Lesbók Morgunblaðsins - 24.12.1983, Blaðsíða 21

Lesbók Morgunblaðsins - 24.12.1983, Blaðsíða 21
hafs. Um borð var sami erillinn sem á landi, og þessir ljótu og kubbslegu skipsbátar voru í látlausum ferðum frá skipunum á legunni að bryggjum kaup- manna í landi. Ekki var meira en svo að þeir Einar og Pétur fylgdust með öllu því starfi, sem þarna fór fram. Allt hringsnerist eins og í kófi fyrir augum þeirra. En að lokum gat Einar ekki á sér setið og sagði: „Guð veit, að mig langar að fara með þeim.“ Varla hafði hann sleppt orðinu, þegar Pétur greip fram í og sagði: „Já, auðvitað förum við.“ „En,“ bætti hann við, „í ár er það of seint, við erum ekki tilbúnir, og svo er áreiðanlega búið að ráða á öll skip- in. En ef við lifum í Herrans nafni, sem við lifum, næsta ár, þá munum við þreifa fyrir okkur." Nú leið af sumar, haustið og veturinn, en um vorið voru þeir Pétur og Einar aftur komnir í kaupstaðinn, gerðir vel út og að heiman búnir til starfa á fiski- skútu. Allt var á ferð og flugi um borð í skipunum og í kaupstaðnum eins og venjulega, þegar verið var að búa flotann á veiðar. Smám saman lauk þessu umstangi og skipin fóru að tínast út. Þau sigu af stað hvert á fætur öðru, undu upp segl og drógu upp fána, og eftir nokkra daga var allur skipskarinn horfinn, en víkin lá eft- ir hnípin og tómleg. Fyrst reyndu skúturnar við Færeyjar, en þegar út á leið héldu þær í vesturátt, til Islands. Nú víkur sögunni til þess tíma, þegar skúturnar voru væntanlegar heim aftur frá íslandi. Nokkrar þeirra voru þegar komnar í heimahöfn. Þá brast á norð- vestan fárviðri með haugasjó svo að jafn- aðist á við verstu vetrarveður. Ekki var að undra þótt fólk tæki að óttast um sjó- mennina á fiskislóðum vestur í hafi. Eng- inn var þá fréttaþráður milli Færeyja og íslands. Hvar sem fólk hittist, barst talið að fiskiskipunum. Það vann verk sín sein- lega og sljólega, því að hugurinn var ekki við vinnuna heldur hjá sjómönnunum. Fólkið var eins og í álögum og fjötrum sem ekki yrðu leystir fyrr en fregnir bær- ust frá íslandi. Menn voru fátalaðir og áhugalausir um allt nema eitt: „Vitið þið hvernig veðrið var á íslandi? Er enn ekk- ert að frétta af skútunum okkar?“ Og svo fóru menn að ætla á um og geta sér til hvort veðrið hefði verið jafn slæmt þar vestur frá eins og það hefði verið í Færeyjum og einnig hvar þetta eða hitt skipið hefði verið statt í óveðrinu. Og síðan var farið að rökræða hvaða skip væru sómasamlega búin, væru sterk- byggð og þyldu mikið og hver væru ótraust og þyldu lítið. Húsfreyja sat við hlóðir með ungbarn á höndum sér, hlýddi á það sem sagt var og skaut inn athugasemdum á stangli, þótt hvorki væru þær hnitmiðaðar né fullmótaðar. „Guð leiði þá heim aftur,“ sagði hún biðjandi og kyssti barnið sitt innilega. Þetta barn var fætt eftir að fað ir þess fór til íslands á skútu þá um vor- ið. Og þar sat einnig við eldstæðið ung stúlka og lét ekki mikið yfir sér, en var að prjóna ermi á peysu sem hún var að búa til, og leit eiginlega aldrei upp. Og þó hlaustu að verða þess var að hún átti sér einnig vin þar vestur í hafi, þótt hún væri of hæversk til þess að spyrja þig, hvað þú héldir um skútuna, sem hana langaði helst að hafa fregnir af. Þrjú löng dægur voru liðin síðan veðr- inu slotaði. Og á fjórða degi sást skip koma úr hafi. Fólk hópaðist saman niðri á bryggjunum í kaupstaðnum þegar það sigldi til hafnar með fána að húni. Tveir fyrrverandi skútuskipstjórar urðu fyrstir til að þekkja skipið. Þeir sem áttu vensla- menn um borð voru ekki í rónni og vildu vita hvað gerst hafði. Þegar skipið kom á móts við bryggjuna og heilsaði með fána- kveðju, sást að það var illa farið, víða á skipinu glitti í hvít sár á timburverki, sem brotnað hafði 1 óveðrinu. „Þeir hafa ekki átt sjö dagana sæla,“ sagði einhver í mannþrönginni í landi. Og þeir, sem óttuðust um afdrif vandamanna sinna, voru nú sýnu kvíðnari. Skipið sigldi inn á leguna, og þegar skipsmenn komu á land var þeim það ærinn starfi að svara öllum spurningun- um, sem fyrir þá voru lagðar. Ef til vill fengist nú svar við öllu því, sem fólk hafði getið sér til, ímyndað sér og grunað þessi löngu dægur. Kaupstaðurinn var eins og barmafullur af spurningum. Aftur bar við segl fram undan tánni á víkurnesinu. Skipið sigldi inn og skips- menn gengu á land. Þeir glöddust sem vissu sína heila á húfi, en annars ríkti sama óvissan. Þeir, sem ekkert höfðu frétt af venslamönnum sínum, eftir að hafa spurst fyrir um þá á fyrra skipinu, fýsti enn að leita fregna hjá skipverjum á því skipi sem síðar kom, og þeir sem áður höfðu heyrt það sem þeir vildu vita, spurðu upp aftur og aftur um það sama. Með hverjum degi sem leið komu fleiri skip til hafnar, flest illa farin, sum með fána í hálfa stöng, en það voru þau skip- in, sem misst höfðu menn og týnt í hafi eða fluttu lík þeirra, sem fórust við ís- land. Ekki voru fréttir fyrr sagðar í kaupstaðnum en þær höfðu borist um alla eyjuna. Það bar til í einni af hinum stærri krambúðum bæjarins, þar sem hópur af sjómönnum var saman kominn og gleymdi amstri sínu og erfiði við ölteiti, að inn í búðina gekk ungur sjómaður, vel á sig kominn og fríður sýnum. Hann virt- ist ekki jafnglaður við heimkomuna eins og hinir. Hann sagði fátt og var þungt í skapi. Hann bað búðarmanninn að fá sér barkað skæðaskinn og þrístrenda nál, tók hníf úr slíðrum, skar skæðið á búðarborð- inu, færði sig síðan út í horn á bak við fólkið í búðinni og gerði sér skó. Því næst lagði hann pening á búðarborðið, bað búðarmanninn að taka við greiðslunni og hélt áleiðis yfir fjallið sem leið lá ofan í Prestbyggðina. Hann hafði verið á einni þeirri skútunni sem flaggaði í hálfa stöng. Hann var þungur í spori þegar hann fór upp brekkurnar eins og hann bæri þunga byrði á baki. Þó hafði hann ekkert með sér og var vanur göngu frá barns- aldri. Hann nam oft staðar, strauk hend- inni um ennið, fannst hann vera í hálf- gerðu móki og fékkst naumast til að trúa því að það væri satt sem hann hafði mátt reyna í þessari íslandsferð. Svo stundi hann við lágt: „Jú, allt of satt, allt of satt! ó, að það skyldi þurfa að ganga svona til!“ Hann varð að taka á öllu sem hann átti til þess að komast upp á fjallið. Fjalla- loftið hressti hann nokkuð, svo að hann var heldur léttari á sér þegar hann kom á brúnina þar sem sá yfir byggðina og til Fjallsbæjanna. Þá var eins og hann kæmist ekki lengra, það dró úr honum máttinn og brjóst hans tók að bifast af ekkasogum, sem linuðust ekki fyrr en tárin byrjuðu að streyma úr augum hans. Drykklanga stund lá hann þarna áður en hann hóf göngu sína á ný, ekki heim til sín að Fjalli, heldur stefndi hann ofan í meginbyggðina að prestssetrinu. Hann gekk til reykstofu, hitti þar vinnukonu og spurði eftir presti. „Jú, hann er inni, ég skal gera honum viðvart. Vertu velkom- inn heim! En hvað amar að þér?“ „Ekk- ert,“ sagði pilturinn og fór undan í flæm- ingi. Hún vildi ekki spyrja hann frekar, en gekk á fund prests, sem kom að vörmu spori. „Komdu sæll, Einar minn, hvað er þér á höndum? Eitthvað amar að þér. Viltu tala við mig? Láttu svo lítið að ganga inn til mín.“ Þeir gengu inn í stássstofuna. „Fáðu þér sæti og segðu mér hvaða erindi þú átt við mig.“ Það varð stundar- þögn áður en Einar gat svarað. Þá mælti hann lágum rómi: „Gerið það fyrir mig að fara heim til foreldra Péturs að segja þeim að sonur þeirra hafi farist við ís- land. Hann féll útbyrðis eina nóttina í óveðrinu. Við sáum ekkert til hans fram- ar. Ég þori ekki að segja þeim þetta sjálf- ur.“ Prestur setti á sig skinnskóna og hélt heim að Fjalli til að segja þessi þung- bæru tíðindi. Enda var það skylda hans að hugga og hjálpa þegar þannig stóð á. Þegar prest bar að garði sat Oli gamli við hlóðirnar í reykstofukytrunni og var að kemba ull. Hann lagði frá sér pípuna og kambana, reis á fætur og bauð presti að ganga til betri stofu. Presturinn fór að tala um það hvað Guð vildi mönnunum vel, þótt stundum væri erfitt að átta sig á ráðstöfunum hans. „Mínir vegir eru ekki yðar vegir, segir Drottinn. Við skulum ekki ætla okkur að segja Guði fyrir verkum. Hann veit allt betur en við, því að hann horfir yfir allan heiminn, hann sér í einu bæði liðna tíð og það sem er og allt sem koma skal. Þess vegna skulum við taka því með þolgæði, sem hann leggur á okkur, allt eins þó að það séu þungar byrðar.“ Þannig lét prestur móðan mása, en ekki leið á löngu þar til Óla gamla skild- ist að klerkur var að búa hann undir eitthvað sérstakt og óvenjulegt. „Þér ætl- ið víst að segja mér eitthvað,“ greip hann fram í fyrir presti. „Já, það ætla ég, ég hef sorgarfregn að færa,“ svaraði prest- ur. „Pétur?" sagði Óli og horfði um leið spyrjandi á prestinn. „Já, Einar treysti sér ekki að segja ykkur það sjálfur. Hann bað mig að gera það.“ Prestur reyndi að hughreysta Óla gamla sem hann mátti, en gamli maður- inn var orðinn eins og stjarfur og stein- gerður. Hann hvorki heyrði né hugsaði, sat aðeins og starði á stofuvegginn, tóm- legan og nakinn. Hann mælti ekki orð af vörum, tók ekki einu sinni undir þegar prestur kvaddi og fór. Prestur fékk menn til að vera hjá Óla á meðan Rakel var ókomin, en hún hafði brugðið sér af bæ. Hún fékk að heyra tíðindin áður en prestur fann hana. Einar hafði ekki lyst á neinu því sem honum var boðið á prestssetrinu. Þegar prestur kom aftur hélt Einar af stað heim til foreldra sinna. Um nóttina dreymdi hann fárviðri og ósköp á sjónum, menn sem féllu fyrir borð, hurfu og birtust síðan með bleik andlit fyrir aftan skipið og veifuðu með annarri hendi biðjandi um hjálp. Svo glitti í eitthvað hvítt gegnum myrkrið og hann heyrði neyðaróp og því næst sá hann fossandi brotsjó — og þá vissi hann að öllu var lokið. Aldrei á ævi sinni hafði hann átt svo erfitt með að fara á fætur eins og þegar hann vaknaði morguninn eftir, hann sem jafnan flaug í fötin sín, hress og glaður eins og fugl. Hann vissi ekki hvernig hann gat afborið sorg sína. Síðar um daginn harkaði hann af sér og heimsótti foreldra Péturs, sagði þeim allt sem hann mundi frá því að þeir fóru frá Færeyjum og þar til Pétur féll út- byrðis. Þaðan gekk hann ofan á sandinn þar sem þeir höfðu svo oft hlaupið um og leikið sér. En hann naut sín ekki á þess- um stað eins og komið var, og hélt heim- leiðis. „Ó, hvað allt var orðið breytt!" Dag eftir dag eigraði hann um og ent- ist ekki við nokkurt verk. Steingerður Guðmundsdóttir I minningu Tómasar Guðmundssonar skálds Er hjartað brast — er harpan þín varð hljóð — stóð landsins dís — svo dul — og felldi tár — felldi blikandi tár á bleikar rósir — bleikar rósir sem hún stráði á veg þinn — veg þinn til ódáinsheima. íslenzk þjóð ber harm sinn í hljóði. Tjáir þökk í fábrotnu ljóði. Égfel Þig föður alls sem er. Far — skáld mitt - vel. 21

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.