Óðinn - 01.07.1925, Blaðsíða 43

Óðinn - 01.07.1925, Blaðsíða 43
ÓÐINN 91 — Væri þjer móti skapi, Ingveldur mín, að jeg reyndi að láta blessað barnið lina ofurlítið hjá mjer brjóstin? — Síður en svo sje, mælti Ingveldur. Solveig tók barnið upp og kysti á enni þess. — Sæll og blessaður, litli, saklausi vinur minn. Frá því barnið fæddist hafði hún látið sig lítið um það varða og ekki farið um það höndum eða varpað á það orði. Þetta kom því Ingveldi óvart og vakti henni óvæntan feginleik. — Þjer stæði kann ske á sama, þó barnið yrði hjá mjer í nótt eða þá lengur, ef það annars vill taka brjóstið, mælti Solveig. — ]á, svaraði Ingveldur. I þann svipinn hefti klökkvinn mál hennar, svo að hún kom ekki fleiri orðum fyrir sig. En eftir ofurlitla stund fjekk hún bætt við: — Þetta veit eg enga konu geta gert, aðra en þig, Solveig. Það var æði skuggsýnt í stafgólfinu hjá Ingveldi. Þar var ekki önnur glæta en deyjandi skíma tungls- ins, sem enn þá seildist inn í gluggann á þekjunni. Þeim hjónum var því ekki auðið að sjá, hve óvænt gleði og hjartanleg þakklátsemi feldu blæjur sínar, mjúkt og mildilega, að andliti Ingveldar, fölu og þreytulegu. Og þeim var því síður fyllilega vitanleg sú hjartafró, er Solveig þá hafði fært Ingveldi. Þegar Solveig var lögst aftur í hvílu sína með barnið og var búin að koma því á vörtuna, tók það að sjúga. Og það færði henni á ný þann unað og þá sælu, sem hún hafði notið, er hún drykkjaði Dísu litlu á brjóstum sjer. . . . Henni fanst þetta vera barnið sitt, sem hún hlyti að láta fylgja sjer, af því að Atli bóndi hennar væri faðir þess. . . . Með þeim hættinum einum fyrirgæfi hún svo sem hún kysi, að sjer væri fyrirgefið. — — Var það til þess að geta gert þetta, að þú, Solveig mín, vandir hana Dísu litlu af brjósti? spurði Atli í ofurlágum rómi og þýðum. — Já, og Atla fanst sem þá væri engu síður sig- urgleði í rödd Solveigar en um morguninn. Þú varst búinn að biðja mig að fyrirgefa þjer. Jeg veitti þjer ekki ádrátt. Nú vil jeg, að þú vitir og sjáir, að jeg verð við bón þinni. Einar Þorkelsson. Kvæöi. Fögur útsýn. (Borgarfjörður, Hafnarskógur og Hvítárósar, sjeð í sólskini). Fjarðardísin brúna-bjarta, brúðarklædd í sólarljóma! Helgiblær þinn beinir hjarta beint til æðri helgidóma. Skína við í skuggsjá þinni skógarlands og hamra myndir; fagna þjer sem fóstru sinni fljótin hvít og tærar lindir. Vaknar ímynd æðri djúpa, anda manns er til sín draga, þar sem geislaglitin hjúpa gervimyndir æfidaga; þar sem höfug hníga að ósi harma-fljót og gleði-Iindir; þar sem guð í logni og ljósi lætur birtast nýjar myndir. Haustsálmur. Nú er komið haust og hrafn hlakkar yfir gori og blóði, bliknað landsins blóma-safn, brimið gnýr í jötunmóði. Drúpir yfir dauðans ráni draugalega fölur máni. Feigðin hefur fylstu völd, flaksast hún á úfnum gandi, ásýnd grett og klaka-köld hvimar yfir sjó og landi. Skepnurnar af skelfing stynja, skýjaborgir manna hrynja. Þó er til sú trausta borg, er tekst ei feigðar-ríki að vinna, bugar þar ei böl nje sorg, bylgjum jarðlífs mun þar linna. Bygðu von á »bjargi alda«, bið, og muntu velli halda. Fnjóskur.

x

Óðinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Óðinn
https://timarit.is/publication/205

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.