Dagur - 21.12.1991, Blaðsíða 14

Dagur - 21.12.1991, Blaðsíða 14
14 - DAGUR - Laugardagur 21. desember 1991 Grákolla tröllkona - saga úr sagnabrunni Ásdísar Ólafsdóttur Ásdís Ólafsdóttir frá Yallakoti í Suður-Þingeyjarsýslu var kunnur sagnaþulur um síðustu aldamót. Hún hafði einstaka frásagnarhæfileika og kunni ógrynni sagna og ævintýra. Því miður hefur einungis örlítið varðveist af þeim sagnasjóði sem Ásdís hafði yflr að ráða. Þar er að stærstum hluta um að ræða frásagnir sem Baldvin Jónatansson, þjóðsagnasafnari á Húsavík, skráði beint eftir Ásdísi. Sonardóttir Ásdísar, Guðrún Reykdal, hóf fyrir alllöngu að leita sagna hennar og ævintýra í þjóðsagnaritum og við frekari eftirgrennslan í skjalasöfnum hafði hún svo upp á áður óbirtum sögum Ásdísar meðal handrita á Hérðasskjalasafninu á Húsavík. Sagnaþulurinn Ásdís Ólafsdóttir á efri árum. Bókaútgáfan Vaka-Helgafell hefur nú sent frá sér bók sem hef- ur að geyma þjóðsögur, sagnir og ævintýri úr sagnabrunni Ásdísar. Pað er enda vel við hæfi að bókin ber nafnið „Úr sagnabrunni“. Þ. Ragnar Jónsson á Siglufirði og sonardóttir Ásdísar, Guðrún Reykdal, sem fyrr er nefnd, bjuggu bókina til prentunar. Hér á eftir birtir Dagur, með leyfi útgefanda, eina sögu úr bók- inni. ísúlfur hét maður. Hann bjó á Illugastöðum í Fnjóskadal í Þing- eyjarsýslu. Kona hans hét Ása. Þau voru auðug að fé, vel metin og göfug hjón. Son áttu þau er Jón hét. Hann var snemma hinn mesti atgervismaður, háttprúður og líktist foreldrum sínum að öll- um mannkostum. Ása var kona vitur og framsýn og hafði Jón mikið ástríki af hennar hendi. Það var siður á Norðurlandi í þá daga að sækja sjóróðra suður í Hafnarfjörð og á Seltjarnarnes, eða „suður með sjó“, eins og það hét og heitir enn. Fóru margir ungir bændasynir slíkar ferðir á haustin og lögðu leið sín yfir mið- hálendi Islands, vegi er þá voru tíðfarnir. Sumir þeirra rötuðu í ófarnað, enda þóttu ferðir þessar eigi fyrir liðleskjur. fsúlfur bóndi á IUugastöðum afréð haust eitt að senda Jón son sinn suður til róðra. Skyldi hann fara suður Kjöl. Bárðdælingar tveir sem kunnugir voru fjallveg- um áttu að verða honum sam- ferða og mæltu þeir sér mót. Jón var búinn heiman með einn far- angursklár, nesti og nýja skó. Kvaddi hann heimamenn og árn- uðu honum allir velfarnaðar. Ása móðir hans gaf honum að skiln- aði stein einn forkunnarfagran. Það var lýsigullssteinn og bar birtu mikla af honum í myrkri. Hún mælti: „Stein þennan skaltu þiggja af mér, sonur sæll, og mun hann koma þér að góðu haldi.“ Jón þakkaði gjöfina og kvaddi að því búnu foreldra sína blíðlega. Hann hélt nú af stað og var brátt kominn inn fyrir alla byggð og á svonefndan Bleiksmýrardal. Tók þá að dimma í Iofti, en þó hélst hægviðri fram eftir kvöld- inu. Hann hélt inn dalinn að vest- anverðu og er leið á kvöldið dimmdi enn meir og fór að hríða. Svo fór að Jón vissi ekki lengi vel hvar hann var staddur og að lok- um staðnæmdist hann undir hamrabelti einu miklu. Fann hann þar gott skjól fyrir sig og hestinn. Voru báðir þess þurf- andi því frost fór vaxandi, en á var náttmyrkur og kafald. Réð hann því af að láta þar fyrir ber- ast um nóttina. Alit í einu fannst honum bregða fyrir óglöggum eldbjarma fram undan sér. Gekk hann þangað og fann hellisdyr víðar og eldsglæður fyrir innan. Hann undraðist þetta, en áræddi þó að ganga í hellinn. Þegar inn kom sá hann eld er logaði á skíðum. Börn tvö, ófríð og afar stórskor- in, ornuðu sér við logann. Jón kallaði til þeirra, en þau urðu við I það ákaflega hrædd og hrinu svo að undir tók í hellinum. Þá kast- aði Jón lýsigullssteininum til þeirra og þá þögnuðu þau, litu til hans hýrlega og tóku að skoða steininn og hlæja stórkarlalega og dimmradda. Jón talaði við þau blíðlega og léku þau sér þá og hlógu, svo að bergmálaði í hellin- um engu minna en áður. Þá heyrði hann dynki mikla og skruðninga úti fyrir og þokaði hann sér þá út undir hellisbergið öðrum megin og beið þar. Brá honum í brún því inn í hellinn skálmaði afar stórvaxin tröllkona og dró með sér hest Jóns á fax- inu. Þrammaði hún inn hellisgólf- ið og kvað fyrir munni sér: Hér er kátt á hjalla, hér skal strákur falla, hækkar blóðs í bolla - bíður ei Grákolla. Þreif hún upp öxi mikla og bjóst að höggva hestinn, en þá hlupu börnin til hennar tuldrandi og sýndu henni steininn og við það lét hún öxina síga aftur. Jón hafði horft á þessa ferlegu skessu með skelfingu og búist við hörðum leik, en varð nú huglétt- ara, enda gekk hún til hans, tók í hönd hans og þakkaði honum fyrir börnin sín. Sagði hún að fleiri en hann hefðu þangað komið, en hann væri sá fyrsti maður sem borið hefði gæfu til þess að ná vináttu sinni. Bauð hún svo Jóni að gista hjá sér um nóttina. Tók hann því fegins hendi, opnaði nestisbagga sinn og gaf börnunum það sem þau vildu, en þau hændust injög að honum, hlógu dátt og gerðu matnum góð skil. Skessan horfði á og lék við hvern sinn fingur. Seinna um kvöldið fór hún að segja frá því að hann mundi koma of seint suður því að allir skiparáðendur verði þá búnir að vista þá menn er þeir ætli sér, nema karl einn sem engan ver- mann vilji taka. Sé það af þeim sökum að hann eigi dóttur forkunnarfríða sýnum og mesta kvennaval. „En allir þeir ver- menn sem verið hafa hjá karli hafa verið Norðlendingar. Hafa karli þótt þeir áleitnir við dóttur sína og vill hann því síst af öllu taka vermenn úr þeim lands- fjórðungi nema hann sé alveg til- neyddur. Þangað skaltu nú samt leita. Mun ég sjá svo um að karl taki sæmilega á móti þér. Eru hér tveir önglar sem ég vil gefa þér, skaltu þá sjálfur nota og enga aðra. Þú skalt róa seinna en aðrir menn og aldrei lengra en fram að skeri því sem þar er skammt frá landi og muntu afla engu síður en hinir sem lengra fara.“ Næsta morgun var heiðskírt veður. Kvaddi Jón skessuna og börn hennar og þakkaði vel góð- an greiða. Hún bað hann vel fara og hafa það til marks þegar hann ætti að hætta sjóróðrum að tveir brúnir hestar yrðu á vegi hans niður við sjóinn. Skyldi hann nota þá til heimferðarinnar. Jón hét því og hélt áfram ferð sinni suður. Gekk nú greiðlega, hitti hann Bárðdælingana, ferðafélaga sína á mæltu móti og segir ekki af ferðum þeirra fyrr en þeir komu suður með sjó. Höfðu þá allir fullráðið á skip sín, nema karlinn sem fyrr er getið. Kvaddi Jón þá Bárðdælingana og fór að hitta karl. Tók hann Jóni stirðlega og bar það í vænginn að Norðlend- ingar hefðu reynst sér uppivöðslu- samir og kvennamenn meiri en góðu hófi gegndi, „en slíkir menn eru mér ekki að skapi og vil ég engu skipta við þá. En af því að mér virðist þú vera þeim ólíkur þá má ég hýsa þig í tvær eða þrjár nætur og vita hve aflasæll þú reynist“. Karl leiddi Jón í bæinn og sá hann þar konur tvær mjög álitleg- ar. Var önnur við aldur, húsfreyj- an, en hin var dóttir þeirra hjóna, einkar fríð stúlka. Þær tóku kveðju Jóns fálega, en þó vel. Jón var þar um nóttina, en fyrir dag vakti karl hann og mælti: „Mál er að róa, Norðlendingur, og afla til matar sér, til þess muntu hingað kominn." Jón fór sér hægt að öllu, en karl lét dæluna ganga og brígslaði Norðlendingum um leti, mont og annan ósóma. Jón klæddi sig seint og silalega og héldu þeir síðan til sjávar, ýttu frá landi og réru fram. Þegar þeir komu út að skerinu lagði Jón upp árar og renndi færi. „Hvað,“ hrópaði karl, „ertu orðinn vitlaus maður? Heldurðu að fiskurinn sé hér við landstein- ana?“ Jón ansaði honum engu, en keipaði og dró vænan fisk og inn- byrti. Þá kom hik á karl, en Jón renndi aftur og dró annan vænan fisk. Karl varð steinhissa, hélt ár og starði á Jón, sem keipaði og dró hvern fiskinn á fætur öðrum og eftir það hélt karl við þangað til Jón hafði hlaðið bátinn, en það hafði orðið á skammri stundu. Varð karl eftir það allur annar í viðmóti við Jón. Réru þeir að landi og köstuðu af fiski og var sagt að það væri tvöfaldur afli við það sem aðrir fengu. Næsta dag fór allt á sömu leið og úr því lét Jón alla róa á undan sér, fór aldrei nema að skerinu og hlóð þar. Nú komust aðrir sjómenn á snoðir um það hvar Norðlending- ur þessi dró allan sinn mikla afla og réru nú hver um annan þveran að skerinu og kringdu um það. En hvernig sem þeir keipuðu og hömuðust fengu þeir enga bröndu, en Jón hlóð sinn bát mitt á meðal þeirra. Sneru þeir frá sneyptir og gramir og sögðu að Norðlending- ur þessi mundi vera rammur galdramaður þótt ungur væri, en karl var hinn hreyknasti og bauð Jóni með sér að vera vetrarlangt. Jón varð því feginn, því ástir höfðu lifnað milli karlsdóttur og hans. Amaðist karl ekkert við því þegar hann sá hvílíkur atgervis- og aflamaður Jón var. Leið nú veturinn og hlóð Jón hvern færan dag. Á sumardagsmorguninn fyrsta sá Jón tvo brúna hesta, stóra og eflda, á sjávarbakkanum þegar hann bjóst til róðurs. Hann hætti við að róa því að hann vissi hvernig á hestunum stóð og að þá mundi mál að slíta róðrum. Sagði hann karli að nú yrði hann að hraða sér heim til foreldra sinna. Karl kvað hann sjálfráðan, enda hefði hann aflað meira en nokkur annar á þeirri vertíð. „Þakka ég þér veruna hjá mér,“ sagði hann, „og skaltu vita að séð hefi ég samdrátt dóttur minnar og þín. Hafið þið bæði farið vel með ástir ykkar, svo að ég gef fúslega jáyrði mitt til þess að þið eigist, því að seint fær hún vænni og efnilegri mann en þig.“ Jón varð glaður við og þakkaði karli ummælin. Daginn eftir bjó Jón ferð sína og batt þriflega fiskbagga á brúnu hestana. Voru þær klyfjar helm- ingi þyngri en vant var að leggja á hesta. Bjóst karlsdóttir til ferða með Jóni og var gerð ríkmann- lega úr garði. Þau kvöddu for- eldra hennar og óskaði hvor öðr- um allra heilla. Síðan héldu þau leið sína með mikla skreiðarlest. Gekk ferðin að óskum og þurfti aldrei að laga á brúnu klárunum. Þegar þau komu á Bleiksmýr- ardal hitti Jón Grákollu vinkonu sína. Hún var þá hnuggin mjög, sagði að börn sín hefðu bæði dáið þá um veturinn og að sjálf mundi hún eiga skammt ólifað. „Mun ég,“ mælti hún, „birtast þér í svefni þegar ég er dauð. Skaltu þá koma hingað og koma mér í tjörn þá sem hér er nærri hellin- um, því að þar hvílir karlinn minn og börnin okkar. Skaltu hirða það og eiga sem þú finnur hér fémætt. Mæli ég um og legg ég á að þig skorti aldrei fé né gæfu héðan af, né gervileik neinn og farðu nú vel. Verður þetta í síðasta sinn sem við hittumst." Að svo mæltu kvaddi Jón hana með tárum og lét þar eftir brúnu kárana með skreið þeirri er á þeim var og gaf hana skessunni. Síðan héldu þau Jón og unnusta hans með lestina út að Illugastöð- um og var þeim fagnað forkunn- arvel. Þótti suðurferð Jóns hafa gengið vonum frantar, þar sem hann hafði á einum vetrartíma aflað sér góðra efna og virðulegs kvonfangs. Var bráðlega stofnað til brúðkaups og stóð veisla sú í hálfan mánuð. Lét þá faðir Jóns af hendi við hann öll búsforráð. Tókust góðar ástir með þeim hjónum og leið nú fram á sumar- ið. Eina nótt, síðla sumars, dreymdi Jón að Grákolla vin- kona hans kæmi til hans. Bað hún hann að bregða við fljótt og vel og efna gamalt loforð. Þenn- an morgun var brakandi þerrir, en eigi lét Jón það aftra sér. Urðu menn forviða er Jón bjóst að heiman, en mikið hey lá undir. Hann skeytti því engu, sagði að- eins konu sinni frá hvert ferðinni væri heitið og lagði þegjandi af stað fram á Bleiksmýrardal. Þegar hann kom í hellisdyrnar sá hann þar Grákollu vinkonu sína liggja dauða. Tók hann þeg- ar til óspilltra málanna og fór að bisa við að koma henni út, en þótt hann væri vel að manni, gat hann varla bifað henni. Þótti honum stórum miður, settist nið- ur og hvíldi sig um stund. Sá hann þá fagran hring Íiggja á hell- isgólfinu, smeygði honum á fing- ur sér og fór aftur að stimpast við að draga út skessuna. Gekk þá mun betur en áður og þóttist hann vita að hringur þessi væri nokkurs konar megingjörð því að hann fann afl sitt margfaldast. Dró hann skessuna að tjörninni og sökkti henni þar. Síðan gekk hann aftur í hellinn og litaðist um. Fann hann þar ekkert fémætt og þótti það undarlegt. En þegar hann kom út aftur sá hann hvar annar brúni hesturinn stóð undir reiðingi á milli stórra steina, en á steinun- um stóðu tvær kistur miklar, bundnar rammlega og búnar þannig að ekki þurfti nema að smeygja silum á klakka, enda voru þær hvor um sig einskis eins manns klyftak. Smeygði Jón sil- um á klakka og hélt heimleiðis. Bar sá brúni klyfjarnar slyndru- laust þótt þungar væru heim að Illugastöðum. Urðu fjórir menn að ganga að til að taka ofan kist- urnar. Þegar Jón skoðaði í þær reyndust þær vera fullar af gulli og silfri og ýmiss konar dýrgrip- um. Hafði enginn maður þar áður séð neitt þvílíkt fé og dýr- indismuni. Var nú Jón orðinn allra manna auðugastur, keypti jarðir og jók bú sitt. Hann bjó síðan lengi að Illuga- stöðum með konu sinni og þóttu þau sæmdarhjón í hvívetna. Er sagt að margt göfugra manna sé frá þeim komið og einkanlega hin svokallaða Illugastaðaætt. Enn í dag er Grákolluskál örnefni á Bleiksmýrardal. Ekki er þess getið að hellirinn sjáist nú, og er ekki ólíklegt að skriður hafi byrgt fyrir munnann. Lýkur þar sögunni um Grá- kollu tröllkonu.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.