Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1980, Page 49
ANNAÁMIG
53
hringinn í kringum snældusnúðinn, en þar fyrir neðan eða utan er einföld
flétta, gerð úr tveimur þáttum. Neðan við hana hefur verið leturband hringinn
í kring, en neðan við það eru aftur tvær skorur umhverfis með strikum á milli,
kaðalsnúningur eins og efst. Að neðan er snældusnúðurinn skreyttur með 6
sammiðja hringum, hverjum utan yfir öðrum.
Það sem óvenjulegast er við snældusnúð þennan er áletrunin. Hún er með
höfðaletri, en stafirnir eru einfaldir. Áletrunin er ekki heil, en lesa má nokkra
stafi. Hinn fyrsti er ekki heill, aðeins efri hluti hans er eftir. Virðist hann vera
alveg eins og annar stafurinn sem er greinilega N, en þriðji stafurinn er A. Á
eftir þessum þrem stöfum kemur orðabil og er þar skraut, lítil S-laga flétta og
enda báðir endarnir í laufblöðum. Við fyrstu sýn héldum við grafarar í Stóru-
borg reyndar að þetta væri stafurinn S, en sáum síðan, að það var með öllu
ólíkt hinum stöfunum og féllum frá þeirri hugmynd. Á eftir milligerð þessari
kemur stafurinn A mikið nráður og á eftir honum önnur skrautflétta. Er hún
allt öðru vísi en sú fyrri og mun flóknari, einskonar tvöfaldur hnútur. Á eftir
honum kemur stafurinn M, en þaðan frá er brotið af snúðnum og verða fleiri
stafir ekki lesnir. Áletrun sú sem lesin verður á snældusnúðnum er því þessi: —
-NNA A M—. Orðið A hlýtur að vera nútíð sagnarinnar að eiga og M upphaf-
ið á MIG, og stafirnir NNA eru þá hluti úr nafni þeirrar konu sem snúðinn
átti og eru slíkar áletranir algengar. Má t.d. benda á steinsnúð frá Hruna
(Þjms. 1933), sem á er letrað með rúnum Þóra á mig (sjá Kr. Eldjárn, Snældu-
snúður Þóru í Hruna, Gengið á reka, Akureyri 1948, bls. 139-147).
Þeim megin sem nafnið er hefur snældusnúðurinn verið skaddaður áður en
hann grófst í gólfið, þannig að hluti þess er horfinn. Algengasta kvenmanns-
nafn á íslandi sem endar á stöfunum NNA er enn þann dag í dag Anna. í
fyrsta manntali sem tekið var á íslandi árið 1703 eru taldar 264 Önnur á
landinu (þar af 28 í Rangárvallasýslu). Nafnið Jóhanna er þá mun sjaldgæf-
ara (33 Jóhönnur, engin þeirra í Rangárvallasýslu). Það nafn með endingunni
NNA sem kemst næst Önnu að fjölda er Guðfinna, þær eru 105 (4 í Rangár-
vallasýslu). Það nafn er hinsvegar í lengsta lagi til að það hefði komist fyrir á
snældusnúðnum frá Stóruborg (og gegnir sama máli um þær Dagfinnu,
Dýrfinnu og Kolfinnu, allar nefndar í manntalinu frá 1703). Nú er reyndar
hugsanlegt að á snældusnúðnum hafi verið gælunafn eiganda, t.d. Gunna eða
Finna, og er þá tölulega mestar líkur á Gunnu, Guðrúnar eru 5410 á íslandi
1703 og hafa alltaf verið margar.
Fremur verður að teljast ólíklegt að nafn konunnar sem snúðinn átti hafi
verið stuttnefni. Slíks mun varla nokkurt dæmi í íslenskum áletrunum. Senni-
legast er, að nafnið hafi verið Anna. Ef skoðuð er lengd leturlínunnar kringum
allan snúðinn, sést að þar er einmitt hæfilegt rúm fyrir áletrunina Anna á
mig,auk skrautflata í þremur bilum milli orða.