Morgunblaðið - 21.02.2001, Blaðsíða 2
FRÉTTIR
2 MIÐVIKUDAGUR 21. FEBRÚAR 2001 MORGUNBLAÐIÐ
8 SÍÐUR
Sérblöð í dag www.mb l . i s
Teiknimyndasögur
Myndir
Þrautir
Brandarar
Sögur
Pennavinir
ÍBV fær tvo leikmenn
frá Stoke /B1
Hörkuspenna í meistara-
deildinni/B4
4 SÍÐUR 4 SÍÐUR
Í VERINU í dag er meðal annars greint frá sölu-
horfum á grásleppuhrognum, sagt frá sölu línu-
kerfa í frönsk skip og fjallað um möguleika
Íslendinga á fiskveiðum við Brasilíu.
Á FUNDI ríkisstjórnarinnar í gær
var samþykkt að leggja fyrir þing-
flokksfundi í dag frumvarp til laga um
rafrænar undirskriftir. Með því er
ætlunin að setja í lög reglur um rétt-
aráhrif rafrænna undirskrifta, vott-
unaraðila sem gefa út fullgild vottorð,
eftirlit með þeim og bótaábyrgð
þeirra. Valgerður Sverrisdóttir við-
skiptaráðherra lagði frumvarpið fram
í ríkisstjórninni.
Frumvarpið kveður á um þá meg-
inreglu að fullgild rafræn undirskrift
skuli ætíð vera jafngild handritaðri
þegar lög, stjórnsýslufyrirmæli eða
annað mælir fyrir um að handrituð
undirskrift sé forsenda réttaráhrifa.
Mælt er fyrir um strangar kröfur sem
slíkar undirskriftir skuli fullnægja og
kröfur sem gerðar eru til vottunar-
aðila sem gefa út vottorð er styðja
rafrænar undirskriftir.
Með rafrænni undirskrift er í frum-
varpinu átt við gögn sem verða til
þegar tiltekinn búnaður eða aðferð
eru notuð til að brengla efni sending-
ar með ákveðnum hætti. Sendandi
notar þá dulritunarlykil til að dulrita
gögn sín og móttakandi annan lykil til
að lesa úr þeim.
Jónína Lárusdóttir hjá viðskipta-
ráðuneytinu segir að lengi hafi verið
kallað á lög um rafrænar undirskriftir
og með nýjum möguleikum Netsins
þurfi að búa svo um hnúta að öruggt
megi teljast að senda um Netið reikn-
ingsskil, svo sem skattskýrslur og
virðisaukaskattsskýrslur. Kannanir
hafi sýnt að menn telji að öryggi
skorti í rafrænum samskiptum. Þetta
hafi getað leitt til þess að sendandi
hafi möguleika á að neita að hafa sent
upplýsingar, óvissa hafi verið um að
sendandi sé sá sem hann segist vera
og óvissa um að upplýsingum hafi
hugsanlega verið breytt á leið sinni
frá sendanda til móttakanda. Jónína
benti einnig á að með kerfi rafrænna
undirskrifta og dulritunarkerfi sem
þeim tengjast væri stuðlað að því að
senda megi trúnaðarskjöl um Netið
með dulkóðun.
Grundvöllur að trausti í
rafrænum samskiptum
Í frétt frá iðnaðar- og viðskipta-
ráðuneytinu um frumvarpið segir að
erfitt geti verið að koma í veg fyrir öll
vandamál sem skapist við samskipti í
opnu kerfi. Stöðugt sé verið að þróa
aðferðir til þess að gera rafræn við-
skipti öruggari og að rafrænar undir-
skriftir og dulritun séu þær aðferðir
sem mest sé horft til nú. „Talið er að
vel heppnuð framkvæmd við útfærslu
á rafrænum undirskriftum sé grund-
vallaratriði til að byggja upp traust í
rafrænum samskiptum og geti þannig
orðið til þess að samskiptin nái betri
útbreiðslu sem vonir standa til. Í því
sambandi er ekki nauðsynlegt að
komið verði upp einu undirskriftar-
kerfi, heldur að kerfi geti virkað sam-
an. Fyrirsjáanlegt er að rafrænar
undirskriftir verði notaðar í viðskipt-
um, í samskiptum á milli borgara og
stjórnsýslu og stjórnvalda innbyrðis,
t.d. á sviði opinberra útboða, skatta-
mála, félagslegrar aðstoðar, heil-
brigðismála og réttarfars.“
Frumvarp um rafrænar undirskriftir lagt fyrir þingflokka í dag
Rafræn undirskrift verði
jafngild handritaðri
LÖNG bið var loks á enda hjá fjölskyldum
skipverja á Fossánni, kúfiskveiðiskipinu sem
kom til Þórshafnar í gærmorgun eftir tveggja
mánaða siglingu frá Kína en þaðan var lagt af
stað um miðjan desember síðastliðinn. Upp-
haflega var búist við að skipið kæmi til lands-
ins í marsmánuði í fyrra en þær áætlanir stóð-
ust ekki í skipasmíðastöðinni í Kína.
„Siglingin heim gekk vel þrátt fyrir að kú-
fiskveiðiskip séu í raun ekki ætluð til úthafs-
siglinga, eru t.d. með opnar lestar, en Fossáin
er mjög gott sjóskip,“ sagði Þorsteinn Þor-
bergsson skipstjóri. Miklar vonir eru bundnar
við kúfiskvinnsluna hér á Þórshöfn en reiknað
er með að skipið hefji veiðar kringum næstu
mánaðamót, að sögn Þorsteins.
Mannfjöldi var á hafnarbakkanum þegar
skipið sigldi inn og flugeldum var skotið á loft.
Síðdegis var almenningi boðið að skoða skipið
og voru veitingar á boðstólum. Bergný Birg-
isdóttir, sambýliskona Þorsteins Þorbergs-
sonar skipstjóra, nefndi skipið og séra Svein-
björn Bjarnason vígði það og bað áhöfn og
skipi blessunar.
Löng dvöl í Kína
Dvölin í Kína var áfallalaus og heilsufar
manna ágætt, þrátt fyrir mikið breyttar mat-
arvenjur og annan staðal í hreinlætisvenjum
en Íslendingar búa við, eins og Þorsteinn orð-
aði það. Á þetta langri leið, milli Íslands og
Kína, má þó búast við einhverjum uppá-
komum. Í Súezskurðinum varð áhöfn Fossár
að taka um borð egypska eftirlitsmenn af
ýmsu tagi og þar kynntust Íslendingarnir
óvenjulegum vinnubrögðum sem kostuðu
nokkurt taugastríð. „Þetta eru lágt launaðir
menn sem drýgja tekjur sínar með því að hafa
með sér eitt og annað af skipunum og var
Fossáin orðin matarlítil og hreinlætisvörur
langt til búnar eftir veru þessara manna þar.
Ekki þýddi að malda í móinn því það hefði
þýtt meiri töf og útistöður við yfirvöld,“ sagði
Þorsteinn.
Þetta var ekki eina dæmið um einkennileg
vinnubrögð því á Sikiley var skipið kyrrsett
eftir að hafa tekið olíu og matvæli en þar bar
mönnum ekki saman um olíumagnið sem skip-
ið tók. Íslendingarnir kunnu ekki þessar
„vinnureglur“ og stóðu fast á sínu en eftir sex
daga töf gáfust þeir upp og greiddu tryggingu
sem Ítalirnir settu upp. Það var töluverð upp-
hæð, að sögn Þorsteins skipstjóra, en því máli
er alls ekki lokið.
Skipverjar kynntust einnig hjálpsömu og
góðu fólki á siglingunni en skammt frá
Mallorca fékk stýrimaðurinn hjartaáfall og
komst ekki í land fyrr en eftir sólarhring
vegna veðurs. Þegar færi gafst sótti þyrla
sjúklinginn sem fékk góða aðhlynningu á
Mallorca og Íslendingar búsettir þar reyndust
honum afar vel. Hann er nú á batavegi á
heimaslóðum og annar stýrimaður kominn í
hans stað, búsettur á Þórshöfn.
Nýfæddur sonur
heima á Íslandi
Meðan Þorsteinn Þorbergsson skipstjóri
beið eftir skipi sínu í Kína eignaðist hann
nítján marka son. Drengurinn fæddist seint í
júní og faðirinn sá hann fyrst í september en
hann var þá heima í rúman mánuð. Síðan hef-
ur hann ekki séð fjölskylduna fyrr en við
heimkomuna núna. Íslenskar sjómannskonur
hafa þurft að taka á þolinmæðinni og sann-
arlega hefur Bergný Birgisdóttir, sambýlis-
kona Þorsteins, ekki farið varhluta af því.
Aðspurð sagði hún þennan tíma hafa verið
erfiðan og hvorugt þeirra hjóna vill upplifa
hann aftur. Má nærri geta að fagnaðarfundir
eru hjá fjölskyldum áhafnarinnar við heim-
komuna.
Fossá fagnað
við komuna til
Þórshafnar
Morgunblaðið/Líney Sigurðardóttir
Fossá var vel fagnað við komuna til Þórshafnar í gærmorgun.
Morgunblaðið/Líney Sigurðardóttir
Þorsteinn Þorbergsson með fjölskyldunni;
Bergný Birgisdóttir, sambýliskona hans, og
litlu bræðurnir Viktor Sindri og hinn átta
mánaða gamli Gunnlaugur Berg.
Þórshöfn. Morgunblaðið.
NIÐURSTAÐA í talningu atkvæða
um nýgerðan kjarasamning milli
leikskólakennara og sveitarfélag-
anna á að liggja fyrir síðdegis á
morgun hafi öll atkvæði borist í tæka
tíð, samkvæmt upplýsingum frá
skrifstofu Félags íslenskra leik-
skólakennara í gær. Í tengslum við
samninginn var gerð sameiginleg yf-
irlýsing um að hefja viðræður við
menntamálaráðherra um reglugerð-
arbreytingar um starfsemi leikskóla.
Meðal breytinganna er að lækka á
svokallað barngildi á hvert 5 ára
barn úr 1,0 í 0,8 þannig að hver kenn-
ari mun hafa umsjón með fleiri börn-
um á þeim aldri en verið hefur.
Að sögn Bjargar Bjarnadóttur,
formanns Félags íslenskra leikskóla-
kennara, þýðir þessi breyting að
hægt verði að fjölga börnum á leik-
skólum og minnka þar af leiðandi
biðlista eftir leikskólaplássi. Talið er
að börnum gæti fjölgað um 600 í leik-
skólum á landinu öllu, án þess að
leikskólakennurum verði fjölgað, og
þá einkum 2–3 ára börnum af bið-
listum í stærri sveitarfélögunum þar
sem pláss fyrir 5 ára börnin eru yf-
irleitt fullnýtt.
Samfara breyttum stuðli fyrir 5
ára börn þurfti að breyta reglugerð-
inni varðandi heildarrými á hvert
barn í húsnæði leikskólanna, og seg-
ir Björg þá breytingu vera umdeild-
ari meðal leikskólakennara en breytt
barngildi. Í gildandi reglugerð er
miðað við 7 fermetra á hvert barn en
í samningnum er talað um 6,5 fer-
metra.
Þá er í gildandi reglugerð miðað
við lóð upp á 30–40 fermetra fyrir
hvert barn en í samningnum verður
heimilt að miða við færri en 20 fer-
metra í leikskólum í eldri hverfum
og/eða ef aldurssamsetning barna í
viðkomandi skóla gefur tilefni til
slíks. Við framkvæmd þessara
ákvæða þarf að taka tillit til að-
stæðna í hverjum leikskóla.
Gangi þessar reglugerðarbreyt-
ingar eftir munu þær gilda um alla
starfandi leikskóla í landinu, bæði á
vegum sveitarfélaga og einkaaðila.
Björg segir menntamálaráðherra
hafa tekið jákvætt í þessar breyting-
ar og verða viðræður settar á fullt,
verði kjarasamningurinn samþykkt-
ur á morgun.
Ábati fyrir alla
Karl Björnsson, formaður launa-
nefndar sveitarfélaganna, segir
breytingar á barnafjölda og húsnæði
í leikskólum einkum hafa komið til
svo að nýta megi leikskóla og starfs-
menn þeirra betur en áður.
„Þetta er verulegur ábati fyrir
alla, sérstaklega börnin. Það munar
um að geta hleypt inn 600 börnum á
fyrsta skólastigið, sem annars hefðu
verið á biðlista eða þurft að byggja
yfir, án þess að rýra gæði leikskóla-
starfsins. Enda hefur menntamála-
ráðherra tekið vel í breytingarnar.“
Fleiri 5 ára börn á
hvern leikskólakennara
Gæti þýtt
heildar-
fjölgun um
600 börn