Óðinn - 01.07.1925, Blaðsíða 17

Óðinn - 01.07.1925, Blaðsíða 17
ÓÐINN 65 Magnús Sigurðsson á Grund. Magnús á Grund — svo var hann alment kallaður hjer um slóðir og að lokum landkunnur undir því nafni — var fæddur 3. júlí 1846 að Torfufelli í Eyjafirði. Foreldrar hans voru Sigurður Jóhannesson bóndi þar og kona hans Ragnheiður Magnúsdóttir. Voru það myndarhjón af góðum ættum. A unga aldri var hann tekinn til fósturs af móðurafa sínum Magnúsi Arna- syni hreppstjóra í Öxnafelli og ólst hann upp hjá honum. Ekki naut hann í uppvexti sínum meiri mentunar en þá gerðist um unga menn á hans reki. Rjeðst síðan í trjesmíðanám að Möðruvöllum til Friðriks Möllers, sem þá var talinn hinn besti smiður í sýsl- unni, lærði svo sjómannafræði og stundaði sjómensku í nokkur ár, á skipi einu, sem hann hafði keypt í fjelagi við nokkra aðra. Reisti bú á hálfri jörðinni Grund í Eyjafirði 1874 og hætti þá sjómensku. Gekk ári síðan að eiga heitmey sína, Guðrúnu ]óns- dóttur frá Gilsbakka, mestu dugnaðarkonu og kvenskörung. Varð þeim átta barna auðið. Fjögur af þeim dóu í æsku, tvö náðu tólf ára aldri. Einn sonur þeirra, Aðalsteinn, hið mesta mannsefni og hinn besti drengur, ljetst 30 ára gam- all. Að eins tvær dætur af fyrra hjónabandi hans eru nú á lífi, Jónína kona Ólafs G. Eyjólfssonar kaup- manns í Reykjavík og Valgerður gift Hólmgeiri bónda Þorsteinssyni á Grund. Árið 1888 keypti M. S. alla landareign Grundar með tilheyrandi jörðum. Rak hann þar síðan búskap og verslun í stórum stíl um langt skeið og varð hinn mesti fjárafla- og fram- kvæmdamaður í hvívetna. Bygði upp allan bæ sinn af mikilli rausn, íbúðarhús úr timbri og peningshús flest úr steinsteypu. Ræktaði og girti Iandið; gegndi ýmsum störfum utan og innan sveitar, var oddviti, sýslunefndarmaður, amtsráðsmaður. Reisti 1905 á eigin kostnað kirkju á Grund, eitt af veglegustu guðshúsum þessa lands. Gaf stórfje til opinberra stofnana. Var stuðningsmaður og þátttaki margskonar framfarafyrirtækja. Hlaut riddarakross Dannebrogs- orðunnar 1907. Sæmdur riddarakrossi Fálkaorðunnar 1921. Misti konu sína 1918. Giftist aftur 1924 Mar- grjetu Sigurðardóttur frá Snæbjarnarstöðum í Fnjóska- dal og átti með henni eina dóttur, sem er á lífi, Aðalsteina að nafni. Hann dó úr hjartaslagi 18. júní s. 1. á 78. aldursári. Var jarðsettur þann 30. s. m í ættargrafreit sínum á Grund, að viðstöddu miklu fjölmenni. . . . Um og eftir aldamófin síðustu var vegur Magnús- ar sem mestur. Var hann þá ennþá með fullu fjöri, þó hann væri nokkuð tekinn að eldast. Heilsan var ágæt og starfsþrótt- urinn virtist óbilandi. Hafði hann þá eignast alla jörðina Grund og rjeðst nú í hvert stórræðið á fætur öðru, eftir því sem gerðist þá á tímum. Fyrst bygði hann íbúðarhúsið á Grund, miklu stærra og vandaðra en menn þá voru vanir, síðan rak hver bygg- ingin aðra. Fjós og fjóshlaða úr steinsteypu, þá flest peningshús og hlöður við þau úr sama efni. Hlöðurnar tóku um 2500 hesta heys. Þá bygði hann annað hús til fundahalda og vörubirgða. Hús þetta brann óvátrygt nokkru síðar. En Magnús reisti það óðar aftur og enn vandaðra en fyr. Jafnframt þessu bætti hann jörðina á ýmsa vegu með vatns- veitingum og girðingum, er námu að lengd um 5000 faðma, og jók ræktað land um 20 dagsláttur. En þrátt fyrir þennan stórkostlega kostnað, sem byggingar þessar höfðu í för með sjer, sjerstaklega eftir að hann reisti kirkjuna, sem kostaði 35000 kr., virtist þó svo, sem efni hans ykjust altaf á öðrum sviðum. Búskapurinn dafnaði ár frá ári og verslun hans færði út kvíarnar. Hann reif sig, með svo undarlegum hætti, langt fram úr sveitungum sín- um, að allir undruðust, og það er ennþá mörgum ráðgáta, hve fljótt honum tókst að auka efni sín. Var ekki trútt um, að ýmsar kynjasögur gengu um upp- haf auðs hans, eins og t. d., að hann hefði grafið eftir og fundið gull í Helguhól, eða rekist á gullkistu eina mikla, er hann gróf fyrir grunni íbúðarhússins hins nýja. En þetta sýnir að eins ljósara, hve framar hann var öðrum mönnum um fjesýsluna.

x

Óðinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Óðinn
https://timarit.is/publication/205

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.