrun heldur drepið í þessu skyni. William Hare og kona hans voru einnig kvödd til vitnis, eins og fyrr sagði. Bæði ásökuðu Burke, sögðu að hann hefði kyrkt frú Docherty einn og óstuddur. Mörgum þótti ólíklegt að Hare væri jafnsaklaus og hann vildi vera láta. Það að hjón- in fengju að kaupa sig undan refs- ingu með vitnisburði olli mikilli hneykslan og einn veijandinn, hr. Cockburn, gagnrýndi ákæruvaldið harðlega fyrir að eiga samvinnu við fólk af þeirra sauðahúsi. Samt sem áður lýsti sækjandinn því yfir að „sía“ mætti sannleikann út úr þeirra framburði og William Hare lét ekki á sér standa að bera efni í síuna. Hann dæmdur, hún sýknuð Hann vissi sem var að þegar rétt- arhöldunum lyki yrði konu hans sleppt og sjálfur fengi hann að fara óáreittur úr landi. Fimmtán manna kviðdómur var innan við klukku- stund að komast að niðurstöðu í málinu. William Burke var dæmdur sekur um morðið á frú Docherty en Helen McDougal var sýknuð vegna skorts á sönnunargögnum. Áður en dómararnir fjórir greindu frá því hver refsing Burke yrði dró einn þeirra, Meadowbank lávarður, málið saman og benti á hve kaldrifjaður og glæpsamlegur ásetningur Burke hefði verið. Á skammri stundu gekk hann úr skugga um að gamla konan væri nýkomin til borgarinnar og þekkti engan. Síðan ávann hann sér traust hennar með marklausu hjali um að veita henni vináttu. í raun og veru vissi hann strax og hann heyrði sögu frú Docherty að enn eitt fóm- arlambið var fundið, enn eitt líkið sem læknaskólinn vildi kaupa til að kryfja. Engra spuminga yrði spurt, enginn mundi sakna gömlu konunnar, enginn stæði í vegi fyrir því að Burke gæti snúið sér að því að skipuleggja næsta morð. Eitt ógeðfelldasta glæpamálið Meadowbank lávarður sagðist telja að allt þetta mál væri eitt- hvert ógeðfelldasta illvirki sem annálar glæpamála kynnu frá að greina. Refsing sú sem William Burke skyldi þola væri að hengjast í hæsta gálga. „Búðu sálu þína undir það að mæta innan skamms fyrir hásæti almáttugs Drottins og svara þar til saka fyrir þetta voða- verk,“ vom síðustu orð dómaranna til Williams Burke. Dómsalurinn tæmdist og fréttirn- ar bárust með örskotshraða til mannfjöldans sem beið við dómhús- ið. Innan skamms var sagan á allra vörum, hvort heldur innan borgar- innar eða utan. William Hare hafði snúið á böðulinn. Hann flúði til Englands og ekkert spurðist til hans meir. Dr. Knox var aldrei ákærður en ferill hans var að engu orðinn og eftir þetta var honum ekki vært í Edinborg fyrir almenn- ingsálitinu. Beinagrindin til sýnis Það var aðeins William Burke sem tók afleiðingum voðaverksins. 25 þúsund manns söfnuðust saman í High Street til að fylgjast með þegar hann var hengdur. Það var kaldhæðni örlaganna að Meadow- bank lávarður hafði mælt svo fyrir að lík Burke skyldi gefið til krufn- ingar. Þannig varð hann læknavís- indunum að lokum að sama gagni og fórnarlömb hans sjálfs. Þótt afbrot Burke og Hare hafi verið alræmd og illa þokkuð meðal samtíðarmanna óraði fáa fyrir hve lengi þau lifðu í skoskum munn- mælum. Skosk böm læra enn vísu um Burke og Hare og viðskipti þeirra við dr. Knox. En ekki nóg með það. Enn þann dag í dag hafa sumir íbúar Edinborgar Burke fyrir augunum daglega, svo er Meadow- bank lávarði fyrir að þakka. Hann gaf fyrirmæli um að beinagrind ill- virkjans skyldi geymd í læknaskól- anum þar sem dr. Knox starfaði „svo að komandi kynslóðir muni minnast voðaverka þinna“, eins og dómarinn komst að orði þegar hann kynnti Burke þessa ákvörðun.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.