Lesbók Morgunblaðsins - 24.12.1967, Blaðsíða 20

Lesbók Morgunblaðsins - 24.12.1967, Blaðsíða 20
Árni Johnsen Brimhryn við klettótta strönd er grunntónn í lífi fólksins, sem býr í Eyjum. Fólkið dregur dám af hafinu, það er harðfylgið, kemur til dyranna eins og það er klætt, er frjálslegt og hefur ákveðnar skoðanir. Hversdags- leikinn, stórbrotin náttúrufegurð, merki legt sögusvið og trú flétta mannlíf þessa fólks í órofa þráð. Við erum í Eyjum úti og það er tími skammdegisins og allt gengur sinn vana gang í bænum. Það er kyrrð í björgunum og vættirnar í hamraveggj- unum blunda undir vetrinum. Bátarnir dorma í nausti og bíða þess að fá að æða gegn stormum hafsins. Brimhryn vetrarins er í hafinu, það er hvasst og beitt eins og frostið, það leikur ekki mjúklega eins og á sumrin og það getur óðar en varir hrist sig eins og villtur foli makka sinn. En samt elskar maður hafið, það hefur verið manni eins og vagga, leikfélagi og húsbóndi. Hafið hefur skapað manni ótal ævintýri, í þarapollum, á reka, í mótun landsins, við veiðar og í bardaga við það. í Eyjum er hafið víðáttan og Eyjarnar eru byggingin á sléttunni, þar sem sjó- mennirnir þekkja hafsbotninn eins og bóndinn hólana í landareign sinni. Nú liður að svartasta skammdeginu, sem er lýst upp af hátíð hátíðanna og boðar fögnuð og frið og allir reyna að sættast viö sjálfan sig og náungann og gleyma andlegri þreytu og eignast gleði hátíð- arinnar, gleði barnsins. Síðan ég man hefur jólahald í minni sveit og jólaundirbúningur verið í flestu ámóta. Það hefur verið mikið að gera á mínu heimili eins og vant er fyrir jólin. f kjallaranum heima er blómaverzlun og flestir vilja skreyta hjá sér með blómum eða gefa vinum sínum blóm. Það er greniylmur í loft- inu, uppi í eldhúsi er kaffi á könnunni og það er stöðugt verið að hella á könn- una og úr henni. Gestagangur er stöð- uður og fólkið ræðir um jarðlífið, gær- daginn og morgundaginn, án illkvittni. Kannski er það myrkrið sem veldur því að allir hraða útiverkunum áður en dimman skellur á og allir reyna að búa sig sem bezt undir hátíð frelsar- ans. Það er sama fólkið sem kemur í verzlunina í kjallaranum ár eftir ár og biður um eitthvað svipað og í fyrra, eitthvað jólalegt og svo skreyttu grein- arnar á leiðin. Ein kona hefur komið í búðina fyrir jólin á hverju ári síðan ég man eftir mér, þetta er kona sem vinnur hlutverk sitt vel, skúrar vel og þykir vænt um starf sitt. Hún viðhefur alltaf sömu orðin: „Jæja, Ingibjörg mín, þá er ég nú komin og ég ætla að panta fallega skreytta grein á leiðið eins og í fyrra og hún á að kosta 15 kr. Ég vil bara hafa hana verulega fallega“. Einu sinni kostuðu greinarnar 15 kr. og þær hafa ekki breytzt svo mikið síðan, því skyldu þær ekki kosta það sama og ég er viss um að mamma myndi sakna þess ef konan hækkaði verðið. Tilefni jólanna verður ekki breytt og fólkið breytist ekki svo mikið heldur, það eru fyrstu hundrað árin sem eru svolítið erfið í lífinu, en svo fer þetta nú að lagast og þeir sem álíta að lífið sé sóða- skapur eiga bara að vera kátir í sóða- skapnum. Það er stöðugur straumur fólks um göturnar eins og það sé að flæða að og fólkið er hlaðið pinklum til þess að gleðja með á Hátíðinni. Sumir eru að fárast yfir þessu, en ég held að það sé úrelt hugmynd að fólkið gleðjist ekki á jólum nema að það hafi pinkla. Allir gleðjast á jólunum vegna þess að þeir vilja að hið góða ráði. í Eyjum ganga skipstjórarnir með kon- um sínum í búðir á Þorláksmessu og Ljósm. Sigurgeir Jónasson, Vestmannaeyjum. ,Nótt yfir Helgafelli' ■ •'íiSXnÍ rti’geitli allir, eldri sem yngri, stefna að sama marki, hátíðlegum jólum. Karlmennirn- ir brosa yfir öllum hugmyndunum sem konurnar fá í verzlununum og ræða þess á milli um veðrið, bátana og afla- horfur á vertíðinni og pabbi, sem er harðfenginn skipstjóri, er niðri í kjall- ara að skreyta jólagreinar og hefur gaman af. Annar skipstjóri í bænum hjálpar konunni sinni að selja kvenundirföt og gerir það við góðan orðstír. Allir vilja jú vera hreinir innst sem yzt á jólun- um. Netin og línan eru í krónni á þess- um tíma árs og það er eins gott að taka til höndunum. Annars dettur mér í hug sagan af gömlu konunni sem var að taka sig til fyrir jólin, sneri við ó- hreinu nærskyrtunni sinni og sagði: „Mikið er nú gott að vera komin í hrein föt“. Hver einstakur undirbýr á sinn hátt hátíðina, sem tignar komu frelsarans, tignar frið í hjörtum manna og híbýlum þeirra. Húsmæðurnar í bænum eru búnar að baka og það er kannski byrjað að skreyta jólatréð og annað, sem á að skreyta, tréð í hús- garðinum og tréð í kirkjugarðinum. Að- eins á eftir að skúra gólfin og elda mat- inn. Enn er þó nokkur tími til stefnu og fólk er að muna eftir einu og einu, sem það hefur gleymt og það er sent eftir því hið skjótasta. Ennþá er mamma á þönum í blóma- búðinni í kjallaranum og fólk er að sækja pantanirnar, svipaðar pantanir og gerðar hafa verið fyrir sérhver jól á undanförnum árum. Inn í búðina koma iðnaðarmaðurinn, bankastjórinn, verka- maðurinn og stýrimaðurinn, allir með konurnar sínar með sér, ræða kump- ánlega saman, en eru kannski með misjafnlega stóra vindla í munnvikinu. Senn gengur hátíðin í garð og undir- búningnum er að ljúka. Fólki er farið að fækka á götunum, það er að fjara út og mamma er að vinna við síðustu skreytingarnar. Annars er ástæðan fýr- ir því að hún hefur blómabúð sú að amma hafði þlómabúð. Merkilegt, ha? Oft erú rauð jól í Eyjum, því þar eru vetur snjóléttir, en nú er alhvítur feld- ur yfir Eyjunum og snjóflyksurnar koma svífandi og hverfa inn í það sem þær eru, snjóinn. Klukkan er að verða 6 og kirkjuklukkurnar eru að kalla til tíða. Bifreiðarnar koma ein af annarri á bifreiðastæðið og prúðbúið fólk stíg- ur út og gengur til kirkju. Snjóflyks- urnar eyða sporunum í kringum kirkj- una og fólkið verður hluti af kirkjunni, Guðs börn. Kirkjuklukkurnar syngja eins og þær hafa gert í hundruð ára og kirkjan er þéttskipuð fólki. Mér finnst ákaflega heitt, það er ekkert sæti og pípuorgelið fyllir loftið af djúpum hljóm. Ég greini ekki hvaða verk er verið að spila, því að ég er á leiðinni upp í kirkjuturn, og hef afráðið að vera þar í rólegheitum á meðan messan er. Tvær gamlar kirkjuklukkur eru í turninum og það eru gluggar á öllum hliðum. Ég opna einn gluggann og sezt við hann og horfi á logndrífuna falla hljóðlega niður á kyrrlátt sjávarplássið, sem hvíl- ir í skauti fjallanna og andar við nið hafsins. Nú er Hátíð, það er jólamessa og ég heyri óminn frá kirkjuskipinu, eitthvað fjarlægt, eitthvað mjúkt og mikið, sem minnir á annan heim. Mér líður vel þarna uppi, það er hátíðlegt og jólin eru komin. Kaðlarnir úr kirkju- klukkunum eru enn á hreifingu síðan hringjarinn togaði í þá og bauð mönnum að ganga til kirkju. Hringjar- inn er merkilegur maður, þegar ég var minni þá hélt ég að þessi maður væri hringjari af því að hann var svo hár vexti og ætti því bezt með að ná upp i kirkjuklukkurnar, en nú finnst mér hann vera hringjari af því að það þarf traustan mann til að vera hringjara í kirkju, mann úr hversdagsleikanum. Kirkjuklukkurnar tvær bera ártölin 1619 og 1743 og talið er að fyrri klukk- unni hafi verið rænt í enska ráninu um 1600 og verið flutt til Englands, en send til baka nokkrum árum seinna. Þessar klukkur hafa kallað margar kyn- slóðir til tíða í Landakirkju. Þessar klukkur hafa hljómað hlið við hlið, hver í kapp við aðra og þær hafa vafa- laust sama hljóm og fyrr, þótt kirkjan hafi nokkrum sinnum verið endur- byggð. í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir að reyniviðarhríslur tvær hafi vaxið sín hvorum megin við Landa- kirkju, og svo háar að lim þeirra mættist yfir kirkjuburstinni. Segir 'sagan að reynitrén hafi staðið unz Hundtyrkinn kom og rændi Eyjarnar og hjuggu þeir þá upp trén. Ekki eru þekktar aðrar sagnir um trjágróður í Eyjum fyrrum. í gamla daga heyrðu menn sem vel hlustuðu stundum álfa- söng og klukknahljóm í klettunum, en nú er bærinn uppljómaður með logandi augum nútímans, rafmagninu, sem er að ganga af okkar álfa- og draugatrú dauðri. Það er hollt að rifja upp gamla tímann og hvernig skyldu Eyjarskeggjar til forna hafa haldið jólin. Þá var minna um peninga og þá voru listisemdir heimsins eitthvað fábrotnari. í Landa- kirkju var haldinn kvöldsöngur á að- fangadagskvöld jóla og á gamlárskvöld. Þá fóru flestir í kirkju sem áttu heim- angengt. Þegar fólk kom til kirkju hafði það heimagerðar ljósaluktir úr tré til þess að lýsa sér á leiðinni til kvöld- söngsins og voru sömu luktirnar notað- ar ár frá ári, og var í þeim kertaljós. Kertin voru oft gerð úr vaxi af reka. Það hefur verið hátíðlegt að sjá hópa af fólki koma frá hinum mörgu bæjar- þyrpingum, ofan fyrir Hraun, neðan úr Sandi og austan af bæjum, Kirkjubæ og Vilborgarstöðum. Við kvöldsöng og á stórhátíðum var siður að opna kórdyrn- ar, sem annars voru alltaf lokaðar. Þótti fólki mikið til þess koma, er geng- ið var um kórdyrnar. Á kertaboganum fyrir framan kórinn voru tendruð kerta ljós en í dag eru ljósaperur á bogan- um. Jólahelgi var mikil og á aðfanga- dagskvöld mátti ekki hafa neinn háv- aða eða kátínu frammi. Ljós voru látin loga í hverju húsi á jóla- og nýársnótt og öllum var eitthvað gefið til þess að þeir færu ekki í jólaköttinn. Jólatré tíðkuðust fyrst í Eyjum á seinni hlutí' 19. aldar. Voru þau telgdur viðarbolui með negldum, renndum greinum og var vafið lyngi eða mislitum pappíi þar um. Fallegar bréfræmur skreyttu tréð og einnig myndir skornar í tré og bein. Unnu börnin sjálf að skrautgerð ásamt fullorðna fólkinu. í Eyjum við- hélzt hjá mörgum að skammta matinn upp á gamla móðinn, fulla diska af hangikjöti og saltkjöti, brauði með smjöri, floti og tólg, rúllupylsum og öðru góðgæti, svo að nægja myndi til heillar viku. Annar eins skammtur ------------------ 24. desember 1967 52 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS-

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.