Morgunblaðið - 07.05.2002, Page 14
HÖFUÐBORGARSVÆÐIÐ
14 ÞRIÐJUDAGUR 7. MAÍ 2002 MORGUNBLAÐIÐ
Á einum besta stað í Smáranum er til sölu/leigu
glæsilegt 8.000 fm versl.- og skrifstofuhúsnæði í
tveimur fimm hæða lyftuhúsum á hornlóð við
Smáralind. Um er að ræða Hlíðasmára 1, ca
3.700 fm, og Hlíðasmára 3, ca 4.400 fm, ásamt
tengingu milli húsa. Grunnflötur hæða frá 450 til
1.150 fm. Mjög góð aðkoma. 250 bílastæði.
Eignin afhendist fullbúin að utan, sameign fullbú-
in að innan sem og utan, lóð fullbúin og malbik-
uð bílastæði. Hlíðasmári 3 til afhendingar í júlí
2002. Frábær framtíðarstaðsenting. Byggingar-
aðili Byggir ehf.
HLÍÐASMÁRI 1 OG 3 - TIL SÖLU/LEIGU
jöreign ehf
sími 533 4040
Eignamiðlunin
sími 588 9090
Magnús sími 899 9271
ÞÖRF er á stöðugu eftirliti til að
tryggja að umgengni í og við lóðir í
miðborg Reykjavíkur sé viðunandi.
Það er niðurstaða heilbrigðisfulltrúa
mengunarvarna Umhverfis- og heil-
brigðisstofu Reykjavíkur, en full-
trúarnir skiluðu skýrslu um átaks-
verkefnið „Rusl í miðbæ Reykjavíkur
2002“ á síðasta fundi umhverfis- og
heilbrigðisnefndar.
Í skýrslunni er gerð grein fyrir
verkefninu og hverju það hefur skilað
hingað til en farið var í átakið að
beiðni borgarstjóra og gatnamála-
stjóra.
Kemur fram að átakið er fólgið í því
að farnar eru eftirlitsferðir um ákveð-
in svæði í miðborginni. „Í eftirlitsferð-
um eru skráðar niður athugasemdir
við ástand lóða, umgengni um sorp og
númerslausar bifreiðar. Á staðnum er
reynt að ræða við íbúa eða eiganda
fyrirtækja þegar það er unnt og
benda þeim á það sem athugavert er.
Í kjölfar eftirlitsferða senda heil-
brigðisfulltrúar bréf til þeirra staða
sem umgengni var ábótavant, með til-
skildum fresti til úrbóta,“ segir í
skýrslunni. Bréfinu er fylgt eftir með
ítrekun og áminningu sé ekki farið að
kröfum og er lokaúrræðið að láta
hreinsa lóðina á kostnað eigenda.
Múrbrot í sambland
við húsasorp
Skýrslan tekur til níu eftirlitsferða
sem farnar voru frá janúar til apríl og
voru alls skráðar athugasemdir við 89
staði, þar af 18 fyrirtæki. Þar fyrir ut-
an var gerður fjöldi athugasemda við
íbúa á staðnum þar sem ruslið var
hreinsað í viðurvist heilbrigðisfull-
trúa. Voru þau tilvik ekki skráð sér-
staklega. „Misjafnt var hversu alvar-
legt ástand var á lóðum, allt frá
smávægilegu rusli yfir í múrbrot úr
heilli byggingu í sambland við húsa-
sorp. Nokkrar númerslausar bifreið-
ar hafa fundist í eftirlitsferðum en þó
virðist þetta ekki vera útbreitt vanda-
mál á miðbæjarsvæðinu,“ segir í
skýrslunni.
Kemur fram að töluverð vinna fylgi
þessu eftirliti, m.a. við leit í þjóðskrá,
hjá sýslumanni og símaskrá, til að
finna eigendur og íbúa húsa, því mikil
brögð séu að því að fólk sé ekki rétt
skráð í þjóðskrá. Þá kemur fram að
bréf hafi verið send til flestra staða
þar sem úrbóta var þörf og í þremur
tilvikum hafi aðgerðir gengið svo
langt að búið sé að áminna aðila og
veita lokafrest. Fleiri áminningar eru
fyrirsjáanlegar.
Umtalsverður árangur náðst
Að mati skýrsluhöfunda hefur um-
talsverður árangur náðst frá upphafi
átaksins. Í mörgum tilvikum hafi fólk
brugðist strax við og búið sé að
hreinsa fjölda lóða. Stundum hafi
hreinsunin ekki verið algerlega full-
nægjandi en þó hafi árangur náðst. „Í
nokkrum tilvikum hefur úrgangur
verið fjarlægður en jafnóðum farið að
safnast upp á ný.“ Þá er það nefnt að
einnig sé annað átak í gangi um sorp-
mál veitinga- og kaffihúsa í miðbæn-
um sem geri það að verkum að eig-
endur slíkra staða séu meðvitaðir um
þær kröfur sem til þeirra eru gerðar.
Segir í lokakafla skýrslunnar að
þrátt fyrir þennan árangur sé ljóst að
þörf sé á stöðugu eftirliti til að koma í
veg fyrir að aftur sæki í sama horf. Er
það tillaga heilbrigðisfulltrúanna að í
hverjum mánuði fari tveir fulltrúar
mengunarvarna í vettvangsferðir um
miðbæjarsvæðið. „Hér er ekki um að
ræða verkefni sem unnt er að klára í
eitt skipti fyrir öll þar sem gagngera
hugarfarsbreytingu íbúa þarf til þess
að það náist,“ segir að lokum í skýrsl-
unni.
Ný skýrsla um rusl í miðborginni
Þarf hugarfars-
breytingu íbúa
Reykjavík
Í eftirlitsferðum eru skráðar niður athugasemdir við ástand lóða, um-
gengni um sorp og númerslausar bifreiðar. Hér má sjá heilbrigðisfull-
trúa að skrá athugasemdir í einni slíkri ferð í vetur sem leið.
NÝR fundargestur er kominn til
sögunnar á kennarafundunum í
Áslandsskóla í Hafnarfirði. Sá er
ekki hár í loftinu og hann hefur
hvorki málfrelsi- né tillögurétt.
Hins vegar hefur hann afskap-
lega ríka þjónustulund og á sér
það takmark eitt í lífinu að
skenkja viðstöddum vatn. Um er
að ræða ofurlítið vélmenni gert
úr legókubbum og eru skaparar
hans 7–12 ára gamlir strákar í
skólanum.
Strákarnir sækja allir auka-
tíma í vélmennaþróun við skólann
en kennari þeirra er Jóhann
Breiðfjörð, sem segist frekar
kjósa orðið „þjarkur“ um vél-
menni á borð við þetta. „Í upp-
hafi benti ég krökkunum á að
þjarkarnir eru notaðir til þess að
létta fólki störf og sinna verk-
efnum sem eru einhæf eða leið-
inleg þannig að maður geti spar-
að sér tíma og nýtt hann í
eitthvað skemmtilegra. Þá komu
upp hugmyndir um hvaða verk-
efni innan skólans við gætum lát-
ið vélmennið taka að sér og sinna
fyrir starfsmennina. Meðal ann-
ars var rætt um að láta það
sækja póst, en það varð ofan á að
búa til þjark sem myndi afgreiða
vatn. Þannig ákváðu krakkarnir í
rauninni verkefnið og svo hófst
þróunarvinnan.“
Um 200 kíló af
Lego-kubbum
Vélmennið smíðuðu verkfræð-
ingarnir ungu úr Lego-kubbum
en skólinn hefur yfir að ráða um
200 kílóum af þessu bygging-
arefni. „Við keyptum nokkur ein-
tök af tölvuheilum, snertiskynj-
urum og ljósskynjurum til
skólans og höfum verið að nota
þetta í vélmennaþróunartímunum
ásamt þessum 200 kílóum af
kubbum sem ég lánaði skólanum
með leyfi Lego-fyrirtækisins.“
Í ljós kemur að Jóhann starfaði
hjá Lego-Technik í fimm ár við
að hanna módel. Á þeim tíma
sendi fyrirtækið honum 200 kíló
af kubbum sem hann nýtti við
vinnuna en sá lager er nú not-
aður við þjarkaþróunina í Ás-
landsskóla.
Hann segir þróunarvinnuna og
smíði þjarksins hafa tekið nánast
alla önnina en strákarnir sinntu
ólíkum verkefnum í þróuninni.
„Þetta hefur verið mikil sam-
vinna en þeir þurftu að gera til-
raunir með gripklær og snerti-
skynjarana og sjá um forritun og
svo framvegis.“
Að sögn Jóhanns starfar þjark-
urinn þannig að með fulltingi
ljósskynjara, sem nemur muninn
á svörtu og hvítu, ekur hann um
á fundarborðinu með því að
fylgja svörtu límbandi sem er sett
á borðplötuna. Þegar þjarkurinn
kemur að plastglasi læsir hann
gripklóm utan um glasið en milli
gripklónna er snertiskynjari sem
nemur snertinguna við glasið.
Um leið fer í gang mótor sem
opnar fyrir rennsli í röri úr plast-
flösku, sem þjarkurinn ber með
sér. Þá hellir hann í glasið og að
því loknu heldur hann áfram eftir
línunni þar til hann kemur á
áfangastað þar sem á að afhenda
glasið.
Vélknúinn sópur
í burðarliðnum
Jóhann segir þjarkinn vera
kominn í fulla notkun og hafa
sýnt að hann virkar fullkomlega.
Vélmennasmiðirnir eru því að
vonum stoltir og langt því frá af
baki dottnir í vélmennaþróuninni.
„Eitt aðalvandamálið hjá okkur
er að það dettur svo mikið af
kubbum á gólfið þannig að nú er
verið að útbúa sóp sem keyrir um
gólfið og sópar saman kubb-
unum.“ Það er því greinilegt að
notagildið og skemmtanagildið er
í hávegum haft meðal hugvits-
mannanna ungu í Áslandsskóla.
Vélvirkur vatnsberi
í Áslandsskóla
Hafnarfjörður
Næsta verkefni verður að þróa vélmenni sem sópar gólf en Lego-
kubbarnir eiga það til að detta niður af borðum við þróunarvinnuna.
Hér er það Pétur Már sem er niðursokkinn í Lego-kubbahrúguna.
Daníel Geir Karlsson og Kristófer Óli Þorvarðarson gera úttekt á þjarkanum en auk þeirra eiga þeir Aron
Heiðar Steinsson, Ágúst Fannar Ásgeirsson, Brynjar Helgi Guðmundsson, Einar Bragi Rögnvaldsson, Gísli
Steinn Gíslason, Guðmundur Hjálmar Egilsson, Hafsteinn Fannar Ragnarsson, Pétur Már Gíslason og Þórarinn
Jónas Ásgeirsson heiðurinn af vélmenninu sem nú sér kennurum skólans fyrir vatni á löngum fundum þeirra.