Lesbók Morgunblaðsins - 24.12.1967, Blaðsíða 21

Lesbók Morgunblaðsins - 24.12.1967, Blaðsíða 21
„Bjarnarey reis lotningarfull í fölu mánaskininu“. Myndin er tekin á aðfangadags- kvöld frá Heimaey. Ljósmyndari Óskar Björgvinsson, Vestmannaeyjum. mun hafa verið útlátinn á nýársdag. Frá jóladegi og fram á nýársdag þágu menn heimboð hjá hver öðrum og skemmtu sér við spil og fleira. Á seinni tímum var siður að halda blysfarir og álfadans á þrettándanum og stórar brennur voru þá kyntar á fjallahnjúk- um, uppi á Helgafelli og víðar og þetta er gert enn þann dag 1 dag. í blysin var hafður táinn hampur úr gömlum skipsköðlum og sigaböndum eða reið- ingsstorf smurt í olíu eða lýsi og hrá- tjöru. Álfadansinn fór fram undir for- yztu álfakóngsins, sem venjulega var hæsti maðurinn á Eyjunum, og álfa- drottningarinnar sem var næsthæsti karlmaðurinn á Eyjunum og bar hvítan kyrtil og skautbúning. Þátttakendur voru allir grímuklæddir, flestir vel bún ir en sumir klæddu sig afkáralega, sem margýgir, skrímsli o. fl. Dans var stig- inn, blys borin og sungið. Allir sem vettlingi gátu valdið, komu til að horfa á álfadansinn, er venjulega fór fram á grundunum undir Stóra-Klifi á svo- kölluðum Póstflötum, síðar voru þar kartöflugarðar, en þar er nú margra metra djúp bátahöfn. Álfadansinn var jafnan bezta skemmtun og var mikið tilhlökkunarefni fólks. Margs konar jólaleikir tíðkuðust í Eyjum. Á sumum bæjum var það siður að skrifa alla upp sem komu í heimsókn á jólaföstunni, bæði karla og konur. Var heimilisfólkið einhvern tíma um jólin látið draga um gestina, piltana og stúlkurnar sitt í hvoru lagi og hafði fólk gaman af að sjá hverjir kæmu í hvers hlut. Þessar gömlu heimildir hef ég lesið í Sögu Vestmannaeyja eftir Sigfús M. Johnsen og þar segir ennfremur að á tímabil- inu milli þrettánda og vertíðar hafi sá siður tíðkast í Eyjum að fólk klæddi sig i grímubúninga, karlar og konur, einkum þó unglingar, og fór grímubúið í hópum um bæi. Á undan hópnum fór ógrímuklæddur maður og bað hann leyfis fyrir grímufólkið að það mætti koma inn og var það oftast auðsótt. Grímufólkið settist inni og fór með alls konar gáska og tilburðum, en heimilis- fólk skoðaði alla í krók og kring og reyndi að þekkja. Varð af þessu hin bezta skemmtun, er oftast endaði með því að grímufólkinu var boðið að taka ofan grímuna og var því svo borið kaffi og aðrar veitingar. Þetta þreifst bezt í fámenninu, en lagðist niður er fólki tók að fjölga eftir aldamótin síð- ustu. Logndrífan er gengin niður og það er kominn stjörnubjartur himinn og tunglið er fullt yfir Bjarnarey. Mér heyrist presturinn okkar vera að flytja ræðuna. Presturinn var kennari minn, einn þeirra sem ekki var hægt annað en draga dám af og hann kenndi mér m.a., að skoða smæstu hluta jurtarinnar. Nú sjást klettarnir vel í tunglsskininu, þess ir klettar, sem hafa alið mann upp og eiga. Oddgeir Kristjánsson tónskáld hefur gert lög, sem hann hefur samið úr þeynum er fer um hamraveggina, um ævintýrabústaðinn við hafið og stórbrotið líf sjávar og kletta, og þessi sönglög eru andardráttur Eyjanna. —• Klettarnir stara rólegir og svipmiklir og bíða eftir leikfélögunum sem klifra um þá og svífa, menn og fuglar. Það eru til margar sagnir um álfafólk í berginu, en ég rifja upp fyrir mér eina sögu, sem gömul kona sagði mér um rökkurnætur, á meðan hún var að prjóna handa mér ullarleista. Það var einhverju sinni að bóndi nokkur bjó búi sínu í eyju þar sem ekki voru aðrir ábúendur. Bóndi bjó því einbúi þarna, en hafði feng- ið dóttur sína, tvítuga, í heimsókn um jólin, en móðir hennar hafði dáið fyrir fjórum árum. Gamli bóndinn dundaði í frístundum við ritstörf og kunni bezt við sig í einverunni, í nám- unda við húsdýr sín, fjöllin og hafið. Dóttir hans hafði forframast fjarri heimabyggð, haldið þó í siði og dyggð- ir heimahaganna og var hún hin væn- legasta. Var nú liðið að jólum og helgin að ganga í garð. Feðgin unnu verk sín hljóðlega og allt var orðið fágað og fínt í kotinu. Stúlkan var þó eitthvað miður sín og það var sem eitthvað tóm væri í kringum hana. Hún hafði á orði við föður sinn að hún ætlaði ekki að fara í sparifötin, heldur vera í hvers- dagsfötunum þótt jólahátíðin væri við dyrnar. Faðir hennar sagði ekkert, en það þyngdi yfir svip hans og var auð- séð að honum líkaði ekki afstaða dótt- urinnar. Það átti eftir að gegna dýrun- um og feðgin bjuggu sig undir að fara út í fjárhúsin. Þau gengu hljóðlega saman yfir hlaðvarpann, stöldruðu þar aðeins og virtu fyrir sér kyrrðina sem hvíldi yfir. Það var mjöll á landinu og heiðskír himinn og dýrin voru öll á húsi. Þau fylltu meisana af heyi og gáfu kindunum og einnig kúnni og hest- inum. Það var fyrst þegar stúlkan var búin að gefa kindunum, að hún fann til jólagleði og hún byrjaði að raula jólasálma þar sem hún sat á heystabb- anum og virti fyrir sér dýrin. Það hýrnaði yfir föður hennar þegar þau settust að jólaborðinu, því stúlkan var komin í sín fínustu föt. Jólaborðið var hlaðið jólamat og þau röbbuðu saman um leið og þau borðuðu, en þriðja sætið var autt. Þegar stúlkan var búin að þvo upp, tók hún sér bók í hönd og settist í gamla ruggustólinn og byrjaði að lesa. Faðir hennar hafði hallað sér á legubekkinn og las einnig. Þau voru umvafin kyrrð einbýlisins, gluggarnir voru hrímaðir frostrósum og gamli kolaofninn í stofunni snarkaði vinalega. En stúlkan var eitthvað óró- leg og gat ekki fest hugann við lestur- inn. „Jæja, dóttir góð, nú skulum við fara í ferðalag", sagði eybóndinn og reis á- kveðinn á fætur. „Ferðalag", kváðistúlk an. „Hvert ættum við að fara í ferða- lag núna, faðir minn?“ „Við förum á stað þar sem þú hefur aldrei komið og hú skaltu búa þig vel yfir skartklæðin, því að þú munt ganga um logagyllta sali. Að venju vissi stúlkan að það þýddi ekki að fá neitt meira að vita hjá pabba hennar úr því að hann sagði það ekki sjálfur. Þau hjálpuðust að við að setja fram bátskænuna og ýttu úr vör. Eybóndinn dró upp segl og sigldi að því er virtist eftir stjörnum. Stúlkan gat ekki greint stefnuna í myrkrinu og hún var líka alveg róleg, því að hún treysti föður sínum. Eftir nokkra stund sá hún bjarg framundan, sem hún kann- aðist ekki við, en faðir hennar sigldi bátnum rakleitt að sjávarhelli, sem blasti við í berginu. Það var algjört myrkur inni í hellinum, en brátt grillti í skímu lengst inni. Það heyrðist klið- ur frá glaðværu fólki og það var leikið á hljóðfæri. „Hvaða ævintýrabústaður er hér fað- ir minn?“ „Hér er huldufólk að skemmta sér, dóttir góð“, svaraði ey- bóndinn", vertu kát og hress, en gættu þín, því við erum komin inn fyrir Ægis- dyr“. Báturinn skreið fyrir tá í berg- inu og þá blasti við furðuleg sýn. Bát- urinn var kominn inn á vík í ákaflega stórri hellahvelfingu og á stórum sill- um í berginu sátu og stóðu hundruð af fólki og virtist skemmta sér hið bezta. Á neðstu sillunni, sem var stærst, var fólk að dansa og syngja við flöktandi elda. Hvelfingarnar voru logagylltar með feikistórum klettadrönglum í loft- inu og voru allar smásillur í berginu þaktar með stórum kertum, sem lýstu upp hellana og voru þeir logagylltir. Þarna var huldufólk að skemmta sér og það var yfir því einhver undarlegur svipur. Margir komu og heilsuðu ey- bóndanum og hann virtist þekktur meðal þessa fólks. Stúlkan slóst í hóp þeirra yngri og hafði gaman af skemmt- an þeirra. Leið svo fram á nótt og var ekkert lát á gleði huldufólksins. Stúlk- an skemmti sér vel þarna og dansaði og söng af hjartans lyst, en allt í einu fann hún að eitthvað var ekki eins og það átti að vera, það var engin helgi þarna og það var jólanótt. Stúlkan fann föður sinn fljótt og veik strax að því sem henni lá á hjarta. „Faðir minn, mér þætti vænt um, ef við gætum farið heim núna“. „Hvað er að, dóttir góð?“ sagði eybóndinn. „Skemmtir þú þér ekki vel?“ „Jú, það geri ég, en ég er orðin þreytt og ég sakna kyrrlátrar jóla- helgi heima, jólahelgi kyrrðarinnar á hátíð frelsarans". „Mér þykir vænt um að heyra þetta, dóttir mín, við skul- um sigla“. Eftir að hafa kvatt, stigu feðgin um borð og leystu festar. Það var söknuður í augum ungs manns, sem sat á sillu í bjarginu, hann hafði dansað við stúlkuna og það var eitt- hvað í fari hennar sem snart hann djúpt, en hann varð að lifa fyrir innan Ægisdyr og hann veifaði með trega í augum, til stúlkunnar, sem veifaði á móti. Báturinn skreið áleiðis út úr hell- inum, fólkið veifaði og enn brunnu eldarnir. Ægisdyr voru að baki og mannheimur blasti við. Stúlkan innti föður sinn eftir kunningsskap hans við huldufólkið, en hann vildi ekkert um það tala. Þau sigldu hraðbyri heim á leið og stúlkan var glöð yfir því að komast að raun um að hún vildi helzt njóta kyrrðarinnar heima, þar sem jólagleði ríkti. Ég tók nú eftir því að það var verið að syngja í kirkjunni og ómurinn frá pípuorgelinu hljómaði undir. Ég sat þarna og horfði út yfir bæinn minn og klettana og augun staðnæmdust á Bjarnarey, þar sem hún reis lotningar- full í fölu mánaskininu og ég óskaði þess að Bjarnarey ætti gleðileg jól. Þessi eyja, sem er paradís á jörð og sannkölluð vanadís, sem hefur haldið mér í faðmi sínum, þar sem hvorki er hversdagslegt eða hátíðlegt, heldur eitthvað sem er ekki til annarsstaðar. Framhald á bls. 63 24. desember 1967 ■LESBÓK MORGUNBLAÐSINS 53

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.