Morgunblaðið - 24.04.2001, Síða 43
UMRÆÐAN
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 24. APRÍL 2001 43
SÍÐAN ég skrifaði
grein mína um bið eftir
heyrnartækjum og
tekjuafgang ríkissjóðs
hafa nokkrar greinar
verið skrifaðar hér í
Morgunblaðið um mál-
ið. Er lítið á þessum
greinum að græða
nema hvað grein Birgis
Áss Guðmundssonar,
forstjóra Heyrnar- og
talmeinastöðvar Ís-
lands, greindi frá ýms-
um staðreyndum um
málið samkvæmt ósk
minni.
Það er afleitt að
Sjálfstæðisflokkurinn skuli komast
upp með átölulaust að ríkissjóður
haldi að sér höndunum með fjárveit-
ingar til þessara mála. Það eru hrein
lögbrot. Í lögum um Heyrnar- og tal-
meinastöð Íslands segir að stofnunin
skuli annast hverskonar þjónustu við
heyrnarskerta t.d. prófun og úthlut-
un heyrnartækja og annast útvegun á
tækjum fyrir heyrnarskerta og mál-
halta sem yfirlæknir úrskurðar nauð-
synleg og úthluta þeim samkvæmt
gjaldskrá.
Í reglum um þátttöku ríkisins í
kostnaði vegna hjálpartækja fyrir
heyrnarskerta segir í 1. grein: Allir
landsmenn skulu eiga rétt á heyrn-
artækjum. Allt virðist gert til þess að
hindra framkvæmd þess sem lögin
segja fyrir um. Fyrsta hindrunin er,
að koma á fót stofnun sem samkvæmt
ummælum forstjóra hennar er engan
veginn í stakk búin til að sinna verk-
efninu. Síðan er sett
önnur hindrun með því
að láta fólk bíða 3–4
mánuði eftir að komast í
skoðun þótt fyrir liggi
vottorð eyrnalæknis um
að heyrnartæki sé
nauðsynlegt. Þegar úr-
skurður stofnunarinnar
liggur loks fyrir er sett
upp þriðja hindrunin
með því að bera því við
að ekki séu peningar
fyrir hendi til að kaupa
tækin og verða menn að
bíða enn í 9–10 mánuði
eftir tækjum.
Það er ekki furða
þótt ríkisstjórnin geti sýnt góða af-
komu ríkissjóðs ef þetta ásamt fleiru
þvílíku er grunnurinn að tekjuaf-
ganginum. Svo kemur fjármálaráð-
herra eins og álfur út úr hól og segist
ekki vita hvað hann eigi að gera við
allan þennan tekjuafgang. En það eru
ekki Davíð og Geir sem eru sökudólg-
arnir í þessu máli, þeir eru aðeins peð
í valdatafli auðmannaklíkunnar sem
stjórnar Sjálfstæðisflokknum og
stjórnar landinu. Það er ekki í hennar
þágu að aldraðir og sjúkir fái heyrn-
artæki sem þeir eiga heimtingu á
samkvæmt lögum.
Þessu ófremdarástandi
verður að ljúka
Gamla fólkið á stóran þátt í uppeldi
barnanna. Það er ekki stætt á því að
gera afa og ömmu illfært að sinna
þessu hlutverki ef ekki fást heyrnar-
tæki fyrr en eftir dúk og disk. Flest
gamalt fólk er meira eða minna
heyrnarskert og því er mikill vandi á
höndum þegar það þarf að gæta
barnabarnanna. Slíkt getur valdið
slysum og ekki er heyrnardauft fólk
óhult í umferðinni. Er þá ótalið
hversu hvimleitt er að geta ekki tekið
þátt í samræðum vegna heyrnar-
deyfu.
Það er með ólíkindum hve ríkis-
stjórninni hefir tekist að hindra það
að fólk fái heyrnartæki. Hinn langi
tími sem líður, allt á annað ár eins og
að framan segir, þar til tækin fást,
gerir að verkum að svo fari í mörgum
tilfellum að tækin duga alls ekki þeg-
ar þau loks koma vegna þess að
heyrnardeyfan hefir aukist og við-
komandi verður að byrja ferlið á ný:
Bíða í 3–4 mánuði eftir nýrri skoðun
hjá Heyrnar- og talmeinastöðinni og
síðan 9–10 mánuði þar til ríkisstjórn-
inni þóknast að reiða fram fé til kaup-
anna.
Allur þessi skrípaleikur er svo yf-
irþyrmandi að óskiljanlegt er. Sam-
kvæmt lögum er skipuð 7 manna
stjórn Heyrnar- og talmeinastöðvar
Íslands og er Jóhannes Pálmason for-
maður skipaður af ráðherra. Þessi
nefnd er launuð og kemur að jafnaði
saman mánaðarlega. Ekki efa ég að
stjórnin og allt starfsfólk stöðvarinn-
ar gerir allt sem það getur til að flýta
afgreiðslu heyrnartækja. Sannleikur-
inn er sá að hægt er að útvega öllum
sem nú bíða, tæki innan eins mánaðar
því bið hjá framleiðendum er engin.
Ráðherrarnir 10 hafa
85 milljónir tiltækar
Það eru margar leiðir til að koma
þessu í kring. Það myndi ekki þykja
stór glæpur þótt ákveðið yrði að fara
28 milljónir fram úr fjárhagsáætlun
þeirri sem ætluð er Heyrnar- og tal-
meinastöðinni á þessu ári. Davíð hef-
ur góða æfingu í að fara fram úr fjár-
hagsáætlunum hins opinbera svo
nemur hundruðum milljóna. Einföld
lausn er einnig að allir ráðherrar nú-
verandi ríkisstjórnar tækju sig sam-
an og létu eftir 28 milljónir af þeim 85
milljónum sem þeir hafa til samans í
umþóttunarfé árlega. Tilvalið að Ingi-
björg Pálmadóttir riði á vaðið í þessu
máli og byrsti sig aðeins við samráð-
herra sína. Ráðherrarnir hefðu samt
57 milljónir til eigin umþóttunar.
Einnig væri hægt að lýsa yfir
hættuástandi vegna aðgerðaleysis og
ákveða þegar í stað aukafjárveitingu
til þess að allir sem nú bíða eftir
heyrnartækjum fái þau þegar í stað.
Sú aukafjárveiting þyrfti að nægja til
þess að allir sem bíða eftir skoðun hjá
Heyrnar- og talmeinastöðinni komist
að innan eins mánaðar.
Þegar ég var að ljúka við þessa
grein barst mér í hendur Fréttabréf
Heyrnarhjálpar 1. tbl. mars 2001. Þar
er þessum málum gerð nokkur skil og
sagt frá að heilbrigðisráðherra hafi
falið Jóhannesi Pálmasyni stjórnar-
formanni HTÍ að vinna að útfærslu
eftirtalinna mála:
1. Að undirbúa í samvinnu við heil-
brigðis- og tryggingaráðuneytið
frumvarp til nýrra heildarlaga um
Heyrnar- og talmeinastöð Íslands í
stað laga nr. 35 frá 1980.
2. Að undirbúa gerð árangurs-
stjórnunarsamninga heilbrigðis- og
tryggingaráðuneytis og Heyrnar- og
talmeinastöðvar Íslands.
3. Að endurskoða núverandi
stjórnskipulag og starfsmannahald
Heyrnar- og talmeinastöðvar Ís-
lands.
4. Að vinna tímasetta fram-
kvæmdaráætlun sem miðar að því að
stytta biðlista og meta kostnað við
það verkefni.
Þessu verkefni á að ljúka á sex
mánuðum frá miðjum desember að
telja. Ekki kemur fram hvort hér er
átt við desember 2000 eða 2001.
Hvort sem er, er það of seint. Hér er
hættuástand sem verður að takast á
við strax. Hinsvegar er ekkert nema
gott um það að segja að þetta verk-
efni verði unnið en verður að vera
þannig útfært að í framtíðinni komi
ekki til myndunar biðlista eftir
heyrnartækjum.
Það er kominn tími til að kippa
þessum málum í lag. Það er smán-
arblettur á íslensku þjóðinni að láta
ríkisstjórnina komast upp með
hermdarverk gegn öldruðum og sjúk-
um. Félag aldraðara ætti að láta til
sín taka í þessu máli, hætta bæna-
skrám og láta vita að nú er sé nóg
komið.
Hindrunarhlaup Sjálfstæðis-
flokksins fyrir heyrnarskerta
Halldór Jakobsson
Heyrn
Það er smánarblettur á
íslensku þjóðinni, segir
Halldór Jakobsson, að
láta ríkisstjórnina kom-
ast upp með hermdar-
verk gegn öldruðum
og sjúkum.
Höfundur er fyrrverandi forstjóri.
TALSMENN LÍÚ
hafa birt í fjölmiðlun
greinar, til að leiða al-
menning inn á það að
hlutaskiptakerfi það,
sem sjómönnum er
greitt eftir, sé gamalt
og úrelt.
Þeir benda á þau
rök, að ef fækkað er í
áhöfn ber áhöfnin
meira úr býtum, en
hjá þeim er kostnaður
bara meiri.
Þetta telja þeir að-
alorsökina, að ekki er
hægt að endurnýja
flotann eða auka
tæknivæðingu þeirra.
Sjómenn eru tilbúnir að ræða
þessi mál, sem og önnur samninga-
mál.
Þessi söngur útgerðarmanna er
ekki nýr af nálinni. Hann hefur
heyrst allar götur síðan hin raun-
verulega tæknibylting hófst eftir
seinna stríð.
Einn söngur þeirra er um laun
skipstjóra á nótaveiðum. Það væri
fróðlegt að rifja það upp hvernig
þróun þeirra launa hefur orðið.
Fyrir sjötta áratugnum var sú
tilhögun, að sá sem stjórnaði veið-
unum var ekki skipstjórinn, heldur
maður sem hafði kunnáttu þar um
og var kallaður bassi og laun þess-
ara manna aðskilin.
Á sjötta áratugnum breyttist
þetta í þá veru að skipstjórinn tók
að sér bassahlutverkið.Við þá
breytingu jukust laun skipstjóra
upp í það að vera 12% af brúttó-
verðmæti af aflanum.
Útgerðarmenn voru fljótir að
koma skipstjóra niður í 8% af
brúttóverðmæti en aldrei minna en
tvo hásetahluti. En þá var háseta-
hluturinn um 4%.
Í upphafi sjöunda áratugarins
hófst nú tæknibylting. Kraftblökk-
in og asdic-tæki voru sett í bátana.
Hér varð allmikil bylting í síldveið-
unum.
Skipum var breytt og ný skip
smíðuð, sem hentuðu
hinni miklu þróun. Út-
gerðarmenn kröfðust
að sjómenn tækju þátt
í að fjármagna bylt-
inguna.
Þeim varð að ósk
sinni. Laun skipstjóra
lækkuðu í 6,4% af
brúttóverði og aðrir
sjómenn í hlutfalli við
það.
Nú hófst grátur út-
gerðarmanna fyrir al-
vöru og var þá ekki
bundinn við nótaskip-
in heldur allan flot-
ann. Hver sjóðurinn af
öðrum spratt upp. Sjóðir til að
styrkja útgerðarmenn, t.d. má
nefna Stofnfjársjóð fiskiskipa, sem
var til að greiða af lánum, sem voru
fengin til að fjármagna nýsmíði og
endurnýjun.
Eitt var sameiginlegt með þess-
um sjóðum að fjármagn til þeirra
var greitt af óskiptu brúttóverð-
mæti afla. Skiptaverðmæti var það,
sem eftir stóð.
Um miðjan áttunda áratuginn
var mælirinn fullur. Með verkfalls-
aðgerðum hófst mikil rimma, sem
endaði með því að ríkisstjórnin
áhvað að fara í saumana á þessu
sjóðasukki.
Niðurstaðan var sú að fjöldi
sjóða minnkaði, en niðurstaðan er
eins og hún er í dag.
30% af brúttóverðmæti er tekið
af óskiptu, sem fer í að greiða olíu,
tryggingar o.m.fl. Hlutur áhafnar
um 40% af skiptaverði, sem eru í
raun 28% af brúttóverðmæti skipa.
Til þess að klára dæmið um skip-
stjórahlut nótaskipa stendur það í
6,4% af skiptaverðmæti, eða 4,48%
af brúttóverðmæti. Í stuttu máli
hefur hlutur hans farið úr 12% nið-
ur í 4,48% á þessu umrædda tíma-
bili.
Á öðrum skipum er skipstjóra-
hluturinn talsvert minni, en það er
enn meiri raunasaga að segja frá
því. Hann hefur tekið mið af há-
setahlut en er ekki föst prósenta.
Hásetahluturinn var 1960 4% af
brúttóverðmæti en er nú um 2% af
skiptaverðmæti, sem þýðir 1,4% af
brúttóverðmæti. Skipstjórinn hef-
ur því farið úr 8% niður í tæp 3%.
Þarna er vissulega talsverður
mismunur á nótaskipstjórum og
öðrum skipstjórum, enda hafa út-
gerðarmenn sífellt verið að kyrja
um það.
Ef einhverrar breytingar er þörf
væri það að skipstjórahlutur á t.d.
frystitogurum yrði hærri. Þeirra
vinnuálag hefur margfaldast síð-
ustu ár. Vinna þeirra byggist ekki
einungis á siglingum og veiðiskap,
heldur stýra þeir stóru frystihúsi.
Og stýrimenn eru orðnir verkstjór-
ar frystihússins með tilheyrandi
vinnu og skýrslugerðum, til viðbót-
ar veiðiskapnum. Vélstjóraálagið
hefur aukist vegna keyrslu frysti-
búnað sem og vinnsluvéla.
Því ætti krafa útgerðarmanna
um lægri laun nótaskipstjóra að
snúast í þá veru að laun annarra
skipstjóra, sem og annarra sjó-
manna, ættu að hækka.
Af þessu leyti er ég sammála
stjórn LÍÚ, um að hlutaskiptakerf-
ið er úrelt.
Um áramót var samningaaðilum
LÍÚ boðið upp á það, að leysa
samningamálin með því að semja
um fjögur atriði og samningstíma-
bilið yrði stutt.
Samninganefnd sjómanna taldi
það rétt að tími mundi vinnast til
að skoða önnur mál. Samninga-
nefnd LÍÚ svaraði þessu tilboði
með því að segja að ef samningar
kostuðu útgerðina eitt gaddað sent
væri ekki grundvöllur til samninga.
Eins og gefur að skilja var þetta
ein köld vatnsgusa framan í samn-
inganefnd sjómanna.
Því er staðan komin á það stig að
allt er í hnút, og verkfall.
LÍÚ
Hvaða skammstöfun er þetta?
Jú, það þýðir Landssamband ís-
lenskra útvegsmanna.
Samkvæmt lögum fer atkvæða-
vægi félagsmanna eftir skipaeign
og stærð skipa, sem þýðir að
fulltrúar stóru sjávarútvegsfyrir-
tækjanna hafa yfir að ráða marg-
földu vægi, miðað við hinn dæmi-
gerða útgerðarmann.
Mikil óánægja fylgir þessu og
má sjá það, að klofningur innan
LÍÚ er alltaf að aukast. Eigendur
minni útgerða eru sífellt að ganga
út úr samtökunum og stofna ný
félög. Þeir vilja meina að LÍÚ sé
hætt að vinna fyrir þá.
Ég er minnugur þess, að áður
sátu útgerðarmenn og sjómenn
hlið við hlið, þegar unnið var að
verðlagsmálum, auk þess studdu
þeir þær aðgerðir sjómanna, þegar
þeir sigldu í land til að mótmæla
fiskverði. Þeir sem eru nú allsráð-
andi í sambandinu eru hinum meg-
in við borðið og slagurinn snýst um
verðlagningu fisks.
LÍÚ er orðið úrelt
Sambandið er orðið málpípa
„stóru sjávarútvegsfyrirtækj-
anna“. Fyrirtækja sem hafa sótt
sitt hlutafé í sparifé landsmanna og
lífeyrissjóði þeirra. Veðheimild á
veiðikvóta hefur svo gert þeim fært
að afla lánsfjármagns frá banka-
stofnunum til frekari kvótakaupa.
Ársuppgjör þessara fyrirtækja
eru nú hvert af öðru að líta dagsins
ljós. Flest eru rekin með tapi og
skuldastaða fer hríðversnandi.
Síðasta von þeirra beinist nú að
sjómönnum. Nú skal ná til launa
þeirra á einn eða annan hátt.
Fækka réttindamönnum, rústa
hlutaskiptakerfinu og lækka laun
þeirra sem eftir verða. Á meðan
situr hinn raunverulegi útgerðar-
maður úti í horni og bíður óþreyju-
fullur eftir því hvað verða vill. Láir
honum það nokkur? Hann skilur
ekki þá vitleysu, sem hann er
flæktur í. Hann ígrundar það hvort
hann geti ekki sjálfur samið við
sína menn og haldið til róðra nú
þegar.
Ég tel að forustumenn sjó-
mannasamtakanna ættu að skoða
það mál, hvort sú leið sé ekki fram-
kvæmanleg. Og láta samninga-
nefnd LÍÚ sigla sinn eigin sjó.
Grátur og táraflóð stjórnar LÍÚ
er orðið úrelt.
Úrelt
Ingvi R. Einarsson
Kjaradeila
Þeir sem eru nú allsráð-
andi í sambandinu, segir
Ingvi R. Einarsson, eru
hinum megin við borðið
og slagurinn beinist að
verðlagningu fisks.
Höfundur er skipstjóri.
verslunarmiðst. Eiðstorgi,
sími 552 3970.
Stretchbuxur
St. 38–50 - Frábært úrval