Morgunblaðið - 17.04.2002, Qupperneq 43
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 17. APRÍL 2002 43
Í minningargrein um
Árna Pétur Lund sem
birtist 9. mars, var
rangt farið með nafn
eiganda síldarsöltunarstöðvarinnar
Óðins á Raufarhöfn.
Vilhjálmur var Jónsson en ekki
Einarsson. Eru hlutaðeigendur
beðnir velvirðingar á þessu.
Elsku afi. Mig langar að minnast
þín með nokkrum orðum. Aldrei
mun ég gleyma þegar ég var lítil
stelpa og átti heima í Miðtúni,
hversu yndislegt það var að hlaupa
með kaldar tásur upp í rúm til þín og
ömmu og njóta þess að kúra hjá ykk-
ur. Ófáar á ég líka minningarnar úr
fjárhúsunum og frá daglegum við-
burðum allt árið um kring, þar sem
þú leyfðir mér og Halli alltaf að
fylgja þér og vappa í kringum þig,
sama hvað þú varst að gera. Ynd-
isleg voru líka kvöldin þegar þú, ég,
pabbi og Hallur löbbuðum heim tún-
ið í svarta myrkri eftir kvöldgjöfina
og á himninum voru óteljandi stjörn-
ur. Amma beið þá alltaf eftir okkur
með eitthvað gott, sem hún gerir enn
þegar maður kemur heim í Miðtún.
Eftir að við fluttum inn á Húsavík
er mér það eftirminnilegt hvað við
biðum spennt í stofuglugganum eftir
því að við sæjum bílinn koma keyr-
andi inn í bæinn, okkur fannst alltaf
svo gaman að fá þig og ömmu í heim-
sókn. Ekki man ég eftir öðru en að
hafa þig og ömmu hjá okkur í Brúna-
gerðinu á jólunum og mikið held ég
að það verði skrýtið um næstu jól
þegar þig vantar.
Mér er það eftirminnilegt þegar
ég labbaði með þig í hjólastólnum í
fyrrasumar út í bæ og við keyptum
okkur ís í góða veðrinu, þegar þú
fórst að spyrja mig hvernig lífið
gengi hjá mér. Ég fann hvað það
skipti þig miklu máli að mér liði vel
og litlu strákunum mínum, þér þótti
svo óskaplega vænt um okkur. Síð-
ustu orðin sem ég heyrði frá þér
voru: „Mikið óskaplega eru þeir ynd-
islegir,“ en þá varstu að dást að
strákunum mínum sem voru að
hnoðast ofan á þér í rúminu þínu.
Þessi orð munu ylja mér um hjarta-
rætur allt mitt líf og lýsa því svo vel
hvernig þú varst. Aldrei man ég eftir
því að þú hafir talað til mín öðru vísi
en að segja elskan.
Elsku afi, ég þakka guði fyrir hvað
ég gat setið hjá þér þína síðustu daga
og kvatt þig vel. Ég þakka þér allar
okkar yndislegu stundir og bið Guð
að varðveita þig og blessa. Ég veit að
þér líður vel þar sem þú ert.
Þín
Hróðný Lund.
Afi Árni Pétur er dáinn. Ótal góð-
ar minningar á ég um hann afa minn,
þar sem hann stendur úti á hlaði í
Miðtúni að fagna gestum eða kveðja,
þar sem við sitjum inni í stofu og
spjöllum um gamla tíma eða það sem
fyrir hafði borið í síðustu veiðiferð
minni á jörð afa og ömmu.
Þeim minningum sem ég á um afa
minn má skipta í tvennt. Aðrar eru
frá því þegar hann var hraustur og
vinnandi bóndi sem aldrei sló slöku
við; hinar eftir að afi tók að veikjast.
Vorið 1990 var ég einu sinni sem oft-
ar að vori til í sauðburði hjá afa og
ömmu í Miðtúni. Nóg var að gera
enda afi með margt fé og á vorin er
tími annríkis í sveit. Ég man þann
dag enn svo vel þegar ég var ásamt
þeim frændsystkinum mínum Árna
Pétri og Hróðnýju með afa í fjárhús-
unum þegar ég tók eftir að eitthvað
ÁRNI PÉTUR
LUND
✝ Kristján ÁrniPétur Lund
fæddist á Raufar-
höfn 9. september
1919. Hann lést á
öldrunardeild
Sjúkrahúss Húsavík-
ur 1. mars síðastlið-
inn og fór útför hans
fram frá Snartar-
staðakirkju 9. mars.
var að afa. Hann sagði
eitthvað fyrst sem við
skildum ekki og hneig
svo niður. Þetta var í
annað skiptið sem afi
fékk blóðtappa og eftir
þetta náði hann aldrei
fyrri heilsu. Oft var afa
vart hugað líf en að
vera með sterkt hjarta
og löngun til að lifa
sýnir að marga raunina
er hægt að yfirstíga
þrátt fyrir slæmar
horfur. Þegar ég hugsa
um öll þessi skipti sem
afi var veikur á spítala
sé ég að óbilandi löngun afa til að lifa
og sjá ástvini sína var hans sterkasta
vopn í erfiðum veikindum, enda var
afi alltaf í góðu skapi og þótti vænt
um allt og alla.
Í Miðtúni var og er gott að vera og
mér finnst ekkert jafnast á við dvöl
þar, hvort sem er í langan eða stutt-
an tíma. Melrakkasléttan þar sem afi
Árni Pétur og amma Helga byggðu
sitt bú er einstök náttúruparadís þar
sem maðurinn spilar jafnmikilvægt
hlutverk og aðrar lífverur. Það er
ógerningur annað en að hrífast af
mikilfengleika náttúrunnar á svona
stað. Mergð einstakra fuglategunda,
iðandi líf í fjörum og móum sem og
upp til heiða. Mikilvægt varpsvæði
rjúpna gerir það að verkum að fálki á
veiðum er dagleg sjón, mikið magn
andfugla, vaðfugla, máfa og spör-
fugla bætir svo flóruna enn frekar.
Svo á veturna þegar frostið bítur má
sjá kindur á beit í fjörunni og
krumma í ætisleit. Af þessu um-
hverfi mótast þeir sem þar búa og
kennir fólki að meta lífið á sinn hátt.
Það gerði afi tvímælalaust og bauð
alla þá velkomna til sín og ömmu sem
höfðu löngun til að dveljast á Slétt-
unni.
Ég man enn hve mikið ég hlakkaði
alltaf til að fara norður í Miðtún á
vorin og kom fyrir að ég vaknaði sem
strákur, búinn að dreyma alla nótt-
ina að fjölskyldan væri á leið í sveit-
ina til afa og ömmu. Að fara á hest-
bak, keyra traktor, veiða á bryggj-
unni, smala eða hjálpa afa við
eitthvað annað var það sem dró huga
minn norður á Sléttu, og svo auðvit-
að að vera bara í kringum ömmu og
afa. Þarna eignaðist maður góða vini
enda margir frændur og frænkur
sem hittust á Leirhafnartorfunni á
sumrin. Þessi hópur skyldmenna er
enn mjög samhentur og meira en
það, einnig bestu vinir.
Afi gat stundum verið snöggur
upp en var jafnfljótur niður aftur og
alltaf vissi maður að þótt maður
fengi skammir fyrir að gera það sem
ekki mátti eða ekki átti að gera var
það strax gleymt hjá afa. Hann kall-
aði okkur frændurna og syni sína
helst aldrei réttum nöfnum enda
mörg nöfnin sem skipuðu stóran sess
hjá honum. Þetta var einkenni afa
sem gaman var að. Ef hann vantaði
eitthvað gat ávarpið verið eitthvað á
þessa leið: „Æi, Grímur minn, Ninni
minn, Elvar minn, eða nafni minn,
viltu finna fyrir mig...“ eða bara
„heyrðu elskan...“ Hinsvegar var
maður yfirleitt búinn að átta sig
löngu áður en hann hafði sagt rétta
nafnið, sem þýddi einfaldlega að
hann var að tala til þess sem næstur
var í það skiptið. Svona man ég afa
minn alla tíð.
Eftir að árin urðu fleiri og ég hafði
fengið bílpróf urðu ferðirnar í Mið-
tún einnig fleiri og annað var haft
fyrir stafni á Sléttunni. Samt var
alltaf best að hitta bara afa og ömmu.
Haustið eftir að ég lauk grunnskóla
vann ég í sláturhúsinu á Kópaskeri
en bjó í Miðtúni hjá afa og ömmu.
Þessi tími er mér ógleymanlegur, að
vera einn hjá ömmu og afa og búa í
Miðtúni með þeim þótt ekki hafi það
verið langur tími. Veiðimennsku hef
ég hlotið í arf og ekki finnst betri
staður til að stunda hana en norður á
Melrakkasléttu. Eins og ég hef
minnst á áður er mergð einstakra
fuglategunda þar mikil og má þá
nefna sérstaklega tegundir eins og
rjúpu og grágæs. Margar hafa ferð-
irnar verið norður til að fara á gæs,
sem er einstaklega gaman, enda
ræður maður sér sjálfur þar og að
upplifa náttúruna við veiðiskap er
einstök upplifun. Þótt Melrakka-
sléttan sé nærri eins langt frá suð-
vesturhorni landsins og hægt er þá
skiptir vegalengdin engu máli. Það
er góður staður og hafa margir vinir
mínir sem þangað hafa fengið að
koma haft orð á því hve þar er frá-
bært og vilja fara oftar. Ekki vant-
aði, að afi og amma byðu þá hjart-
anlega velkomna. Næst þegar ég
legg leið mína norður með Helga
bróður, Halli og Vigni frænda, eða
hverjum þeim sem verður með í för í
það skiptið, mun afi ekki vera þar til
að taka á móti okkur. Ég veit hins
vegar að ég og aðrir munum hugsa
mikið til hans og vonandi hefur hann
auga með okkur.
Ég hef oft öfundað pabba og
bræður hans yfir að fá að njóta
þeirra forréttinda að alast upp á slík-
um stað sem Melrakkasléttan er.
Þegar þeir voru ungir var margt fólk
á nálægum bæjum og mikið líf í
sveitinni. Mikið langaði mig að búa
þar þegar ég var yngri og hefur það
enn ekki breyst. Afa fannst alltaf
gaman að heyra hve mér og öðrum
leið vel í sveitinni hans og þegar
hann var á spítalanum á Húsavík þar
sem ég heimsótti hann alltaf á leið út
á Sléttu sagði ég honum oft hve mig
hefði langað að taka við búinu hans,
ef ég hefði verið aðeins eldri þegar
hann varð að hætta búskap. Það
þótti afa vænt að heyra en vissi þó að
kindurnar hans og búið gætu ekki
verið í betri höndum en hjá Kidda
frænda og Þóru í Reistarnesi. Fjár-
maður var afi með eindæmum góður
og þekkti hann hverja kind í hús-
unum þótt öðrum þættu þær nánast
eins. Fyrir um þremur árum átti
hann þess kost að fara í fjárhús með
Halli frænda ekki langt frá Húsavík,
þá hættur búskap fyrir löngu og bú-
inn að vera á sjúkrahúsinu í langan
tíma. Hallur minnist þess að þegar
afi kom inn í fjárhúsin hafi hann allur
lifnað við og stokkið ofan í krærnar,
maður sem þurfti hjálp við að standa
upp og leggjast dags daglega. Ekki
þurfti afi nema rétt að taka í lamb-
hrút einn, finna á honum skrokkinn,
þá gat hann sagt til um rétta vigt.
Þetta hafði hann einfaldlega í sér.
Þegar ég hugsa til baka er ég um-
fram allt stoltur af afa mínum enda
var hann hörku duglegur til allrar
vinnu, vinur eins og þeir gerast best-
ir, barngóður með eindæmum, vel að
sér um margt og framúrskarandi
góður í því sem skipti máli til að
byggja bú á harðbýlu landi. Svo
heyrði ég afa aldrei lasta neinum
manni. Við og afi vissum að hverju
stefndi og tími hans var kominn.
Samt er söknuðurinn mikill enda
þótti mér mikið vænt um hann eins
og honum um mig, og alla afkom-
endur sína. Ég kveð nú afa minn
Árna Pétur með þessum orðum og
veit að honum líður nú vel þar sem
hann er.
Guð geymi þig elsku afi minn og
blessi minningu þína.
Þinn
Elvar Árni Lund.
Mig langar að minnast Árna P.
Lund með nokkrum kveðjuorðum.
Fyrir tæplega hálfri öld ólst ég
upp ásamt stórum frændsystkina-
hópi norður á Melrakkasléttu þar
sem tíminn stóð nánast í stað öll
bernskuárin og veröldin afmarkaðist
af fjallahringnum og ströndinn
kringum bæina okkar. Í minning-
unni var þetta fallegur tími þar sem
barnið þekkti árstíðirnar af lyktinni
og birtunni, það er eins og hafi alltaf
verið sólskin. Til að skapa þessa
minningu í huga þarf einstakt gott
mannlíf. Árni Pétur í Miðtúni var
einn af bændunum á neðri bæjunum
á Leirhafnartorfunni maður Helgu
frænku minnar, hinir voru bræður
hennar Kristján og Steinar faðir
minn sem nú eru báðir látnir. Þetta
fólk sem þarna bjó á efri og neðri
bæjunum var allt frændfólk með sína
maka.
Árni Pétur var einn af piltunum
hans afa míns og piltarnir hans afa
voru pabbarnir og aðrir vinnandi
menn. Það var alltaf svo mikil hlýja í
orðunum hans afa míns. Hann vann í
smiðjunni sinni alla daga nánast
blindur maður, en spurði ömmu og
okkur krakkana oft hvað eru piltarn-
ir að sýsla í dag. Piltarnir hans afa
míns voru alltaf eitthvað að sýsla,
það þurfti að byggja hús og rækta
tún, heyja, smala, róa til fiskjar og
fara á greni, stundum skroppið í síld-
arvinnu austur á Raufarhöfn. Sam-
vinnan var mikil og okkur fannst
sjálfsagt að bændurnir væru nefndir
í sömu andránni. Í öllu þessum verk-
um var Árni Pétur afburða duglegur
maður. Þau hjónin reistu sér íbúðar-
hús og nefndu það Miðtún.
Árin liðu hvert af öðru, bændun-
um búnaðist nokkuð vel og búin urðu
stærri. Þar var Árni Pétur fremstur í
flokki, hann hafði ræktað upp gott
fjárbú af miklum dugnaði. Það fædd-
ust alltaf fleiri og fleiri börn á Slétt-
unni. Hjá hjónunum í Miðtúni voru
fæddir sex duglegir strákar og
myndin í huganum tengist litlum
strákhnokkum sem Árni Pétur er að
leiða yfir tún og móa, er litlu hend-
urnar stækkuðu var farið að grípa í
verk og fá hrós fyrir.
Í mínum huga hefur Miðtúns-
heimilið alltaf verið tengt glaðværu
fólki. Helga frænka mín með sinn
skemmtilega húmor og bóndi hennar
snöggur uppá lagið brosir í kampinn
með pípustertinn, einhverjir gestir
við eldhúsborðið og alltaf pláss fyrir
fleiri. Synirnir að koma eða fara og
segja frá einhverju skemmtilegu.
Þessi tími bernskunnar þar sem eng-
inn hafði dáið, en mörg börn fæðst
tók enda. Við vorum minnt á að allt á
sitt upphaf og sinn endi, það var eins
með sumarið á Sléttunni. Þar kom
líka haust og vetur og á tímabili þótti
okkur nóg um kveðjustundirnar, en
við eigum minningu um okkar sam-
ferðafólk sem gaf okkur hlýju og ást
til að vera þær manneskjur sem við
erum í dag. Þjóðfélagið var að breyt-
ast úr bændaþjóðfélagi yfir í þéttari
byggð með öðrum atvinnugreinum
og unga fólkið af Sléttunni aflaði sér
menntunar, stofnaði heimili og sett-
ist ekki að í sveitinni. Við kynntum
makana okkar og síðan börnin hvert
af öðru fyrir fjölskyldunni okkar í
sveitinni. Þar var okkur tekið opnum
örmum. Allir voru velkomnir. Þar
var Miðtúnsheimilið sem okkar ann-
að heimili. Þar var komið fullt af
barnabörnum og nú voru það aðrar
litlar hendur sem Árni Pétur leiddi
og sýndi fjárhúsin sín og kindurnar.
Það var sama hlýjan og áhuginn í
orðunum hans Árna Péturs og áður í
orðum afa míns þegar Árni Pétur
ræddi um tengdadætunar og barna-
börnin sín.
Ég var eitt sinn spurð að því
hvernig er þetta með hann frænda
þinn úr Miðtúni, hann talar alltaf svo
fallega um konuna sína, ég hló og
sagði þeir gera þetta allir, þeir hafa
lært þetta af föður sínum, hann talar
alltaf um Helgu sína í þessum sama
tón.Við frændsystkinin sem ólumst
upp saman eigum góðar minningar
um gott mannlíf sem þessi kynslóð
bjó okkur. Steinar faðir minn dvaldi
hjá systur sinni og mági síðustu árin
sín, þar leið honum svo vel, alltaf svo
gott að borða hjá Helgu minni, sagði
hann. Kristinn bróðir minn tók við
fjárbúinu í Miðtúni og ræktar áfram
sauðfé á Sléttunni. Árni Pétur var
orðinn aldraður maður, hann dvaldi
á Sjúkrahúsi Húsavíkur síðustu árin
en hann fylgdist vel með búskapnum
í sveitinni sinni og var alltaf að
spyrja frétta. Minningin um góðan
mann lifir og þegar nýr dagur rís þá
hverfa stjörnurnar ekki, heldur um-
vefur þær svo mikil birta að við
sjáum þær ekki lengur.
Helgu frænku minni, frændum
mínum í Miðtúni og fjölskyldum
þeirra votta ég samúð mína.
Sesselja Steinarsdóttir.
og það var af fullri einlægni að hann
jafnan tók málstað þeirra sem aðrir
hæddust að. Þá hafði hann oft aðrar
útgáfur af atburðum sem flestir hafa
sannmælst um í opinberum rétttrún-
aði. Hetjur voru ekki heilagar í hans
augum, jafnvel þvert á móti.
Árni Jón gat að sönnu verið óvæg-
inn og jafnvel einsýnn, en hann stóð
líka í margri baráttunni einn og tók
oft til máls þegar aðrir kusu að þegja
af hagkvæmnisástæðum eða af ótta
við yfirvöld staðarins. Slíkir menn
eiga oft fleiri en einn reisupassa, en
ég hygg að þeir séu frekar veigalítil
plögg þegar hið stóra vegabréf eilífð-
arinnar er opnað.
Ég vil að lokum þakka Árna Jóni
kynnin og sendi aðstandendum hans
samúðarkveðjur.
Einar Már Guðmundsson.
Þeim fækkar gömlu stríðshetjun-
um.
Nú þegar ég kveð í dag tengda-
föður minn sem látinn er eftir erfiða
baráttu síðustu vikna kemur margt
upp í hugann. Þegar Árni Jóhannsson
er fallinn frá er horfinn einn af litrík-
ari persónuleikum úr þeim hópi
manna sem stunduðu sjóinn á tímum
hins vitfirringslega hildarleiks seinni
heimsstyrjaldarinnar. Sjómennska á
slíkum tímum setur óafmáanlegt
mark sitt á þá sem af komast en okk-
ur sem þekkjum slíka hluti einungis
af afspurn eða af bíómyndum veitist
oft erfitt að setja okkur í spor þeirra
sem hildirnar háðu og hættir til að
gera grín að því sem við þekkjum
ekki.
Árni byrjaði ungur til sjós og sigldi
á strandferðaskipum, farskipum og
togurum lungann úr sinni starfsævi.
Eftir að sjómennsku lauk vann hann
árum saman hjá Áburðarverksmiðj-
unni í Gufunesi þar til að starfslokum
kom. Á langri starfsævi kynntist
hann mörgum og kom víða við en allt-
af voru sterkastar taugarnar til Eim-
skips þar sem hann sigldi sín mann-
dómsár og mótaðist kannski hvað
mest á þeim tíma. Tengslum sínum
við Eimskip hélt hann til hins síðasta,
mætti þar á aðalfund ár hvert og var
ófeiminn við að bera þar upp mál og
segja skoðun sína á því sem betur
mætti fara. Árni var reyndar alltaf
óhræddur við að láta álit sitt í ljós og
hafði mjög ákveðnar skoðanir á
mönnum og málefnum, jafnvel svo
sumum fannst oft nóg um en aðrir
höfðu jafnvel gaman af.
Árni var félagshyggjumaður og
einlægur sósíalisti, tók virkan þátt í
baráttu sinna stéttarfélaga, tók alltaf
málstað minnimáttar og lagði góðum
málefnum lið þegar honum fannst
þess þurfa með. Hann fæddist og ólst
upp í Reykjavík kreppuáranna og
þurfti ungur að bjarga sér sjálfur.
Hann fór sem unglingur í sveit í
Fljótshlíð og hafði oft uppi minningar
frá dvöl sinni í sveitinni. Síðar á lífs-
leiðinni eignaðist hann kindur sjálfur
sem hann hugsaði um í frístundum
sér til mikillar ánægju.
Árni kynnist Díu að stríðinu loknu
og saman eyddu þau í blíðu og stríðu
rúmum fimmtíu árum. Börnum henn-
ar tveim gekk hann í föðurstað og
saman eignuðust þau sín fjögur börn
sem öll eiga sínar fjölskyldur og af-
komendahópurinn er orðinn býsna
stór.
Það kostaði mikla vinnu að sjá fyrir
stóru heimili en saman eignuðust þau
sitt eigið húsnæði, fyrst í Smáíbúða-
hverfinu og síðustu áratugina bjuggu
þau í húsi sínu sem þau byggðu sér í
Breiðholtinu þar sem barnabörnin
áttu margar stundir með afa og
ömmu.
Er starfsævi lauk og hægðist um
gátu þau gert meira fyrir sig sjálf,
ferðalög og heimsóknir til barna
þeirra erlendis urðu hluti af tilver-
unni og fóru þau t.d. tvisvar í siglingu
til Evrópu með skipum Eimskips.
Kæri tengdapabbi, síðustu tvö ár
voru þér erfið og oft sárt að geta ekki
gert meira til að létta þér tilveruna,
en að leiðarlokum hér vil ég þakka
þér samveruna, siglingar sem við fór-
um saman o.fl. og bið guð og góðar
vættir að leiða þig og vernda á nýjum
siglingarleiðum. Fyrir hönd aðstand-
enda vil ég þakka starfsfólki Land-
spítala fyrir frábæra umönnun í veik-
indum Árna. Guð styrki ykkar starf.
Trausti Ingólfsson.
Handrit afmælis- og minningargreina skulu
vera vel frá gengin, vélrituð eða tölvusett.
Sé handrit tölvusett er æskilegt, að disk-
lingur fylgi útprentuninni. Auðveldust er
móttaka svokallaðra ASCII-skráa, öðru
nafni DOS-textaskrár. Ritvinnslukerfin
Word og Wordperfect eru einnig auðveld í
úrvinnslu. Senda má greinar til blaðsins í
bréfasíma 569 1115, eða á netfang þess
(minning@mbl.is) — vinsamlegast sendið
greinina inni í bréfinu, ekki sem viðhengi.
Nánari upplýsingar má lesa á heimasíðum.
Það eru vinsamleg tilmæli að lengd greina
fari ekki yfir eina örk A-4 miðað við með-
allínubil og hæfilega línulengd – eða 2.200
slög. Höfundar eru beðnir að hafa skírnar-
nöfn sín en ekki stuttnefni undir greinunum.