Morgunblaðið - 09.01.2002, Blaðsíða 21

Morgunblaðið - 09.01.2002, Blaðsíða 21
ERLENT MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 9. JANÚAR 2002 21 MÚLLANN kom í útibú afganska seðlabank- ans í Kandahar á skrifstofutíma, bað um að fá að hitta bankastjórann, sem einnig var múlla, og lagði fram ávísun undirritaða af þriðja múll- anum, Mohammad Omar. Þetta var 16. október, níu dögum eftir fyrstu loftárásir Bandaríkjamanna á Afganistan, og enn eina ferðina var hafið stríð í þessu bláfá- tæka landi. Múllann, háttsettur meðlimur í stjórn Omars í talibanahreyfingunni, staldraði ekki lengur við í bankanum en það tók að út- skýra þessa skyndilegu peningaúttekt, opna peningaskápinn í kjallaranum og troða fimm milljónum bandarískra dollara og pakist- anskra rúpía í stóran strigapoka, að því er tveir starfsmenn bankans greindu frá nú í byrjun vikunnar. Strigapokinn var síðan bor- inn út í Toyota Land Cruiser sem beið fyrir ut- an. Síðan hefur hvorki sést tangur né tetur af þessum peningum. Ekki hefur heldur orðið vart við rúmlega sex milljónir Bandaríkjadoll- ara sem háttsettir leiðtogar talibanahreyfing- arinnar báru út úr skrifstofum bankans í Kab- úl 12. nóvember, að því er skrifstofustjórinn þar segir. Milljónir dollara til viðbótar eru taldar glataðar úr öðrum útibúum Da Afghan- istan Bank, sem er opinbert nafn seðlabank- ans. En þar eð talibanastjórnin hefur verið hrakin frá völdum og nýja bráðabirgðastjórnin í landinu hefur einungis allra nauðsynlegustu grunnþætti úr að spila segja embættismenn í bankanum að engin leið sé að segja til um hversu mikið fé sé horfið. Töfðu ekki við skriffinnsku „Þeir tóku alla peningana úr hinum útibúun- um, en við vitum ekki alla málavexti,“ sagði Al- lah Hashmee, yfirmaður Kabúlútibúsins, þar sem talibanarnir voru ekki að tefja við að fylla út pappíra. „Engar ávísanir, engar kvittanir,“ sagði Hashmee. „Þeir bara komu og tóku þetta.“ Eitt af því sem huga þarf að, þegar banda- rískir hermenn leita að Omar og öðrum hátt- settum talibanaleiðtogum, er hversu mikið reiðufé Omar tók með sér þegar talibanarnir flýðu frá Kandahar fyrir mánuði síðan. Ef Om- ar hefur komist út úr Afganistan geta fúlg- urnar úr opinberum sjóðum landsins farið langt með að tryggja för hans, og skálkaskjól erlendis. Fulltrúi bráðabirgðastjórnarinnar í Afganistan, Khalid Pashtoon, sagði í síðasta mánuði að Omar hefði haft á brott með sér hundrað milljónir dollara þegar hann flýði frá Kandahar, sem var hin eiginlega höfuðborg landsins í tíð talibana. Sú upphæð virtist fremur ótrúleg fyrir ekki löngu síðan, en er alls ekki alveg út í hött í ljósi þess að bankafulltrúar segja aðstoðarmenn Omars hafa hreinsað ellefu milljónir dollara úr bara útibúum seðlabankans í Kabúl og Kand- ahar. Hashmee, útibússtjórinn í Kabúl, sagði að í öðrum stórum borgum landsins séu þetta tveir til þrír bankar, og talibanar kunni að hafa geymt fé í þeim öllum. En ellefu milljónir dollara gætu reynst þungur baggi, ef Omar er á leið til afskekktra fjallanna í Mið-Afganistan, eins og fregnir frá yfirmanni leyniþjónustunnar í Kandahar benda til. Í útvarpsávörpum sem Omar hélt á hverju kvöldi í Kandahar, áður en hann yfirgaf borgina, viðurkenndi hann að herför Banda- ríkjamanna myndi að líkindum hrekja talibana frá völdum, en hét því iðulega að „halda til fjalla“ og hefja skæruhernað. Á bifhjóli eða asna Bandarískir og afganskir embættismenn hafa sagt að fjöldi þeirra hermanna sem eru hliðhollir talibönum sé í mesta lagi fáein þús- und, ef ekki hundruð, og talið er að fæstir þeirra séu í för með Omari. Talið er að til þess að komast undan bandarísku gervihnatta- og lofteftirliti hafi Omar afsalað sér alræmdum bílaflota sínum, svörtum Land Cruiserum – sem nú eru sigurtákn í Kabúl og ekið um af háttsettum embættismönnum í óvinaliði talib- ana. Þess í stað er hinn sjálfskipaði „höfðingi hinna trúuðu“ sagður fara um á bifhjóli – sum- ir segja á asna. Hvort heldur sem er myndi strigapokinn sem borinn var út úr bankanum í Kandahar síga í. „Þetta var stór poki,“ sagði Abdul Qad- ez, aðstoðarútibústjóri. Í umræddum poka voru upphaflega hundrað kíló af pakistönsku hveiti, en nú var hann troðinn út af tíu-, tutt- ugu- og hundraðdollara seðlum, samtals – Qadez fletti upp í rauðri höfuðbók merktri „Reikningsbók nr. 17“ og renndi fingri niður síðuna – 3.488.222 dollarar. Stærstu seðlabúntin voru þó pakistanskar rúpíur, 93 milljónir, eða sem svarar 1,55 millj- ónum dollara. Stærstu seðlar sem til eru eru 1.000 rúpíur. Við þessa stóru úttekt tæmdust hillurnar í peningaskápnum í kjallaranum, sem gengið er niður í um sjúskaðar, gular dyr úr anddyrinu. „Það voru engir peningar eftir,“ sagði Qad- ez. Útibúi afganska seðlabankans í Kandahar var því lokað. Í Kabúl var fraktin enn um- fangsmeiri. Hashmee sagði að fulltrúar talib- ana hefðu farið með 5,3 milljónir dollara, 22 milljónir rúpía og 18 milljarða afgana, sem eru opinber gjaldmiðill í Afganistan. Þá kostaði hver dollari 60 þúsund afgani, að sögn borgarbúa. Gengið hækkaði þegar talib- anastjórnin féll, og nú kostar dollarinn um 25 þúsund afgani – og hefur verðgildi seðlabúnt- anna í pokum flýjandi talibananna því rúmlega tvöfaldast, þótt þau séu áreiðanlega jafn þung eftir sem áður. Stærsti seðillinn er tíu þúsund afganir. Eingöngu opinbert fé Fazli Ahmad, núverandi útibússtjóri í Kand- ahar, segir að peningarnir sem teknir voru út 16. október hafi verið opinbert fé. Þar var ekki um að ræða þær tekjur sem talibanar hafa haft – og Bandaríkjamenn og fleiri segja þær hafa verið miklar – af ópíumsmygli, fengið frá er- lendum ríkisstjórnum, þ. á m. Pakistan og Saudi-Arabíu, eða frá Osama bin Laden, sem einn fyrrverandi fulltrúi talibana sagði hafa verið helsta einstaka fjáraflamann stjórnar- innar. „Það voru þeirra eigin peningar. Það var ekki komið með þá hingað,“ sagði Ahmad. Fimm milljónir dollara var venjulega það sem bankinn hafði í hirslum sínum í mánuði hverjum, að mestu komið frá gjöldum og skött- um sem safnað var í grennd við Kandahar- hérað. Upphæðin var meiri á árlegum píla- grímaferðatíma múslíma til Mecca, þegar tekjur af vegabréfum og flugmiðum juku inn- eignina á reikningnum í Kandahar í hátt í 14 milljónir dollara, sagði Ahmad. Þegar sendimaður Omars, Ghulagha, kom með ávísunina frá Omar sagði hann við þáver- andi útibússtjóra, Abdul Samad, að líkur væru á að húsið hans við aðaltorgið í Kandahar yrði fyrir sprengjum Bandaríkjamanna, að því er bankafulltrúar sögðu. Qadez sagði að sendi- maðurinn hefði útskýrt úttektina með eftirfar- andi hætti: „Omar múlla sagði að við skyldum taka alla þessa peninga með okkur og þá gæt- um við borgað opinberum starfsmönnum á heimili hans.“ Fordæmi var fyrir því. Á fyrstu dögum tal- ibanastjórnarinnar var fjárhirsla hennar kista úr blikki, sem Omar hafði við hliðina á sér, og úthlutaði hershöfðingjum handfylli af afgön- um, að því er pakistanski blaðamaðurinn Ahm- ed Rashid sagði í bók sinni, Talibanar. „Þegar fór að ganga vel var annarri kistu bætt við – í henni voru Bandaríkjadollarar,“ skrifaði Rashid. Ekki trúleg útskýring En að þessu sinni virðist enginn í bankanum hafa tekið fullkomlega mark á útskýringunni sem gefin var. Í fyrsta lagi bjó Omar ekki leng- ur á heimili sínu heldur svaf á sjúkrahúsum, í moskum og í sveitaþorpum, af ótta við loft- árásir Bandaríkjamanna. Auk þess, útskýrði Ahmad, „var engum leyft að koma nálægt hús- inu hans!“ Ahmad var áður gjaldkeri í bankanum, en eftir fall talibanastjórnarinnar var hann gerð- ur að útibússtjóra. Hann hefur ekki fengið launin sín greidd – 1.800 rúpíur á mánuði, eða um 3.000 krónur – þá undanfarna þrjá mánuði sem opinberir starfsmenn í Kandahar hafa verið launalausir. „Hann tók peningana og fór,“ sagði Ahmad. „Við vorum öll skilin eftir.“ Múllarnir tæmdu bankana Nokkrum dögum eftir að loftárásir Banda- ríkjamanna á Afganistan hófust létu æðstu menn talibanahreyfingarinnar bera sér allt reiðufé úr peningaskápum seðlabankans, tróðu því í poka og óku burt í flottu jepp- unum sínum. Síðan hefur ekkert sést af þess- um peningum, og opinberir starfsmenn í landinu hafa verið launalausir í þrjá mánuði. Reuters Peningahöndlari í Kabúl heldur á búntum af afgönum, opinberum gjaldmiðli Afganistans. Einn Bandaríkjadoll- ari kostar nú um 25.000 afgana, en í tíð talibanastjórnarinnar þurfti 60.000 afgana til að kaupa einn dollara. Kandahar. The Washington Post.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.