Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1980, Blaðsíða 104
108
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
réttirnar hefðu verið notaðar, er ekki annað nærtækara en að þær hefðu verið
nátthagar.
Ætla má að á öllum fimm stöðunum sé í rauninni um sama nafn að ræða:
Uslarétt. í Hofsárkoti er það stytt í Usla (kvk.), en á Melum afbakað í Usla-
tóft, sem er rangnefni, því að þetta er girðing eða gerði en ekki tóft. Minnt
skal þó á, að á Ytri-Másstöðum var einnig ýmist talað um Uslaréttir eða Usla-
tóftir, sbr. bréf Þorsteins, en þar má tóftanafnið frekar til sanns vegar færa.
Ekki hef ég getað gefið mér tíma til að leita af mér grun um samskonar ör-
nefni annarsstaðar. Þó hef ég flett upp í registrum allmargra rita og blaðað í
öllum örnefnaskrám úr Eyjafjarðarsýslu, en ekki rekist á eitt einasta usla-
nafn. Má því ætla að þau séu sjaldgæf, þótt fjarstæða væri að telja þau, að
svo komnu máli, óþekkt annarsstaðar en í Svarfaðardal. En þar eru þau fimm.
Hvað merkir us/i í þessum örnefnum, og hvers konar mannvirki eru það sem
við hann eru kennd?
Orðið usli er algengt í íslensku máli að fornu og nýju (usli, ausli, auvisli).
Það hefur nokkuð víðtæka merkingu en langalgengast er að nota það í merk-
ingunni tjón, skaði, óskundi, og í lagamáli sérstaklega tjón sem utanaðkom-
andi búpeningur veldur á löndum eða öðrum eignum manna. Eins og nærri má
geta hefur frá upphafi og fram á þennan dag verið mikilvægt að nákvæmar
lagareglur giltu um þær hömlur sem menn verða að hafa á fé sínu, ef friður átti
að haldast, svo og um viðurlög við brotum á gildandi reglum. Ágangur bú-
penings var kallaður usli í öllum íslenskum lögum, og bætur fyrir usla nefn-
ast uslagjöld. í elstu varðveittu lögum er gert ráð fyrir að setja megi ágangs-
pening inn eftir tilteknum reglum og enn er slík aðferð í gildi. Það er því ekki
að furða þó grunur vakni um að Uslaréttir kunni að standa á einhvern hátt í
sambandi við þennan þjóðlífsþátt. Lítum ögn nánar á lögin.
í þjóðveldislögunum er gert ráð fyrir því að sá sem við afrétt býr megi gera
svonefnda sveltikví og setja inn ágangspening eftir föstum reglum í því skyni
að koma í veg fyrir usla af völdum afréttarfénaðar (Konungsbók Grágásar,
útg. V. Finsen, Kbh. 1852. Anden Del, 204/118—119, Staðarhólsbók Grágás-
ar útg. V. Finsen, Kbh. 1879, 432/496-497). í Járnsíðu er einnig talað um
sveltikví: ,,En fé það er hleypur garð hans eða gengur þar inn, sem hinn skyldi
gert hafa, má hann setja í sveltikví og láta hvern leysa sitt landnámi í brott”
(Hin forna lögbók íslendinga sem nefnist Járnsida eðr Hákonarbók. Havniæ
1847, bls. 101). í Jónsbók eru mjög ítarleg fyrirmæli um hvernig skuli með
fara fé sem gengur að meini í annarra manna land, og er það of langt mál til
að hér verði allt upp tekið. En aðalatriði eru þau, að heimilt er að setja ágangs-
pening inn eftir settum reglum og krefja um uslagjöld. Hafa leifar af þessum
Jónsbókarákvæðum verið í gildi til skamms tíma og má lesa þau í Lagasafni,