Lesbók Morgunblaðsins - 24.12.1983, Blaðsíða 8

Lesbók Morgunblaðsins - 24.12.1983, Blaðsíða 8
Matthías Johannessen Skúlaskeið sumarið ’80 Við erum komin yfir meginlandið, sagði flugstjórinn, Skúli Magnússon, í hljóðnemann. Skýin voru einsog breidd ull og ekki eins og skýja- bólstrarnir yfir Englandi sem minntu á rjómaís í stórum brauð- formum. Síðan urðu þau úfnari og líktust því helzt þegar kembir af Esj- unni í norðanátt. Hvar er vitinn? sagði Kjartan K. Norðdahl flugmað- ur og leitaði á bláu korti. Viltu ekki hlusta á flugturninn? sagði Ólafur Alexandersson flugvélstjóri og setti heyrnartækin á mig. En drengurinn sat óspenntur í sætinu fyrir aftan mig, eitt auga, ein hlust. Við hlömm- uðum okkur niður á úfinn þokubakk- ann og fleyttum kerlingar á hvítri breiðunni. Ég var að hugsa um að verða hræddur, en hætti við það þeg- ar rödd sagði í heyrnartækið: Ice- land í 310 mílna hraða. Mig minnir við værum á 320 mílum og fann að vel var með okkur fylgzt. Flugstjór- inn sagði: 310 mílur, Olafur vélstjóri kom við benzíngjöfina. Búið, sagði hann. Þeir vilja að við séum á 310 mílna hraða, sagði flugstjórinn, en Kjartan leit aftur á kortið og sýndi okkur hvernig við kæmum að flug- vellinum í Dússeldorf. En ef við sæj- um ekki völlinn úr ákveðinni hæð færum við upp aftur, sveigðum til vinstri og biðum. Fyrir öllu var séð. Við höfðum mætt þotu skammt und- an, yfir meginlandinu. En það skipti engu máli. Hver þota er á sín- um stað á breiðgötum loftsins. Enn lækkuðum við flugið. Sáum þó ekki til jarðar. Þotan eins og sardínudós í regnskýjum. Það hvarflaði að mér þegar ég sá regnið lemja rúðurnar: Eru eldingar yfir Dússeldorf? Flugstjórinn hristi höf- uðið eins og það skipti engu máli. Hann einbeitti sér að hverjum hlut, fylgdist nákvæmlega með öllu. En samt var eins og hann hefði ekkert að gera. Ég hafði aldrei fyrr gert mér grein fyrir því hvað álagið er mikið í stjórnklefanum. Fyrir það fáum við borgað, sagði Skúli flugstjóri. Og ef eitthvað bjátar á, bætti vélstjórinn við. Það er lítið að gera nema í flug- taki og lendingu. Hægt að fljúga vél- inni eftir tölvu, jafnvel lenda henni. Stoltur yfir því að fá að sitja í flug- stjórnarklefanum — og það í lend- ingu — sagði drengurinn, Ekki vildi • ég fljúga í flugmannslausri vél. Nú taldi Ólafur vélstjóri upp helztu atriðin á öryggislistanum. Við tökum þennan sveig að flugvellinum, sagði Kjartan og benti á nýtt kort, en fyrst fylgdust þeir flugmennirnir rækilega með upptalningu vélstjór- ans. Lufthansa, heyrðist í heyrnar- tækinu. Þar talaði hver í kapp við annan og raunar var óskiljanlegt hvernig þeir greindu ein skilaboð frá öðrum. Annað veifið heyrðist þó Ice- Erró: Tiger plane. Erró: Matisseflugvél. land, en mér fannst ekki mega muna miklu að fjarskiptin færu í handa- skolum. Það hvarflaði að mér að þau væru veikasti hlekkur flugsins. Betra að hafa æft eyra og vel þjálfaða flugmenn. Nú var engu líkara en allir töluðu í einu í heyrnartækið. Engu líkara en við værum orðin hluti af hugsun og rödd óþekkts flugumferðarstjóra sem fylgdist nákvæmlega með okkur á jörðu niðri, hefðum vaxið inn í vit- Erró: Lending. und hans. Iceland, sagði hann enn sallarólegur. Og flugmennirnir svör- uðu einhverju sem ég heyrði ekki. Þeir eru komnir með okkur á ratsjá, sagði Skúli flugstjóri. Ég var satt að segja þakklátur fyrir það. En spurði hikandi: Er ekki allt eftir áætlun? Við sáum ekki grilla í neitt nema þokubakkana. Og þó var meira en stundarfjórðungur frá því við dembdum okkur niður í skýin. Ólaf- ur Alexandersson brosti, sagði: Þið væruð fljótir að sjá á okkur ef ekki væri allt með felldu(!) Ég þakkaði guði fyrir að þessir menn skyldu vera eins og við: mannlegir. Ófull- komnir. Flugmenn hafa orðið svo hræddir í tölvulendingu að hárin hafa risið á höfði þeirra þegar eng- inn flugvöllur hefur verið sjáanleg- ur, sagði Skúli flugstjóri hlæjandi. Tölvan sér um allt. En ég hugsaði: Mannlegir að vísu. En kunnáttan í samræmi við þá ábyrgð sem starfinu fylgir. Við biðum eftir ljósunum á enn ósýnilegri flugbrautinni. Þotan hristist eins og þíður hestur á tölti. Hún hefur verið vel tamin. Þá allt í einu: ljós, flugvöllur framundan, 1500 metra skyggni, ausandi rigning. 1500 metrar, það er ágætt hafði flug- stjórinn sagt, en nú: Ég tek við. Og festi hendurnar á stýrinu, tók völdin af tölvunni og renndi sér yfir marglit húsaþökin í úthverfi Dússeldorf. Þot- an minnti ekki lengur á hest, heldur fugl. Hún settist mjúklega eins og svanur á tjörn. Enn mikið að gera í stjórnklefan- um. Ekið að flugstöðvarbyggingunni. Við förum aftur heim í kvöld, sögðu þeir. Þú hugsar til okkar ef þú færð þér eisbein og einn lítinn, sagði Skúli Magnússon sem hefur flogið oftar yfir hafið en flestir aðrir, en enginn sigldi oftar yfir hafið á 18. öld en Skúli Magnússon landfógeti. Honum hefði þótt til þess koma að eiga nafna sinn að þegar íslandi var stjórnað frá kóngsins Kaupinhavn. Um það var ég að hugsa, þegar við kvöddumst. Og einnig að við vorum komin til fæðingarborgar Heines. En Neander-dalur á næstu grös- um. 8

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.