Lesbók Morgunblaðsins - 24.12.1983, Blaðsíða 15

Lesbók Morgunblaðsins - 24.12.1983, Blaðsíða 15
í tilefni af Tyrkja-Guddu sem verður jólaleikrit Þjóðleikhússins Skáldskapur veröur ekki mældur á mælikvaröa sagnfræöinnar Tyrkja-Gudda, Guðríður Símonardóttir, kemur öðru sinni á fjalir Þjóðleikhússins nú um jólin. Leikrit Jakobs Jónssonar frá Hrauni um hana var sýnt á fyrstu árum leikhússins en síðan eru liðin þrjátíu ár og höfundurinn hefur gert mjög miklar breytingar á verki sínu; næstum mætti segja að um nýtt leikrit væri að ræða. Það er Steinunn Jóhann- esdóttir sem fær það hlutverk að túlka Tyrkja-Guddu í þetta sinn, en alls taka hér um bil tuttugu leikarar þátt í sýningunni og fara með mjög misstórar rullur. Hér skal aðeins nefndur Sigurður Karlsson sem leikur Hallgrím passíuskáld Pétursson, lífsförunaut Guðríðar seinni hluta lífs hennar. Leikstjóri er Benedikt Árnason. Flestir þekkja söguna um Guddu í stórum dráttum. Henni var rænt af Tyrkjum svokölluðum og flutt til Algeirsborgar þar sem hún dvaldist árum saman í þrælkun, en var um síðir keypt laus og komst aftur til íslands. Hallgrímur Pétursson var fenginn til að uppfræða íslend- ingana frá Alsír í kristnum fræðum og felldu þau hugi saman. Ekki meira um það. Afi vildi ekki tala um leikrit í smáatriðum en féllst á að ræða það nokkuð almennt, svo og um feril sinn sem leikritahöfundur. Illugi Jökulsson ræöir viö séra Jakob Jónsson „Þegar ég var ungur maður að alast upp á Djúpavogi þá bar ég alveg tak- markalausa virðingu fyrir skáldum. Það var til dæmis ekkert smáræði að sjá Gunnar Gunnarsson fara ríðandi upp með túngarðinum — því gleymi ég aldrei. Það var mikið lesið og hugsað um skáldskap á mínu heimili, báðir foreldrar mínir höfðu áhuga á bókmenntum, svo það má segja að ég hafi drukkið þær f mig með móðurmjólkinni. Þegar ég komst á legg dreymdi mig helst um að skrifa smásögur, og ég skrifaði dálítinn flokk sagna sem í mínum huga gerðust allar í sama sjávarþorpinu. Þessar sögur eru nú farnar veg allrar veraldar, nema þá ein sem ég skrifaði vestur í Ameríku og birtist í tímariti Þjóðræknisfélagsins og hefur síðan verið lesin í útvarp oftar en einu sinni. Eitt orð úr máli manns- hjartans hét þessi saga. í Ameríku, en þar var ég prestur íslendinga á fjórða áratugnum, fór ég í fyrsta sinn að velta fyrir mér að skrifa leikrit. Ég hafði haft áhuga á leiklist frá barnsaldri og tekið þátt í nokkrum sýningum; á Djúpavogi lék ég séra Sigvalda og hef líklega verið einn þeirra fyrstu sem léku hann. Þetta var í leikgerð Ólafs Thorlaciusar, læknis. Svo lék maður í Frænku Charleys á Hornafirði og eitthvað lék ég í Ameríku. Ég hefði líklega ekki orðið reglulega góð- ur leikari og ég skal segja þér hvers vegna. Þegar Brynjólfur heitinn Jóhann- esson kom frá ísafirði og byrjaði að leika hér í Reykjavík — í leikritinu Stormum — þá var okkur háskólastúdentum boðið að vera statistar í leikritinu. Það fjallaði um verkalýðsdeilu og við stúdentarnir áttum meðal annars að vera verkamenn sem hlýddu á ræðu Brynjólfs og hrifust af henni. Þessi ræða var sannarlega ekki í anda sósíalisma og ég hætti eftir tvær æfingar vegna þess að ég hugsaði sem svo, að það væri ómögulegt fyrir sannan jafnaðarmann að hrópa „Heyr, heyr!“ við svona málflutningi. Þarna var pólitíkin sem sé tekin fram yfir listina! En vestur í Wynyard var maður sem hét Árni Sigurðsson, og var frá Akureyri, og hann átti mikinn þátt í að ég fór að semja leikrit. Það var töluverð leikhús- hefð meðal Vestur-íslendinga. Til gam- ans má geta þess að skáldið Jóhann Magnús Bjarnason, sem var nú góður vinur okkar, hafði stundum skrifað leik- rit sem hann sagðist hafa þýtt. Nafnið á höfundinum var rússneskt en staðreynd- in var sú að Jóhnn hafði sjálfur samið þessi leikrit, og fólk skemmti sér vel á þeim. Og vestanhafs fór ég sjálfur að skrifa leikverk. Ég tók eftir því að í ís- lenskum leikritaskáldskap var lítið fjall- að um líf fólks við sjávarsíðuna og því hafði ég hug á að breyta. Þau leikrit sem við áttum fjölluðu flest um lífið til sveita, eða þá í Reykjavík, en það var ekkert um leikrit úr sjóþorpum, eins og því sem ég ólst upp í. Þá fór ég að skrifa Öldur og um sama leyti skrifaði Loftur heitinn Guð- mundsson Brimhljóð. Mér þótti leiðinlegt að þegar hér var fyrir nokkrum árum sýnt færeyskt leikrit eftir Jens Pauli Heinesen, sem fjallaði um þetta efni, þá skrifaði einn leikdómarinn að það væri eins og íslensk leikskáld hefðu einhverja fyrirlitningu á þessu efni. Fyrir utan mig og Loft, þá veit ég ekki hvar í ósköpunum er hægt að finna virðingu fyrir sjó- mannslífi og þessum þjóðháttum öllum ef ekki í fyrstu leikritum Jökuls sonar míns, Hart í bak og Sjóleiðin til Bagdad. Það hefur sem sagt ekki verið gengið framhjá þessu. Þetta leikrit, Öldur, held ég að sé ann- að af tvennu sem kannski má nema stað- ar við í minni leikritun. Hitt er að síðar gerði ég tilraun til að skrifa helgileik. Með því á ég ekki við leik um trúarlegt efni í sjálfu sér, heldur var ég að reyna að endurvekja ákveðna forna hefð sem ég vona að verði tekin upp einhvern tíma aftur. Þessi leikur hét Bartimeus blindi og var fyrst fluttur í Bessastaðakirkju undir umsjón Ásgeirs Ásgeirssonar, for- seta. Lárus Pálsson var leikstjóri en leik- arar frá Þjóðleikhúsinu fluttu. Bartimeus blindi var seinna fluttur í Háteigskirkju af nemendum Ævars R. Kvaran undir hans stjórn og enn síðar á Akureyri. Ak- ureyringar voru hér á árunum ákaflega hlynntir mér, ef ég má svo segja, og það var til dæmis sett upp skemmtileg sýning á Hamrinum mínum þar fyrir norðan. Það var fyrst og fremst Sigurjóna Jak- obsdóttir sem stóð fyrir því.“ — En hvernig kom þaö til að þú fórst að skrifa um Tyrkja-Guddu? „Ástæðan er í raun og veru tvíþætt. í fyrsta lagi höfðu Tyrkir komið og rænt á Djúpavogi og nærsveitum, alla leið til Breiðdals, og sögurnar um Tyrki lifðu enn góðu lífi þegar ég var að alast upp. Maður heyrði talað um þetta, það var mikið af örnefnum tengdum Tyrkjarán- inu og ég las allt sem ég komst í um þessa atburði. Ég man eftir því að mig dreymdi iðulega að ég berðist við Tyrki: þá notaði ég vopn eins og kapparnir í Islendinga- sögunum og þeir lágu dauðir í hrúgum fyrir framan mig, Tyrkirnir. Eystein bróður minn dreymdi þetta líka og sjálf- sagt marga fleiri drengi. Ég get nefnt þér dæmi um hvað þetta lifði sterkt í manni. Ég veit ekki hvað ég hef verið gamall þegar þetta gerðist, bara smáangi held ég, að ég stóð fyrir utan húsið í glaða- sólskini, glóbjörtu veðri. Þá varð mér lit- ið út á fjörðinn og sá að þar kom skríð- andi inn allstórt gufuskip, kolsvart. Það kom mikið af skipum á Djúpavog og venjulega voru þau eitthvað skreytt; rauð eða græn eða blá og kannski hvítmáluð á þeim kommandó-brúin, en ég hafði aldrei áður séð svona kolsvart skip. Mér datt strax í hug: „Þetta eru Tyrkir." Ég hljóp ekki burtu og ég kallaði ekki í neinn því undir niðri bjó einhver grunur um að þetta væri varla rétt, en samt sem áður leið mér ekkert vel og ég vappaði þarna fram og aftur þangað til ég sá að upp- skipunarbátarnir voru farnir að ganga á milli — þá fyrst sannfærðist ég um að Tyrkir væru ekki komnir aftur. Sumar af þessum sögum úr Tyrkjaráninu eru alveg blöskrunarlegar við fyrstu sýn. Það var til dæmis maður sem var að koma úr kaupstað með tvo hesta, gæðing sem hann reið sjálfur og burðarjálk sem bar klyfjarnar. Hann varð var við að það voru komnir ræningjar í byggðina, og þá gaf hann sér tíma til að hafa hestaskipti; setti matvöruna á gæðinginn og hugðist sjálfur komast undan á jálkinum. Þetta varð til þess að Tyrkir náðu honum. En hvað er á bak við þetta? Maðurinn lagði SJÁ NÆSTU SÍÐU

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.