Morgunblaðið - 31.12.2002, Blaðsíða 28
LISTIR
28 ÞRIÐJUDAGUR 31. DESEMBER 2002 MORGUNBLAÐIÐ
EINHVERJIR lesenda kunna að
þekkja nafn Neils LaButes af kvik-
myndum hans: In the Company of
Men (1997), Your Friends and
Neighbours (1998), Nurse Betty
(2000) og Possession (2002), sem allar
hafa hlotið verðskuldaða athygli á
undanförnum árum. En Neil LaBute
(f. 1963) er vel þekktur og umdeildur
bæði sem kvikmyndagerðarmaður og
leikskáld í heimalandi sínu Banda-
ríkjunum. Ekki síst hefur það vakið
athygli að LaBute, sem er mormóni,
beinir yfirleitt sjónum að grimmdinni
og illskunni sem þrífst í mannlegu
samfélagi og lúrir gjarnan undir
sléttu og felldu yfirborðinu. Það gildir
um samfélag mormóna ekki síður en
annarra og eiga trúbræður LaButes
bágt með að sætta sig við þá mynd
sem hann dregur upp af mormónum,
til dæmis í því verki sem hér er fjallað
um.
Dýrlingagengið (BASH! A gaggle
of saints) sem Egg-leikhúsið frum-
sýndi síðastliðinn laugardag í Lista-
safni Reykjavíkur er frá 1999. Verkið
er samsett af þremur sjálfstæðum
einþáttungum sem heyra þó saman
efnislega; hver og einn má kallast til-
brigði við sama stefið (og reyndar
bannar höfundur að þeir séu sýndir
aðskildir). Einþáttungarnir heita
Ifigenía í Orem, Dýrlingagengið og
Medea snýr aftur. Titlarnir fela að
sjálfsögðu í sér vísbendingar um efni
hvers þáttar en styrkur þeirra liggur
engu að síður fyrst og fremst í því
hvernig persónur sem á yfirborðinu
virðast „ofurvenjulegar“ og sóma-
kærar manneskjur afhjúpa myrkustu
kima mannshugans í frásögnum sín-
um sem beint er að grandalausum
áhorfendum.
Í fyrsta þætti, Ifigeníu í Orem, seg-
ir ungur fjölskyldufaðir (Björn Hlyn-
ur Haraldsson) ókunnum manni á bar
sögu sína; í öðrum þætti fáum við frá-
sögn ungs pars (Agnar J. Egilsson og
Þórunn E. Clausen) af trúlofunar-
kvöldi sínu; og í þeim þriðja er það
kona á miðjum aldri (Ragnheiður
Skúladóttir) sem talar. Inntak frá-
sagnanna verður ekki upplýst hér,
enda forsenda sýningarinnar að
áhorfendur upplifi sjálfir upphaf, ris
og endalok hverrar frásagnar. En
óhætt er að segja að þættirnir þrír
eru allir afar áhrifamiklir og frammi-
staða leikaranna var með afbrigðum
góð. Sérstaklega skapaðist sterk
stemmning í miðþættinum, það bein-
línis geislaði af þeim Agnari Jóni og
Þórunni sem segja frá sama kvöldinu
án þess þó að tala beinlínis saman.
Þau fluttu sitt tvöfalda eintal á magn-
aðan hátt þar sem samspili texta og
undirtexta var komið á framfæri á
áhrifamikinn hátt með líkamsbeitingu
og svipbrigðum auk hins talaða orðs.
Björn Hlynur var einnig óhugnan-
lega góður sem snyrtilegi fjölskyldu-
faðirinn sem afhjúpar skelfilegt
leyndarmál sitt án þess að það hafi
sýnileg áhrif á hans ytri persónu.
Ragnheiður Skúladóttir var brjóst-
umkennanleg sem kona sem hefur
orðið fórnarlamb kunnuglegrar lífs-
fléttu þar sem óprúttinn karlmaður
nýtir sér æsku hennar og sakleysi til
misnotkunar sem aftur leiðir til
skelfilegra atburða í fyllingu tímans.
Í þessum magnaða þríleik tekur
Neil LaBute meðal annars á því
hvernig þröngsýni og fordómar geta
leitt til mannlegra harmleikja. Texti
hans er afar vel skrifaður og þéttur,
og stígandi í hverri frásögn með ein-
dæmum markviss. Þýðing Bjarna
Jónssonar er í flestu tilliti mjög fín,
málfar eðlilegt og þjált, þótt einstaka
málvillur færu fyrir brjóstið á þeirri
sem hér skrifar.
Ekki veit ég til þess að Listasafn
Reykjavíkur hafi áður verið vettvang-
ur leiksýningar og rýmið sem leikið
var í rúmar ekki marga áhorfendur í
senn. Á móti kemur að mikil nánd
skapast á milli leikara og áhorfenda í
leikmynd sem er vel hönnuð af Gerlu.
Leikarar sitja meðal gesta og það
virðist tilviljun háð hvar ljósgeislinn,
sem flakkar um salinn í upphafi hvers
þáttar, stöðvast. Þetta gefur tilfinn-
ingu fyrir því að hver og einn meðal
gesta kunni að búa yfir leyndarmáli á
borð við þau sem afhjúpuð eru í rás
sýningarinnar; á einhvern hátt erum
við mögulega öll sek um þau ódæð-
isverk sem sagt er frá!
Viðar Eggertsson hefur hér skapað
áhrifamikla sýningu sem enginn
áhugamaður um leiklist ætti að láta
framhjá sér fara; skammdegishroll-
vekju sem vekur margar hugleiðingar
um mannlegt eðli.
Myrkrakimar mannshugans
LEIKLIST
Egg-leikhúsið
Höfundur: Neil LaBute. Íslensk þýðing:
Bjarni Jónsson. Leikstjóri: Viðar Eggerts-
son. Leikarar: Björn Hlynur Haraldsson,
Agnar J. Egilsson, Þórunn E. Clausen og
Ragnheiður Skúladóttir. Leikmynd og
búningar: Gerla. Lýsing: Egill Ingibergs-
son. Listasafn Reykjavíkur 28. desem-
ber.
DÝRLINGAGENGIÐ
Morgunblaðið/Áslaug
„Viðar Eggertsson hefur hér skapað áhrifamikla sýningu sem enginn
áhugamaður um leiklist ætti að láta framhjá sér fara.“
Soffía Auður Birgisdóttir
HÓLAVALLAGARÐUR, kirkjugarð-
urinn við Suðurgötu – Skráning og
rannsókn minningarmarka er fjórða
skýrsla ársins 2001 í flokki rannsókn-
arskýrslna Þjóðminjasafns Íslands.
Höfundur er Gunnar Bollason sagn-
fræðingur.
Þjóðminjasafn Íslands og Kirkju-
garðar Reykjavíkurprófastsdæma
gerðu síðla árs 2000 með sér samn-
ing um skráningu allra minning-
armarka í kirkjugarðinum við Suð-
urgötu, eitthundrað ára og eldri, auk
annarra minningarmarka sem talin
voru hafa menningarsögulegt gildi.
Verkefninu stjórnaði Gunnar Bollason
hjá Þjóðminjasafni. Íslands. Vinnan
fór fram veturinn 2000–2001 og voru
alls skráð 258 minningarmörk.
Í skýrslunni er hverju minning-
armarki lýst nákvæmlega að efni og
formgerð. Allar áletranir voru skráðar
og allir hlutar minningarmarksins voru
mældir. Auk þess er fjallað um tákn-
fræði og skreyti þeirra. Þá voru öll
minningarmörkin ljósmynduð.
Skýrslan er 242 bls. að stærð.
Henni fylgir kort af Suðurgötu-
kirkjugarði í mælikvarðanum 1:500,
þar sem hin 258 minningarmörk hafa
verið flokkuð og merkt inn. Skýrslan
er fáanleg á skrifstofu Þjóðminja-
safns Íslands, Lyngási 7 í Garðabæ,
og kostar hún 2.500 kr.
Rannsóknar-
skýrsla
Hafnarborg
Samsýning Bryndísar Jónsdóttur,
Ásu Ólafsdóttur, Kristínar Geirs-
dóttur, Magdalenu Margrétar
Kjartansdóttur og Þorgerðar Sig-
urðardóttur, Samspil, er framlengd
og verður opin helgina 3. til 5. janúar
frá kl. 11–17.
Sýning framlengd
♦ ♦ ♦