Morgunblaðið - 21.11.2002, Side 12
FRÉTTIR
12 FIMMTUDAGUR 21. NÓVEMBER 2002 MORGUNBLAÐIÐ
TILLÖGUR nefndar,
sem skipuð var af há-
skólaráði Háskóla Ís-
lands um að gerðar
verði breytingar á
löggjöf um háskóla-
stigið, hafa vakið at-
hygli og hafa þær
jafnframt sætt gagn-
rýni rektora annarra
háskóla, eins og fram
hefur komið í Morg-
unblaðinu. Páll Skúla-
son, rektor Háskóla
Íslands, sendi
menntamálaráðherra
tillögugerðina í sept-
ember sl. og nú hefur
ráðherra vísað henni áfram til sam-
starfsnefndar háskólastigsins til um-
fjöllunar.
Páll segir að tillögurnar séu í sam-
ræmi við stefnu evrópskra háskóla
varðandi samræmingu háskólanáms
og gæði háskólamenntunar. Efnis-
lega snúast tillögurnar um þrennt:
(1) að gerður sé greinarmunur á mis-
munandi skólum á háskólastigi eftir
því hvort þeir leggja megináherslu á
kennsluna eða á hvort tveggja í senn
kennslu og rannsóknir, (2) um aukn-
ar kröfur og eftirlit með gæðum há-
skóla, og (3) um sambærilega fjár-
mögnun skóla án tillits til eignar-
halds.
Unnið að uppbyggingu
rannsóknastarfseminnar
Páll Skúlason segir að innan Há-
skólans sé unnið af miklum krafti að
uppbyggingu rannsóknastarfsem-
innar á öllum sviðum skólans. „Við
gerum miklar kröfur til sjálfra okkar
og á mörgum fræðasviðum stöndum
við jafnfætis sterkum háskólum á al-
þjóðavettvangi,“ segir hann.
Páll bendir á að tillögurnar, sem
unnar hafi verið í nefnd á vegum há-
skólaráðs sem í sátu nokkrir deild-
arforsetar og fulltrúi stúdenta, séu
nú lagðar fram til umræðu. „Ég lít
svo á að við séum að hefja mjög mik-
ilvæga umræðu um uppbyggingu há-
skóla á Íslandi, sem snýst annars
vegar um innri mál háskólanna en
hins vegar um leikreglur ríkisvalds-
ins. Sú umræða er löngu orðin tíma-
bær og það er mjög mikilvægt að
menn geri sér grein fyrir því hvað
háskólar eru, hver hlutverk þeirra
séu og að fólk átti sig á því að það eru
til ólíkar tegundir háskóla,“ segir
hann.
Páll segir mikilvægt að við upp-
byggingu háskólastigsins á Íslandi
sé þess gætt að fjölbreytni sé fyrir
hendi í þeirri háskólamenntun sem
boðið er upp á hér á landi. „Háskóli
Íslands hefur kappkostað að svo sé
og það þarf að huga að því, þegar ný-
ir skólar hefja starfsemi, að þeir
bjóði fram einhverja nýja kosti,“
segir hann. „Þeim fjölgar sífellt sem
sækja í háskólanám, og megin-
ástæða þess er vaxandi þörf þjóð-
félagsins fyrir menntun
af öllu tagi. Þess vegna
er svo mikilvægt að há-
skólarnir bjóði upp á
fjölbreyttar og ólíkar
námsleiðir fyrir sí-
stækkandi og stöðugt
sundurleitari nemenda-
hóp sem til þeirra leit-
ar.“
Páll segir einnig þýð-
ingarmikið við uppbygg-
ingu háskólamenntunar
á Íslandi að háskóla-
menn taki sjálfir virkan
þátt í mótun hennar, hafi
sjálfir stöðugt eftirlit
með starfseminni og
beiti sér fyrir því að til staðar séu
hlutlægir mælikvarðar sem lagðir
eru á árangur af háskólastarfinu.
Einnig þurfi að vera fyrir hendi virk
og sanngjörn kerfi sem hvetja kenn-
ara og fræðimenn til að standa sig
sem allra best. „Hér í Háskóla Ís-
lands vinnum við af krafti að því að
þróa gæðakerfi, auka eins og kostur
er rannsóknir og fjölbreytni í nám-
inu og við viljum beita okkur fyrir
því að allt háskólastigið noti skyn-
samleg gæðaviðmið.“
Skýrari greinarmunur
Ein megintillaga nefndarinnar er
að gerður verði skýrari greinarmun-
ur í lögum á rannsóknaháskólum og
öðrum skólum á háskólastigi. „Þar
með erum við alls ekki að halda því
fram að Háskóli Íslands eigi að vera
eini rannsóknaháskólinn í landinu.
Það er að sjálfsögðu ekkert sem
mælir gegn því að aðrir skólar þróist
og sinni rannsóknum. Það er af hinu
góða,“ segir Páll um þessa tillögu-
gerð.
Hann bendir á að víðast hvar er-
lendis sé gerður sjálfsagður grein-
armunur á háskólum eftir því hvert
meginhlutverk þeirra er. Til að
mynda sérhæfi sumir háskólar sig á
ákveðnum sviðum en aðrir starfi sem
alhliða háskólar. Sumir háskólar fá-
ist eingöngu við kennslu en í öðrum
séu stundaðar víðtækar rannsóknir
samhliða kennslu. „Það er hvergi tal-
ið sjálfsagt að allir skólar á háskóla-
stigi flokki sig sjálfkrafa sem rann-
sóknaháskóla án þess að nokkur
viðmið séu notuð,“ segir hann.
Unnið markvisst að uppbygg-
ingu meistara- og doktorsnáms
„Háskóli Íslands hefur frá upphafi
verið allt í senn embættismanna-
skóli, kennsluháskóli og rannsókna-
háskóli og hann gegnir öllum þessum
hlutverkum í dag. Háskóli Íslands er
þannig alhliða háskóli og reynir að
sinna nánast öllum fræðasviðum eins
og alþjóðlegir alhliða háskólar hafa
gjarna gert. Þrátt fyrir þetta er það
ekki fyrr en á síðustu árum sem við
leggjum höfuðáhersluna á rann-
sóknaþáttinn. Unnið hefur verið
markvisst að því að byggja upp
meistaranám og doktorsnám við
skólann en ein meginviðmiðunin sem
leggja verður til grundvallar svo há-
skóli geti talist rannsóknaháskóli er
að hann bjóði upp á doktorsnám á
mörgum fræðasviðum. Mikill vöxtur
og gróska hefur verið í uppbyggingu
meistaranámsins á undanförnum ár-
um, en enn eru tiltölulega fáir í
skipulögðu doktorsnámi, þótt þeim
fari fjölgandi í framhaldi af vexti
meistaranámsins.
Þetta tvennt fer saman. Það er
stöðug barátta að tryggja að við
stöndumst kröfur sem gera þarf til
skóla, sem halda uppi doktorsnámi
og öflugu rannsóknastarfi. Það er
ekki síst þetta mikilvæga málefni
sem hefur hvatt Háskólann til þess
að hefja umræðu um þessi mál,“ seg-
ir hann.
Opið orðalag í
lögum um háskóla
Að mati háskólarektors eru lögin
um háskóla frá 1997 of opin og vísar
hann því til stuðnings í orðalag 2.
greinar laganna þar sem segir: „Há-
skóli er menntastofnun sem jafn-
framt sinnir rannsóknum ef svo er
kveðið á um í reglum um starfsemi
hvers skóla.“ Páll bendir á að þetta
orðalag sé mjög opið. „Það nægir
engan veginn að skóli lýsi því yfir að
hann sé eða ætli að vera rannsókna-
háskóli til að hann verði talinn rann-
sóknaháskóli. Við þurfum að hafa
hlutlæga mælikvarða á virkni og
gæði rannsóknanna sem stundaðar
eru. Við höfum lagt kapp á að gera
þetta í Háskóla Íslands og eðlilegt er
að slíkar reglur gildi um háskólastig-
ið í heild,“ segir hann.
„Menn virðast ekki hafa áttað sig
á því að bæði austan hafs og vestan
er gerður greinarmunur á eiginleg-
um rannsóknaháskólum og háskól-
um sem fást fyrst og fremst við
kennslu. Þetta má sjá á Norðurlönd-
unum, víðar í Evrópu og í Bandaríkj-
unum. Það er hins vegar ljóst að
flestir kennsluháskólar vilja mjög
gjarnan efla sinn rannsóknaþátt og
er ekkert nema gott um það að segja,
en þá þurfa þeir að sjálfsögðu að
beygja sig undir þann aga og þá
starfshætti sem hæfa,“ segir Páll.
Hann var spurður hvort ekki
mætti líta svo á að sú gagnrýni sem
rektorar annarra háskóla hafa sett
fram stafi af því að þeir hafi áhyggj-
ur af að HÍ sé með þessum tillögum
að tryggja sér aðgang að fjárveiting-
um til rannsókna í háskólum.
„Það er hugsanlegt, en þetta er
ekki kjarni málsins. Málið snýst um
það hvort okkur Íslendingum tekst
að byggja upp öflugt háskólakerfi
sem stenst alþjóðlegan samanburð
bæði í kennslu og rannsóknum.
Gæta verður að því að við Íslend-
ingar erum fámenn þjóð, um 280
þúsund manns, og ef standa á fyrir
vandaðri háskólamenntun og rann-
sóknum í þágu samfélagsins verður
að nýta þá krafta sem búa í sam-
félaginu á sem skynsamlegastan
hátt. Ein mikilvæg forsenda þess að
rannsóknir fái þrifist er sú að til
staðar séu hæfir starfsmenn og
framhaldsnemendur og hvetjandi
aðstæður. Háskóli Íslands hefur enn
sem komið er ekki náð þeim samn-
ingum við ríkið sem duga til að halda
uppi þeim rannsóknum hér við skól-
ann, sem við teljum nauðsynlegar og
eru sambærilegar við háskóla í ná-
grannalöndum okkar.
Keppikefli okkar í samningum við
ríkið hefur verið að viðurkennt verði
að til þess að Háskólinn rísi undir
nafni sem rannsóknaháskóli fái hann
jafnmikið fé til rannsókna og hann
fær til kennslu. Þetta hefur ekki
gengið eftir. Við erum að vísu eini
skólinn sem hefur rannsóknasamn-
ing við ríkið en við höfum ekki fjár-
veitingar sem duga til þess að byggja
rannsóknirnar upp eins og við viljum
og teljum nauðsynlegt. Við teljum að
umræða um viðmið um árangur og
virkni í rannsóknum sé liður í því að
ríkisvaldið viðurkenni skyldur sínar í
þessu efni. Þegar aðrir skólar fara að
sækja í þetta fé verður auðvitað sam-
keppni um peningana. Þá er það líka
ljóst að þeir sem standa sig best og
ná mestum árangri í rannsóknunum
hljóta að njóta forgangs við úthlutun
þessara peninga, sem eru af skorn-
um skammti. Háskólarnir þurfa auð-
vitað að huga að þessari samkeppni
en þeir þurfa jafnframt að huga
meira að verkaskiptingu og sam-
vinnu sín í milli en verið hefur,“ segir
Páll og bætir við: „Mikilvægt er að
treysta samstöðu háskólasamfé-
lagsins og tryggja gæði menntunar.
Samkeppni um athygli hafi verið of
mikil á kostnað umræðu um tilgang
menntunar.“
Samkvæmt núgildandi kerfi fá há-
skólar hér á landi, sem reknir eru
sem sjálfseignarstofnanir, sömu
framlög frá ríkinu á hvern nemanda
og ríkisháskólar en til viðbótar er
þeim heimilt að afla sértekna með
skólagjöldum umfram það sem rík-
isháskólum er heimilt að gera. „Það
blasir við hverjum sem er að þarna
skapast óeðlilegur aðstöðumunur,“
segir Páll. „Auk þess veitir ríkið lán
fyrir skólagjöldunum en það virkar
eins og hreinn viðbótarstyrkur til
skólanna vegna þess að lánin eru á
niðurgreiddum vöxtum og eru oft
ekki endurgreidd nema að hluta.“
Ekki höggvið að rekstrar-
grundvelli annarra stofnana
„Í tillögum nefndarinnar er lagt til
að ríkið fari sömu leið og gert er á
Norðurlöndunum. Þar geta einka-
skólarnir valið á milli þess að vera
kostaðir alfarið af einkaaðilum og
innheimt þau skólagjöld sem þeir
kjósa, eða að fá framlög frá ríkinu
með sama hætti og ríkisháskólar en
þá mega þeir ekki innheimta hærri
gjöld af nemendum sínum en rík-
isháskólarnir hafa heimild til.
Með þessum tillögum er ekki verið
að höggva að rekstrargrundvelli
sjálfseignarstofnananna. Það er
hreinn útúrsnúningur, því að ríkið
leggur einkaskólunum til sömu upp-
hæð á nemanda og ríkisháskólunum.
Þar með er rekstrargrundvöllur
einkaskólanna tryggður því þeir eru
kostaðir af almannafé með sama
hætti og skólar í eigu þjóðarinnar.
Það sem vakir fyrir Háskóla Ís-
lands er að tryggja eigin rekstrar-
grundvöll í samkeppni bæði við er-
lendar og innlendar menntastofn-
anir. Það er fráleitt að Háskólinn
geti unað því að búa við verri rekstr-
arskilyrði en aðrir háskólar. Hann
hlýtur að gera þá kröfu til stjórn-
valda að honum sé tryggður viðun-
andi rekstrargrundvöllur, og ekki
aðeins honum heldur öðrum háskól-
um í eigu ríkisins. Með því kerfi sem
hér hefur verið innleitt er ríkið að
setja eigin skóla í svo erfiða stöðu að
þeir geta alls ekki sætt sig við það.
Þetta kerfi þekkist mér vitanlega
hvergi í heiminum. Þegar maður tal-
ar um þetta erlendis verður fólk orð-
laust.
Ég hef fengið að heyra að Háskóli
Íslands eigi ekki að vera að kvarta
við stjórnvöld vegna samkeppnis-
stöðunnar vegna þess að hann hafi
svo sterka stöðu að öðru leyti, þar
sem hann fái sérstakt rannsóknafé.
En skilaboðin frá ríkinu eru þá þau
að til að halda uppi kennslunni ætt-
um við að taka þá peninga sem við
höfum til rannsókna, og eru af mjög
skornum skammti, og flytja þá yfir
til kennslunnar. Slíkt myndi eyði-
leggja Háskóla Íslands sem rann-
sóknaháskóla. Á það getum við ekki
fallist,“ segir Páll Skúlason.
Páll Skúlason, rektor Háskóla Íslands, um umdeildar tillögur HÍ til menntamálaráðherra
Samstaða um gæði
menntunar skiptir mestu
Morgunblaðið/Kristinn
Páll Skúlason, rektor HÍ, segir fráleitt að Háskólinn geti unað því að búa
við verri rekstrarskilyrði en aðrir háskólar.
Í HÁSKÓLA Íslands vinna 430
kennarar og 200 sérfræðingar á
45 fræðasviðum í 11 deildum og
40 stofnunum að 1.300 rann-
sóknaverkefnum. Árlega er 210
mannárum varið til rannsókna.
Eru þá ekki talin með rann-
sóknaverkefni tæplega 8.000
nemenda skólans.
Tæpum tveimur og hálfum
milljarði króna er varið til rann-
sókna árlega. Þar af aflar Há-
skólinn 1.000 milljóna með sér-
tekjum en tæpir 1,5 milljarðar
koma frá ríki. Tveir þriðju hlut-
ar sértekna til rannsókna (þ.e.
um 650 milljónir) koma úr við-
urkenndum rannsóknasjóðum,
þar af koma ríflega 300 milljónir
erlendis frá.
Háskólamenn skila 3.500 rit-
eða hugverkum árlega með
rannsóknaniðurstöðum sínum.
Fræðibækur eru 50–60 talsins,
400 greinar eru birtar í alþjóð-
legum ritrýndum vísinda-
tímaritum og 330 bókakaflar eru
birtir.
1.300 rannsóknaverk-
efni í Háskóla Íslands
Páll Skúlason
Páll Skúlason, rektor Háskóla Íslands,
segir tillögur sem sendar hafa verið til
menntamálaráðherra, um breytingu á
lögum um háskóla, í samræmi við stefnu
evrópskra háskóla um samræmingu
háskólanáms og gæði háskólamenntunar.
Með þeim sé ekki höggvið að rekstrar-
grundvelli sjálfseignarstofnana en Páll
segir að það kerfi sem hér hefur verið
innleitt mismuni háskólum eftir rekstrar-
formi og þekkist hvergi í umheiminum.