Morgunblaðið - 10.05.2002, Side 60
MORGUNBLAÐIÐ, KRINGLUNNI 1, 103 REYKJAVÍK, SÍMI 569 1100, SÍMBRÉF 569 1181, PÓSTHÓLF 3040,
ÁSKRIFT-AFGREIÐSLA 569 1122, NETFANG: RITSTJ@MBL.IS, AKUREYRI: KAUPVANGSSTRÆTI 1 FÖSTUDAGUR 10. MAÍ 2002 VERÐ Í LAUSASÖLU 190 KR. MEÐ VSK.
EMBÆTTI yfirdýralæknis óttast
að sú staða geti komið upp að mark-
aðir lokist fyrir íslenskar landbún-
aðarafurðir vegna þess að framleið-
endur uppfylli ekki þær lágmarks-
kröfur sem móttökulönd afurðanna
setja. Þetta er meðal þess sem kem-
ur fram í ársskýrslu embættisins
fyrir árið 2001, sem gefin var út í
vikunni.
Í skýrslunni kemur ennfremur
fram að eftirlitsmaður frá Banda-
ríkjunum hafi komið hingað til lands
í október sl. og skoðað, ásamt dýra-
lækni heilbrigðiseftirlits sláturdýra
og sláturafurða, sláturhús sem hafa
útflutningsleyfi á Bandaríkjamark-
að, rannsóknastofur á Keldum,
Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og
einn bóndabæ. Helstu niðurstöður
þeirrar heimsóknar voru þær að
sláturhúsið á Hornafirði missti út-
flutningsleyfi til Bandaríkjanna,
gerð var athugasemd við að hausar
voru ekki heilbrigðisskoðaðir í sauð-
fjárslátrun, nokkrir ágallar voru á
framkvæmd innra eftirlits í slátur-
húsunum og kólirannsóknir í tveim-
ur sláturhúsum voru gerðar með að-
ferð sem Bandaríkin hafa ekki
viðurkennt.
Hafa tekið sig á
Gísli Sverrir Halldórsson, dýra-
læknir inn- og útflutningseftirlits
búfjárafurða hjá embættinu, segir
við Morgunblaðið að þótt framleið-
endur og útflytjendur hafi tekið
verulega á þessum málum og
ástandið sé orðið gott í dag, sé sá ótti
ávallt fyrir hendi að einhver mistök
eigi sér stað. Mönnum sé alvaran
orðin ljós og halda þurfi áfram
ströngu eftirliti og aðhaldi.
Ekki náðist í Halldór Runólfsson
yfirdýralækni í gær, þar sem hann
er í fríi erlendis, en í skýrslunni seg-
ir hann m.a. að umræða hér á landi
um kúariðu og hugsanlega hættu af
völdum innfluttra matvæla hafi verið
fyrirferðarmikil á fyrri hluta síðasta
árs.
„Segja má að umræða þessi hafi
farið úr böndunum og þrátt fyrir að
Ísland sé með ströngustu innflutn-
ingslöggjöf hvað varðar matvæli
sem þekkist og henni sé strangt
fylgt eftir, þá var talið að mistök
hefðu verið gerð. Viðamikil úttekt
virts lögfræðiprófessors leiddi í ljós
að engin lög hefðu verið brotin með
innflutningi á írskum nautalundum,
enda var varan alls staðar lögleg í
öðrum löndum EES-svæðisins,“
segir Halldór.
Yfirdýralæknir segir jafnframt að
sá ánægjulegi árangur hafi náðst á
síðasta ári að eingöngu eitt tilfelli af
riðu í sauðfé hafi greinst. Tilfellum
hafi farið ört fækkandi á liðnum ár-
um og vonandi sé það vísbending um
að staðið sé rétt að málum varðandi
útrýmingu þessa illvíga sjúkdóms.
„Ekki má þó slaka á þeim vörnum
sem nauðsynlegar eru vegna sjúk-
dómsins, því búast má við að bar-
áttan muni standa í áratugi áður en
því markmiði verður náð að við get-
um lýst því yfir að landið sé laust við
sjúkdóminn,“ segir yfirdýralæknir.
Embætti yfirdýralæknis um íslenskar afurðir í ársskýrslu sinni
Óttast að mark-
aðir geti lokast
ÁVÖXTUNARKRAFA og afföll
húsbréfa hafa stöðugt verið að lækka
að undanförnu, og er það í samræmi
við spár sérfræðinga Íbúðalána-
sjóðs, að sögn Halls Magnússonar
hjá Íbúðalánasjóði. Ávöxtunarkrafa
á nýjasta flokki húsbréfa var 5,53%
að meðaltali á miðvikudag en lægst
fór hún niður í 5,45%. Til saman-
burðar nam ávöxtunarkrafan 5,80%
fyrir mánuði. Afföll af sama flokki
húsbréfa voru 8,97% á miðvikudag
en voru 12,77% 8. apríl síðastliðinn.
Hallur segir að sú lækkun hafi
verið að koma fram sem sérfræðing-
ar Íbúðalánasjóðs hafi verið að spá
um langan tíma, eða frá því í haust.
„Í undanförnum mánaðaskýrslum
höfum við haldið því fram að ávöxt-
unarkrafa húsbréfa hafi verið óeðli-
lega há. Hún er að lækka og fyrir því
eru einkum tvær ástæður. Í fyrsta
lagi standast áætlanir okkar nokk-
urn veginn. Framboð húsbréfa er að
minnka miðað við það sem áður var.
Í öðru lagi eru vextir almennt í sam-
félaginu að lækka. Bankavextir hafa
alltaf áhrif á ávöxtunarkröfu hús-
bréfa,“ segir Hallur.
Hann segir að vextir á markaði
hafi verið mjög háir og eðlilega fari
fjármagnseigendur með sína pen-
inga þar sem þeir fá mun hærri vexti
en af húsbréfum. „Þetta hefur þýtt
hærri ávöxtunarkröfu húsbréfa og
hærri afföll. Núna þegar vextir hafa
lækkað í landinu gengur þessi þróun
til baka. Eftirspurn er að aukast eft-
ir þessum fjárfestingarkosti sem
húsbréfin eru. Lækkunin hefur verið
veruleg á skömmum tíma,“ segir
Hallur.
Ávöxtunarkrafa
húsbréfa á niðurleið
!
#$%& &'( )#&
! !
"
#
#% #% #%&#
#%&
#% #% #%##
#%#
#% TVEIMUR mönnum var bjargað
eftir að gúmmíbát þeirra hvolfdi fyr-
ir utan Breiðina á Akranesi í gær.
Mönnunum tókst að komast upp á
kjölinn og höfðust þar við í um
klukkustund áður en þeim var bjarg-
að um borð í bát Björgunarfélags
Akraness. Þeir voru báðir í flotgöll-
um og varð ekki meint af volkinu.
Mennirnir höfðu verið að skjóta
svartfugl þegar bátnum hvolfdi um
50–100 metra frá landi.
Tveir menn í Björgunarfélaginu
voru á leið til köfunar þegar vegfar-
andi kom þar að og sagði tvo menn í
vanda fyrir utan Breiðina en hann
hafði séð til þeirra frá landi. Þegar
að var komið hafði mönnunum verið
bjargað um borð í trillu sem átti
þarna leið hjá. Þeir voru aðstoðaðir
við að koma bátnum á réttan kjöl og
síðan var siglt í land.
Í klukku-
stund á kili
BETUR fór en á horfðist
þegar ellefu ára dreng-
ur, Ágúst Páll Krist-
jánsson, féll í sjóinn af
klettum við Árskógs-
strönd í gær, en þrettán
ára bróðir hans, Þórólfur
Sveinbjörn, náði honum
upp. Ágúst Páll féll aftur
fyrir sig í sjóinn og lenti
með höfuðið á steini. Til
allrar hamingju var hann
með hjólahjálm á höfð-
inu, sem móðir hans tel-
ur að hafi bjargað lífi
hans.
Drengirnir voru að
veiða utan í grjótgarði
við höfnina ásamt Daníel
Smára Jakobssyni, níu
ára vini þeirra. Ágúst Páll ætlaði að
ná þorski sem þeir höfðu veitt þeg-
ar hann rann á þara og datt aftur
fyrir sig niður grjótgarðinn og í sjó-
inn. Valgerður Kristjánsdóttir,
móðir bræðranna, telur að fallið
hafi verið á annan metra.
Þórólfur var með spotta með
lykkju í fórum sínum, kastaði öðr-
um endanum til bróður síns og lét
Daníel halda í. Sjálfur lagðist hann
á magann og skorðaði annan fótinn
í grjótinu og náði að teygja sig til
Ágústs. Hann náði taki á peysunni
hans og gat þannig tosað hann upp.
Ágúst segist hafa verið mjög
hræddur þegar hann var í sjónum,
en móðir hans segir að hann hafi
verið í sjónum í um sjö mín-
útur. „Ég hugsaði ekki um
neitt nema að komast upp úr.
Mér var mjög kalt, ég skalf
alveg úr kulda,“ segir hann
og segir móðir hans að hann
hafi verið orðinn loppinn og
að hann hefði vart getað
þraukað þar mikið lengur.
Aðspurður segist Ágúst Páll
ekki ætla að leika sér þarna
aftur. „Ég var með hjálm á
höfðinu, sem betur fer, en
hann er allur skrapaður
núna. Bróðir minn var búinn
að taka af sér hjálminn,“ seg-
ir Ágúst.
Hann segist þakklátur
bróður sínum. „Í fyrra ætlaði
strákur að henda múrsteini í
höfuðið á Þórólfi og ég sá fyrir mér
að múrsteinninn myndi fara í gler-
augun hans og hann yrði kannski
blindur eða eitthvað og hljóp því
fyrir múrsteininn. Ef ég hefði ekki
gert það myndi ég kannski vera
drukknaður núna,“ segir Ágúst
sem virðist ekki hafa orðið meint af
volkinu.
13 ára drengur bjargaði
bróður sínum úr sjónum
Morgunblaðið/Kristján
Ágúst Páll, lengst til vinstri, var í sjö mínútur í sjón-
um áður en Þórólfur bróðir hans náði að draga hann
á land. Hér eru þeir með Daníel Smára vini sínum.
ÞEIR veiddu vel af svartfugli
þessir vinir sem fóru saman á
skyttirí út á Faxaflóa í gær. Alls
komu þeir að landi með um 400
fugla sem þeir veiddu um 10 sjó-
mílur norðvestur af Reykjavík,
eða út af Syðra-Hrauni.
Eyvindur Jóhannsson, skip-
stjóri á Ingu Dís, sem þeir fé-
lagar fóru út á, segir að mikið af
fugli hafi verið í flóanum, mun
meira en síðustu ár. Þeir fara
reglulega saman í veiðitúra,
hvort sem það er í sjóstanga-
veiði eða á skyttirí. Sjálfur fór
Eyvindur með föður sínum út á
sjó til að skjóta svartfugl þegar
hann var strákur.
Ætla að gefa vinum og
vandamönnum af veiðinni
Félagarnir ætla að skipta
bráðinni á milli sín og gefa vin-
um og vandamönnum til matar.
Mest fengu þeir af langvíu og
álku, en Eyvindur segir að þeir
hafi látið lundann alveg vera þar
sem hann sé svo smár á þessum
árstíma. Í dag er síðasti dag-
urinn sem veiða má svartfugl, en
álka, langvía, stuttnefja, teista
og lundi eru friðuð yfir sumar-
tímann, frá 11. maí–30. ágúst.
Eyvindur segir að fuglinn fari að
koma inn í Flóann upp úr 15.
apríl þannig að veiðitíminn á
vorin er tæpar fjórar vikur.
Félagarnir skutu fuglinn með
haglabyssum og veiddu hann
síðan upp úr sjónum með háf.
Þeir fóru út um klukkan 9 í gær-
morgun og ætluðu að vera fram
á kvöld, en veiðin var svo mikil
að þeir kláruðu öll skotin um
miðjan dag og sneru aftur til
hafnar.
Næstu daga ættu borðin hjá
þeim félögum að svigna af kræs-
ingum af bestu gerð, því mörg-
um þykir svartfuglinn herra-
mannsmatur. Ljóst er að fleiri
svartfuglsskyttur hafa verið á
ferðinni í blíðskaparveðri á
Faxaflóa í gær, en skothvellir
heyrðust reglulega á Seltjarnar-
nesi.
Morgunblaðið/Kristinn
Svartfuglsskytturnar með hluta af feng dagsins. Frá vinstri má sjá
Eyvind Jóhannsson, þá Friðbjörn Björnsson og loks nafnana Rúnar
Karlsson og Daðason. Þeir voru hæstánægðir með árangurinn.
Krökkt af svart-
fugli á Faxaflóa