Morgunblaðið - 07.09.1995, Qupperneq 33
MORGUNBLAÐIÐ
FIMMTUDAGUR 7. SEPTEMBER 1995 33
AFMÆLI
SIGFUS HALLDORSSON
KVÖLD nokkurt fyrir ótrúlega
mörgum árum heyrði ég Ævar
Kvaran leikara syngja lag eftir
Sigfús Halldórsson og tónskáldið
lék á píanóið. Á þessu góða kvöldi
held ég að hafi verið frumflutt eitt
fallegasta lag Sigfúsar, Við Vatns-
mýrina, við Ijóð Tómasar Guð-
mundssonar. Svo þótti mér það
fallegt að ég hef aldrei síðan þolað
að heyra það.
Það var eins og það hvíldu alís-
lensk álög á þessu kvöldi, það fann
ég strax og Ævar gekk að hljóð-
færinu og með honum þessi lág-
vaxni feimnislegi maður, með fal-
legt bros og ekta, feiminn smit-.
andi og eins og Sigfús þessi væri
að biðja alla viðstadda að fyrirgefa
framhleypnina, síðan settist hann
við hljóðfærið, horfði á hljómborðið
eins og hann hefði aldrei séð slíkt
áður, lyfti hægri hendi og þar hékk
hún, næstum eins og maðurinn
hefði breyst í krossviðarmynd og
allir viðstaddir hættu að anda
snöggvast, en svo var eins og tón-
skáldið neitaði að vera lengur úr
krossviði, varð mennskur og ýtti
við nótum sem hljómuðu öðruvísi
en maður hafði áður heyrt, og við
urðum samstundis að krossviðar-
fígúrum og gátum ekki hreyft okk-
ur fyrr en síðustu tónarnir dóu út.
Sigfús Halldórsson hefur æ síð-
an verið mér dýrmætur vinur,
kannski ekki síst fyrir það að ég
hef ekki alltaf haft hann fyrir aug-
unum, hann hefur horfið úr augsýn
oft í langan tíma, en verið áfram
eins og lítili fæðingarblettur á sál-
inni minni, enn feiminn en frakk-
ur, enn auðmjúkur en stoltur, enn
dauðlegur en eilífur, enn ekki viss
hvað hann ætlar að verða þegar
hann verður stór. Enn beijast um
í sál hans margir menn, allir iist-
rænir og yndislegir en eiga það til
að troða hver öðrum um tær þegar
verst lætur, en þegar best lætur
eru þeir allir Sigfúsi lyftistöng upp
á himinhvolfið, þar sem hann syng-
ur guði dýrð, bregður á leik með
liti og er alltaf jafn hissa á tilver-
unni. Fáa listamenn þekki ég eins
auðmjúka og hann, fáa þekki ég
sem eru eins vinsælir en muna
samt eftir gömlum guðhræddum
konum sem stöldruðu við á Bók-
hlöðustígum eða Lindargötum
Reykjavíkur, þegar sat þar á þrí-
fæti kyrrlátur listamaður í önnum
að gera gömul hús ung að eilífu,
en var samt alveg til í að ræða
um blessað vorið eða mannleg
vandamál við þessar konur, sem
bjuggu við þessar götur og áttu
dálítið bágt, kannski vegna þess
að fátæktin bjó í eldhúsinu þeirra
eða drykkjuvandamál í svefnher-
berginu.
Sigfús Halldórsson er alinn upp
við Laufásveginn í Reykjavík þar
sem kýrnar úr ijósum manna röltu
á leið í haga, en þegar rnenn hafa
fyrir augum sér þannig góðar
skepnur verða þeir ósjálfrátt alþýð-
legir og kunna að bjóða góðan dag
öllum sem á vegi þeirra verða,
hvar í þjóðfélagsstiganum sem
þeir standa. Það er yfir Sigfúsi
mínum slíkt fas ijóssins, hraði
hans er einskonar kýrgangur, hann
flýtir sér ekki að neinu og maður
verður óviðráðanlega rólegur í
nánd við hann. Þannig eru lögin
hans, þannig eru steinarnir í fjör-
unni í málverkum hans, þannig eru
húsin sem' hann teiknar eilíflega
kyrr á lóðinni, löngu eftir að búið
er að rífa þau. Þannig verður.frið-
urinn í fasi Sigfúsar fegursti vott-
urinn um manneskjuna sem hann
geymir, fyrirmynd sem við öll elsk-
um, jafnvel líka þeir sem ekki
þekkja hann og hafa ekki einu sinni
séð hann. Lögin hans Sigfúsar
sameina þessa sundruðu þjóð, það
getur enginn verið andstyggilegur
um leið og hann heyrir lag eftir
hann.
Ég þakka honum öll þessi góðu
ár okkar sem aldrei eyðast, verða
mér eins og eilíft
sólarlag í teknikol-
or, þar sem maður
stendur agndofa í
fjörunni og hvíslar
vegna þess að allt
er svo yndislegt, og
svo syngja litlu
flugurnai’ góða nótt
og heimurinn dreg-
ur hljóður tjöldin
fyrir gluggann sem
snýr út að Vatn-
smýrum veraldar.
Jónas Jónasson.
Meira en hálf öld
er liðin síðan ungur
Reykvíkingur kvaddi sér hljóðs
með ljúfum lögum sem um leið
urðu eign þjóðarinnar. Þessi ungi
maður söng sig inn í hjörtu lands-
manna á skammri stund og sú
stund varir enn. Hver sem kominn
er til vits og ára kann og kannast
við lögin hans Sigfúsar Halldórs-
sonar. Enn í dag eru þau mikil
uppáhaldstónlist og svo mun verða
um ókomin ár. En Sigfús á fleiri
strengi í hörpu sinni. Hann er einn-
ig afbragðs málari. Hann hefir víða
farið og margt fest á léreftið en
þó munu myndir hans úr gömlu
Reykjavík jafnan verða taldar með-
al þess sem best hefir verið gert
í þeim efnum.
Við í Sjómannadagsráði eigum
Sigfúsi Halldórssyni margt að
þakka. Hann hefir um langan ald-
ur sýnt sjómönnum og samtökum
sjómanna mikinn hlýhug. Þess
mun lengi minnst er hann færði
Sjómannadagsráði stórverkið
„Stjáni blái“ að gjöf, tónverk er
hann samdi við kvæði Arnar Arn-
arsonar. Þetta tónverk var leikið
inn á plötu og hefir hlotið verð-
skuldað lof. Þá hefir Sigfús tileink-
að samtökum sjómanna fleiri lög
og er þar af mörgu að taka.
Sjómenn og þeir sem að samtök-
um sjómanna standa hafa fylgst
með ferli Sigfúsar Halldórssonar
og glaðst yfir sigrum hans á lista-
brautinni. Allt frá því er hann
ungur hóf nám í listum við fræg
listasetur í Lundúnaborg þar sem
hann söng og lék í BBC, til vel
heppnaðrar hljómleikaferðar hans
um Bandaríkin ásamt Guðmundi
Guðjónssyni, hafa sjómenn glaðst
yfir verkum Sigfúsar og það á
reyndar við um þjóðina alla.
Nú þegar Sigfús Halldórsson
heldur upp á 75 ára afmælið gleðj-
umst við með honum og óskum
honum og fjölskyldu hans allra
heilla. íslensku þjóðinni er mikil
nauðsyn á að eiga hrausta og sókn-
djarfa sjómenn en hún ber einnig
gæfu til að eiga afburðamanninn
Sigfús Halldórsson tónskáld og
listmálara sem um áratugi hefir
létt íslendingum lundina með frá-
bærum tónverkum og fögrum mál-
verkum.
F.h. Sjómannadagsráðs,
Guðmundur Hallvarðsson.
Senn þagnar söngrödd andvar-
ans og líður að því að hausthljóð
komi í vindinn. Þá reikar hugurinn
til löngu liðinna stunda í litlu bæjar-
félagi. Fyrir hugskotssjónum birt-
ast lágreist, járnvarin timburhús,
sem máttu kannske muna fífili sinn
fegri og höfðu lengi saknað litrófs-
ins á spjaldi húsamálarans, sem
hafði fyrir löngu lagt stigann á öxl
og horfið á braut, en mátti nú
sætta sig við dapurleg örlög ryð-
bruna og tæringar, sem jafnan
hrósaði happi og fagnaði sigri á
krepputíð. Það var engu líkara en
skáldið sem kvað um litmjúkar
dauðarósir og hrungjörn lauf í
haustskógi hefði markað sér húsin
með rústrauðum pensli sínum og
dökkum húmtjöldum Skuggahverf-
isins. Þá birtust ungir sveimhugar
með fangið fullt af sólskini. Þeir
fluttu með sér sólskinsblett úr
sæludal Jónasar Hallgrímssonar og
færðu hingað á mölina, í sjálfan
höfuðstaðinn. Þar reistu þeir saman
í lagi og ljóði, „vorsins draumbláu
sólskinshöll" og það verður aftur
„hlýtt og bjart um bæinn“ því sól-
skinið ljómar á gangstéttum
Reykjavíkur og strætin óma „af
bernskuglöðum hlátri". Hafa
nokkrir höfundar fært borg sinni
dýrmætari gjöf?
Æskufélagi, samstarfsmaður og
vinur- fagnar merkisdegi í dag.
Leiðir okkar lágu saman á barns-
aldri. Segja má að fyrsta lag Sig-
fúsar, sem birtist á prenti geymi
einskonar einkunnarorð: „Við eig-
um samleið." Mér veittist sú
ánægja að gangast fyrir útgáfu
þess og hlutast til um að fá texta
saminn við þetta hugljúfa lag Sigf-
úsar. Við vorum þá starfsmenn
Útvegsbanka íslands þangað sem
við höfðum ráðist sem sendisveinar
allmörgum árum fyrr. Guðjón bróð-
ir Sigfúsar var einnig starfsmaður
bankans. Hafði raunar komið þang-
að í tíð íslandsbanka og tengdi
tvenna tíma með háttprýði sinni
og drengskap. Nanna, systir þeirra
bræðra var bekkjarsystir mín úr
Miðbæjarskólanum. Öll báru þessi -
systkin foreldrum sínum og heimili
fagran vott. Þau áttu til góðra að
telja. Sigfús hét nafni Sigfúsar
Eymundssonar bóksala og ljós-
myndara, en hann var föðurbróðir
Guðrúnar móður ' Sigfúsar Hall-
dórssonar. Engin furða þótt söngv-
ar ómuðu í bijósti Sigfúsar því
nafni hans flutti fyrsta grammó-
fóninn til landsins og hljómuðu
töfratónar hans lengi út um
gluggann á næsta horni handan
götunnar, gegnt íslandsbanka.
Guðjón bróðir Sigfúsar hét nafni
Guðjóns úrsmiðs Sigurðssonar,
þess er stofnaði músíksjóð til
styrktar hljómlistarflutningi. Alls
staðar ómuðu söngvar og ljóð þar
sem þessi fjölskylda kom saman.
Halldór Sigurðsson hafði mikil
umsvif á fyrstu áratugum aldarinn-
ar. Úr hans og klukkur prýddu
ijölda heimila. Hagleikur hans var
rómaður. Hann átti hlut að smíði
stórhýsis við Austurstræti 14.
Kreppan mikla svipti margan
borgara eignum og atgjörvi. Hall-
dór hélt áfram iðn sinni. Lagði
nótt við dag. Geðprýði hans og lífs-
gleði var einstök. „Þegar ég hef
vakað við störf alla nóttina og sé
sól roða austurfjöllin þá langar mig
mest til að syngja eins og lævirki,“
sagði Halldór eitt sinn við mig er
ég sótti hann heim á Laufásveg.
Það kom í hlut Sigfúsar sonar
hans að flytja söngva þá sem
bjuggu í bijósti föður hans. Söngva
um lífsfögnuð, þrátt fyrir and-
streymi og storma, sem stóðu í
fang. Sigurður, faðir Halldórs, var
í forystu Eyjaíjallabænda þeirra er
hvað harðast stóðu á rétti sínum
og vörðust yfirgangi stórbokka
undir Fjöllunum.
Þegar lýsa á kynnum okkar Sig-
fúsar, störfum hans og ferli allt frá
æskudögum kemur í hugann minn-
ing frá árum okkar í Útvegs-
bankanum:
Klukkan á Lækjartorgi er orðin
Ijögur. Það er búið að loka Útvegs-
bankanum. Gjaldkerar telja sjóð
dagsins. Bókarar bera saman bæk-
ur. Það eru erfiðir tímar. Lítið fé
til útlána. Margur gengur bónleiður
til búðar. „Lífsbjargarfár í landi.“
Síðbúnir skuldunautar semja um
afborgunarlausar víxilframleng-
ingar. Hlaupareikningsmenn sitja á
háfættum stólum á jarðhæð bank-
ans. Þeir leita að 25 aura skekkju
í viðskipafærslum dagsins.
í kjallara bankans er lágt til
lofts. Þar sér ei til sólar. Loft ryk-
mettað. Hillur miklar geyma þöglar
frásagnir um tæmda sjóði. í kyndi-
klefa situr hærugrár halur og mat-
ar eldstó á himinbláum og purpura-
rauðum peningaseðlum íslands-
banka. Það skíðlogar í gömlum,
skrautrituðum loforðum peninga-
fursta um gullinnlausn seðlanna. í
vistarverum sitja ungir sveinar og
búa um víxiltilkynningar til skuldu-
nauta hins nýja banka. Hinn yngri
þeirra hefur upp raust sína og
syngur þróttmikilli rödd æsku-
mannsins lag sitt við ljóð Sigurðar
frá Arnarholti:
í dag er ég ríkur, í dag vil ég gefa,
demanta, perlur og skínandi gull.
Gakktu í sjóðinn og sæktu þér hnefa,
unz sál þín er mettuð og barmafull.
Það er ókeypis allt og með ánægju falt.
Og ekkert að þakka, því gullið er valt.
Af fasi og framkomu hins unga
söngmanns má sjá, að hann ætlar
sér að syngja sín eigin lög fyrir
heiminn.
Og svo sem hann söng fyrir
heiminn, þá hefir þjóð hans tekið
undir og gert lög hans að sínum.
Munu þess fá dæmi að jafnmörg
lög ungs manns hafi notið jafn al-
mennra vinsælda og er um lög Sig-
fúsar Halldórssonar. Sjálfur hefur
hann svo deilt bróðurlega vinsæld-
um og vináttu með lögum sínum,
því hann er hjartahlýr og viðmóts-
góður.
Tómas Guðmundsson skáld tók
því með ljúfmannlegri varfærni er
til hans var leitað, um ljóð við dans-
lag Sigfúsar. Hann kom frá störf-
um sínum á Hagstofunni í steingrá
og járngirt húsakynni Útvegsbank-
ans. Svo þáði skáldið boð tveggja
ungmenna um svaladrykk við dúk-
að borð í Hressingarskálanum
handan götunnar. Þetta var gata
skáldsins - Austurstræti. Tón-
skáldið unga settist við hlið Tómas-
ar skálds og söng í eyra hans ný-
samið lag sitt. Þá reis af grunni í
huga borgarskáldsins „vorsins
draumabláa sólskinshöll" og jörðin
skein af ungri gleði. Þá varð til ljóð
Tómasar: Við eigum samleið. Síðan
þá hafa Sigfús og Tómas átt sam-
leið í mörgum lögum og ljóðum.
Sigfús hefir einnig sótt ljóð til ann-
arra höfunda, en er jafnan vandlát-
ur um val sitt.
. Lífsskoðun Sigfúsar og viðhorf
birtist ljóslega í ljóðavali hans.
Gleði, bjartsýni, vinátta og vorhug-
ur eru einkenni hans. Lífsfögnuð-
ur. Veröldin er kær vina hans.
Grasið grænkar aftur í vor. Hann
vakir sumamætur. Hús hans eru
sólskinshallir. Stef hans er gleðilag.
En djúp undirrödd örlaganna á
einnig sinn hljóm í lögum Sigfúsar,
því vegir liggja til allra átta.
í lagi sínu í kvikmýndinni 79 af
stöðinni tekst Sigfúsi að seiða fram
slíkan örlagaþunga með taktföstu
og hrífandi stefi að í hugann koma
meistaraverk sem Álfakóngur
Schuberts og Ásareið Sigvalda
Kaldalóns. Þá gleymist ei sigurför
Litlu flugunnar. Einnig þar veittist
mér sú ánægja að vera viðstaddur
er Sigfús frumflutti lag sitt við ljóð
Sigurðar Elíassonar. Það var í út-
varpsþætti er Sigfús sagði mér frá
dvöl sinni á Reykhólum. Lagið varð
þegar alþjóðareign. Magnús vinur
minn Pálsson sagðist hafa verið
staddur hjá hattadömum á Hverfis-
götu í verslun þeirra Halldóru og
Hólmfríðar. Þær voru sammála um
að þetta lag ætti eftir að heyrast
trallað og sungið á hveiju heimili.
Þær fóru nærri um það og reynd-
ust sannspáar í umsögn sinni.
Eg sendi kveðjur okkar hjóna til
Sigfúsar og Steinunnar konu hans,
sem jafnan hefir vakað yfir velferð
hans með umhyggju sinni og alúð.
Börnum þeirra óska ég góðs og
farsældar í framtíð.
Pétur Pétursson, þulur.
BJARNIR. JONSSON
BJARNI R. Jónsson,
fyrrverandi forstjóri
G.J. Fossberg véla-
verzlunar hf., er ní-
ræður í dag. Bjarni
Ragnar er fæddur á
Arnarnúpi í Dýrafirði
og ólst upp á Þingeyri.
Hann fór á kútter í
þijú sumur frá níu ára
aldri og var afgreiðslu-
maður og skrifstofu-
maður hjá Sigmundi
Jónssyni, kaupmanni á
Þingeyri, frá sextán
ára aldri þar til hann
hóf nám í Verzlunar-
skólanum 1927.
Bjarni lauk verzlunarprófi 1930
og hóf þá störf sem skrifstofustjóri
hjá G.J. Fossberg en Gunnlaugur
Jónsson Fossberg, móðurafi þess
er þetta ritar, hafði stofnað það
fyrirtæki þremur árum áður. Bjarni
tók síðan við forstjórastarfinu 1949
við andlát Gunnlaugs og Bjarni
hefur sjálfur sagt mér að hann hafi
í raun gegnt forstjórastarfinu allar
götur síðan 1937 í veikindum afa
míns. Er ekki að orðlengja það að
Bjarni gegndi for-
stjórastarfinu til 1. maí
1989 og er reyndar enn
stjórnarformaður fyrir-
tækisins. Bjarni stjórn-
aði því fyrirtækinu í
raun í rúma hálfa öld
og er sennilega fátítt
að maður í stjórnar-
stöðu gegni slíku starfi
svo lengi. Undir stórn
Bjarna óx fyrirtækið
og dafnaði svo um
munar og sunnudaginn
3. september síðastlið-
inn voru liðin rétt 30
ár síðan fyrirtækið
flutti í stórhýsið við Skúlagötu sem
hýsir núverandi starfsemi þess.
Bjarni var að sjálfsögðu forgöngu-
maður þeirrar byggingar og var
vakinn og sofinn í að alllt yrði sem
vandaðast. Stóran hluta af bygg-
ingarefni hússins lét Bjarni fyrir-
tækið sjálft flytja inn og leynir sér
ekki I dag að þar hafa eiriungis
beztu efni komið til greina.
Móðurijölskylda mín treysti
Bjarna fyrir miklu við fráfall Gunn-
laugs Fossbergs og því trausti hefur
hann svo sannarlega staðið undir.
Er sennilega leitun að annarri eins
trúmennsku, því ávallt var hagur
fyrirtækisins látinn ganga fyrir per-
sónulegum þörfum.
Þótt elli kerling sé nokkuð farin
að bitna á líkamsburðum, leynir sér
ekki að Bjarni hefur verið mjög
karlmannlegur og myndarlegur
maður. Bjarni hefur mjög góða frá-
sagnargáfu og er sennilega í röð
beztu sportveiðimanna. Árum sam-
an veiddi Bjarni lax á stöng og
skaut fugl. Það er gott dæmi um
vinnubrögð Bjarna að hann sökkti
sér niður í erlendar fræðibækur um
byssur með þeim árangri að han
varð manna fróðastur á því sviði.
Konu sína, Kristrúnu G. Hall-
dórsdóttur, missti Bjarni árið 1986
og varð það honum mikill missir.
Dætur eignuðust þau tvær, Val-
gerði og Höllu, og dvelur hann nú
á heimili Höllu dóttur sinnar og
tengdasonar síns, Braga Þorsteins-
sonar, á Vatnsleysu í Biskupstung-
um.
Ég færi Bjarna heillaóskir mínar
og íjölskyldu minnar.
Einar Orn Thorlacius.