Morgunblaðið - 18.03.2003, Blaðsíða 33

Morgunblaðið - 18.03.2003, Blaðsíða 33
MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 18. MARS 2003 33 an hans og Mabba, og þær stýrðu málum af þeirri visku, að þessi tvö heimili mynduðu eina fjölskyldu. Mabba vílaði ekkert fyrir sér. Með þrjár litlar dætur fylgdi hún Steina til belgísku Kongó þegar hann fékk vinnu þar ’56. Það hefur ekki verið heiglum hent að setjast að þarna, fjarri stuðningi ættingja og vina. Hún varð að treysta á sjálfa sig. Það gerði hún með glans og skilaði fjöl- skyldunni heim reynslunni ríkari þegar þau þurftu að yfirgefa Afríku í snarhasti í upphafi byltingarinnar. Heimilið bar alltaf afrískan blæ eftir þetta, með fallegum munum og þeirri víðsýni sem það gefur að hafa búið í annarri menningu um árabil. Nei, hún vílaði ekkert fyrir sér og hún var óþolinmóð og fljót að leysa málin. Einu sinni var hún í heimsókn hjá pabba og mömmu með krakkana. Þegar hún ætlaði heim kom í ljós að fjólublái lettinn var fastur í aftur- ábakgír. Það þýddi nú lítið að tala um slík vandamál við föður minn, en hann stakk upp á að hóa í einhvern sem vit hefði á gírum. Mabba nennti því ekki, og bakkaði bara heim. Sumir segja að skrifborð manna lýsi þeirra innri manni. Ég vil benda sálgreinum á að kanna innihald kvenveskja. Möbbu taska var óvenjustór og rosalega þung, enda komu undarlegustu þarfaþing upp úr henni. Einu sinni var ég með Möbbu í húsi, þar sem þurfti að flytja mynd til á vegg, en hafði dregist því það fannst enginn hamar. Mabba kafaði ofan í kvenveskið og dró upp klaufhamar. Þegar hún varð fertug buðumst við Dóra vinkona til að taka til eftir boðið. Henni fannst það góð- ur kostur, og sagði að á móti mætt- um við eiga öll þau veisluföng sem af gengju, vot og þurr. Ég hef áður lát- ið þess getið hvílíkur höfðingi hún var í matargerð og þrátt fyrir hvað þessi afmælisveisla var vel lukkuð og fjölmenn dugðu afgangarnir okkur Dóru í margar veislur. Mabba benti okkur á, að eina almennilega ílátið sem hún hefði fundið til að blanda kokkteilinn í væri hylkið utan af ryk- sugunni. Vildum við vinsamlega tæma það og taka með okkur? Við gerðum það og árgangurinn okkar í Menntó dimmitteraði meira og minna með aðstoð kokkteilsins henn- ar Möbbu. Þær eru óteljandi sögurnar af þessari eldkláru og óvenjulegu konu. Ég sagði áðan að mér hefði fundist eins og hún hefði fæðst á röngum stað. En það hefur verið að renna upp fyrir mér, að hún var afsprengi síns fólks. Kraftinn átti hún ekki langt að sækja, með föður sinn Ólaf og afa sinn Thor Jensen. Munurinn var sá, að hún beislaði ekki sinn kraft. Hann braust fram óhaminn, stundum meiri, stundum minni. Hún beindi honum ekki í farveg, heldur lét hann bara vaða. Eins og í miklum vatnsföllum lá dýpsti straumurinn í streng sem fáir, ef nokkrir, sáu. Mabba deildi ekki sínum dýpstu hugsunum. Hún var stolt og sterk og kvartaði aldrei, sama á hverju gekk. Hún gat sjálf og þáði ekki einu sinni arm að styðja sig við yfir götu. Ég kveð mína elskuðu móðursyst- ur með söknuði og þakka mínum sæla fyrir að hafa átt hana að. Mikið hefði lífið orðið litlausara án hennar Möbbu. Guð blessi hana og ástvini hennar alla. Guðrún Pétursdóttir. Ó æska, æska þegar dagarnir komu eins og undarlegt heillandi ævintýri, og þeir báru allan fögnuð og fegurð lífsins í faðmi sínum. Þegar við börnin gengum í gróandi túninu, og grasið og blómin og lækirnir voru leiksystkin okkar. (Steinn Steinarr.) Það mun hafa verið árið 1931, sem Ingibjörg og Ólafur Thors fluttu í sitt nýbyggða hús í Garðastræti 41 og með þeim fjögur börn þeirra; Marta, Thor, Ingibjörg og Margrét Þorbjörg, sem var yngst og kölluð Mabba. Hún er hér kvödd. Þarna urðu þau næstu nágrannar okkar á Hólavelli (Suðurgötu 20). Við vorum átta systkini þar, sex bræður og tvær systur. Milli þessara hópa barna og unglinga myndaðist vinátta sem hélst allt lífið. Auk þess voru feður okkar bæði vinir og sam- herjar. Mabba var aðeins tveggja ára, en ég (Obba) þriggja ára þegar þau fluttu í nágrennið. Þar með hófst vin- átta okkar sem hefur þá staðið í sjö- tíu og tvö ár. Heimili okkar beggja stóðu alltaf opin fyrir okkur og það væri efni í heila bók allar þær góðu minningar sem ég á frá heimili henn- ar og hennar góðu foreldra sem allt- af sýndu manni elskusemi og ótrú- lega mikið umburðarlyndi í oft ærslafullum leikjum okkar úti og inni. Mabba var strax þróttmikil, ákaflega glaðlynd og skemmtileg. Auk þess var hún vinföst og vina- mörg. Þessir góðu eiginleikar hennar entust út lífið. Leikvangur okkar var vesturbærinn. Á Landakotstúni komu saman börn víða að úr ná- grenninu sem héldu hópinn árum saman. Það var farið í ótal leiki. Enn er mér minnisstætt þegar „Feddi“ (Ferdinand) ráðsmaður í Landakoti kom askvaðandi til að reka okkur úr túninu, en við vissum auðvitað að þar máttum við ekki vera þegar túnið tók að grænka. Þá var nú betra að vera fljótur að hlaupa enda varð a.m.k. einn úr hópnum Evrópumeistari í 100 metra hlaupi! Í þá daga var kúabú í Landakoti. Mabba var ávallt framarlega í flokki, góður félagi okkar allra, hug- myndarík og glaðsinna. Á vetrum var farið á skauta á tjörninni enda stutt að fara. Við gengum í Miðbæj- arskólann. Hún var góður námsmað- ur og var ein af tuttugu og níu sem náðu prófi inn í MR, af um tvö hundruð nemendum sem þreyttu próf. Hún sat tvo vetur í MR. En þá langaði hana til að fara til Ameríku og stunda nám þar. Það varð úr og lauk hún námi í menntaskóla þar. Hún var 18 ára þegar hún sneri heim að nýju. Ég man hvað hún var falleg og glæsileg. Barnæskan var að baki og framtíðin blasti við með öllum sín- um væntingum. Mabba tók þá ákvörðun að klára stúdentspróf í sín- um gamla skóla, MR. Hún sat í 5. og 6. bekk og varð stúdent 1950. Hún hélt alla tíð tryggð við skólasystkini sín, bæði þau sem hún byrjaði með og hin sem hún tók stúdentsprófið með. Þar, eins og alstaðar sem hún hélt sig, var hún hrókur alls fagn- aðar og vinsæl að sama skapi. Eftir stúdentspróf stundaði hún nám í París og gerðist síðan flug- freyja hjá Flugfélagi Íslands. Það varð örlagaríkt því að þar hófust kynni hennar og Þorsteins Jónsson- ar flugkappa sem varð svo eiginmað- ur hennar. Þorsteinn varð fljótlega vinur okkar, vina hennar og áttum við hjónin margar ánægjustundir með þeim. Þau Þorsteinn eignuðust fjögur börn. Örlögin höguðu því samt svo að þau slitu sínu hjóna- bandi á meðan börnin voru ung. Mabba sýndi þá hvað í henni bjó og fór út á vinnumarkaðinn þar sem hún starfaði sem blaðamaður á Morgunblaðinu; sem leiðsögumaður og einnig um árabil hjá Amerísku upplýsingastofnuninni. Hún lét sig ekki muna um með vinnu og barnauppeldi að stunda nám í frönsku og ensku við HÍ, enda mikil tungumálamanneskja. Hún lauk BA prófi í ensku. Hana skorti aldrei kjark og áræðni. Hún þurfti að standa af sér þung áföll. Elsta dóttir hennar, Ingibjörg, missti heilsuna og dó fyrir nokkrum árum frá manni og fjórum börnum. Þetta var gífurlegt áfall og ekki bætti úr að heilsa Möbbu var þá far- in að gefa sig. Hún hefur tekið öllu í lífinu með reisn og jafnaðargeði, bæði meðbyr og mótbyr eins og sönnum höfðingja sæmir. Höfðingi, já það var hún sannarlega. Hún var alla tíð tilbúin að hjálpa öllum sem til hennar leituðu og oft gerði hún meira en hún með góðu móti mátti. Ég sem þessar línur rita get aldrei þakkað nógsamlega hennar vinátu og tryggð við mig og allt mitt fólk fyrr og síðar. Börnum hennar og barnabörnum, sem líka eru mér kærir vinir, votta ég mína innileg- ustu samúð. Ingibjörgu systur henn- ar, sem ein er eftir af þessum glæsi- lega systkinahópi, sendi ég líka mínar bestu samúðar- og vinarkveðj- ur. Ég kveð elskulega vinkonu mína með ljóðlínum eftir Þorstein Erl- ingsson: Og nú fór sól að nálgast æginn, og nú var gott að hvíla sig, og vakna upp ungur einhvern daginn með eilífð glaða kringum sig Nú opnar fangið fóstran góða og faðmar þreytta barnið sitt; hún býr þar hlýtt um brjóstið móða og blessar lokað auga þitt. Hún veit hve bjartur bjarminn var, Þótt brosin glöðu sofi þar. Farðu vel og Guð þig geymi. Þorbjörg Pétursdóttir. Við andlát stórbrotinnar konu eins og Margrét Thors var, kemur upp í huga mínum kafli í Íslandssögunni sem mótaði flest ytri skilyrði sem mín kynslóð lifir við. Hugurinn fyll- ist af þakklæti og aðdáun á þeirri framsýni, dugnaði og elju sem ein- kenndi allt umhverfi Margrétar og þess góða fólks sem að henni stend- ur. Mabba, eins og flestir kölluðu hana, var mér frá upphafi eins og önnur móðir enda nánasta vinkona móður minnar. Fyrstu minningar mínar um hana eru frá uppvaxtarárunum í Garða- strætinu. Hún bjó með fjölskyldu sinni á Hávallagötunni og þar byrj- aði vinátta og væntumþykja sem varði um alla tíð. Við vorum heima- gangar hjá henni og allur barnahóp- urinn eins og stór systkinahópur. Okkur krökkunum þótti mikið til þess koma að búa við hliðina á for- eldrum Möbbu, frú Ingibjörgu og Ólafi Thors. Við höfðum miklar mæt- ur á þessum merkishjónum og bár- um mikla virðingu fyrir þeim. Það var alltaf líf og fjör í kringum Möbbu. Hún sagði afburða skemmti- lega frá og hafði lag á að að kalla fram allt það jákvæða í lífinu. Mér fannst alltaf að hún hefði lausn á öllu, enda naut ég hjálpsemi hennar og ráðgjafar alla tíð. Geta hennar og vilji til að laga sig að öllum aðstæðum gerði það líka að verkum að við sem vorum kynslóð- inni yngri sóttumst eftir því að vera í nálægð hennar. Á þessu varð engin breyting þegar árin liðu. Eftir að fjölskylda mín fluttist upp í Borgar- fjörð varð heimili hennar í Reykjavík sem mitt eigið. Það var ávallt til- hlökkunarefni að fara til höfuðstað- arins og heimsækja hana. Þegar ekið var fram hjá Korpúlfsstöðum þar sem Thor Jensen, afi Möbbu, reisti glæsilegasta bú landsins fyrr og síð- ar, leitaði hugurinn til hennar og allra þeirra stórvirkja sem fjölskylda hennar stóð fyrir. Okkur fannst það líka framandi þegar Mabba fluttist til belgíska Kongó með fjölskyldu sinni. Jafnvel þótt við hefðum fregnir af þeim var tómlegt á meðan. Við fögnuðum því líka innilega þegar hún kom heim og sérstaklega þegar hún kom í heim- sókn í Borgarfjörðinn með börnun- um. Það var altaf glatt á hjalla. Það lá því beint við þegar ég stundaði nám í Reykjavík að ég fengi húsa- skjól hjá Möbbu. Þar naut ég hlýju og væntumþykju á fallegu heimili hennar á Rauðalæknum. Mér leið líka eins og ég væri einn af hópnum. Allar götur síðan og þrátt fyrir langan aðskilnað vegna veru minnar erlendis hélst þessi einstaka vinátta. Sambandið rofnaði aldrei og það urðu alltaf fagnaðarfundir þegar leiðir lágu saman. Að leiðarlokum fyllist hugurinn þakklæti fyrir að fá að vera samferða yndislegri mann- eskju eins og Margrét var og sökn- uði vegna fráfalls hennar. Það er allt tómlegra án hennar. Ég bið Guð að blessa börnin hennar: Ingibjörgu sem er látin; Önnu; Margréti og Ólaf og veita þeim huggun harmi gegn. Jón Kjartansson. Við Mabba kynntumst í Mennta- skóla og héldum okkar góða sam- bandi þaðan í frá. Við vorum sam- stiga um margt og fórum kannski ekki hefðbundnar leiðir að hlutun- um. Sjálfsagt höfum við verið taldar ódælar á stundum – það var til dæm- is ekki hefðbundið, eða í takt við tíð- arandann í kringum 1950, að við sprönguðum um í gallabuxum og „bobby socks“, mæðrum okkar til mikillar skelfingar og skólasam- félaginu til undrunar. Mabba var ekki nein venjuleg vin- kona. Uppátæki hennar og húmor- inn voru einstök. Það var líf og fjör í kring um hana. Hún giftist honum Steina, hetju háloftanna og þekktum ævintýramanni. Með honum flutti hún með börn og buru til Kongó. Á svefnherbergisloftinu þeirra Steina í Kongó höfðu hreiðrað um sig tvær eðlur – Mabba sagði mér glöð í bragði að nú væru staðgenglar okkar Péturs hjá henni og eðlurnar fengu nafnið Eðla og Pétur. Hugmyndarík var hún og lét fátt stöðva sig ef því var að skipta – hún fylgdi hjartanu frekar en hefðunum og þá minnist ég þess er börnin okk- ar voru í sumarskóla á Stykkishólmi. Einn daginn kom hún að máli við mig og sagðist vilja fá að sjá börnin sín, en í þá daga var ferð í Stykkishólm, og til baka, gott dagsferðalag. Mabba lét ekki vegalengdir aftra sér – eitt símtal og Mabba var búin að útvega flugvél og flugmann og í heimsókn fórum við. Margs er að minnast og af nægu að taka þegar á að minnast Möbbu – væri reyndar efni í heila bók. Hún lifði ævintýralegu, en á tíðum erfiðu lífi. Hún sigraði hvern hjallann af öðrum, hún vann mörg og ólík störf, hafði áhrif á samferðafólkið og er minnisstæð hverjum þeim er hana þekkti. Hún er nú farin á æðri stað þar sem hún kemur væntanlega til með að hrista duglega upp í hlutun- um – já það verður líf og fjör í himna- ríki núna. Ég þakka henni samfylgd og trausta vináttu. Það var mitt lán að eiga hana að vinkonu. Aðstand- endum votta ég samúð. Erla Tryggvadóttir. Kveðja frá Morgunblaðsmönnum Margrét Thors var þegar orðin lífsreynd kona og veraldarvön, þegar hún réðst til starfa á ritstjórn Morg- unblaðsins upp úr miðjum sjöunda áratugnum, fjögurra barna móðir og hafði búið um alllangt skeið erlendis. Hún var því af öðru sauðahúsi en það unga fólk, sem setti svip sinn á rit- stjórnina. En Mabba, eins og hún var kölluð í daglegu tali, féll fljótlega inn í þann glaðværa og vinnusama hóp sem fyrir var. Hún vann fljótt hug samstarfs- manna með lífsgleði sinni og kitlandi hlátri. Og Mabba var mikill húmor- isti. Með ljúfu viðmóti tileinkaði hún sér þau vinnubrögð, sem tíðkuðust á blaðinu, og sætti sig við miklar kröf- ur og langan vinnutíma. Þeim fækkar óðum, sem enn eru starfandi á ritstjórn Morgunblaðsins og unnu með Möbbu fyrir rúmum þremur áratugum. En þessi sér- stæða kona er enn ljóslifandi í minn- ingunni og fyrrverandi samstarfs- mönnum er það mikils virði að hafa kynnzt henni. Þessi kynni eru þökk- uð að leiðarlokum og börnum Mar- grétar Thors og öðrum ástvinum eru sendar samúðarkveðjur við fráfall hennar frá Morgunblaðinu og göml- um samstarfsmönnum. Björn Jóhannsson.  Fleiri minningargreinar um Margréti Þorbjörgu Thors bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga. Faðir minn, DÓSÓÞEUS TÍMÓTHEUSSON, lést á Arnarholti, Kjalarnesi, fimmtudaginn 13. mars. Jarðarförin fer fram frá Fossvogskapellu föstu- daginn 21. mars kl. 15.00. Fyrir hönd ættingja, Rannveig Ísfjörð. Elskulegur eiginmaður minn, faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi, JÓNAS JÓNSSON, Heiðarvegi 48, Vestmannaeyjum, lést laugardaginn 15. mars. Fyrir hönd aðstandenda, Indíana Björg Úlfarsdóttir. Hjartkær móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma, EYJA PÁLÍNA ÞORLEIFSDÓTTIR, Háteigsvegi 15, Reykjavík, lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi að morgni sunnudagsins 16. mars. Guðlaug Jónsdóttir, Arnór V. Valdimarsson, Elísabet Jónsdóttir, Grétar Árnason, Auðunn Jónsson, María Níelsdóttir og fjölskyldur. Bróðir minn, INGÓLFUR SIGURÐSSON, Þingskálum, andaðist á Sjúkrahúsi Suðurlands aðfaranótt 15. mars. Sólveig Sigurðardóttir.
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.