Morgunblaðið - 27.04.2002, Síða 31
ÚR VESTURHEIMI
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 27. APRÍL 2002 31
Miðasala er í síma 595 7999 og 800 6434, virka daga á milli 9.00 og 17.00, og á
slóðinni www.midasala.is, en einnig má leggja inn miðapantanir á símsvara í síma
551 5677. Miðasala er í húsinu klukkutíma fyrir alla viðburði.
Sunnudags-matinée
sunnudaginn 28. apríl kl. 16:00
Signý Sæmundsdóttir sópran og Gerrit Schuil píanó,
flytja sönglög eftir Strauss, Schönberg og Bernstein
og bresk sönglög á gamansamari nótunum.
ÞJÓÐRÆKNISÞINGIÐ varhaldið í 83. sinn og var það ífyrsta skipti í Bandaríkjun-um. Aldrei hafa þátttakend-
ur verið eins margir, en þeir voru um
350 frá Bandaríkjunum, Kanada og
Íslandi. Aldrei hefur umgjörðin verið
eins glæsileg og aldrei hefur verið
boðið upp á eins viðamikla þriggja
daga dagskrá á þessum vettvangi.
Framtíðin mikilvæg
Framtíð Þjóðræknisfélagsins, upp-
bygging starfsins í Bandaríkjunum
og Kanada auk tengsla félaganna við
Ísland var eitt helsta mál þingsins og
var ýmsum hugmyndum komið á
framfæri, en á þinginu í Vancouver í
Kanada í fyrra var samþykkt að vinna
að því að koma öllum íslenskum fé-
lögum í Norður-Ameríku undir sama
hatt. Sigrid Johnson, forseti INL,
sagði við Morgunblaðið eftir að hún
hafði slitið þinginu sl. sunnudag, að
þessar umræður hefðu verið mjög
mikilvægar og hún byndi miklar von-
ir við störf þeirrar nefndar sem ætti
að skila áliti í þessu efni á næsta þingi.
Nefndarmenn stefndu að því að heim-
sækja stjórnir allra félaga og ræða
málin til að fá fram öll sjónarmið og í
kjölfarið yrðu drög að stefnu mótuð.
Sigrid Johnson sagði að með þessu
þingi hefði ýmsum hindrunum verið
rutt úr vegi og fjöldi þingfulltrúa
segði sitt um áhugann. „Við eigum
svo margt sameiginlegt og ekki síst
ást okkar á Íslandi.“
Mikilvægt þing
Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi
forseti Íslands, var heiðursgestur
þingsins og flutti setningarræðu þess.
Vigdísi var sérstaklega vel fagnað og
hún náði vel til þingfulltrúa eins og
reyndar allir sem lögðu sitt af mörk-
um í viðamikilli dagskrá. Koma henn-
ar vakti líka athygli fjölmiðla og m.a.
fór hún með Sigga Hall, matreiðslu-
meistara, í viðtal hjá ABC-sjónvarps-
stöðinni.
Heiðursgesturinn var mjög ánægð-
ur með þingið. „Svona þing er ákaf-
lega mikilvægt,“ sagði hún og bætti
við að þegar félögin kæmu saman á
þennan hátt fyndu þau frekar fyrir
styrk sínum en veikleika. Augljóst
væri að í eins mannmörgum þjóð-
félögum og Kanada og Bandaríkjun-
um væri erfitt að halda félögum þjóð-
arbrota gangandi, en afkomendum
Íslendinga hefði tekist það. Þingið
hefði verið mjög vel skipulagt og um-
ræðan um þjóðararfinn, þjóðfélags-
mál og framtíð Íslands hefði verið
fróðleg. Þá hefði innlegg rithöfund-
anna og sagnfræðinganna verið sér-
lega skemmtilegt. Engu að síður
hefði verið fátt ungt fólk á þinginu,
rétt eins og hjá norrænu félögunum á
Norðurlöndunum, og ljóst væri að
það þyrfti að ná frekar til æskunnar,
en Snorraverkefnið væri liður í því.
Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar-
og viðskiptaráðherra, flutti kveðju
ríkisstjórnar Íslands og sagði m.a. að
fjölmennið endurspeglaði mikilvægi
þess að starfa saman að sameiginleg-
um markmiðum. Hún minnti m.a. á
mikilvægi Snorraverkefnisins og
greindi frá stuðningi ríkisstjórnar-
innar við málefni sem tengdust Vest-
urheimi.
Aukinn áhugi
Haraldur Bjarnason, læknir á
Mayo-sjúkrahúsinu í Rochester,
Mary Josepson, vararæðismaður, og
Edda Björnson Connell, fyrrverandi
forseti og gjaldkeri Íslendingafélags-
ins Heklu í Minneapolis, voru í und-
irbúningsnefndinni í Minneapolis, en
auk þeirra komu tugir annarra sjálf-
boðaliða að málum fyrir utan stjórn
INL, fulltrúar frá Þjóðræknisfélag-
inu á Íslandi og fulltrúar íslenskra
stjórnvalda, sem studdu þingið á
margvíslegan hátt.
„Undirbúningsvinnan gekk mjög
vel og þingið gat ekki verið betra,“
sagði Haraldur við Morgunblaðið í
þingslok. Hann lagði áherslu á að all-
ir, sem hefðu komið að málum, hefðu
staðið sig frábærlega og þetta erfiða
starf hefði verið skemmtilegt í alla
staði. Sérstaklega ánægjulegt hefði
verið að fá marga gesti frá Íslandi,
sem hefðu gert sitt til að auðga dag-
skrána með fróðlegum erindum og
umræðum um land og þjóð, ýmiss
konar sýningum og skemmtiatriðum.
Samstarfið við íslensku ríkisstjórnina
hefði verið mjög gott, Davíð Oddsson,
forsætisráðherra, og Halldór Ás-
grímsson, utanríkisráðherra, hefðu
sýnt starfinu mikinn velvilja og ómet-
anlegt hefði verið að hafa fulltrúa
stjórnarinnar á staðnum. „Að öðrum
ólöstuðum var sérstaklega gaman að
fá karlakórinn Gamla fóstbræður á
þingið,“ sagði Haraldur. „Kórinn kom
að eigin frumkvæði án fjárhagslegs
stuðnings frá okkur og setti skemmti-
legan svip á hátíðina. Þá var ómet-
anlegt að hafa Vigdísi Finnbogadótt-
ur, Valgerði Sverrisdóttur og Pál
Skúlason, háskólarektor, auk sendi-
herranna með okkur.“
Haraldur sagði enn fremur að
þingið hefði aukið áhugann á Þjóð-
ræknisfélagi Íslendinga í Norður-
Ameríku og auknum tengslum þess
við Ísland. „Það er mjög mikilvægt
auk þess sem mjög miklu máli skiptir
að finna fyrir þessum aukna áhuga
frá Íslandi,“ sagði hann og bætti við
að vonandi skipuðu Bandaríkin álíka
sess á þingum framtíðarinnar og að
þessu sinni. Eins væri mikilvægt að
Bandaríkjamenn tækju þátt í nefnd-
arstörfum í auknum mæli því þannig
kæmust ný sjónarmið betur til skila.
Starfið í INL byggðist á traustum
grunni og hefðin væri sterk. Margt
væri vel gert og starfið væri mjög
mikilvægt en mikill áhugi væri fyrir
því að breyta áherslum Þjóðræknis-
félagsins í Bandaríkjunum. Til dæmis
með því að starfið þar tengdist meira
daglegum viðfangsefnum á Íslandi
eins og kynningu á Íslandi í sambandi
við ferðamál og sölu á íslenskum
vörum. Með því að veita slíka þjón-
ustu gætu bandarísku félögin verið
fjárhagslega sjálfstæðari. „Framtíðin
er spennandi en aðalatriðið er að Ís-
land er miðpunktur alls starfsins.“
Edda Björnson Connell sagði að
þingið sýndi hvers grasrótin væri öfl-
ug en áréttaði að hátíðin hefði aldrei
orðið eins og hún var nema með góð-
um stuðningi íslensku ríkisstjórnar-
innar, Iceland Naturally og annarra
styrktaraðila. Mikill áhugi Banda-
ríkjamanna og Kanadamanna af ís-
lenskum ættum og annarra áhuga-
manna um Ísland og íslensk málefni á
því að koma saman sem ein sterk
heild hefði líka haft mikið að segja.
„Við vorum með frábæra ræðumenn,
ágætar sýningar, besta matinn frá Ís-
landi og einstaka skemmtikrafta. Við
höfum lært mikið á þessu þingi,
styrkt vinasambönd og eignast nýja
vini. Þetta hefur verið besti tími lífs
míns.“
Mary Josepson og Bob Pegram,
eiginmaður hennar, hafa varla gert
annað en vinna að undirbúningi
þingsins frá áramótum. Mary sagði
að þingið sýndi augljóslega hvað mik-
ill áhugi væri á Íslandi í Norður-Am-
eríku. „Þetta getur leitt til enn meiri
þátttöku í Kanada og Bandaríkjun-
um, en rækta verður hverja jurt fyrir
sig og hafa mismunandi þarfir í
huga.“ Hún sagði að hyggja þyrfti að
mörgum mismunandi þáttum varð-
andi lög, fjármál, viðskipti og menn-
ingu, en að ári yrðu línur skýrari.
„Starfið snýst fyrst og fremst um Ís-
land og ást á Íslandi og við þurfum að
taka öllum opnum örmum, sem eru
samstiga okkur að þessu leyti.“
Römm er sú taug
„Römm er sú taug“ er yfirskrift
næsta ársþings Þjóðræknisfélags Ís-
lendinga í Vesturheimi, sem fram fer
í Edmonton í Kanada 1. til 4. maí
2003. Íslendingafélagið Norðurljós
sér um skipulagninguna, en þar hefur
Walter Sopher, 2. varaforseti INL,
verið í fararbroddi. Hann sagði að þó
ekki verði lagt nándar nærri eins
mikið í þingið að ári og gert hafi verið
nú, megi gera ráð fyrir álíka mörgum
þátttakendum. „Íslenska ríkisstjórn-
in á stóran þátt í hvað vel tókst til hér
og þetta var glæsilegt þing. Þingið
okkar verður ekki tilþrifaminna og ég
á von á um 300 þátttakendum,“ sagði
hann, en undirbúningur hefur þegar
staðið yfir í tvo mánuði.
83. ársþing Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi haldið í Minneapolis
Ísland og
íslensk mál-
efni mið-
punktur alls
Þing Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vestur-
heimi fór fram í Minneapolis í Bandaríkjun-
um um liðna helgi. Steinþór Guðbjartsson
fylgdist með þessari glæsilegu hátíð.
Morgunblaðið/Steinþór
Edda Björnson Connell, Haraldur Bjarnason og Mary Josepson á þinginu í McNamara-miðstöðinni.
Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands og
heiðursgestur, og Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og
viðskiptaráðherra, voru helstu ræðumenn þingsins.
Ray Johnson, fyrrverandi forseti Þjóðræknisfélagsins, Sigrid Johnson,
forseti INL, og Harley Jonasson, forseti Íslendingadagsnefndar í Gimli
nýliðin tvö ár, höfðu í nógu að snúast á þinginu í Minneapolis.
Aðalræðismannshjónin í Minneapolis, Maddý og Örn
Arnar, voru áberandi á þinginu og Örn flutti tilfinn-
ingaþrungna og hjartnæma ræðu sl. laugardagskvöld.
Um 350 manns sóttu þingið og er það metþátttaka.
steg@mbl.is