Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1980, Síða 4
8
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
af vefnaði, pyngju eða öðru sem silfrið hefði legið í. Við rannsókn í
Þjóðminjasafninu virtust þær ekki vera af vefnaði heldur eins konar hyrni,
sem glöggt kom í ljós er smáögn var brennt við prófun. Lágu trefjar efnisins
allar eins en ekki þversum hver á aðra eins og verið hefði, ef hér hefði verið um
vefnað að ræða. Má geta sér þess til, að tægjurnar séu af hvalskíði og hafi
sjóðurinn verið í öskjum úr því efni. Engin merki fundust þó um neins konar
lás eða hjarir af slíkum öskjum, enda má ætla að lokið hafi gengið upp á öskj-
urnar, en skíðisöskjur munu vart þekktar úr fornleifafundum.
Fundarstaðurinn var skafinn vandlega niður í óhreyfða jörð. Öll moldin var
sigtuð og fundust þarna á sama bletti sjö silfurbrot í viðbót, öll smá, en eitt
brot hafði heimilisfólkið fundið þá um morguninn. Þá var sigtuð mold úr
tveimur haugum, sem mokað hafði verið upp af þessum stað, en ekkert frekara
fannst, þrátt fyrir að grannt væri leitað. Mun líklegast að grafan hafi ekki
hreyft við sjálfum sjóðnum, heldur farið alveg niður að honum og síðan hafi
moldin fokið ofan af þegar hún þornaði og silfrið þá fyrst komið í ljós.
Alls fundust þarna 44 silfurhlutir, stórir og smáir, silfurteinar, ætlaðir til að
höggva niður til greiðslu eða smíðaefni, og skartgripir eða hlutar af þeim,
armbaugar og hálshringar. Sumir baugarnir voru brotnir eða höggnir í sundur
og í fyrrgreindri tölu er hvert brot talið. Þó eru grannur, snúinn silfurhringur
og armbaugur, sem hann er þræddur á, taldir saman.
Athygli vakti að silfrið var fagurt, nær því gljáandi. Er það næsta óvænt, en
ekkert af silfrinu var fægt við fundinn, heldur aðeins skolað úr vatni. Einu
áverkarnir, sem silfrið hlaut við fundinn, eru þeir að endi af einum hálshring-
anna hrökk óvart af eftir að hann var tekinn upp.
Allir stærri hlutirnir, hálshringarnir og armbaugarnir, eru beygðir saman og
jafnvel meira og minna brotnir. Virðist augljóst að það hafi verið gert til að
koma sjóðnum betur fyrir í pússi eða pyngju, eða í öskjum þeim sem líkur
benda til að sjóðurinn hafi verið geymdur í. Greinilegt er því, að skartgripirnir
hafa ekki lengur verið bornir til skrauts er silfrið var grafið í jörðu.
Ljóst er af framansögðu að umbúnaður um sjóðinn hefur næsta lítill verið
utan umbúðirnar, hvorki raðað steinum umhverfis í jörðinni né neitt annað
sem kalla mátti umbúnað. Enda mun óvíða svo farið um slíka sjóði sem þannig
finnast. Virðist svo sem reynt hafi verið að láta sem minnst á felustað þeirra
bera, en menn hafa getað miðað staðinn niður og þekkt hann þannig.
Silfursjóður þessi er hinn fjórði sem vitað er að fundist hafi á íslandi með
fornu silfri og langstærstur þeirra allra. Hann vegur 653,5 g alls, en aðrir eru
sem hér segir: Silfursjóður úr fornum rústum hjá Sandmúla í Króksdal upp af
Bárðardal, að mestu stangasilfur en einnig brot af skartgripum, alls 304 g að
þyngd,1 annar er frá Ketu á Skaga, stangasilfur, brot af skartgripum, baugum
og nælum, svo og brot af sleginni mynt, 135 g alls að þyngd,2 og sjóðurinn frá