Morgunblaðið - 01.03.2003, Page 44
UMRÆÐAN
44 LAUGARDAGUR 1. MARS 2003 MORGUNBLAÐIÐ
Í GEGNUM tíðina hefur töluvert
verið rætt um sóknarfæri bænda í
ferðaþjónustu. Mikið hefur verið
unnið í þeim málum með prýðilegum
árangri, sem bæði hefur skapað ný
störf á landsbyggðinni og gert mörg-
um kleift að búa áfram á jörðum sín-
um, stunda búskap og hafa jafnframt
tekjur af ferðaþjónustu. Einnig hef-
ur þetta skapað grundvöll fyrir
auknum straumi ferðamanna, bæði
erlendra og innlendra, um landið.
Ferðaþjónusta skipar sér í flokk
þeirra atvinnugreina í dag, sem
skapa hvað mestar tekjur fyrir þjóð-
arbúið. Öllum, sem eitthvað koma að
ferðamálum, er ljóst að lítið færi fyr-
ir ferðamönnum, ef land er ekki í
byggð.
Ferðamenn ,sem leggja leið sína
um „sveitir“ í Evrópu og víðar, eiga
því að venjast að að þar gefist tæki-
færi til að kaupa ákveðnar matvörur
beint af bændum heima á bæjum eða
við veginn. Er þarna um vörur að
ræða, sem hver bóndi vinnur á sinn
sérstaka hátt, og eru einkennandi
fyrir framleiðslu þess bónda.
Slík framleiðsla er ákveðin verð-
mætaaukning sem skapar viðkom-
andi bónda auknar tekjur. Þetta sést
ekki hér á landi, því miður, og hafa
margir haft orð á því. Margir bænd-
ur, og þá sérstaklega þeir sem eru
með ferðaþjónustu, myndu vilja geta
boðið ferðamönnum upp á að geta
keypt t.d. „sinn“ ost, eða „sitt“
hangikjöt, rúllupylsu eða skinku.
Eins og víða erlendis myndi þetta
skapa viðkomandi bónda auknar
tekjur af sínu búi og þar með betri
rekstrargrundvöll og styrkja við-
komandi byggð. Einnig væri þetta
gott framlegg í þjónustu við ferða-
menn og væri enn ein rósin í hnappa-
gatið fyrir ferðaþjónustu hér á landi.
En af hverju gera íslenskir bænd-
ur þetta ekki?
Til þess að bændum sé heimilt að
gera slíkt þurfa þeir að fara út í stór-
tækar framkvæmdir til að uppfylla
hin fjölbreytilegustu lög og reglu-
gerðir hjá hinum og þessum stofn-
unum með tilheyrandi kostnaði.
Hérlend laga- og reglugerðarákvæði
gera þessa hugmynd óframkvæman-
lega, því að þær eru ekki sniðnar eft-
ir sérstæðum aðstæðum, sem eru í
sveitum landsins. Sem sagt ekki
hægt!
Að sjálfsögðu þarf svona fram-
leiðsla á matvælum að vera háð
starfsleyfi og vera undir eftirliti, en
eins og staðan er í dag er þetta ekki
framkvæmanlegt.
Ég legg til að þeir, sem með þenn-
an málaflokk fara, þá fyrst og fremst
landbúnaðarráðuneytið og umhverf-
isráðuneytið, skoði möguleika á að
setja nýja reglugerð er fjalli ein-
göngu um framleiðslu og dreifingu
matvæla á lögbýlum, eða beita sér
fyrir lagabreytingu, ef með þarf,
þannig að bændum verði gert kleift
að stunda matvælaframleiðslu heima
á bæjum. Það myndi bæði falla
bændum og neytendum í geð.
Sala matvæla
á sveitabæjum
Eftir Özur
Lárusson
„Landbún-
aðarráðu-
neytið og
umhverf-
isráðuneytið
skoði möguleika á að
setja nýja reglugerð er
fjalli eingöngu um fram-
leiðslu og dreifingu
matvæla á lögbýlum.“
Höfundur er framkvæmdastjóri
Landssamtaka sauðfjárbænda.
Í HEIMSSTYRJÖLDINNI
fyrri hétu Vesturveldin öllum þjóð-
um undir yfirráðum Tyrkjaveldis
frelsi þegar Tyrkir væru sigraðir.
Það var ekki síst Wilson Banda-
ríkjaforseti sem beitti sér fyrir
þessari stefnu. Auk araba átti
þetta við um Kúrda sem bjuggu á
því svæði sem nú er austanvert
Tyrkland og norðurhluti Íraks.
Friðarsamningar við Tyrki gerðu
ráð fyrir stofnun sjálfstæðs kúrd-
ísks ríkis innan núverandi landa-
mæra Tyrklands. Kemal Ataturk
komst til valda skömmu síðar og
neitaði að virða friðarsamingana.
Vesturveldin höfðu ekki vilja til að
beita Tyrkja valdi og halda frið-
arsamingum til streitu. Stefna
Tyrkja var að gera Kúrda að
Tyrkjum; þeir máttu ekki kalla sig
Kúrda, ekkert prenta á kúrdísku
og mál þeirra var bannað í op-
inberu lífi, þótt tungumál þjóðanna
séu jafn óskyld og íslenska og kín-
verska. Nú búa á hinu kúrdíska
svæði Tyrklands um 12 milljónir
manna, álika fjöldi og allir Norð-
menn og Svíar. Síðan hefur oft ríkt
þarna ólga eða ófriður, síðast undir
stjórn Abdulla Ocalans. Enn eru
mannréttindi Kúrda hvergi meira
fótumtroðin en í Tyrklandi, þótt
aðeins votti fyrir dögun, því Tyrkj-
um er orðið ljóst að innganga
þeirra í Efnahagsbandalagið er
háð umbótum í mannréttindamál-
um.
Á tíma hins arabísk-múslemska
ríkis og arftaka þess, Tyrkjaveldis,
var ekki til neitt ríki sem hét Írak.
Fram að heimsstyrjöldinni fyrri
voru á þessu landsvæði stjórnskip-
unarlega þrjár heildir, Mosul-
svæðið í norðri þar sem Kúrdar
búa (nú um fjórar milljónir),
Bagdad-svæðið, þ.e. miðbik lands-
ins, þar sem súnnítar búa, og
Basra-svæðið sem byggt er sítum
og er það fjölmennast. Samkvæmt
friðarsamingunum áttu Kúrdar á
Mósul-svæðinu að geta að samein-
ast hinu nýja kúrdíska ríki sem
stofnað skyldi á landsvæði núver-
andi Austur-Tyrklands, ef þeir
æsktu þess.
Bretar stofnuðu Írak og stýrðu
landinu í umboði Þjóðabandalags-
ins þar til það var gert að kon-
ungdæmi árið 1932. Komið var á
þingi að vestrænni fyrirmynd. Að
kröfu Þjóðabandalagsins var sett
inn í stjórnarskrá Íraks að Kúrdar
skyldu hafa nokkurn rétt til stjórn-
ar í eigin málum. Konungdæmið
stóð aðeins til 1958, þá tóku her-
foringjar völdin og þingræði og
vestrænir stjórnarhættir heyrðu
sögunni til. Saddam Hussein er
síðasti liðurinn í röð ofbeldisfullra
stjórnarherra og sýnu verri en all-
ir hinir. Ríkið sem Þjóðabandalag-
ið hleypti af stokkunum er enn
komið inn á þing samfélags þjóð-
anna og deilt um hvað gera skuli.
Tilraun Þjóðabandalagsins og
Breta til að byggja þarna upp frið-
sælt nútímaríki mistókst, vegna
þess að ofbeldissinnaðir herfor-
ingjar náðu völdum en sumpart
vegna þess að skeytt var saman
þremur ósamstæðum heildum sem
leiddi fljótt til átaka, sérstaklega
við Kúrda þegar arabískir þjóðern-
issinnaðir hershöfðingjar vildu fara
tyrknesku leiðina þegar Kúrdar
stóðu vörð um stjórnarskrárbundin
réttindi sem Írak hafði heitið
Þjóðabandalaginu að virða. Nú er
framtíðs Íraks enn kominn inn á
borð samtaka þjóðanna.
Undanfarin 12 ár hefur mestur
hluti írakska Kúrdistans verið laus
undan oki Saddams Husseins.
Þetta hefur Kúrdum tekist vegna
eigin herafla en þó fyrst og fremst
vegna þess að flugherir Bandaríkj-
anna og Breta hafa haldið yfir
þeim hlífiskyldi frá lokum stríðsins
um Kuveit. Þarna starfa nú margir
stjórnmálaflokkar og þar ríkir
prent- og skoðanafrelsi og vaxandi
velmegun.
Mikið er rætt um að fyrst og
fremst skuli halda friðinn. Mörgum
virðist ekki ljóst að í Írak hefur
ekki verið friður um langan aldur.
Ofbeldi, manndráp og yfirgangur
með eindæmum og jafnvel ekki
skirrst við að beita efnavopnum á
eigin þegna, í þessu tilviki Kúrda.
Það er í sjálfu sér gleðileg þróun
að upp skuli runninn sá tími að
ekki sé lengur ósnertanlegt inn-
anríksmál hvernig valdamenn fara
með þegna sína eða geta ógnað ná-
grönnum sínum. Samtök þjóðanna
eiga að hafa vilja til að losa þjóðir
undan grimmdaroki þegar þær eru
konar í algeran fjötur einræðis-
herra og illmenna.
Tyrkir hafa sett Bandaríkja-
mönnum ofurkosti fyrir aðstöðu til
innrásar í Írak. Auk himinhárra
upphæða miðast kröfur þeirra við
að fá að senda her inn yfir Norður-
Írak þrátt fyrir andstöðu Kúrda;
að koma í veg fyrir að Írak verði
sambandsríki með kúrdísku sjálf-
stjórnarsvæði; að hindra að Kúrd-
ar fái yfirráð yfir olíuborgunum
Kirkúk og Mosúl sem eru á þeirra
svæði; og loks að Kúrdar séu af-
vopnaðir. Báðir helstu leiðtogar
Kúrda, Barzani og Talabani, hafa
gefið út harðorðaðar yfirlýsingar á
móti þessu. Ef þessi þróun verður
að veruleika spáir hún ekki góðu
um frið og lýðræði í Írak.
Samtök stjórnarandstæðinga í
Írak – þar á meðal Kúrdar – hafa
viljað koma á fót sambandslýðveldi
með töluverðri sjálfstjórn ein-
stakra landshluta hinna ýmsu
þjóðernis- og trúarhópa. Tyrkir
óttast áhrif þessa á Kúrda í eigin
landi. Kúrdar í Írak spyrja sig
hvort Bandaríkjamenn ætli virki-
lega að selja þá í hendur Tyrkja,
þá sem einir íbúa Íraks hafa haft
kraft til að veita Saddam virka
mótstöðu og hafa komið á hjá sér
pólitísku frelsi og þar sem orðið
hafa miklar framfarir síðan þeir
losnuðu undan oki Saddams Huss-
eins.
Tyrkir, Kúrd-
ar og Írak
Eftir Erlend
Haraldsson
„Einir íbúa
Íraks hafa
Kúrdar haft
kraft til að
veita Sadd-
am virka mótstöðu.“
Höfundur er prófessor
í sálfræði í HÍ.
FJÖLMIÐLAR hafa ríkar skyld-
ur við samfélagið. Eitt hlutverk
þeirra er að greina frá aðgerðum
stjórnvalda og hvaða afleiðingar
þær hafa fyrir borgarana, á sem
sannastan og réttastan hátt. Borg-
ararnir eiga jafnframt þá kröfu á
hendur fjölmiðlum að þeir endur-
ómi ekki gagnrýnislaust allt það
sem frá yfirvöldum kemur.
Fréttastofa Stöðvar 2 hefur í vet-
ur skoðað með gagnrýnum hætti
þær staðhæfingar ráðamanna að
tekjuskattar einstaklinga hafi lækk-
að á undanförnum árum. Kjarninn í
fréttum Stöðvar 2 hefur verið sá að
fullyrðingar um skattalækkanir
standast ekki þegar skattabreyting-
ar eru mældar með aðferðum hag-
fræðinnar. Forsætisráðherra og
fjármálaráðherra hafa á síðustu
dögum brugðist við þessum fréttum
með því að gefa til kynna að ann-
arlegar hvatir liggi að baki þeim.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ráða-
menn kveinka sér undan frétta-
flutningi Stöðvar 2. Jón Baldvin
Hannibalsson kvartaði sáran í ráð-
herratíð sinni og Ólafi Ragnari
Grímssyni þótti sömuleiðis hart sótt
að sér. Helgi Hjörvar var sem for-
seti borgarstjórnar ítrekað minntur
á loforð um skattalækkanir og síðan
fylgdi umfjöllun um raunhækkun
skatttekna Reykjavíkurborgar við
litla hrifningu fyrrverandi borgar-
stjóra.
Á fréttastofu Stöðvar 2 er ekki
spurt hvaða stjórnmálaflokkar eiga
hlut að máli. Eðli málsins sam-
kvæmt beinast spjótin oftar að
þeim sem sitja við stjórnvölinn og
ráða meirihluta á hverjum tíma en
þó fer stjórnarandstaða ekki var-
hluta af aðhaldssömum fréttaflutn-
ingi.
Við umfjöllum um skattabreyt-
ingar hefur Stöð 2 leitast við að
sýna með viðurkenndum mælistik-
um hver þróun mála hefur verið. Til
að meta heildaráhrif hafa skattar
verið sýndir sem hlutfall af lands-
framleiðslu. Það er sá mælikvarði
sem hagfræðin kennir að réttast sé
að nota í þessu skyni og jafnframt
sú aðferð sem mest er notuð í al-
þjóðlegum samanburði, svo sem í
skattaskýrslum OECD.
Stöð 2 hefur verið gagnrýnd fyrir
að sýna barnabætur í hlutfalli við
landsframleiðslu. Sá mælikvarði
sýnir í einföldu máli hve stór sneið
af þjóðarkökunni fer til barnafjöl-
skyldna í formi barnabóta. Það er
athyglisvert sjónarmið að slíkar
upplýsingar eigi ekki erindi vð al-
menning.
Fréttastofan er á annari skoðun,
eins og t.d. Alþýðusamband Ís-
lands, sem einnig hefur birt slíkan
samanburð. Við samanburð milli
ára í fréttum af skattamálum hefur
einnig verið stuðst við ýmsar vísi-
tölur, m.a. verðvísitölu samneyslu
sem notuð hefur verið af Þjóðhags-
stofnun og fjármálaráðuneyti til að
meta raunbreytingar í ríkisfjármál-
um.
Fjármálaráðherra hefur bent á
að tölur OECD um skatthlutfall
1991-2000 og tölur fjármálaráðu-
neytis um skatthlutfall 2001-2003,
sem birtar voru saman í frétt, séu
annarsvegar á rekstrargrunni og
hinsvegar á greiðslugrunni. Tekið
skal fram að í nóvember sl. spurðist
Stöð 2 sérstaklega fyrir um það á
efnahagsskrifstofu fjármálaráðu-
neytis hvort tölur þess og OECD
væru sambærilegar og fékk þau
svör að svo væri, enda byggði
OECD á tölum ráðuneytisins. Hér
er um tæknilegt atriði að ræða sem
varð þó til þess að í einu súluriti var
lækkun skatthlutfalls milli áranna
2000 og 2001 vanmetin. Þetta atriði
breytir þó alls ekki heildarmynd-
inni. Þannig sýna tölur sem fjár-
málaráðuneyti birti fyrr í vetur að
skatthlutfallið var 33,4% árið 1995,
37% árið 2001 og áætlað að það
hækki í 38% í ár.
Hækkun skatthlutfalls á Íslandi
frá árinu 1995 er það mikil að hún
er verðugt rannsóknarefni fyrir
hagfræðistofnanir. Það ber hins
vegar vott um nokkra kokhreysti að
ráðherrar skuli nota orðið skatta-
lækkun um slíka þróun mála. Hlut-
fallsleg hækkun skatttekna hefur
að stærstum hluta komið fram í
tekjuskatti einstaklinga. Þegar
skýringa er leitað hljóta menn því
að spyrja hvað þar hefur verið að
gerast.
Ráðherrar hafa skýrt þessa
hækkun með því að hún sé afleiðing
launahækkana. Eðli skattkerfisins
sé þannig að þegar launin hækki, þá
borgi menn hærra hlutfall í skatta.
Stöð 2 hefur hins vegar bent á að
þetta gerist því aðeins að persónu-
afsláttur fylgi ekki launaþróun.
Minnt hefur verið á að vísitölu-
hækkun persónuafsláttar og bóta-
þátta var bundin í lög þegar stað-
greiðslukerfið var tekið upp en var
afnumin með lagabreytingu í árslok
1995. Afleiðingin hefur verið rýrnun
persónuafsláttar, en einnig rýrnun
barnabóta og vaxtabóta Það sem
þegnar landsins greiða á endanum í
skatt ræðst nefnilega ekki bara af
skattprósentunni heldur einnig per-
sónuafslætti. Það þarf því að skoða
breytingar á báðum þessum þáttum
til að sjá heildarútkomuna í stað-
greiðslunni. Dæmi sem Stöð 2 lét
reikna sýna gróflega að frá árinu
1995 hækkaði skattgreiðsla lág-
launamanns úr 15% í 21%, skatt-
greiðsla af meðallaunum úr 24% í
27% en skattgreiðsla hátekjumanns
í gögnum Kjararannsóknarnefndar
hækkaði minna, eða úr 30% í 31%.
Stöð tvö var reyndar ekki fyrst til
að vekja athygli á þessu. Alþýðu-
samband Ísland sagði haustið 1999
að sú ákvörðun að láta viðmiðunar-
upphæðir skattkerfisins ekki fylgja
launaþróun væri meðvituð ákvörð-
un um að þyngja skattbyrðar og
skerða bætur. ASÍ kallaði það brell-
ur og sjónhverfingar þegar stjórn-
málamenn reyndu að halda öðru
fram.
Yfirlýsing forsætisráðherra á
dögunum um skattalækkanir gaf að
mati fréttastofu Stöðvar 2 tilefni til
að rifja upp skattaþróun á Íslandi í
þau tólf ár sem hann hefur stýrt
ríkisstjórnum. Stöð 2 notaði mæli-
kvarða sem um allan heim þykir
eðlilegast að nota í þessu skyni,
skatthlutfallið, en það sýnir hversu
stór sneið af þjóðarkökunni er tekin
í skatta. Forystumenn ríkisstjórn-
arinnar hafa hins vegar látið vera
að tilgreina hvaða viðurkennda
mælikvarða þeir nota sem styður þá
fullyrðingu þeirra að skattar hér-
lendis hafi lækkað.
Skattafréttir
og skyldur
fjölmiðla
Eftir Kristján
Má Unnarsson
Höfundur er fréttamaður á Stöð 2.
„Hækkun
skatthlut-
falls á Ís-
landi frá
árinu 1995
er það mikil að hún er
verðugt rannsóknarefni
fyrir hagfræðistofnanir.“