Morgunblaðið - 24.04.2001, Síða 56
56 ÞRIÐJUDAGUR 24. APRÍL 2001 MORGUNBLAÐIÐ
KÆRI Magnús Orri, nú neyðist ég til
þess að senda þér bréfkorn, vegna
þess hve erfitt er að ná sambandi við
þig. Þú ert ýmist veikur, ekki við eða
upptekinn í síma, og að auki svo um-
kringdur af bifreiðum þarna uppi í
Lynghálsi, að fótfúnum manni einsog
mér er algjörlega ófært að nálgast þig
á skrifstofu þinni. Þar við bætist að
ekki þýðir að biðja símadömurnar að
koma til þín skilaboðum. Annaðhvort
færð þú þau ekki, eða vilt ekki tala við
mig.
Hrakist á milli hljómplötu-
útgefenda í 10 ár
Upphafið var það, að þegar ég nálg-
aðist sjötugsaldurinn, fékk konan mín
blessuð þá hugmynd að gaman væri
nú að gefa út disk – eða diska – með
söng mínum. Þessari hugmynd kom
hún á framfæri við vin minn og félaga,
Þorstein Hannesson, söngvara, sem
var ennþá hjá RÚV. Þorsteinn brást
skjótt við, ræddi við útvarpsstjóra,
Markús Örn Antonsson, sem tók hug-
myndinni mjög vel. Þorsteinn samdi
síðan við þá aðra, sem áttu rétt á
þóknun fyrir flutninginn – söngvara,
píanóleikara og Sinfóníuhljómsveit-
ina – um að þeir gæfu eftir sinn hluta.
Nú átti að gleðja gamla manninn! Að
vísu var ekki samið við Karlakór
Reykjavíkur um þeirra hlut, því þeir
höfðu gefið út Hrausta menn og
margt fleira, án þess að þeim dytti í
hug að greiða mér eyri fyrir minn þátt
í þeim útgáfum. – Skítt með það.
RÚV samdi síðan við Steinar hf.
um að þeir gerðust samstarfsaðilar að
þessari útgáfu, en RÚV léti þeim í té
fullbúin segulbönd – að mig minnir –
yfir 80 sönglögum, aríum, tvísöngvum
o.s.frv. Þetta fékk fyrirtækið Steinar
hf. ókeypis að ég best veit.
Fyrirtækinu var síðan skylt að
semja við mig um þóknun. Það datt
þeim aldrei í hug en vísuðu á RÚV,
sem hafði ekkert með það mál að
gera.
Steinar hf. gáfu síðan út 4 diska –
hver þeirra var í 500 eintökum, sam-
tals urðu þetta 2000 diskar. Þegar ég
fór að ræða um samning við vin minn
Steinar Berg, sagði hann mér að
fyrstu 500 eintökin væru undanþegin
þóknun til flytjenda, að mér skildist
vegna upptökukostnaðar í dýrum
„stúdíóum“. Ekki áttaði ég mig á
þessari vizku þar sem ég vissi ekki
betur en að þessi hluti útgáfunnar
hefði verið framlag RÚV. Þá var mér
talin trú um að umbúðir og smápési
með efnisskrám og afmæliskveðjum
frá tveimur vinum mínum hefðu vald-
ið miklum aukakostnaði. Þetta hafði
ég aldrei áður heyrt hjá fyrri útgef-
endum, Svavari Gests og Haraldi í
Fálkanum.
Ég er að eðlisfari heldur latur, og
hef aldrei þjáðst af græðgi, svo þetta
varð að smá „jagi“ milli okkar Stein-
ars í nokkur ár.
Loks var fyrirtækið Steinar hf. lagt
niður af einhverjum ástæðum og þá
tók við annað fyrirtæki, sem ég held
að hafi aðallega verið í eigu Skífunn-
ar. Þetta var „Spor“ – niður á við – í
átt til Skífunnar. Einhverntíma datt
mér í hug að biðja vin minn Jónatan
Garðarsson, hinn mætasta mann, að
útvega mér samninginn, sem RÚV
hafði gert við Steinar hf. á sinni tíð.
Hann lofaði því, en einhver kom í veg
fyrir að ég fengi að sjá þann samning.
Hins vegar fékk ég sendan heim ann-
an samning. Það var samningur sem
ætlast var til að ég skrifaði undir. Ég
á hann enn, og mig minnir að Steinar
Berg hafi sett nafnið sitt undir hann. Í
þessum samningi stóð ég á stóru 0.
Loks hrapaði ég niður
til Skífunnar
Hér er loks komið að þér, Magnús
minn Orri. – Þá lenti ég í höndunum á
þér, því miður. Síðan hefi ég verið í
stökustu vandræðum. Ég bað þig um
að komast að því fyrir mig, hve mikið
hefði verið framleitt af diskunum áð-
urnefndu – og diskum með dægurlög-
um sem Svavar Gests hafði gefið út
mörgum árum áður. Steinar hf. eða
Spor höfðu keypt réttinn af Svavari.
Sá diskur var gefinn út undir heitinu
Lax, lax, lax. Þetta ætlaðir þú að at-
huga fyrir mig, en þegar ég spurði um
árangurinn hafðir þú ekki haft tíma til
að kanna málið. Ég er svo sem ekkert
að kippa mér upp við það frekar en
vant er.
Hitt þykir mér hundleiðinlegt hvað
þú hefur lélegan bókhaldara í vinnu.
Hann hefur hvað eftir annað ruglað
mér saman við nafna minn Guðmund
Jónsson í „Sálinni hans Jóns míns“
eða hvað hópurinn heitir. Ég man
ekki hvort það var fyrir eða eftir sl.
áramót að ég fékk ávísun frá Stefi upp
á að mig minnir rúmlega 160 þúsund
krónur. Ekki þóttist ég eiga þá pen-
inga og skilaði þeim aftur til Stefs.
Þar kom í ljós að nafni minn í „Sál-
inni“ átti þessa peninga. Aftur fékk ég
ávísun frá Stefi, eitthvað lægri en sú
fyrri var. Þar rak ég augun í það að ég
átti rétt á texta við eitt lagið.
Þessar greiðslur eru fyrir flutning í
útvarpi erlendis. Þær eru sendar
Stefi til úthlutunar. Þær eru til höf-
unda laga og texta. Stúlkurnar í Stefi
vildu endilega greiða mér það sem ég
átti. Ekki man ég hvort það voru 131
eða 113 krónur. Enda skiptir það
engu.
Allt fram að því að þið tókuð við
mér (eða tókuð mig), hafði ég verið að
fá þetta 200–500 krónur á ári fyrir
þennan flutning erlendis, en eftir það
ekkert. Það skiptir heldur engu máli.
Þessar greiðslur eru byggðar á upp-
lýsingum frá ykkur um hver sé eig-
andi réttar á lögum og textum á disk-
um sem þið gefið út.
Heldurðu ekki, Magnús minn Orri,
að bókhaldið sé heldur báglegt hjá
þér? Það hlýtur að vera a.m.k. skraut-
legt!
Að lokum: Ég man ekki eftir því að
þið hafið greitt mér 1.800 kr. í fyrra,
en þið senduð mér seðil vegna skatts-
ins eftir að ég hafði skilað skatt-
skýrslu. Tók ég við greiðslu, eða lögð-
uð þið hana inn á bankabókina mína?
Seðillinn barst í pósti eftir að ég átti
að skila skýrslunni (eftir síðasta skila-
dag). Það eru léleg vinnubrögð.
Nú hefi ég fengið tilkynningu um
að ég eigi inni 808 krónur fyrir Lax,
lax, lax. Þið megið eiga aurana, og ég
krefst þess að þið hafið engin afskipti
af mér framvegis. Þar með að ég tek
ekki við neinum greiðslum frá ykkur í
framtíðinni. Mér leiðist að eiga skipti
við fólk eins og ykkur.
Ég gæti farið í fýlu og því nenni ég
ekki.
Þinn einlægur
GUÐMUNDUR JÓNSSON
söngvari.
P.s. Ég hef haft svolítið gaman af
því að skrifa þetta bréf. Það bætir
skapið mikið. G.J.
Kæri Magnús Orri
Frá Guðmundi Jónssyni:
BRÉF
TIL BLAÐSINS
Kringlunni 1 103 Reykjavík Sími 569 1100 Símbréf 569 1329
Allt efni sem birtist í Morgunblaðinu og Lesbók er varðveitt í upplýsinga-
safni þess. Morgunblaðið áskilur sér rétt t i l að ráðstafa efninu þaðan, hvort
sem er með endurbirtingu eða á annan hátt. Þeir sem afhenda blaðinu efni
ti l birtingar teljast samþykkja þetta, ef ekki fylgir fyrirvari hér að lútandi.