Morgunblaðið - 05.02.2003, Blaðsíða 39
HESTAR
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 5. FEBRÚAR 2003 39
Reiðfatnaður
Náttúrulegur lífsstíll
FREMSTIR FYRIR GÆÐI
NOKKUÐ er síðan mótanefnd LH
var aflögð og röðun móta á daga
gerð sjálfbær ef svo má að orði
komast. Félögin senda inn sínar
ákvarðanir um dagsetningar móta
og það síðan látið ráðast hvort
dæmið gengur upp eða ekki. Ef
um alvarlega árekstra er að ræða
hefur LH forgöngu um að finna
lausnir sem helst allir aðilar geta
sætt sig við. Þótt hefðin ráði nokk-
uð ferðinni virðist einnig gilda að
fyrstir koma fyrstir fá, það er að
þeir sem fyrstir senda inn dag-
setningar hafa meira val. Þegar
dagsetningarnar berast skrifstofu
LH eru þær settar inn á heimasíðu
samtakanna og hafa þar með tekið
gildi. Mótaskráin verður því til í
beinni eins og það er kallað á ljós-
vakamáli.
HM á hraðferð
upp dagatalið
Helsta breyting frá hefðinni nú
er tilfærsla á aðalviðburði ársins;
heimsmeistaramótinu sem nú verð-
ur haldið í Danmörku. Mótinu er
nú flýtt verulega en um langa tíð
hafa félagar okkar erlendis barist
hart fyrir því að fá að halda mótin
fyrr á árinu en eitt sinn tíðkaðist.
Lengi vel voru mótin haldin í end-
aðan ágúst en hafa hægt og bítandi
þokast framar í dagatalið. Nú er
það verslunarmannahelgin sjálf
sem verður lögð undir þennan við-
burð. Samkvæmt mótaskránni
byrjar mótið 25. júlí og lýkur
sunnudaginn 3. ágúst. Þessa helgi
hafa Skagfirðingar og nú síðustu
tvö árin Norðlendingar verið með
mót á Vindheimamelum og Mel-
gerðismelum. Þá hafa Logamenn í
Biskupstungum verið með sitt mót
þessa helgi. Þessir aðilar hafa ekki
enn sent inn dagsetningar móta
sinna og því ekki ljóst hvort þeir
hyggist halda sínu striki og keppa
við heimsmeistaramótið um að-
sóknina. Talsverður fjöldi félaga
virðist eiga eftir að skila inn dag-
setningum og heimtur því óvenju
slæmar að þessu sinni.
Fjórðungsmót
á Hornafirði
Hápunkturinn innanlands verð-
ur fjórðungsmótið á Austurlandi
sem nú verður haldið að Stekkhóli
á Hornafirði. Það verður haldið 3.
til 6. júlí. Aðeins tvö önnur mót
hafa verið skráð á júlímánuð en
það er Stormur á Vestfjörðum og
Sleipnir og Smári á Murneyri. Júlí
er að öllu jöfnu rýrasti mánuður-
inn í mótahaldi en aldrei hefur
hann verið svo rýr sem nú. Vel lík-
legt er að eitthvað eigi þar eftir að
bætast við. Íslandsmótin verða tví-
skipt að þessu sinni. Hið fyrra,
fyrir yngri flokkana, verður haldið
á Varmárbökkum 20. til 22. júní en
hið seinna, fyrir fullorðna, verður
haldið á Selfossi viku seinna, eða
27.–29. júní. Fimm mót eru auð-
kennd sem afrekslistamót, FEIF,
og gildir árangur á þeim inn á af-
rekslistann (World ranking).
Mótakóngar ársins eru án efa
Andvaramenn sem eru hreint al-
veg trylltir þessa dagana enda
komnir með nýja reiðhöll og mann-
skapurinn greinilega að springa úr
orku þar á bæ. Á skránni eru þeir
með hvorki fleiri né færri en 12
mót á árinu. Þeir riðu á vaðið fyrir
rúmri viku með vígslumóti í höll-
inni og þeir virðast samkvæmt
skránni eiga síðasta orðið á árinu.
Í þrígang eru tvö mót hjá þeim í
mánuði og í maí verða þrjú mót
haldin.
Opin mót setja eins og und-
anfarin ár nokkurn svip á móta-
skrána og virðist eitthvað vera að
fjölga félögum sem opna íþrótta-
mót sín og er það vel. Færi vel á
því að félög tækju sig saman um
ákvörðun um slíkt því það myndi
óneitanlega setja aukið líf í keppn-
ina og vafalítið auka þátttökuna.
Stað vantar fyrir úrtöku
Úrtakan fyrir heimsmeist-
aramótið verður haldin 5. til 6.
júní, fyrri umferðin, og 8. til 9.
júní, seinni umferðin. Staður fyrir
úrtökuna hefur ekki enn verið
ákveðinn.
Þótt ekki sé því að neita að
nokkur lægð virðist vera í hesta-
mennskunni á landinu má ætla að
lítið lát verði á keppnisgleði hesta-
manna á árinu.
En svona í lokin er full ástæða
til að hvetja þau félög sem ekki
hafa enn skilað inn dagsetningum
á mótum sínum að gera það hið
fyrsta því það kemur fyrst og
fremst niður á þeim sjálfum ef
slíkt dregst úr hömlu.
Mótaskrá Landssambands hestamannafélaga enn í mótun
Morgunblaðið/Vakri
Þótt ekki verði flautað til landsmóts á árinu má vænta þess að skarpir sprettir verði teknir og lítið gefið eftir.
Sigurbjörn Bárðarson hampaði langþráðum sigurlaunum á Ístölti síðasta
árs og nú má vænta þess að hann reyni að verja titilinn hinn 5. apríl en
spurningin er hvort hann mæti á nýjan leik með Markús frá Langholtsparti
í slaginn eða hvort hann verði með nýtt tromp í erminni.
Slæmar heimtur á mótadögum
Mótaskrá Landssam-
bands hestamanna-
félaga hefur verið að
fæðast og mótast á síð-
ustu vikum. Allt er þar í
nokkuð föstum skorðum
en þó sér Valdimar
Kristinsson nokkrar
athyglisverðar
breytingar á henni.
Í FRÉTT af folaldasýningu í Saltvík
í Norður-Þingeyjarsýslu í hesta-
þættinum var sagt að eitt folaldanna
væri undan Hrafni frá Holtsmúla
sem felldur var fyrir einum sjö ár-
um. Vakti þetta að vonum mikla at-
hygli og viðbrögð sem voru mörg
hver á þá lund hvort Hrafn væri
genginn aftur eða þá hvort einhverj-
ir snillingar hefðu verið svo forsjálir
og þá væntanlega á undan sinni
samtíð að frysta sæði úr klárnum og
væri folaldið sem þarna kom fram
þá afrakstur þess. Þá héldu sumir
að þarna væri kominn nýr Hrafn
fram á sjónarsviðið, annaðhvort frá
Holtsmúla í Skagafirði eða Holts-
múla í Landsveit.
Engin þessara getgátna á við rök
að styðjast því folaldið er undan
Óskahrafni frá Brún sem er aftur
sonur Hrafns. Ástæður mistakanna
eru þær að í sýningarskrá var fol-
aldið skráð undan Hrafni frá Holts-
múla og leiðrétting í töluðu máli á
sýningunni náði ekki til fréttarit-
arans sem ekki er sérfræðingur í
hrossaættum og því fór sem fór.
Leiðréttist þetta hér með og því
miður þá slökknaði þar með sú
veika von sem kviknaði hjá mörgum
um að Hrafn væri aftur kominn á
ferð í kynbótastarfið.
Hrafn frá Holtsmúla afturgenginn?
LÆRDÓMS- og fróðleiksfýsn
íslenskra hestamanna er alltaf
söm við sig og nú eins og oft áð-
ur leita menn út fyrir landstein-
ana til að auka víðsýnina. Tveir
þýskir reiðsnillingar eru vænt-
anlegir til landsins á næstu
mánuðum. Karly Zingsheim
verður með námskeið á Svaða-
stöðum á Sauðárkróki 14. til 16.
febrúar nk. en það er Norður-
landsdeild Félags tamninga-
manna sem stendur að þessu
námskeiði. Fullbókað er á nám-
skeiðið en tólf manns mæta
með hesta. Auk þess verður
boðið upp á áhorfsþátttöku og
er nóg pláss þar. Námskeiðið
kostar 25 þúsund krónur fyrir
þá sem mæta með hross en
2500 krónur fyrir áhorfsþátt-
töku. Þórarinn Eymundsson,
formaður deildarinnar, sagði að
Karly myndi kenna sínar leiðir
og aðferðir til að fá aukinn létt-
leika í reiðmennskuna með
fimiþjálfun og söfnun. Þá taldi
hann víst að nemendur hefðu
einhver áhrif á hvað væri farið í
og benti hann á í því sambandi
að Karly hefði vakið mikla at-
hygli fyrir útfærslur á stökki og
skiptingum yfir á stökk í
keppni og gerði hann ráð fyrir
að eitthvað yrði reynt að ausa
úr þeim kunnáttubrunni kapp-
ans.
Guðfaðir byltingarinnar
Seinni partinn í apríl kemur
svo gamla kempan Walter
Feldmann jr. til landsins og
kennir á hestamiðstöðinni Sól-
vangi við Eyrarbakka, hjá þeim
hjónum Elsu Magnúsdóttur og
Pjetri Pjeturssyni. Þau fengu
Karly Zingsheim á síðasta ári
en nú er það sem sagt Feld-
mann sjálfur sem sjálfsagt má
kalla guðföður reiðmennsku-
byltingarinnar á Íslandi. Hann
og faðir hans, Walter Feld-
mann sr., voru þeir fyrstu sem
komu með nýja og framandi
strauma inn í íslenska hesta-
mennsku fyrir rúmum 30 árum
og ollu með því miklum straum-
hvörfum í reiðkunnáttu Íslend-
inga.
Feldmann jr. hefur ávallt
verið mjög framsækinn í öllu er
varðar þjálfun og uppbyggingu
ganghesta og hefur hann komið
mjög víða við í þeim efnum.
Nokkuð er um liðið síðan hann
kom til landsins í þessum er-
indagjörðum og verður án efa
fróðlegt fyrir íslenska reið-
menn að fá að njóta visku úr
hans fróðleiksbrunni.
Að sögn Elsu verða 12 til 16
manns á námskeiðinu og kostar
það 25 þúsund krónur. Feld-
mann mun kenna nemendum
sínum æfingar og aðferðir til að
bæta samspil manns við hest-
inn og einnig koma inn á und-
irbúning fyrir keppni. Nám-
skeið hefst föstudaginn 27.
apríl og stendur yfir í þrjá
daga. Feldmann er með tvo
knapa inni á vellinum í einu og
aðrir fylgjast með utan vallar.
Sagði Elsa að enn væru nokkur
pláss laus en ekki mörg.
Þýskir reið-
snillingar
uppfræða
Íslendinga