Morgunblaðið - 13.11.2001, Page 46
MINNINGAR
46 ÞRIÐJUDAGUR 13. NÓVEMBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ
Davíð Osvaldsson
útfararstjóri
Sími 551 3485 • Fax 568 1129
Áratuga reynsla
í umsjón útfara
Önnumst alla þætti
Vaktsími allan sólarhringinn
896 8284
✝ Þóra IngibjörgStefánsdóttir
fæddist á Hnappa-
völlum í Öræfum 31.
júlí 1919. Hún lést á
hjúkrunarheimilinu
Sunnuhlíð 4. nóvem-
ber síðastliðinn.
Foreldrar hennar
voru Stefán Þor-
láksson, f. 1878, d.
1969, og Ljótunn
Pálsdóttir, f. 1882,
d. 1955. Systkini
Þóru, er upp kom-
ust, eru: Arnljótur,
f. 1908, d. 1924,
Kristín, f. 1911, Guðrún, f. 1912,
d. 1996, Sigríður, f. 1916, Páll,
f. 1918, Helgi, f. 1920, d. 1978,
Þorlákur, f. 1922, og Þórður, f.
1923.
Þóra giftist Alfreð G. Sæ-
mundssyni frá Kambi í Árnes-
hreppi á Ströndum, f. 1915, d.
1983. Þau bjuggu alla sína bú-
skapartíð í Kópavogi. Börn
þeirra eru: 1) Sæmundur, f.
1949, kona hans er
Erna Jóna Arnþórs-
dóttir, f. 1948, börn
þeirra eru Dagrún,
f. 1984, og Alfreð
Gunnar, f. 1987. 2)
Unnur Stefanía, f.
1953. 3) Helga, f.
1956, dóttir hennar
er Elva Þóra Arn-
ardóttir, f. 1994. 4)
Björk, f. 1959, mað-
ur hennar er Birgir
Björnsson, f. 1961,
börn þeirra eru
Hjördís Þóra, f.
1998, og Bergur
Páll, f. 2000. 5) Stefán, f. 1959,
kona hans er Ingibjörg Linda
Sigurðardóttir, f. 1962, börn
þeirra eru Gunnar Ingi, f. 1995,
og Björgvin Heiðar, f. 1999.
Dóttir Lindu og fósturbarn Stef-
áns er Edda Doris Þráinsdóttir,
f. 1985.
Útför Þóru fer fram frá Foss-
vogskirkju í dag og hefst at-
höfnin klukkan 10.30.
Kallið er komið,
komin er nú stundin,
vinaskilnaðar viðkvæm stund.
Vinirnir kveðja
vininn sinn látna,
er sefur hér hinn síðsta blund.
Margs er að minnast,
margt er hér að þakka.
Guði sé lof fyrir liðna tíð.
Margs er að minnast,
margs er að sakna.
Guð þerri tregatárin stríð.
(V. Briem.)
Í dag kveðjum við ástkæra systur,
mágkonu og frænku, Þóru Ingi-
björgu Stefánsdóttur.
Við viljum minnast hennar í fáein-
um orðum. Hún var ein þeirra sem
gera veröldina betri og bjartari með
jákvæðni sinni og bjartsýni.
Þóra ólst upp hjá foreldrum sínum
í stórum systkinahópi á vestri miðbæ
á Hnappavöllum.
Á bernsku- og unglingsárum
hennar var hópur tápmikilla ung-
menna á Hnappavöllum þar sem
voru sex bæir. Mikið félagslíf í sveit-
inni á vegum ungmennafélagsins og
einnig var sungið mikið. Ung að ár-
um fluttist Þóra til Reykjavíkur. Þar
kynntist hún manninum sínum, Al-
freð Gunnari Sæmundssyni. Þau
giftu sig sumardaginn fyrsta árið
1949. Fyrstu búskaparárin leigðu
þau í Kópavogi en fluttu í nýtt íbúð-
arhús í Vallargerði 14 í Kópavogi og
voru þar með fyrstu íbúunum þar.
Heimili þeirra bar vitni um vandað
handbragð húsbóndans og smekkvísi
og hirðusemi þeirra beggja. Þau
voru alltaf mjög samhent og tókst
með hagsýni og ráðdeild að koma
upp börnunum fimm. Þau bera þess
öll vitni um gott og ástríkt uppeldi og
hafa komið sér vel í leik og starfi.
Þóra var mikil hannyrðakona og
saumaði hún öll föt á börnin sín.
Sömuleiðis vann hún hluta úr degi á
saumastofu Kópavogshælis í mörg
ár.
Einnig söng hún með Skaftfell-
ingakórnum í nokkur ár en hún hafði
alla tíð mikið yndi af söng.
Þóra hélt mikla tryggð við ætt-
ingja sína hér í Öræfunum. Eftir að
hringvegurinn var opnaður fóru þau
hjónin oftast á hverju ári í sveitina.
Það var alltaf mikil tilhlökkun að fá
þau í heimsókn og börnin þeirra
dvöldu mörg sumrin í sveitinni. Þá
var oft þröngt setið en það skipti ekki
máli.
Eins stóð heimili þeirra okkur allt-
af opið af mikilli gestrisni og það var
ekki eftirtalið þótt við þyrftum að
dvelja þar í lengri eða skemmri tíma.
Fyrir um 20 árum veiktist Þóra og
náði sér nokkuð vel. En tveimur ár-
um síðar missti hún Alfreð mann
sinn og varð það henni mikið áfall,
eftir 34 ára farsælt hjónaband. Alltaf
bar hún sig samt vel og þegar hún
veiktist aftur nokkrum árum síðar
kom sannarlega í ljós hve langt hún
komst á bjartsýninni og óbilandi
kjarki. Þrátt fyrir líkamlega fötlun
sem þessi glæsilega kona bar með
mikilli reisn var hún mjög dugleg að
fara sinna ferða. Þá hafa börn henn-
ar og tengdabörn reynst henni svo
vel að aðdáun hefur vakið. Hún kom
á hverju sumri meðan heilsan leyfði í
sveitina sína. Þá naut hún þess að
horfa yfir túnin og sjóinn. Oft leitaði
hugur hennar austur til ættingja
hennar.
Síðustu árin dvaldi hún á hjúkr-
unarheimilinu Sunnuhlíð og naut þar
góðrar umönnunar.
Elsku Sæmundur, Unnur, Helga,
Björk og Stefán. Guð gefi ykkur og
fjölskyldum ykkar styrk og huggun.
Minningin lifir áfram með okkur um
yndislega konu. Við kveðjum hana
með orðum skáldsins.
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
Gekkst þú með Guði,
Guð þér nú fylgi,
hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.
(V. Briem.)
Fjölskyldurnar Hnappavöll-
um 3 og 4 í Öræfum
og Silfurbraut 7c á Höfn.
Elsku Þóra mín.
Mig langar til að þakka þér fyrir
allar yndislegu samverustundirnar-
sem ég fékk að njóta í návist þinni.
Ég man hve það var notalegt að
koma heim til þín. Þú hafðir alltaf
tíma til að setjast niður og spjalla um
daginn og veginn. Og yfirleitt fylgdi
kaffibolli og eitthvert góðgæti með
því. Vöfflurnar þínar sem þú varst
svo ólöt að baka voru nú alltaf vel
þegnar. Þú varst alltaf fyrst og
fremst að hugsa um að þeir sem í
kring um þig voru hefðu það sem
best. Þótt heilsu þinni hrakaði í
gegnum árin þá varstu alltaf svo já-
kvæð og bjartsýn. ,,Ef börnunum
mínum og ættingjum líður vel, þá líð-
ur mér vel,“ sagðir þú alltaf. Nú er
þrautunum þínum lokið og þú búin
að hitta hann Alla þinn aftur, sem þú
varst búin að sakna svo mikið. Guð
geymi þig elsku frænka mín og
þakka þér fyrir allar góðu minning-
arnar.
Þú stjarna mín við skýja skaut,
á skærum himinboga,
svo hrein á þinni bláu braut
þú brunar fram með loga,
og þegar allt er orðið hljótt
og alheims kyrrð og friður,
þá horfir þú um heiða nótt
af himni þínum niður.
(Þorst. Erlingsson.)
Kveðja
Stefanía Lóa.
Í dag verður jarðsungin móður-
systir mín Þóra Stefánsdóttir og lögð
til hinstu hvílu við hlið á heittelsk-
uðum eiginmanni sínum, Alfreð G.
Sæmundssyni. Veit ég að hún er
ánægð að vera komin aftur til hans
Alla síns sem hún saknaði svo mikið
eftir að hann kvaddi þetta jarðlíf 14.
nóvember 1983.
Þóra var fædd og uppalin í sveit-
inni á milli sanda, sem er á milli
stórra fljóta sem illmögulegt var að
komast yfir, þar til brýr komu til sög-
unnar nú á seinni tímum. Hún flutt-
ist ung suður þar sem hún hitti sinn
lífsförunaut, hann Alfreð frá Kambi í
Árneshreppi á Ströndum. Þannig
var langt á milli æskustöðva þeirra
og torsótt á þeim tímum að heim-
sækja þær. Þrátt fyrir það héldu þau
einstaklega góðu sambandi við sitt
fólk á og frá þessum stöðum. Þau
ferðuðust mikið um landið á „rúss-
anum“ sem Alfreð innréttaði sjálfur
og þau nutu þess að geta gist í hon-
um. Þóra átti góðar minningar frá
þessum ferðum, og talaði oft um
hvað það var gott að heyra rign-
inguna lemja þakið og vera með allt á
þurru.
Þóra og Alfreð mega teljast einir
af frumbyggjum Kópavogs þar sem
þau byggðu sér hús upp úr 1950, á
mjög erfiðum tímum þar sem torvelt
var að fá byggingaefni. Dugnaður,
útsjónarsemi, heiðarleiki og sam-
heldni var það sem skipti máli og
saman yfirstigu þau allar þrautir. Al-
freð var í flestum frístundum úti í
skúr að smíða og var húsið og inn-
réttingarnar hans handverk. Þóra
var mjög lagin í höndunum og saum-
aði allt á börnin sín og jafnvel frænd-
fólk. Ungu hjónin í Vallargerði 14
eignuðust fimm börn sem öll bera
vitni um hlýlegt og gott uppeldi. Eft-
ir að Alfreð dó og einnig eftir að Þóra
fékk sitt fyrsta heilablóðfall, þannig
að hún lamaðist að hluta, kom það
best í ljós hversu heilbrigð og traust
börnin þeirra eru, þau hugsuðu svo
vel um hana eftir að hún missti heils-
una.
Við ættingjar Þóru að austan kom-
um alltaf í Vallargerði þegar við
komum í bæinn og þá settumst við
yfirleitt þar upp, oft í marga daga og
jafnvel lengri tíma bæði í fæði og
húsnæði. Við fengum aldrei annað á
tilfinninguna en að það væri nóg
pláss og nógur matur og við ættum
að vera hjá þeim og hvergi annars
staðar. Þar sem er nóg hjartarúm er
nóg húsrúm. Ég man eftir tveimur
læknisferðum til Reykjavíkur þegar
ég var barn og að sjálfsögðu var Þóra
sem besta mamma fyrir sunnan.
Það var alltaf notalegt að sitja í
litla eldhúsinu í Vallargerði á meðan
hellt var upp á kaffi og bakaðar vöffl-
ur. Ekki vorum við Magga í vand-
ræðum með pössun fyrir börnin okk-
ar ef á þurfti að halda því alltaf hafði
Þóra tíma og pláss til að taka þau og
ég held að Helena Marta hafi tekið
það upp hjá sér að kalla hana Þóru
ömmu og ég man að Þóra var bara
ánægð með það. Okkur hefur alltaf
verið boðið annan í jólum til fjöl-
skyldunnar í Vallargerði í heim-
areykta hangikjötið að austan. Þar
er alltaf spilað og sungið, spilað á
harmonikku og gengið í kringum
jólatré. Alltaf var Þóra jafn ánægð
og ekki dró það úr ánægju hennar
þegar Helena Marta var líka farin að
mæta með nikku og syngja.
Þegar við Magga ásamt Bjarka
syni okkar vorum húsnæðislaus í
nokkrar vikur var það sjálfsagt að
við fengjum húsnæði og fæði hjá
Þóru. Svo mörgum árum seinna kom
sama staða upp hjá Stefáni, syni
Þóru, og fjölskyldu hans og þá
dvöldu þau hjá okkur í nokkrar vik-
ur. Þá fannst Þóru það ekki lítið sem
við ættum inni hjá henni. Þannig var
Þóra. Hún var hin sanna íslenska
húsmóðir sem vildi alltaf þjóna öllum
en það þurfti ekkert að gera fyrir
hana því hún sagðist alltaf hafa allt
sem hún þyrfti á að halda. Enda var
hún sæl með sitt og sína.
Þóra hafði alltaf mikinn áhuga á
öllu sem gerðist í Öræfasveitinni og
hún fylgdist alltaf vel með og vildi fá
fréttir að austan. Hún var alltaf svo
jákvæð og alltaf svo glöð og svo stolt
af börnunum sínum og síðar barna-
börnunum. Þóra starfaði með Ferða-
félaginu Breiðamörk sem var átt-
hagafélag Öræfinga og
Suðursveitunga sem hélt uppi sam-
komum að vetri til hér fyrir sunnan
og stóð fyrir ferðalögum að sumri til.
Þóra söng með Söngfélagi Skaftfell-
inga á meðan heilsan leyfði.
Nú er þætti Þóru hér í þessari
jarðvist lokið og nú líður henni von-
andi vel þar sem Alfreð tekur örugg-
lega á móti henni.
Börnum Þóru, tengdabörnum og
barnabörnum vottum við okkar
dýpstu samúð. Ég, Margrét, Bjarki
og Helena og allir úr Kotinu, þau
Sigríður og Bjarni, Gunnar, Addi,
Unnur og Jón og fjölskyldur þeirra,
þökkum þér innilega fyrir góðar
samverustundir og allt það sem þú
gerðir fyrir okkur.
Minningin um góða konu lifir
áfram. Blessuð sé minning þín.
Stefán Bjarnason.
Það er komið að því að kveðja
hana Þóru frænku mína. Fregnin um
lát hennar kom ekki á óvart og hún
var tilbúin þegar kallið kom. Líkam-
legar þjáningar og þrautir hennar
eru nú að baki og hún er aftur komin
í faðm Alfreðs síns eins og hún hlakk-
aði svo til. Nú gengur hún fagnandi
og frjáls og þau taka danssporin eins
og þau gerðu svo oft í Vallargerði.
Þóra var alla tíð mjög heilsuhraust
en ári áður en Alfreð lést þegar hún
var aðeins 62 ára fékk hún heilablæð-
ingu og varð heilsa hennar aldrei
söm eftir það.
Þóra var hávaxin og myndarleg
kona, svo lifandi og sterk, viljinn svo
einbeittur og öflugur, hugsunin svo
hlý og skýr, vináttan svo gefandi og
góð. Einu sinni var ort til hennar
þessi vísa:
Þó fari ég yfir fjöllin há
og finni löndin stóru
sé ég aldrei meyju þá
sem jafnast á við Þóru.
Þóra var mjög frændrækin, hugs-
unarsöm við unga sem aldna og taldi
ekki eftir sér að heimsækja þá sem
veikir voru til að veita þeim styrk.
Ekkert skipti Þóru meira í lífinu en
að eiga góðan mann og koma börnum
sínum til manns og þroska. Hún upp-
skar líka ríkulega eins og hún sáði.
Ég minnist frænku minnar með
mikilli hlýju. Hún var einstök og mér
fyrirmynd í svo ótal mörgu. Ég var
ekki nema tæplega 11 ára þegar ég
fór að venja komur mínar til frænd-
fólksins í Vallargerði og kynntist því
myndarheimili sem þau Alfreð og
Þóra höfðu skapað sér og börnum
sínum. Þar ríkti glaðværð, gagn-
kvæm virðing og slík væntumþykja í
garð hvers annars að óneitanlega
ákvað ég í huganum að svona heimili
vildi ég sjálf reisa í framtíðinni. Það
var m.a.s. sérstök lykt í forstofunni
sem ég taldi mér trú um að enginn
nema Þóra gæti viðhaldið en lyktin
breyttist reyndar ekkert eftir að
Unnur hóf búskap í Vallargerði en
Þóra flutti í Vogatungu.
Ótal minningar koma upp í hug-
ann þegar ég skrifa þessar línur. Ég
minnist ferðar austur í Öræfi um
páska þegar keyrt var yfir allar jök-
ulárnar á rússajeppanum. Ekki leist
manni á að hægt væri að komast lif-
andi yfir þær en Þóra hafði tröllatrú
á Alfreð sínum sem bílstjóra og söng
alla leiðina, hélt að þetta yrði nú ekki
mikið mál. Með fullan bíl af fólki
tókst þetta allt saman en oft munaði
mjóu. Þau voru líka dugleg að
ferðast um landið þvert og endilangt
í sumarfríum sínum.
Ég man líka eftir því þegar við
Unnur ætluðum að fara á útihátíð í
Húsafelli um verslunarmannahelgi.
Ekki voru nú allir hrifnir af því uppá-
tæki en Þóra og Alfreð sáu aumur á
okkur og ákváðu bara að skella sér
með á hátíðina. Fór svo að þau sam-
þykktu að leggja rússanum fyrir ut-
an aðalhátíðarsvæðið til að trufla
okkur ekki, ef við lentum á sjéns, og
lofuðu að koma aldrei í tjaldið okkar.
Þurftu bara að vita hvar við ætluðum
að tjalda. En það leið ekki á löngu áð-
ur en við vorum mættar í heitt kakó
og flatkökur og mikið var gott að
hafa þau þarna.
Þegar ég gifti mig leigði ég íbúð í
nágrenni við Vallargerði. Þóra kom
oft við á laugardagsmorgnum þegar
hún var að versla, stoppaði yfirleitt
stutt en þessar morgunheimsóknir
voru kærkomnar. Ekki var hún alls
kostar ánægð þegar hún þurfti ekki
að baka fyrir brúðkaupið mitt, sem
hún bauðst auðvitað til að gera að
fyrra bragði. Hún vildi alltaf gera
einhverjum greiða, ef hægt var.
Tveimur dögum fyrir giftinguna kom
hún með nokkra tertubotna og sagði
mér að það væri nú gott að frysta þá
og eiga til vara, ef óvæntir gestir
kæmu í heimsókn. Þeir áttu eftir að
koma sér vel og lengi bakaði ég sjálf
alltaf nokkra botna til að eiga í kist-
unni, svona til vara. Þóra var hús-
móðir af lífi og sál og kenndi manni
margt gagnlegt.
Gott samband var á milli Þóru og
barna hennar og tengdabarna. Auð-
velt var að skynja þá gagnkvæmu
væntumþykju sem þar ríkti á milli.
Allt var gert til að auðvelda henni líf-
ið sem mest. Og þrátt fyrir fötlun
sína aftraði það henni ekki að fara
upp nokkra stigaganga ef því var að
skipta til að fara í heimsóknir. Hún
fékk bara hjálp og þá gekk þetta
ágætlega. Hún naut hverrar stundar
með sínu fólki. Ekki gladdi það hana
síður að vita að öðrum liði vel. Það
var ótrúlegur vilji og þrek sem hún
bjó yfir, allt fram á síðasta árið sem
hún lifði. Hún var alltaf jákvæð og
lífsglöð og það var mannbætandi að
hitta hana.
Með þessum orðum kveð ég Þóru
og þakka henni samfylgdina og óska
henni velfarnaðar í nýjum heim-
kynnum. Vinum mínum, frændsystk-
inunum úr Vallargerði og fjölskyld-
um þeirra sendi ég samúðarkveðjur
frá mér og fjölskyldu minni. Megi
minningin um yndislega móður lýsa
ykkur og milda söknuðinn í huga
ykkar.
Katrín S. Óladóttir.
ÞÓRA INGIBJÖRG
STEFÁNSDÓTTIR
Sími 562 0200
Erfisdrykkjur
EIGI minningargrein að birtast
á útfarardegi (eða í sunnudags-
blaði ef útför er á mánudegi),
er skilafrestur sem hér segir: Í
sunnudags- og þriðjudagsblað
þarf grein að berast fyrir há-
degi á föstudag. Í miðviku-
dags-, fimmtudags-, föstudags-
og laugardagsblað þarf greinin
að berast fyrir hádegi tveimur
virkum dögum fyrir birtingar-
dag. Berist grein eftir að skila-
frestur er útrunninn eða eftir
að útför hefur farið fram, er
ekki unnt að lofa ákveðnum
birtingardegi. Þar sem pláss er
takmarkað getur þurft að
fresta birtingu greina, enda
þótt þær berist innan hins til-
tekna skilafrests.
Skilafrestur
minningargreina