Morgunblaðið - 14.11.2002, Blaðsíða 22
AKUREYRI
22 FIMMTUDAGUR 14. NÓVEMBER 2002 MORGUNBLAÐIÐ
FRAMKVÆMDASTJÓRN Fjórð-
ungssjúkrahússins á Akureyri hef-
ur ákveðið að ganga frá stofnana-
samningum við starfsfólk og er
stefnt að því að ljúka vinnu við þá
á næstu vikum eða fyrir áramót.
Áætlaður kostnaðarauki vegna út-
gjalda sem til verða í kjölfar
þeirra nemur um 60 milljónum
króna á ári, en að auki er gert ráð
fyrir viðbótarkostnaði vegna
kjarasamnings lækna sem gæti
verið um 20 milljónir króna.
Nokkur órói var fyrr í haust
meðal starfsfólks vegna þess að
ekki var gengið frá stofnanasamn-
ingum líkt og flestar heilbrigðis-
stofnanir höfðu þá gert, en fram-
kvæmdastjórn tók þá ákvörðun að
ganga ekki frá þessum samningum
fyrr en tekist hefði að tryggja fjár-
magn til að mæta þeim kostnaðar-
auka sem hann hefði í för með sér.
Vignir Sveinsson, framkvæmda-
stjóri fjármála og reksturs hjá
FSA, sagði að fulltrúum heilbrigð-
is- og fjármálaráðuneyta hefði ver-
ið kynnt staðan, en fjármagn væri
enn ekki tryggt. „Við gerum okkur
þó vonir um að tekið verði tillit til
þessa á fjáraukalögum,“ sagði
Vignir.
Launagjöld nema um 68% af út-
gjöldum sjúkrahússins og hafa þau
hækkað um nær 12% miðað við
fyrra ár. Mikill árangur hefur þó
náðst í því að draga úr yfirvinnu
að því er fram kemur í grein-
argerð með 9 mánaða uppgjöri á
rekstri FSA og hefur greiddum yf-
irvinnustundum fækkað um tæp-
lega 14% og aukavöktum um 66%
miðað við fyrra ár.
Heildarhalli gæti numið
um 250 milljónum
Fram kemur í rekstraryfirliti að
útgjöld umfram fjárheimildir á
fyrstu 9 mánuðum ársins nema um
120 milljónum króna. Sé gengið út
frá því að halli á síðustu þremur
mánuðum ársins verði svipaður á
liðnu tímabili gæti afkoma ársins
orðið neikvæð um 150-60 milljónir
króna, en heildarhallinn gæti í árs-
lok numið 230 til 250 milljónum
króna án aukafjárveitinga þegar
tekið er tillit til stofnanasamninga
og viðbótarkostnaðs vegna kjara-
samnings lækna. Í frumvarpi til
fjáraukalaga er gert ráð fyrir 55
milljóna króna viðbótarframlagi.
Telja forsvarsmenn FSA að ýmis
atriði séu vanreiknuð í fjárlögum
þessa árs og í frumvarpi til fjár-
laga fyrir næsta ár. Hefur ítarleg
greinargerð vegna þessa verið
kynnt í heilbrigðisráðuneyti og
vænta menn þess að leiðréttingar
náist.
Framkvæmdastjórn FSA ætlar
að gera stofnanasamninga
Kostnaðarauki upp
á 60 milljónir króna
HVÍTUR stormsveipur er yfirskrift tvennra djass-
tónleika sem haldnir verða á Græna hattinum á Ak-
ureyri á laugardag, 16. nóvember og eru tileinkaðir
minningu Finns Eydal, tónlistarmanns, sem lést
þennan dag fyrir 6 árum.
Efnisskrá tónleikanna er í anda Finns og verður
sveifludjassinn allsráðandi. Fjölmargir tónlist-
armenn koma fram, m.a. Inga Eydal, söngkona,
Snorri Guðvarðsson, gítar, Árni Ketill, trommur,
Helena Eyjólfsdóttir, söngkona, Gunnar Gunn-
arsson, píanó, Ingvi Rafn Ingvason, trommur, Jón
Rafnsson, bassi, Björn Thoroddsen, gítar og danski
klarinettuleikarinn Jörgen Svare, sem til margra
ára hefur verið í hópi fremstu djassklarinettuleik-
ara Evrópu.
Fyrri tónleikarnir hefjast kl. 20.30 en þeir síðari
kl. 23.30. Forsala aðgöngumiða er í veitingahúsinu
Bláu könnunni á Akureyri og hjá Jóni Rafnssyni,
m.a. á netfanginu jrbass@mmedia.is.
Tvennir djasstónleikar tileinkaðir minningu Finns Eydal
Hvítur
stormsveipur
Morgunblaðið/Kristján
Finnur Eydal blæs í klarinettinn á minningartónleikum
um bróður sinn, Ingimar, í október 1996.
ÞESSA dagana er verið að fjölga
hraðahindrunum í svokölluðum 30
km hverfum á Akureyri, sem þegar
eru orðin nokkur talsins. Alls verða
settar upp 6 hraðahindranir í þess-
ari lotu, í Einholti, Gránufélags-
götu, Grenivöllum, Víðivöllum, Eyr-
arvegi og Eyrarlandsvegi. Hætt var
við setja upp hraðahindrun í Skóla-
stíg, þar sem fyrirhugaðar eru
breytingar á vegakerfinu þar, í
tengslum við stækkun Brekkuskóla.
Nýjar hraðahindr-
anir í 30 km hverfum
Morgunblaðið/Kristján
Unnið við gerð hraðahindrunar í Einholti á Akureyri.
KARLMANNI á þrítugsaldri
hefur verið sleppt úr haldi lög-
reglu á Akureyri, en hann hafði í
Héraðsdómi Norðurlands
eystra verið úrskurðaður í
gæsluvarðhald til föstudags, 15.
nóvember, vegna fíkniefnamáls.
Daníel Snorrason lögreglu-
fulltrúi rannsóknarlögreglunnar
á Akureyri sagði að rannsókn
málsins hefði verið það langt á
veg komin að ekki hefði verið
þörf á að halda manninum leng-
ur. Maðurinn viðurkenndi að
hafa átt fíkniefni sem fundust
við leit á heimili hans í tengslum
við handtökuna. Auk hans voru
þrír 16 ára drengir yfirheyrðir
og viðurkenndu þeir hassneyslu
auk þess sem fíkniefni fundust á
tveimur þeirra.
Í tveimur fíkniefnamálum
sem nýlega komu upp í bænum
lagði lögregla hald á samtals 334
grömm af kannabisefnum, 65 e-
pillur, nokkurt magn af e-pill-
umulningi, 12 grömm af amfeta-
míni og nokkurt magn sveppa.
Maðurinn sem var í haldi tengd-
ist öðru þessara mála.
Manni sleppt
úr haldi
BÆKLUNARDEILD FSA verður
með opið hús í kennslustofu FSA
föstudaginn 15. nóvember frá kl. 14–
15.30 í tilefni 20 ára afmælis deild-
arinnar. Anna Lilja Filipsdóttir
deildarstjóri bæklunardeildar
ávarpar gesti og síðan mun Júlíus
Gestsson forstöðulæknir bæklunar-
og slysadeildar kynna starfsemi
bæklunardeildar.
Einnig verður afmælisrit bæklun-
ardeildar kynnt sérstaklega. Í ritinu
sem ber heitið; „Vörðuð leið til betri
heilsu,“ er fjölbreytt og áhugavert
efni, m.a. samantektir frá fyrrver-
andi og núverandi stjórnendum
deildarinnar. Þema blaðsins er „For-
varnir og meðferð við beinbrotum af
völdum beinþynningar.“ Fjallað er
um þetta þema frá ýmsum sjónar-
hornum í afmælisritinu. Læknar,
hjúkrunarfræðingur, íþróttafræð-
ingur, sjúkraþjálfari, næringarráð-
gjafi, sjúkraliði og félagsráðgjafi
skrifa greinar um þetta efni og einn-
ig er birt dagbók sjúklings.
Afmælisritið mun liggja frammi á
heilsugæslustöðvum og öðrum heil-
brigðisstofnunum, auk þess sem
blaðið verður kynnt sérstaklega á
opnu húsi á föstudaginn, sem fyrr
segir.
Bæklunardeild FSA 20 ára
Opið hús og útgáfa
afmælisrits
BÆJARSTJÓRN Fjarðabyggðar
hefur samþykkt að ganga til samn-
inga við Trésmíðaverkstæði Sveins
Heiðars á Akureyri um úthlutun á
byggingarreit sem nefnist Melur l.
Sveinn Heiðar Jónsson, fram-
kvæmdastjóri fyrirtækisins, sagði að
á þessum byggingarreit væri fyrir-
hugað að reisa 50–60 nýjar íbúðir;
raðhús, parhús og einbýlishús.
Nú hefst vinna við að útfæra bygg-
ingarreitinn nánar, að sögn Sveins
Heiðars, gera verkáætlanir og vinna
að samningum auk þess sem sveitar-
félagið mun á næstunni fara að huga
að undirbúningi vegna gatnagerðar
og fleiri atriða. Sveinn Heiðar sagði
að húsin yrðu að mestu smíðuð á Ak-
ureyri og flutt í pörtum austur þar
sem þau verða sett upp. Kvaðst hann
leggja mikla áherslu á að fá heima-
menn til samstarfs við sig vegna
uppsetningar og frágangs húsanna.
Hann sagði að um nokkurra ára
verkefni væri að ræða og að sér hefði
verið afar vel tekið fyrir austan. „Ef
álver rís í Reyðarfirði þarf að byggja
mikinn fjölda íbúða á staðnum.“
Akureyrskur verktaki fær
byggingarreit í Fjarðabyggð
Reisir 50–60 íbúð-
ir á næstu árum
Jórunn Magnúsdóttir frá Náms-
gagnastofnun kynnir rafrænt náms-
efni í dönsku í Háskólanum á Ak-
ureyri, stofu K203, Sólborg frá kl. 16
til 18 í dag, fimmtudag. Kynnt verða
forritin Myndaorðabók og God
bedre bedst auk veftímaritanna
Dan-net og En dansk hjemmeside
sem eru á heimasíðu Náms-
gagnastofnunar.
Í DAG