Morgunblaðið - 12.09.2001, Blaðsíða 10

Morgunblaðið - 12.09.2001, Blaðsíða 10
FRÉTTIR 10 MIÐVIKUDAGUR 12. SEPTEMBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ TVEGGJA daga opinberri heimsókn Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands til Norður-Þingeyjarsýslu lauk í gærkvöldi með fjölskyldusamkomu í félagsheimilinu Þórsveri. Breyting varð á fyrirhugaðri dag- skrá; í stað samkomu frá kl. 20 til 22 í Þórs- veri var gert hlé á henni um kl. 21 og fór Ólafur Ragnar þá í bænastund hjá séra Sveinbirni Bjarnasyni í Þórshafnarkirkju vegna atburðanna í Bandaríkjunum í gær. Að henni lokinni fór forsetinn aftur á sam- komuna í Þórsveri og lauk henni um kl. 22 eins og fyrirhugað var. Dagskrá gærdagsins hófst með heimsókn forseta og fylgdarliðs hans í Grunnskólann á Raufarhöfn, þar sem nemendur sungu fyrir gestina og Ólafur Ragnar spjallaði við þá drjúga stund. Spurði m.a. hvort þeir væru mikið í fótbolta og þá vantaði ekki svörin. „Við kepptum í Ásbyrgi og unnum og í fyrra líka,“ sagði einn drengjanna. „Hverjir eru bestir,“ spurði forsetinn þá. „Liverpool, Liv- erpool, Manchester...“ ómaði um stofuna og ljóst að áhuginn á ensku knattspyrnunni er ekki minni á Raufarhöfn en annars staðar. „Með hverjum heldur þú?“ spurði þá einn snáðinn og Ólafur sagði: „Þú ert alltaf að spyrja mig erfiðra spurninga.“ Kannaðist við hann frá því á fjölskylduhátíðinni kvöldið áður. Svaraði svo í samræmi við að þar fer fyrrverandi nemandi við háskólann í Man- chester: „Ég held með Manchester United,“ sagði Ólafur Ragnar og það fór misjafnlega í ungu drengina. Líklega er ofmælt að baulað hafi verið á forsetann en sumir urðu súrir á svip, aðrir fögnuðu. Forsetinn spurði þá með hvaða liði þeir héldu í úrvaldsdeildinni. „Austra,“ sögðu nokkrir í einu en einn dró í land og sagði: „Nei, við æfum með Austra.“ „Má ég koma á rúntinn á forsetabílnum?“ spurði þá skyndlega einn og beindi um- ræðunni inn á nýjar brautir. Næst var fisk- verkunarhús Jökuls á Raufarhöfn heimsótt, þá tölvufyrirtækið Netver og einmitt á með- an forseti staldraði þar við og ræddi við tvær konur sem sinntu símsvörum hringdi síminn: „Seðlabankinn, góðan dag,“ svaraði önnur en þegar hringt er í þá ágætu stofnun er einmitt ætíð svarað á Raufarhöfn. Svona er nútímatæknin skemmtileg. Því næst var haldið yfir í Svalbarðshrepp og fyrst komið við á bænum Sveinungsvík þar sem Gunnar Guðmundarson bóndi sýndi gestum bæði heimarafstöð sína og rekavið- arvinnslu. Heimsókn í Svalbarðskirkju var næst á dagskrá, síðan hrútasýning í fjárhús- unum við bæinn þar sem Ólafur Vagnsson ráðunautur og fólk á hans vegum var að meta veturgamla hrúta, m.a. með ómsjá; verið var að velja hrúta til undaneldis. Það- an var gengið stuttan spotta að Svalbarðs- skóla, þar sem nemendur skemmtu gestum með söng og upplestri og síðan var þar reiddur fram hádegisverður. Friðsælt og öruggt samfélag Frá Svalbarði var ekið til Þórshafnar, þar sem fyrst var komið við í kirkjunni. Þar tóku Magnús Már Þorvaldsson sveitarstjóri og sóknarpresturinn, Sveinbjörn Bjarnason, á móti gestum og síðan flutti Þuríður Vil- hjálmsdóttir óperusöngkona tvö lög, annað við undirleik Helgu Bryndísar Magnúsdótt- ur. Leiðin lá síðan í Grunnskólann á Þórs- höfn, þar sem Ólafur Ragnar ávarpaði nem- endur og kennara, en á leiðinni frá Svalbarðsskóla til Þórshafnar fengu forseti og fylgdarlið hans fréttir af hryðjuverk- unum í Bandaríkjunum. „Atburðir dagsins leiða enn í ljós hve dýr- mætt það er að búa í þessu landi. Hvað við erum lánsöm að geta gengið örugg um byggðarlagið okkar, verið með félögum okk- ar, sótt skólann án þess að þurfa að búa við ótta og óöryggi eins og fólk gerir víða um veröldina,“ sagði Ólafur m.a. í ávarpi sínu. Hann sagði fólk skynja það á stundum sem þessari hve mikil gæfa það væri að eiga þetta samfélag, „og hvað það er mikilvægt vegarnesti fyrir okkur öll, hvað sem við ger- um síðar í lífinu, að hafa kynnst því friðsæla og örugga samfélagi sem við Íslendingar njótum. Það er kannski einkum og sérílagi í sjávarþorpunum og sveitabyggðunum allt í kringum landið sem við skynjum best þessa nálægð, þessa samkennd og þetta öryggi.“ Hann sagði við börnin að þau myndu örugg- lega þakka guði og gæfunni fyrir það síðar á lífsleiðinni að eiga slíkt land og eiga slíkar rætur. „Skólakerfið hjá okkur Íslendingum hefur líka verið öflugur vettvangur til þess að festa þessar hefðir í sessi. Það er einmitt í skólanum, eins og skólanum ykkar, sem við kynnumst því hvernig við vinnum með öðr- um, hvernig við virðum skoðanir hvers ann- ars, hvernig við metum félaga okkar og vini, hve samskipti við aðra eru okkur mikils virði þegar við höfum það sem veganesti út í lífið. Það er einmitt líka í skóla eins og ykk- ar sem hægt er að líta á nálægðina við nátt- úruna og umhverfið til þess að byggja námið og fræðsluna á nánum samskiptum við þá sem stunda sjóinn eða eru til sveita og læra þannig strax í æsku samhengið í mannlífinu og náttúrunni og hvernig við öll í raun og veru erum hluti af einni samfelldri lífkeðju þessarar jarðar.“ Ólafur sagði að atburðir dagsins hafi haft „þau áhrif á okkur að hug- urinn leitar um leið til þeirra atburða sem eru að gerast fjarri okkar landi en einnig á sömu stundu til þess umhverfis sem við er- um stödd í, þeirrar menningar, þess sam- félags sem á sér svo djúpar rætur og er kjarninn í því hvað í því felst að vera Íslend- ingur. Að þjóðhöfðingi okkar getur komið eins og við gerum í heimsókninni hér í skól- ann í fullkomnu öryggi og frjáls án sér- stakra varða og notið þess að búa í opnu og frjálsu og lýðræðislegu samfélagi. Og kannski eru það dýrmætustu skilaboð okkar Íslendinga til veraldarinnar að draumsýnin um hið frjálsa, lýðræðislega samfélag er ekki bara hugsýn, hún getur orðið veruleiki eins og við Íslendingar höfum sýnt. Og jafn- vel hið mesta vald sem til er í veröldinni, hvort sem það er vald fjármagns eða hers, að í því felst ekki vörn eða skjól ef að menn eru reiðubúnir að fórna lífinu fyrir það að kljást við óvininn.“ Ólafur lauk máli sínu með því að biðja alla viðstadda, unga sem aldna, að hugleiða hve mikilvægt er að miðla unga fólkinu í landinu og ókomnum kynslóðum af þeirri arfleifð sem hefur gert Íslendinga að þeirri frið- sömu þjóð sem hún er. „Á slíkum stundum sem við erum nú að lifa sjáum við í hnot- skurn hvílík gæfa það er að vera Íslend- ingur,“ sagði Ólafur. Að lokinni stund í grunnskólanum fór for- setinn í íþróttamiðstöð Þórshafnar og ræsti nýjan fjarfundabúnað á vegum Framhalds- skólans á Húsavík og Fræðslumiðstöðvar Þingeyinga. Síðan heimsótti hann Hjúkr- unar- og dvalarheimilið Naust og loks var gamli prestsbústaðurinn á Sauðanesi skoð- aður, en hann er verið að endurbyggja. „Sjáum í hnotskurn hvílík gæfa það er að vera Íslendingur“ Forseti skoðaði hrútasýningu í fjárhúsun- um á Svalbarði, þar sem verið var að mæla vöðva og fitu á hrygg veturgamalla hrúta, m.a. Sjóðs frá Hagalandi sem sést á mynd- inni. Frá vinstri: „íhaldsmaðurinn“ Ragnar Sigfússon, Dorrit Moussaieff, Ólafur Ragn- ar Grímsson, Jóhannes Sigfússon, oddviti Svalbarðshrepps, og Ólafur Vagnsson ráðunautur. Hryðjuverkin í Bandaríkjunum í gær settu svip á heimsókn Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands til Norður-Þingeyjarsýslu í gær. Skapti Hallgrímsson blaðamaður og Árni Sæberg ljósmyndari eru í fylgd með forsetanum. Morgunblaðið/Árni Sæberg Dorrit Moussaieff og Ólafur Ragnar í fisk- verkunarhúsi Jökuls á Raufarhöfn í gær- morgun ásamt Margréti Vilhelmsdóttur framkvæmdastjóra, Gunnari Jónassyni framleiðslustjóra og Steingrími J. Sigfús- syni alþingismanni. HJÓNIN Jónas Finnbogason og Hólmfríður Friðgeirsdóttir voru sæmd nafnbótinni heiðursborg- arar Raufarhafnar við fjölmenna athöfn í félagsheimilinu Hnit- björgum á mánudagskvöld, sem haldin var í tilefni af opinberri heimsókn forseta Íslands í Norð- ur-Þingeyjarsýslu. Jónas, sem er 87 ára, starfaði sem vélstjóri á árum áður og Hólmfríður, sem er áttræð, var talsímavörður. Þau hafa búið á Raufarhöfn frá árinu 1942, en þau eru bæði úr sveitinni, Hólm- fríður frá Núpskötlu og Jónas frá Harðbak, nyrst á Hraunhafn- artanga. Nafnbótina hlutu þau hjónin fyrir starf í þágu bæjarfélagsins. Þau þykja hafa tekið mikinn þátt í félagslífi í bænum þrátt fyrir að hafa unnið baki brotnu alla starfsævi sína. Þau hafi t.d. mætt á allar samkomur í bæjarfélaginu síðustu ár og var því ekki haft fyrir því að láta þau vita að þau yrðu að mæta á samkomuna þar sem vitað var að þau myndu gera það hvort eð er. Það var Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sem afhenti þeim hjónum skjalið. „Það er ekki svo lítið, og heit- kona forsetans kyssti okkur bæði, ákaflega blátt áfram virtist mér koma þarna fram,“ sagði Jónas í samtali við Morgunblaðið. Hann fékk heilablóðfall fyrir aðeins þremur vikum en er eldsprækur. Hann segir að það hafi komið þeim hjónum algjörlega í opna skjöldu að þau skyldu hljóta þessa nafnbót. „Við höfðum ekki hugmynd um þetta, við vorum al- veg leynd því. Gunnar sonur okk- ar vissi það og hann gerði allt til að láta okkur ekki komast að því,“ segir Jónas. Hann segir þau hjónin afskaplega ánægð með heiðursborgaranafnbótina. „En ég veit ekki hvort við höfum unn- ið fyrir því, það er allt annað mál,“ sagði Jónas lítillátur. Hjón sæmd nafnbót heiðursborgara Raufarhafnar Kom þeim algjörlega í opna skjöldu Morgunblaðið/Þorkell Forseti Íslands sæmdi hjónin Jónas Finnbogason og Hólmfríði Frið- geirsdóttur nafnbótinni heiðursborgarar Raufarhafnar. NOKKRAR laxveiðiár hafa nú lokað og stutt í vertíðarlok í öðrum. Yfir- leitt er fremur rólegt á bökkum vatnanna um þessar mundir en þó er bærilegur reytingur víða. Það er t.d. ágætur gangur í Fá- skrúð í Dölum og sumarið þegar orð- ið mun betra held- ur en allt síðasta sumar. Þegar vika lifir veiðitíma eru komnir rétt yfir 200 laxar á land, en allt síðasta sumar veiddust þar 143 laxar. Það þótti slakt sumar og því allt til bóta. Hópur sem hóf veiðiskap í ánni á síðdegisvaktinni á mánudag var skjótt kominn með fimm laxa á land og fylgdi sögunni að nóg væri af laxi í ánni. Laxinn í ármótunum Fremur treg veiði hefur verið allra síðustu dagana í Svartá, en heildar- talan, um 230 laxar, er þó ásættanleg að mati Hilmars Hanssonar, eins leigutaka árinnar. Hann segir að síð- ustu daga og vikur hafi vantað að lax- inn færi sig upp úr ármótunum við Blöndu, þar sé mikill fiskur og margir stórir. „Það er reynsla manna að á haustin færi lax sig úr ármótunum upp í Svartá. Vonandi gerist það á veiðitíma, en lokadagur í ánni er 20. september,“ sagði Hilmar. Aðeins fluga í Svartá Í fréttum Morg- unblaðsins um breytingar á fyrir- komulagi laxveiða í Laxá á Ásum og vaxandi hóp flugu- veiðiáa á Íslandi síðustu daga gleymdist að nefna Svartá, en frá og með yfirstandandi vertíð er þar að- eins veitt á flugu. Stórir fiskar Stórfiskar eru jafnan dregnir á haustin og nýlegar fregnir eru af tveimur vænum. Þar af var annar 22 punda úr Blöndu og er það sá stærsti úr ánni í sumar. Hinn var 17 punda hængur veiddur á svarta Frances á Breiðunni í landi Alviðru í Soginu. Laxi landað í Helguhyl í Leirvogsá. Fáskrúð betri en í fyrra ERU ÞEIR AÐ FÁ’ANN?

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.