Dagur - 21.12.1960, Side 32

Dagur - 21.12.1960, Side 32
EINAR GUTTORMSSON: Endurskin fimmtíu ára minningar MÁNUDAGINN 10. des. árið 1888 bar svo við, að drengur fæddist að Osi í Hörgárdal. Hann er enn tórandi. Æfi hans verður ekki rakin hér, aðeins atvik úr lífi hans, sem geymzt hefur honum í minni fram á þennan dag. Eg átti þá heima á Norðurstíg 4 í Reykjavík. Vann að prentverki í Isafold- arprentsmiðju. Tók þátt í leikfimi og íþróttaæfingum. Kvöldið þess 9. des. 1910 var ég við leikfimiæfingar. Man að ég kom harkalega niður i einhverju stökki. Að æfingu lokinni, hélt ég heim og beint í rúmið. Morguninn eftir til vinnu minnar í prentsmiðjuna. Eg var í Sjúkrasamlagi prentara. Þegar liðið var fram að hádegi, fann ég, að ég var ein- hvernveginn öðru vísi, en ég átti að mér að vera, og eftir staðfestingu á að svo væri, fór ég tafarlaust á fund verkstjór- ans, sem hét Herbert Mackenzie Sig- mundsson, og tjáði honum, hversu um mig var ástatt. Herbert stofnaði síðar Ilerbertsprent. Hann sagði mér að fara tafarlaust til sjúkrasamlagslæknisins, Matthíasar Einarssonar, síðar yfirlæknis á Sankti Jósefssystraspítala í Landakoti, venjulega nefndur Landakotsspítali. Eg lét ekki segja mér þetta tvisvar, en hrað- aði mér á fund læknisins. Sem betur fór hitti ég hann heima. Hann tók mér ljúf- mannlega. Eftir að hafa skýrt honum frá, hvernig högum mínum var komið, sagði hann: „Þú hefur fengið gulusótt“. Lagði mér síðan lifsreglurnar eitthvað á þessa leið: Þú verður að leggjast í rúmið, þeg- ar í stað. Þú verður að láta Sækja yfir- setukonu. Þú mátt ekki nærast á neinu, sem fita er i. Þú verður að drekka tvo lítra af soðnu vatni á sólarhring. Þú verður að liggja fyrir í hálfan mánuð. Með þetta veganesti hélt ég aftur til prentsmiðjunnar. Var ekki um annað að ræða, en að ég kveddi kóng og prest, héldi heim til mín og legðist í rúmið. I rúmið lagðist ég, og um sexleytið kom yfirsetukonan. Að þessu sinni hét hún Þuríður Bárðardóttir, alþekkt kjark- kona og dugnaðarljósmóðir í Reykjavík. Sú, sem sótt var til móður minnar, tuttugu og tveim árum fyrr, hét Jakobína Sveinsdóttir, ættuð úr Suður-Þingeyjar- sýslu og móðir, meðal annarra, Jóhönnu Friðriksdóttur, yfirljósmóður á Lands- spítalanum, og Önnu Friðriksdóttur frá Ytri-Bakka, hálfsystur Jóhönnu, seinni konu Gunnars kaupmanns Einarssonar. Eru þau foreldrar Jóhannesar, hins fyrsta íslenzka Hólabiskups í kaþólskum fræðum eftir siðabót. Eins og fyrr er frá greint, var heimili mitt vestur í bæ, sem svo var kallað, á Norðurstíg 4. Leigði ég þar hjá Gunnari kaupmanni Einarssyni, föðurbróður mín- um. Herbergið, sem ég hafði til afnota, sneri norður að sjónum. Reykjavík var þá hafnarlaus bær, engin bryggja, sem stærri skip gætu lagzt að. Eitt sinn, er mér varð litið út um gluggann á herbergi mínu, sá ég að ein rúðan var eitthvað krotuð. Ut úr þessari skrift las ég þetta: Guðmundur Guðlaugsson stud. art. Ár- talinu hef ég gleymt, hafi það nokkurt verið. Eg kannaðist við nafn þetta norð- an frá Akureyri; stóð um það mikill ljómi, sérstaklega meðal kvenþjóðarinn- ar. Og fyrst ég er farinn að ljósta þessu upp, langar mig til að bæta við lítilli sögu, sem mér var sögð þar syðra, af tilefni þessa rúðurisps. Einhverju sinni, meðan Guðmundur leigði þarna, var herbergisfélagi hans Jónas skáld Guðlaugsson. Á nöpru vetr- arkvöldi, er þeir vinirnir ætluðu að ganga til náða, varð Jónas fyrri til að af- klæðast. Er hann ætlaði upp í, varði samvistarmaður hans honum að komast undir rekkjuklæðin, og lét svo um mælt, að í hvíluna fengi hann ekki að fara, fyrr en hann hefði ort um sig lofkvæði að sinni vild. Segir sagan, að Jónas hafi orðið að yrkja kvæðið fáklæddur í nepjukulda, og áliðið hafi verið nætur, er Guðmundur gaf upp vörnina og taldi Jónas hafa lokið kvæðinu. Eftir útúrdúr þenna sný ég mér að því, sem frá var horfið. Fór vel á með okkur Þuríði. Lauk hún hlutverki sínu og hvarf brott að því búnu. Eftir þetta var ég rúmfastur i hálfan mánuð og hag- aði mér að öllu leyti sem læknirinn hafði fyrirskipað. Eg drakk mína tvo lítra af soðnu vatni daglega, nærðist ein- göngu á feitisnauðri fæðu, og lá næstum því hreyfingar- og hugsunarlaus allan tímann. Á meðan þetta leið svona til- breytingarlítið inni hjá mér, var margt að gerast utan dyra, sem á ýmsan hátt snerist um tilveru mína. Nokkru fyrr en ég lagðist í gulunni, hafði ég látið taka af mér mál hjá fata- smið, sem hét Jón Féldsted og var klæð- skerameistari hjá fyrirtæki Th. Thor- steinsson kaupmanns. Var langt komið að sauma fötin og áttu þau að vera til- búin fyrir jólin. Efnið í fötunum var eitt- hvert hið allra bezta, sem þá var fáan- legt í höfuðstaðnum, kallað „Cheviot“. Eg ætlaði mér sem sagt að vera „fínn maður“ á þessum jólum. Á aðfangadag jóla fór ég að hafa mig á kreik og voru þá fötin komin, svo að ekki þurfti ég að „klæða köttinn" um þessi jöl. Nú vaknar ef til vill hjá ykkur for- vitni um, hvernig fór með greiðslu fat- anna. Það er saga út af fyrir sig. Svo var málum háttað, að yrði prentari veikur, fékk hann fullt kaup fyrsta hálfan mán- uðinn veikindatímans, frá prentsmiðj- unni. Eg fékk því útborgaðar þaðan krónur 42.00. Auk þess greiddi Sjúkra- samlag prentara mér tvær krónur hvern legudag, virkan, eða alls kr. 24.00. Bár- ust þannig upp í hendur mér, fyrirhafn- arlítið, krónur 66.00. Þessi fjárhæð var meiri, en fyrir fötunum. Þau kostuðu 62 eða 64 krónur. Nú eru senn liðin 50 ár frá því að at- burður þessi gerðist. Hér sjáið þið gaml- an mann í sömu fötunum, sem hann klæddist á jólunum 1910. Hann hefur fyrir löngu tileinkað sér setninguna: „Hold er mold, hverju sem það klæðist“. Hann er hættur að hugsa sér sig sem „fínan mann“, eða tildurmenni tízkunn- ar. Þegar hann hverfur héðan, sannast á honum Ijóðlínur þessar: Hann fæddist, hann lifði, af flestu var nóg; hann fékk margan sannleik að skilja. Hann gladdist, hann hryggðist, grét bæði og hló, svo greinir hans saga, en þegar hann dó, var enginn, sem vissi hans vilja. Cleðileg jál! 32 JÓLABLAÐ DAGS

x

Dagur

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.