Frjáls verslun - 01.06.1954, Blaðsíða 15
1
Minningarljóð
um SKÚLA MAGNÚSSON, landfógeta,
18. ágúst 1954
Lag: „Ó, fögur er vor fósturjörð —"
Hér hyllum vér þá hetju, er bar
svo hátt af landsins sonum,
að aldarstríð og aldarfar
tók ægissvip af honum.
Þar kenndist fas hins frjálsa manns,
án flærðar, hiks og ótta.
Og jafnvel undan augum hans
hrökk ofbeldið á flótta.
Og þessi borg er borgin hans.
Hér byggðist hún við sundin
af vilja og dáð hins vaska manns
og verður honum bundin.
Því yfir kröm og örbirgð sá
hans andi héðan rísa
við feginsaugum framtíð þá,
sem fólk hans átti vísa.
Svo hófst hann þeirri harðstjórn gegn,
sem hugðist öllu ráða.
Og djörfu kalli kong og þegn
hann kvaddi jafnt til dáða.
En þó að ýmsum yrði naum
og óblíð fósturmoldin,
ég vissi aldrei dáð og draum
jafn dýru verði goldinn.
Því þúsund stormar standa á
þeim stofni, er hæstur gnæfir.
Hann kynnist lítt við líknsemd þá,
er lægsta kjarri hæfir.
— Og eftir harðan hildarleik
stóð hetjan vinasnauða
sem hnarreist eik, en ellibleik,
í einsemd harms og dauða.
En þótt til brautar byggist hann
með brotinn skjöld og vigur,
í trúnni á land sitt líf hans vann
að lokum fullan sigur.
Og þar, til liðs við þjóð og menn
gegn þögn og kotungsótta,
frá sinni gröf hann gengur enn
með gust af frjálsum þótta.
TÓMAS GUÐMUNDSSON.
L.
FKJÁLS VERZLUN
67