Ársrit Kaupfjelags Þingeyinga - 01.01.1919, Page 45
47
brestur einurð, þekkingu eða viljaþrek til þess, að vísa á
bug vöru þeirra manna, sem gera sig seka um slík brot, og
það þó að hann viti, að til kunni að vera aðrir matsmenn,
sem ekki eru vandari að virðingu sinni en það, eða skilja
ekki betur starf sitt og ábyrgð en svo, að slíkir menn eigi
athvarf hjá þefm.
Hitt atriðið er það, sem matsmaðurinn segir um úrgangs
og mislitu ullina, og kæruleysið um verkun þessara flokka
ullarinnar, sem ber svo mikið á hjá ýmsum. Það eru til þeir
félagsmenn í K. Þ., sem koma með meginull sína, hina hvítu,
ágætlega verkaða og umgengna að öllu leyti, en mislitu og
úrgangsullina þannig, að óþverra gengur næst. Þetta er skað-
legur misskilningur. Allir ættu. að geta skilið, að verksmiðj-
unum, sem vinna dúka úr öllum flokkum ullarinnar, muni
ekki þykja betra að kaupa saur og óþverra, þótt honum sé
blandað í mislita ull, en ekki hvíta. Auðvitað getur dökka
ullin dulið meira af óhreinindum en hin hvíta. En að selja
saur í stað ullar hvar sem hægt er að dylja hann, það eru
svik, og þau hefna sín ætíð, og það sem verst er, jafnt á
saklausum sem sekum. Menn verða að gæta þess, að mislita
ullin, og fællingar og kviðull, er líka vara, sem hefir nota-
gildi til dúkagerðar, og það gildi er hægt að margfalda, og
verðið um leið, með vandvirkni og ráðvendni, engu síður en
hinnar annarar ullar. Mislita ullin er notuð alveg á sama hátt
og hvíta ullin, og unnin með samskonar áhöldum, aðeins í
annarskonar dúka, sem eru engu ódýrmætari en hinir úr hvítu
ullinni. Mislita og úrgangs ullin þarf því að fá alveg sömu
verkun, meðferð og undirbúning til markaðarins sem sú hvíta,
ef hún á að geta notið verðgiidis síns. Þetta þarf mönnum
að skiljast, og því er betur, að mörgum er að skiljast það,
en — því miður — ekki öllum, og því verða ullarmatsmenn-
irnir að vera alvarlega á verði, og ekki linna fyrri en mark-
inu er náð, að vinna íslensku ullinni gott álit, tiltrú og hátt
verð á heimsmarkaðinum. B. /.