Morgunblaðið - 22.01.2002, Síða 35
LISTIR
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 22. JANÚAR 2002 35
STEMMNINGIN
meðal áhorfenda á Nýja
sviði Borgarleikhússins
síðastliðið föstudags-
kvöld var ekki þessi
vanalega, dálítið upp-
hafna, „fólk-í-fréttum“-
stemmning frumsýn-
ingarkvöldanna. Meðal-
aldurinn mun lægri;
klæðnaðurinn meira
svona gallabuxur og
kolsvart (peysur, jakkar
og hár); bjórflaska og
nammi með inn í sal; all-
ir að djöflast í farsímun-
um rétt fyrir sýningu.
Hér var mætt Tvíhöfða-
kynslóðin (nokkrir af
Spaugstofukynslóðinni og örfáir sem
ólust upp með Ómari), tilbúin að
skemmta sér konunglega á uppi-
standi annars haussins, Jóns Gnarr.
Og líklega urðu fæstir fyrir vonbrigð-
um – jafnvel þótt Jón hafi verið betri
sem Nördinn á fyrra uppistandi sínu.
Leikinn hóf reyndar gestur Jóns,
Elín Jónína Ólafsdóttir, sem kynnti
sig sem „einstæða, tveggja barna
móður úr Smáíbúðahverfinu“. Elín
Jónína var hinn frambærilegasti
„uppistandari“, var sæmilega af-
slöppuð og bráðskemmtileg. Hún
sýndi og sannaði að konur geta grín-
ast ekki síður en karlpeningurinn þótt
þær fáist kannski síður upp á svið,
svona yfirleitt. Þótt Elín Jónína þyrfti
nokkrum sinnum að kíkja á minnis-
blaðið sitt á borðinu var ekki hægt að
merkja að reynsluleysið háði henni
svo nokkru næmi og gaman verður að
fylgjast með henni í framtíðinni.
Jóni Gnarr var vel fagnað og hann
sýndi fagmannlega takta, talaði blað-
laust og án annars hiks en þess sem
var hluti af sýningunni. Þótt Jón hafi
haldið því fram í viðtölum að hann sé
ekki með samið handrit heldur spinni
grínið af fingrum fram virðist mér
ljóst að uppistaðan í
gríni hans er tilbúin fyr-
irfram, frásagnir sem
hann hefur lært utan-
bókar – líkt og hver
annar leikari. Það var
að minnsta kosti ekki
um það að ræða að grín-
ið yrði til í samspili milli
hans og áhorfenda enda
þeim síðarnefndu ekki
gefinn neinn kostur á að
bregðast við eða grípa
inn í eintal hans eins og
oft er raunin þegar
uppistandið fer fram í
minna rými, svo sem
kaffihúsi þar sem ná-
lægð grínarans og
áhorfenda er meiri.
Eintal Jóns var þó verulega
skemmtilegt á köflum og hugleiðing-
ar hans um lífið, dauðann og tilveruna
á milli þessa tveggja punkta voru oft
kostulegar. Sá karakter sem Jón sýn-
ir á sviðinu er sjálfum sér samkvæm-
ur: þetta er einrænn „lúser“ sem hef-
ur lært þá lexíu að lífið byggist á því
að missa flest það út úr höndunum
sem maður á og tilveran felist í því að
fást við sífellt fáránlegri vandamál
þar til maður hrekkur upp af. Af
þessu mátti vel hlæja, enda leikurinn
til þess gerður, og sjálfsagt er margt
vitlausara en að eyða einni kvöld-
stund á þann hátt. Þó var eins og
herslumuninn vantaði, það var að
minnsta kosti ekki oft að salurinn lá í
hlátri – meira um að menn brostu út í
annað.
Brosað með
bjórnum
LEIKLIST
Borgarleikhúsið
Höfundur og flytjandi: Jón Gnarr. Gestur:
Elín Jónína Ólafsdóttir. Nýja svið Borg-
arleikhússins 19. janúar.
JÓN GNARR: UPPISTAND
Soffía Auður Birgisdóttir
Jón Gnarr
SÉRSTAÐA kammertónlistar á
klassíska og rómantíska tímabilinu
markaðist annars vegar af þörfinni
fyrir heimilis- og skemmtitónlist og á
móti var gerð slíkra tónverka nokkur
mælikvarði á hæfni tónskálda, að búa
til góða og innihaldsríka tónlist fyrir
fá hljóðfæri. Á tónleikum Kammer-
músikklúbbsins sl. sunnudagskvöld, í
Bústaðakirkju, voru flutt þrjú verk,
að mestu samin fyrir píanó og tréblás-
ara, en einnig með þátttöku fiðlunnar
og sellósins. Sú kammertónlist, sem
samin var á þessum tíma fyrir tré-
blásara, var oft mjög svipuð svo-
nefndum „divertimento“-verkum,
sem aðallega voru ætluð til útitón-
leika í garðveislum heldra fólksins.
Þetta mátti heyra í tveimur tríóum
eftir Johannes Brahms. Það fyrra var
op. 40, samið fyrir píanó, fiðlu og horn
og er þetta fallega verk fremur dap-
urlegt. Því hefur verið haldið fram, að
hann hafi samið verkið í minningu
móður sinnar og er oftast vísað til
hæga kaflans (III) en þar er aðalstef-
ið byggt á gömlum sálmi „Wer nur
den lieben Gott lasst walten“. Þetta
verk var fallega flutt af Sigrúnu Eð-
valdsdóttur, er lék af töluverðum til-
finningahita og Joseph Ognibene, er
lék t.d. fyrsta kaflann með sérlega
gullnum hljómi, svo unun var á hlýða.
Vovka Ashkenazy lék á píanóið og það
var ekta kammermúsíkantísk spila-
mennska, er einkenndi allan hans frá-
bæra leik og það eina sem finna mætti
að, var að hann var helst til aðgætinn
gagnvart samspilurum sínum.
Annað viðfangsefni tónleikanna var
tríó fyrir píanó, selló og klarinett, op.
114, einnig eftir Brahms. Það er sami
dapurleikinn í þessu tríói og hinu
fyrra og að auki getur að heyra vinnu-
brögð er minna á forvera Brahms,
nefnilega viðsnúning eða spegilmynd-
ir stefja og „kanon“-vinnubrögð. Yfir
þessu verki ríkir „stóísk“ ró, er var
ágætlega mótuð af flytjendum, sem
voru Vovka Ashkenazy, Einar Jó-
hannesson og Bryndís Halla Gylfa-
dóttir. Verkið ber í sér einhvern
dauðabeig, sérstaklega í hæga þætt-
inum (II), en á móti glitra tónhend-
ingar, sem birtast í eins konar sam-
talsformi og voru geislandi fallega
mótaðar.
Lokaverk tónleikanna var kvintett
fyrir píanó, óbó, klarinett, horn og fa-
gott, op. 16, eftir Beethoven. Verkið
þetta er mjög í anda Mozarts, bæði
hvað varðar tóntegund, hljóðfæra- og
formskipan og ekki síður tónmálið
sjálft. Verkið var einnig gefið út um-
skrifað fyrir píanó og strengi og mun-
ar ekki miklu á verkunum, þó ein-
staka stef hafi verið meira útflúrað
fyrir strengina, sérstaklega í hæga
þættinum (II). Lokaþátturinn er
rondó og er aðalstefið sérlega fallegt
og söngvænt. Í heild var kvintettinn
mjög fallega mótaður og sérstaklega
var leikur Vovka Ashkenazy fallegur
og á þann veginn, að tónlistin fékk að
„anda“, sem oft gleymist þegar flytj-
endur geisast í gegnum tónhending-
arnar.
Það sem var aðal tónleikanna var
„músíkantísk“ mótun tónhending-
anna og var hófstilltur leikur Vovka
Ashkenazy sérlega fallega mótaður,
með fínlegum hætti, svo að tónlistin
var það sem skipti máli. Samleikurinn
var í það heila góður, á stundum
nokkuð varfærinn en oft glampandi
fallegur og lifandi, án þess að nokkurs
staðar væri ofgert í hraða og styrk, en
öllu sen skiptir máli vel til „haga hald-
ið“.
Fallegur og lifandi leikur
TÓNLIST
Bústaðakirkja
Flutt voru verk eftir Brahms og Beethov-
en. Flytjendur voru Vovka Ashkenazy,
Sigrún Eðvaldsdóttir, Daði Kolbeinsson,
Einar Jóhannesson, Joseph Ognibene og
Hafsteinn Guðmundsson. Sunnudagurinn
20. janúar 2002.
KAMMERTÓNLEIKAR
Jón Ásgeirsson
RAUÐI salur Gallerís Foldar er
ansi góður. Hann er óvenjulegur
bæði í lögun og í lit og sker sig frá
öðrum sýningarsölum í borginni.
Þær sýningar sem ég hef séð þarna
hafa notið sín vel sem sýnir að það
eru fleiri veggjalitir en hvítt sem
henta sem bakgrunnur fyrir mynd-
list.
Í rauða salnum hangir nú uppi
sýning með 18 litkrítarmyndum
Hrings Jóhannessonar heitins en
eins og segir í sýningarskrá var hann
meðal ástsælustu listamanna þjóðar-
innar. Hann lést 17. júlí 1996, aðeins
63 ára að aldri.
Á sýningunni sem ber yfirskrift-
ina 18 sólargeislar bregðum við okk-
ur í ferðalag með Hring á einhverja
sólarströndina, Kanarí, Mallorca,
eða aðra ámóta, en ekki kemur fram
í sýningarskrá hvar verkin eru unn-
in. Listamaðurinn situr á sólstól og
rissar niður fólkið í kringum sig.
Sumir eru að spila, aðrir breiða úr
sér og horfa upp í sólina, aðrir lesa
og sumir eru í mat. Þetta er áhyggju-
laust líf sem Hringur nær þarna að
fanga vel.
Myndirnar eru gott dæmi um iðni
listamannsins sem hefur ekki getað
lagt frá sér verkfærin þótt í fríi væri
á sólarströndu, þar sem tilgangur
lífsins er að gera helst minna en ekki
neitt.
Hringur var frábær málari og
teiknari og tækifæristeikningar eins
og þessar eftir hann eru sérstaklega
skemmtilegar. Sýningin er góð við-
bót við sýningu sem haldin var í
Listasafni ASÍ í desember en þar
voru sýnd jólakort með teikningum
Hrings og Þorra sonar hans.
Í sól og sumaryl
Þóroddur Bjarnason
MYNDLIST
Gallerí Fold
Opið daglega frá kl. 10 til 18, laugardaga
frá 10 til 17 og sunnudaga frá kl. 14 til
17. Til 27. janúar.
LITKRÍTARMYNDIR
HRINGUR JÓHANNESSON
Spilað í sólinni.
Sparisjóður Garðabæjar, Garða-
torgi Í tilefni af 10 ára afmæli spari-
sjóðsins verður opnuð málverkasýn-
ing á verkum eftir myndlistarkon-
una Ninný kl. 17.30.
Þetta er sjöunda einkasýning Ninný-
ar, en hún hefur tekið þátt í nokkr-
um samsýningum heima og erlendis.
Sýningin er opin á afgreiðslutíma
Sparisjóðsins kl. 9.15–16 til 28. febr-
úar.
Í DAG
LISTASAFN Reykjavíkur gengst
fyrir námskeiði nú í byrjun febrúar
um byggingarlist í samvinnu við
hönnunardeild Listaháskóla Íslands.
Námskeiðið er ætlað áhugafólki
um byggingar og umhverfi og er
markmið þess að efla getu þáttak-
enda til að skoða og greina bygging-
ar sem listræn hugverk og veita inn-
sýn í það flókna samspil tæknilegra,
félagslegra og formfræðilegra þátta
sem kallað er arkitektúr. Í fimm fyr-
irlestrum verður fjallað um nokkur
undirstöðuatriði byggingarlistar:
mælikvarða, hlutföll, rými, form,
efniskennd, stað og tíma. Skoðuð
verða dæmi um byggingarlist frá
ólíkum tímabilum og þau greind með
hliðsjón af ofangreindum hugtökum.
Umsjón með námskeiðinu hefur
Pétur H. Ármannsson arkitekt.
Námskeiðið er haldið í fjölnotasal
Listasafns Reykjavíkur, Hafnarhús-
inu, Tryggvagötu 17, á fimmtudög-
um kl. 15–17 frá 7. febrúar til 7.
mars. Þátttökugjald er 5.000 kr.
Námskeið um
byggingarlist
♦ ♦ ♦