Óðinn - 01.07.1925, Qupperneq 34
82
OÐINN
Solveig í Skor.
i.
Solveigu húsfreyjunni í Skor fanst nætur þessa
skammdegis kvalræðislega langar. Það þreytti hana
að þreyja alt þetta myrkur, langoftast eina vakandi
af öllu fólkinu í baðstofunni. Henni fanst svefninn
stelast frá sjer, nema lítinn tíma, frá því um mið-
nættið og fram á óttuskeiðið. Eftir það ljeði hann
henni sjaldnast fangs á sjer.
Þetta gerði hana býsna lúna og ekki síst lúalega.
Og henni fanst það ekki vera ófyrirsynju. Ahyggj-
urnar, sem hagir heimilins lögðu á hana, voru henni
þungar og þrálátar. Þær áhyggjur höfðu raunar gert
vart við sig áður og henni stundum verið óbjart fyrir
augum. En nú fanst henni þó yfir taka. Henni virtist
syrta að það jelið, er litlar líkur væru til að upp
mundi rofa í bráðina.
Og nóttin, sem nú var að líða, aðfaranótt miðviku-
dagsins í fimtu vetrarvikunni, hafði orðið henni lengst
í þessu skammdegi. Nú hafði svefninn nærri því ger-
samlega firrst hana. Hún hafði að vísu sofnað svo
sem einni stund fyrir miðnætti. En mjög skömmu
eftir miðnættið hafði hún þurft að hlynna að Dísu
litlu, yngsta barninu þeirra hjónanna, sem nú var á
tíundu vikunni og hún fæddi á brjósti. Upp frá því
sofnaði hún ekki.
Solveigu fanst nærri því sem þessi nótt ætlaði að
verða sjer ofurefli. Svo hlóðust að henni áhyggju-
efnin og vandræðin. Hún hafði barist við að reyna
að finna lausn á þeim og bót við þeim. En hún var
litlu nær undir dögunina. Að vísu var það svo, að
henni hafði tekist að sefja suma hugarólgu sína. En
enga lausn var hún þó búin að finna á stærstu
vandræðunum. Og hvílíkur sá róður yrði, að koma
fjölskyldunni óskemdri fram á vorið, gat hún með
engu móti vitað. —
Börnin þeirra hjónanna voru níu og það elsta að
eins rúmra fjórtán vetra. Það voru því ellefu manns
í heimili hjá þeim — við þurt hús.
Haustið og veturinn, það sem af honum var, höfðu
farið köldum höndum um heimilið. Gæftir til sjávar
verið stopular og aflaföng ónóg. En þyngst og
ískyggilegast var þó það, að snemmbæran skyldi
farast af kálfburði fyrir hálfum mánuði. Og ekki var
ein bára stök, því nú var síðbæran, sem vænta átti
bjargræðis af í þriðju viku Góu, orðin steingeld. Úr
þessu sýndist ekki verða bætt. Til næstu bæja var
ekki að flýja. Þar voru mjólkurráðin lítið meiri en í
Skor. Og ekki hafði ennþá tekist að finna neins
staðar mjólkandi kýr, sem fáanlegar væru til fóðurs.
Þetta vakti Solveigu eigi lítinn geig. Og nærri Iá
að kvíðinn setti að henni örvæntingargrát. Það voru
líka fleiri undir húsþaki þeirra hjónanna en þau og
börnin þeirra. Þar var einnig húskona með þremur
börnum og því yngsta að eins sex sólarhringa gömlu.
En Solveig gat ekki að því gert, að henni hvarf
allur klökvi, er hún fór að hugsa um húskonuna og
yngsta barnið hennar. Og það var því líkast sem þá
gripi hana gremja, reiðiblönduð gremja. Hún gat
ekki hvarflað svo huga til yngsta barns Ingveldar,
húskonunnar þar, að henni kæmi ekki í hug Atli
bóndi sinn, og það ekki sársaukalaust.
Solveig hafði hugsað um þetta þrásinnis síðustu
mánuðina. Alt af var henni það jafn-viðkvæmt, jafn-
óviðráðanlegt. Og stundum var sem hefndarhugur
gægðist fram í sál hennar.
Atla bónda sinn hafði Solveig metið mest allra
manna. Hún vissi það vel, að hann var ljúfmenni,
skyldurækinn heimilisfaðir og dugnaðarmaður á sjó
og landi. Og hún hafði líka talið sig hamingjusam-
lega gifta.
Hún vissi, að Atla var þvernauðugt að búa í Skor,
þessu örreitis-útkjálkakoti, sem engin gæði hafði að
bjóða önnur en þau, að þar var skamt til fiskjar og
fuglveiði nærtæk, með dirfsku og mannhættu. Og
lendingin þar, manndrápsskorin illræmda, með tveim
þröskuldum, — ekki Iaðaði hún að sjer. Atla hafði
líka borist þar á einu sinni. Af þessum örðugleikum
öllum var hann búinn að fá meir en nóg og vildi
flytja á betra býli, þar sem auðveldara væri að koma
börnunum upp og til manns, ef auðna leyfði.
En Skor vár föðurleifð hennar og þar var hún
borin og barnfædd og hún hafði ekki getað fengið
sig til að flytja þaðan. Henni var ódulið, að það var
einungis hennar vegna, að Atli reyndi að berjast þar
áfram með atorku og manndómi. En nauðugt var
honum það, þótt hann ljeti aldrei orð um það falla.
Þetta alt var Solveigu ódulið og ógleymanlegt,
þangað til hann hrasaði — þangað til hann fjell með
Ingveldi. . . . Ekki svo að skilja, að hann breyttist
til neins, er miður væri í viðbúðinni. En brot
var það — svívirðilegt brot af hans hálfu, fanst
henni.
Og hvernig átti hún að geta fyrirgefið slíkt brot?
Hún gat ekki komið sjer niður á það. Það hlaut að
skríða til skara í því máli. Þar varð hart að mæta
hörðu, og eitthvert straff varð Atli að þola og ein-