Morgunblaðið - 21.02.2001, Qupperneq 32
UMRÆÐAN
32 MIÐVIKUDAGUR 21. FEBRÚAR 2001 MORGUNBLAÐIÐ
GUNNAR Örn
Gunnarsson skrifar
grein í Morgunblaðið
14. febrúar sl. undir
fyrirsögninni „For-
ysta“ kennara hvað?
Gunnar Örn er
menntaður íþrótta-
kennari en titlar sig
sem „fyrrverandi
kennara“. Í greininni
vegur hann að mann-
orði mínu og það
sætti ég mig ekki við.
Gunnar Örn fer
með ýmsar staðleysur
í grein sinni um þá
kjarasamninga sem
gerðir hafa verið und-
anfarin ár. Hann heldur því fram
að í kjarasamningi KÍ og HÍK við
launanefnd sveitarfélaga árið 1997
hafi falist „eftirgjöf á umsömdum
frídögum“. Þarna fer Gunnar Örn
með rangt mál. Ekki voru gerðar
neinar breytingar á starfstíma
skóla og meðallaunahækkun var
33,5%.
Ef til vill er Gunnar Örn að
rugla saman kjarasamningi þeim
sem gerður var við ríkið að loknu
fimm vikna verkfalli KÍ og HÍK
árið 1995. Þá var samið um fleiri
kennsludaga en ég kannast ekki
við nokkra „eftirgjöf á umsömdum
frídögum“ hvorki í þeim kjara-
samningi né öðrum sem ég hef
tekið þátt í að gera. Með kjara-
samningnum 1995
minnkaði hámarks-
kennsluskylda kenn-
ara úr 29 kennslu-
stundum á viku í 28
kennslustundir og
launin hækkuðu um
tæp 20%.
Gunnar Örn hefur
sér til afsökunar að
hann er ekki starfandi
kennari og byggir
væntanlega skoðun
sína á nýgerðum
kjarasamningi á sögu-
sögnum. Því tel ég
rétt að fræða hann ör-
lítið um samninginn
en hefði að vísu valið
að gera það á öðrum vettvangi en í
blöðunum. Laun hans sem íþrótta-
kennara myndu samkvæmt nýja
samningnum hækka úr kr. 134.812
á mánuði í að lágmarki kr. 173.555
1. ágúst nk. Sé miðað við meðaltal
viðbótarlaunaflokka sem eru til
ráðstöfunar í skólanum færu þau í
kr. 189.648. Í lok samningstímans
yrðu mánaðarlaunin miðað við að
Gunnar fengi að meðaltali tvo af
þessum viðbótarlaunaflokkum kr.
201.198. Hvað varðar launabreyt-
ingar hjá íþróttakennara eins og
Gunnari Erni felst ekki í þeim
nein tilfærsla á greiðslum fyrir yf-
irvinnu inn í grunnlaunin. Í nýja
kjarasamningnum er vissulega
samið um fleiri skóladaga nem-
enda en árlegur vinnutími kennara
verður áfram 1.800 klukkustundir
á ári.
Gunnar Örn sakar mig um óheil-
indi og að ég hafi í fjölmiðlum beð-
ið Guð að hjálpa kennurum yrði
samningurinn felldur vegna þess
að þá blasti aðeins við langt verk-
fall. Ég minnist þess ekki að hafa
ákallað Guð í fjölmiðlum í þessu
sambandi. Það var hins vegar og
er ennþá sannfæring mín að langt
verkfall hefði ekki skilað okkur
meiri kjarabótum en kjarasamn-
ingurinn sem nú hefur verið sam-
þykktur. Mat mitt byggi ég á
reynslunni og samanburði á kjara-
samningunum sem gerðir voru
1995 að loknu fimm vikna verkfalli,
1997 að loknu eins dags verkfalli
og nú án verkfallsátaka. Rétt er að
vekja athygli Gunnars Arnar á því
að frá árinu 1995 þar til núgildandi
kjarasamningur rennur út munu
grunnlaun grunnskólakennara
hafa hækkað um rúmlega 140% og
þess vegna sit ég ekki þegjandi
undir því að ég hafi ítrekað samið
illilega af mér.
„Forysta“
kennara hvað?
Guðrún Ebba
Ólafsdóttir
Samningar
Gunnar Örn, segir
Guðrún Ebba
Ólafsdóttir, byggir
væntanlega skoðun sína
á nýgerðum kjarasamn-
ingi á sögusögnum.
Höfundur er formaður samninga-
nefndar Félags grunnskólakennara.
MÖRGUM finnst vafalaust að
það sé að bera í bakkafullan lækinn
að skrifa um flugvallarmálið. Engu
að síður er það svo að nú, í aðdrag-
anda flugvallarkosninganna, er
tækifærið til að koma skoðunum og
sjónarmiðum sínum á framfæri. Í
umræðunni hefur oftlega komið
upp spurningin um það hvers vegna
verið sé að greiða atkvæði um málið
nú, þegar gildandi skipulag geri
ráð fyrir vellinum til ársins 2016.
Mér finnst nauðsynlegt að koma
betur til skila í umræðunni nauðsyn
þess að taka á málinu einmitt nú, en
ekki síðar.
Svæðisskipulag
Sveitarfélögin 8 á höfuðborgar-
svæðinu, Reykjavík, Kópavogur,
Hafnarfjörður, Garðabær, Mos-
fellsbær, Seltjarnarnes, Bessa-
staðahreppur og Kjósarhreppur,
hafa undanfarin ár unnið að svæð-
isskipulagi fyrir höfuðborgarsvæð-
ið allt.
Þetta er í fyrsta skipti sem gerð
er alvörutilraun til að vinna og fá
samþykkt svæðisskipulag á höfuð-
borgarsvæðinu. Með slíku skipu-
lagi, sem á að gilda til ársins 2024,
vilja sveitarfélögin móta stefnu um
þróun byggðarinnar, nýtingu lands,
meginumferðaræðar og skipulag
samgangna, þ.m.t. almenningssam-
göngur og hafnir, mörk byggðar og
útivistarsvæða, uppbyggingu versl-
unar- og þjónustukjarna, framboð á
íbúða- og atvinnulóðum og svo
framvegis. Þessi vinna er gríðar-
lega mikilvæg til að þróun svæð-
isins verði ekki tilviljunarkennd
heldur byggist á skynsamlegri nýt-
ingu lands og landkosta, meðferð
opinberra fjármuna o.fl.
33 þúsund
nýjar íbúðir
Vinnan við svæðisskipulagið er
nú á lokaspretti. Áformað var að
ljúka henni fyrir síðustu áramót en
það hefur dregist, ekki síst vegna
umræðunnar um flugvöllinn og
framtíð Vatnsmýrar-
innar. Samkvæmt áætl-
unum svæðisskipulags-
ins þarf að byggja um
33 þúsund nýjar íbúðir
á höfuðborgarsvæðinu
næstu 24 árin. Það
varðar miklu að þessari
miklu aukningu sé
skipulega fyrir komið
og kylfa verði ekki látin
ráða kasti um það hvert
byggðin stefnir. Land
er auðlind og því er
brýnt að nýtingu þeirr-
ar auðlindar sé stýrt
með hagsmuni alls al-
mennings að leiðar-
ljósi. Og engum dylst
að höfuðborgarsvæðið er allt eitt
byggðaþóunarsvæði. Fari sveitar-
félögin hvert í sína áttina getur
bara farið illa og samkeppni á
þessu sviði milli sveitarfélaganna
leiðir óhjákvæmilega til offjárfest-
ingar sem þjóðhagslega er afar
óhagkvæm. Það er ein af megin-
ástæðum þess að sveitarfélögin
vilja vinna sameiginlega að þessu
mikilvæga máli.
Vatnsmýrin skiptir sköpum
Ef byggðar yrðu um 5–6 þúsund
íbúðir á flugvallarsvæðinu þá nem-
ur það um 15–18% af
áætlaðri þörf fyrir
nýjar íbúðir á skipu-
lagstímanum. Sumir
telja jafnvel að unnt
væri að byggja enn
fleiri íbúðir á svæð-
inu. Það er því ljóst,
ekki síst vegna stað-
setningar svæðisins í
miðju borgarinnar, að
það hefur úrslitaþýð-
ingu fyrir þróun höf-
uðborgarsvæðisins
hvernig Vatnsmýrin
verður nýtt á síðari
hluta skipulagstíma-
bilsins. Af þeim sök-
um er óhjákvæmilegt
að tekin verði afstaða til þess í
svæðisskipulaginu hvort flugvöllur
verður áfram í Vatnsmýri eftir árið
2016 eða ekki. Þeirri ákvörðun er
ekki unnt að slá á frest eins og
sumir halda fram, m.a. ýmsir ráða-
menn þjóðarinnar. Enda liggur það
í hlutarins eðli að ákvarðanir í
skipulagsmálum varða að öllu jöfnu
langa framtíð. Það á í hæsta máta
við um flugvöllinn. Þegar niður-
staða í atkvæðagreiðslunni 17.
mars nk. liggur fyrir verður unnið
út frá henni og hún mun endur-
speglast bæði í tillögu að svæðis-
skipulagi nú í vor og eins í tillögu
að endurskoðuðu aðalskipulagi
Reykjavíkur síðar á árinu. Það
skipulag sem þá tekur við og mun
gilda til ársins 2024 mun að sjálf-
sögðu verða jafnbindandi um land-
nýtingu í Vatnsmýri eins og núgild-
andi skipulag er talið gera varðandi
flugvöllinn til ársins 2016. Þess
vegna ræðst það án nokkurs vafa
hinn 17. mars nk. hvort flugvöllur
verður í Vatnsmýrinni í næsta að-
alskipulagi Reykjavíkur eftir árið
2016 eða ekki.
Flugvöllur?
Hvers vegna nú?
Árni Þór
Sigurðsson
Kosningar
Óhjákvæmilegt er að
tekin verði afstaða til
þess í svæðisskipulag-
inu, segir Árni Þór
Sigurðsson, hvort flug-
völlur verður áfram í
Vatnsmýri eftir árið
2016 eða ekki.
Höfundur er formaður
skipulagsnefndar Reykjavíkur og
samvinnunefndar um svæðisskipu-
lag höfuðborgarsvæðisins.
E
inu sinni fyrir löngu,
áður en íslenskt
sjónvarp fæddist,
braut þáverandi
formaður útvarps-
ráðs gömlu Gufunnar í beinni út-
sendingu vínylplötu með dæg-
urlagi sem naut mikilla vinsælda.
Textinn var óvenju rýr í roðinu
(„Ég vild’ ég væri hænuhanagrey“
o.s.frv.) og maðurinn vildi reyna
að vinna gegn ásókn lágmenning-
arinnar sem þá var að brjótast
urrandi út úr fylgsni sínu.
Stundum er ástvinum tung-
unnar öllum lokið yfir enskudekr-
inu, þeir fyllast örvæntingu og
heift – og ráð-
ast á vind-
myllur.
Nú hefur
annar út-
varpsráðs-
maður gerst
hugprúður í
anda Don Kíkóta og ætlar að
tryggja að dægurlög sem fá að
fara til útlanda og keppa í Evró-
visjón séu ekki með útlenskum
texta. Þau eiga að vera virðulegir
merkisberar menningararfsins.
Stuðla að varanlegri dægurmenn-
ingu.
Söngvakeppnin evrópska er ljúf
samkoma sem ekki reynir
minnstu vitund á heilabúið í okk-
ur, móðgast ekki þótt henni sé
lýst þannig og er flestum gleymd
eftir viku. Við sem annars viljum
helst undirstöðubetri tónlist, t.d.
betri popptónlist en þarna er á
boðstólum eða klassíska tónlist,
höfum samt stolist til þess að
horfa frá því Íslendingar sendu
fyrst fulltrúa árið 1986.
Þegar illa stendur illa í bólið hjá
manni getur þó blaðrið, glysið og
leitin að samnefnaranum lága far-
ið svo í taugarnar á manni að
heppilegra er að slökkva og gera
eitthvað annað.
Rjómatertur eru stútfullar af
eggjum og smjöri, skreyttar dí-
sætum ávöxtum, konfekti og ann-
arri óhollustu og okkur finnst
þetta gott. Ummmm! Einstaka
sinnum. En auðvitað dettur ekki
mörgu fullvöxnu fólki í hug að lifa
á svona fæði til langframa.
Þannig eigum við að líta á uppá-
komur eins og söngvakeppnina.
Einhverjir í áheyrendaskaranum
eru vafalaust sannir aðdáendur
tónlistarinnar og þátttakendur
taka þetta sumir alvarlega, þeir
eiga hagsmuna að gæta. Þeir vilja
vinna, verða kannski ríkir og
frægir. Og þetta er stundum full
atvinna þeirra sem er ekkert
verra en að vera til dæmis nudd-
ari eða skrifa pistil í blað í stað
þess að rita nýja Njálu.
En langflestir líta á þetta eins
og hverja aðra skemmtun sem
ekki ristir djúpt og á ekkert að
gera það frekar en nothæfur
fimmaurabrandari. Varla dettur
nokkrum í hug að hann sé út af
fyrir sig efni í doktorsritgerð en
hann hefur sitt hlutverk í lífinu.
Hvers vegna syngja flestir á
ensku í keppninni? Vegna þess að
hampaminnst er að sungið sé á
tungumálinu sem allir eru orðnir
vanir að sé notað í þessari tónlist.
Á sama hátt og latína er notuð
þegar ný lyf fá heiti. Ef tungu-
málið í lagatextanum er of fram-
andlegt truflar það áheyrendur, á
sama hátt og smámæli eða
skringileg rödd getur í fyrstu leitt
athyglina frá því sem verið er að
segja þegar við hittum mann í
fyrsta sinn.
Öll kunnum við, fjandvinir
Evró, nú að segja einn, tveir, þrír
og fjórir og gott kvöld á frönsku
eftir margra ára þjálfun. En samt
vitum við að enskan er eðlilegasti
hlutur í heimi á þessum vettvangi
og ekkert við því að segja þótt ís-
lenskir popparar vilji fá að keppa
á jafnréttisgrundvelli við hina.
Misskilningur þeirra sem fárast
yfir enskum texta við íslenskt lag
er einmitt að þeir halda að um
rammíslenskt framlag sé að ræða.
En almennileg popptónlist er
óþjóðleg.
Evróvisjónlögum er ekki ætlað
aðstyrkja grundvöll þjóðlegrar
menningar frekar en pulsuáti er
ætlað að efla heilsuna og gera
okkur kleift að vinna hetjudáðir.
Þau eru bara afþreying, eins og
pulsan er bara skyndibiti. Ef ein-
hverjir vilja lifa einvörðungu á
skyndibita gera þeir það, hvað
sem næringarsérfræðingar segja.
Ef fólk vill fremur hlusta á dæg-
urlög með texta á ensku en ís-
lensku mun það einnig gera það.
Útvarpsráð vill nú troða ís-
lenskri Birtu inn í dimm sál-
arkynni Evrósöngvaneytenda og
hefur greinilega aldrei lagt á sig
að fylgjast með eins og einni
keppni í sjónvarpinu. Hver verða
nær undantekningalaust örlög
þeirra fulltrúa ókunnra smáþjóða
sem reyna að nota tækifærið til að
kynna eigin tungu í lögunum?
Þeir fá falleinkunn, því miður,
með einstaka undantekningum er
þetta reglan. Vegna þess að neyt-
endurnir eru alls ekki að biðja um
rjómatertu með harðfisk- eða há-
karlsbotni. Þeir vilja það sem þeir
kannast að minnsta kosti við og
helst eitthvað mjög sætt sem
hægt er að kyngja í snatri og þarf
ekkert að tyggja.
Ef reynt verður að beita valdi
til að breyta afþreyingarléttmeti í
eitthvað annað en það er, gera það
tormelt, getur farið illa. Almenn-
ingur sættir sig allajafna við að
gildi varanlegu menningarinnar
hafi forgang á afþreyinguna og
borgar möglunarlaust þann hluta
skattanna sem við notum til að
halda uppi grundvallarþáttum
eins og íslenskri sinfóníuhljóm-
sveit og þjóðleikhúsi. Við sem álít-
um þetta nauðsynlegt erum í
minnihluta og sannast sagna er
ekki auðvelt að útskýra sann-
girnina í því að hinir borgi sinn
skerf af kostnaðinum. Vonandi
dettur aldrei nokkrum í hug að
láta úrskurða í þjóðaratkvæða-
greiðslu hvort ríkið eigi yfirleitt
að styrkja listir og menningu af
almannafé. Niðurstaðan gæti orð-
ið ískalt bað fyrir oss hina.
En ef kjörnir valdhafar ráðsk-
ast of mikið með dægurmenn-
inguna og heimta að hún verði
endingargóð og þáttur í varn-
arbaráttunni gegn umheiminum
stóra er of langt gengið. Menning-
arvaldhafar sem ætla að tjóðra
dægurlög við eigin smekk og rétt-
hugsun geta alveg eins reynt að
mæta á skíðum í veislusali Evró-
visjón í Kaupmannahöfn.
Dægurlag
í tjóðri
Evróvisjónlögum er ekki ætlað að
styrkja grundvöll þjóðlegrar menningar
frekar en pulsuáti er ætlað að efla
heilsuna og gera okkur kleift að
vinna hetjudáðir.
VIÐHORF
Eftir Kristján
Jónsson
kjon@mbl.is