Morgunblaðið - 25.07.2003, Qupperneq 33
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 25. JÚLÍ 2003 33
✝ Ólafur Gunnars-son fæddist á
Akranesi 21. mars
1959. Hann lést hinn
15. júlí síðastliðinn.
Foreldrar hans eru
Gunnar Guðjónsson,
f. 11. október 1934, og
Ingibjörg Ágústsdótt-
ir, f. 7. janúar 1934.
Þau eru búsett á
Akranesi. Systkini
Ólafs eru: Þóra, f. 16.
maí 1960, Guðjón, f.
29. apríl 1963, Jón
Halldór, f. 21. janúar
1970, og Albert Ingi, f. 3. júní 1971.
Hálfbróðir Ólafs er Ágúst Þór Guð-
steinsson, f. 28. febrúar 1955.
Ólafur kvæntist 13. febrúar 1982
Ingveldi Einarsdóttur, f. 2. nóvem-
ber 1956. Foreldrar hennar voru
Einar Helgason, f. 11. ágúst 1926,
d. 21. nóvember 1999, og Ingiríður
Hansína Kristmundsdóttir, f. 21.
desember 1925.
Ólafur og Ingveldur eignuðust
fimm börn. Þau eru: 1) Inga Birna,
f. 24. janúar 1979,
sambýlismaður Sæ-
mundur Þór Hauks-
son, f. 1. febrúar
1979, 2) Linda Björk,
f. 24. janúar 1979, 3)
Sævar Birgir, f. 14.
september 1983, unn-
usta Hulda Þor-
steinsdóttir, f. 30.
apríl 1985, 4) Hafdís
Bára, f. 6. maí 1987,
og 5) Kristín Birta, f.
3. apríl 1998.
Ólafur ólst upp í
Borgarholti í Mikla-
holtshreppi. Eftir grunnskóla-
göngu hóf Ólafur nám í bifvéla-
virkjun í Borgarnesi og hóf störf
við þá iðn. Hann stundaði einnig
önnur störf eins og sjómennsku og
fleira. Ólafur starfaði við bílavið-
gerðir í Borgarnesi þar til 1997 að
hann hóf störf hjá bifreiðastöð
ÞÞÞ á Akranesi við bílaviðgerðir.
Útför Ólafs fer fram frá Borg-
arneskirkju í dag og hefst athöfnin
klukkan 14.
Elsku pabbi, við ætluðum varla að
trúa því þegar mamma hringdi í okk-
ur í Reykjavík með þær fréttir að
pabbi hefði hnigið niður við vinnu
sína úti í sveit. Við drifum okkur
undir eins upp í Borgarnes og þar
tóku við enn þungbærari fréttir.
Pabbi var dáinn. Pabbi af öllum
mönnum. Hann sem hafði alltaf verið
svo sterkur og hraustur.
Það þyrmdi gjörsamlega yfir okk-
ur eins og aðra úr fjölskyldunni.
Enginn hafði búist við þessu og
hræðilegt til þess að vita að pabba
hefði verið kippt út úr lífi okkar fjöl-
skyldunnar aðeins 44 ára gömlum.
Burt frá Kristínu litlu systur, litlu
pabbastelpunni.
Hún hefur spurt ótal spurninga
um pabba sem oft er erfitt að svara.
Undanfarna daga hafa rifjast upp
margar góðar minningar, enda átt-
um við fjölskyldan margar góðar
stundir saman og vorum alltaf mjög
samrýnd. Til dæmis rifjast upp
margar minningar úr ferðalögum
okkar fjölskyldunnar sem hafa verið
æði mörg.
Ferðalög um hálendið voru eitt af
þínum aðaláhugamálum og þá sér-
staklega á „Dadda“, sérútbúna
jeppasendiferðabílnum sem þú varst
svo stoltur af, enda hafðir þú eytt
mörgum stundunum við að útbúa
hann. Við fjölskyldan deildum þessu
áhugamáli þínu sem ferðalög um Ís-
land voru.
Við minnumst líka allra veislnanna
sem haldnar voru í ættinni. Hvort
sem það voru afmælisveislur eða
þorrablót varstu oftar en ekki hrók-
ur alls fagnaðar, enda hafðir þú góða
kímnigáfu og mikla útgeislun.
Undanfarin ár tókstu mikinn þátt í
leiklistarlífinu í Borgarnesi. Þú
söngst og lékst af mikilli innlifun og
við vorum alltaf svo stoltar af því að
þú værir pabbi okkar.
Þegar þú söngst á sveitaballinu
með hljómsveitinni úr leikritinu sem
var sett upp í Borgarnesi nú í vor er
mjög eftirminnilegt. Við skemmtum
okkar ákaflega vel og dönsuðum. Við
vitum líka að þér þótti þetta ákaflega
gaman.
Það er svo sárt til þess að vita að
nú sé enginn pabbi sem reddar öllu
fyrir okkur með bjartsýnina að leið-
arljósi enda var pabbi ávallt bjart-
sýnn og jákvæður sama hvað á
dundi.
Það er erfiðara en orð fá lýst að
kveðja þig núna hinsta sinni, elsku
pabbi.
En við huggum okkur þó við það
að þú munt ávallt vaka yfir okkur
fjölskyldunni og passa okkur.
Pabbi, þú getur treyst því að við
munum passa hvert annað og
styrkja þótt þú sért fjarri. Við mun-
um alltaf elska þig. Guð geymi þig.
Þínar dætur,
Inga og Linda.
Það var þriðjudagskvöldið 15. júlí
er ég var staddur í Reykjavík sem ég
fékk hrikalegasta símtal lífs míns,
eitthvað hafði komið fyrir pabba. Ég
snaraðist lamaður af skelfingu inn í
bíl og ók í loftköstunum í Borgarnes,
þar sem við tóku enn hræðilegri
fréttir, pabbi var dáinn! Þessi
hrausti og sterki maður sem aldrei
hafði kennt sér neins meins hafði allt
í einu hnigið niður við verk sem hann
hafði margsinnis unnið streitulaust
áður, og án nokkurrar sýnilegrar
ástæðu var hann horfinn úr lífi okk-
ar. Á einu augabragði.
Ég lít á sem ég hafi misst meira en
föður þetta kvöld, þú varst mér jafn-
framt góður vinur, leiðbeinandi og
félagi. Ég bar alltaf virðingu fyrir
þér og man ekki til þess að hafa tekið
stóra ákvörðun án þess að spyrja þig
ráða fyrst, og voru þau ráð yfirleitt í
hávegum höfð. Þó svo að stundum
lítt skynsamur barnshugur minn
hafi innt þig svars á ýmsum áleitnum
spurningum, varstu ávallt með svar
á reiðum höndum. Ég var alltaf stolt-
ur af að eiga þig sem pabba og mun
ávallt verða það, þú varst til dæmis
pabbinn sem var alltaf svo hress og
skemmtilegur og minntust vinir mín-
ir gjarnan á það, sérstaklega seinni
ár, þegar kímnigáfa okkar hafði
þroskast eilítið. Svo þegar þú byrj-
aðir að leika og syngja, gerðir þú það
af svo mikilli list og innlifun að eins
og um atvinnumann væri að ræða.
Þú varst líka snillingur í höndun-
um, það lá við að þú gætir smíðað eða
gert við hvað sem var, átti þar óbil-
andi bjartsýni og þolinmæði stóran
þátt.
Til að mynda voru ófá bílavand-
ræðin sem þú reddaðir mér úr, má
þar helst nefna gamla Bimmann,
sem þrátt fyrir að vera kominn vel
yfir síðasta söludag, tókst þér iðu-
lega að láta hann hökta áfram þar til
hann gafst upp endanlega í vor.
Svo er háfjallahúsbíllinn ykkar
mömmu sem þú smíðaðir alger lista-
smíð og veit ég hvað þú varst alltaf
stoltur af honum, við systkinin líka.
Þú varst líka stoltur af litla trjá-
reitnum okkar í sveitinni, þar sem
þið mamma eydduð mestum ykkar
frítíma í að útbúa fallegt afdrep fyrir
okkur í framtíðinni. Við fjölskyldan
heitum því að vinna áfram í rækt-
uninni og sjá til þess að þar rísi mikill
skógur.
Við heitum því einnig að styðja
hvert annað í þessari miklu sorg sem
missir þinn er, og munum við ávallt
halda minningu þinni á lofti og sjá til
þess að arfleifð þín lifi.
Vertu sæll og þakka þér innilega
fyrir þessi 20 ár sem ég fékk að eiga í
nærveru þinni og leiðsögn, mun ég
reyna að haga lífi mínu eftir þínu for-
dæmi svo lengi sem heilagur Guð
leyfir.
Þinn sonur,
Sævar.
Maður hélt alltaf að svona hlutur
myndi aldrei koma upp í okkar fjöl-
skyldu, allavega ekki næstu 40 árin
eða svo. Af hverju þessi maður af öll-
um? Þú varst eitt mesta stolt fjöl-
skyldunnar, mikill söngvari og leik-
ari. Við fjölskyldan vorum svo ánægð
með þig þegar þú lékst stórt söng-
hlutverk í leikritinu Þrek og tár með
Leikfélagi Borgarfjarðar. Þú söngst
þetta svo vel að maður var stanslaust
að hugsa „Þetta er sko pabbi minn“.
Besti pabbinn í heiminum. Hvað
verður um ferðalögin? Oh ... allar
minningarnar um ferðalögin. Þú og
mamma voruð búin að fara með okk-
ur systkinin á hvern einasta stað á
Íslandi. Alltaf að kenna okkur meira
og meira um hvern stað.
Við ferðuðumst alltaf á gamla hús-
bílnum okkar sem þú varst svo stolt-
ur af því þú gerðir hann alveg upp
frá grunni og lagðir þig allan í að
gera bílinn betri og betri, lést meira
að segja jeppavél í hann til að geta
ferðast meira um hálendið.
Þér leið alltaf best á kyrrlátum
stað lengst útí buskanum með fjöl-
skyldunni og bjór í hendi, það var
svo gaman.
En svo þegar maður hugsar út í
litlu systur okkar, Kristínu Birtu.
Hún mun víst aldrei fá að upplifa
þessi ár með þér eins og við systkinin
fengum.
Enginn pabbi til staðar þegar hún
missir fyrstu tönnina eða byrjar
fyrsta daginn í stóra skólanum. Þessi
ár eru tími sem ég mun aldrei
gleyma svo lengi sem ég lifi. Við fjöl-
skyldan munum ætíð hugsa til þín,
og við systkinin munum gæta
mömmu fyrir þig. Þakka þér fyrir öll
þau 16 ár sem ég hef fengið að vera í
þínum félagsskap. Elsku pabbi,
megir þú hvíla í friði.
Þín dóttir,
Hafdís Bára Ólafsdóttir.
Það var eins og ég væri í einhverj-
um vondum draumi sem ég var að
bíða eftir að vakna upp úr þegar ég
heyrði slæmu fréttirnar um þig, Óli,
tengdapabbi minn. Ég man þann dag
þegar ég fór með henni Ingu til að
hitta tengdaforeldra mína, Ingveldi
og Óla, í fyrsta skiptið. Ég skalf ég
var svo stressaður, en Óli tók á móti
mér með brosi og hlýjum hug og
fékk mig til að gleyma því að ég væri
að kynnast nýju fólki. Þannig mann
hafði hann að geyma að hann tók
svona vel á móti öllum. Sama hverjir
þeir voru. Við áttum margar góðar
stundir saman og mörg sameiginleg
áhugamál. Þér þótti stundum gott að
fá þér whisky-glas á góðum stundum
en kvartaðir oft undan því að raka-
stigið í húsinu olli því að tæmdist oft
fyrr úr flöskunni.
Óli, þín verður sárt saknað og
verður illmögulegt að fylla upp í
tómleikann sem hefur myndast í
hjarta mínu eftir ótímabært fráfall
þitt. Ég skal lofa þér því að ég mun
gera mitt besta til að gera Ingu þína
sem allra hamingjusamasta og hug-
hreysta hana, Ingveldi, Lindu, Sæv-
ar, Hafdísi, Kristínu og alla aðra að-
standendur í þessari miklu sorg.
Guð geymi ykkur öll.
Sæmundur Þór Hauksson.
Ég man vel þegar ég kom með
Sævari á heimili Ólafs og Ingveldar í
fyrsta sinn.
Kvíðin var ég og örlaði á hnút í
maga.
Þegar inn var komið var viðmótið
þannig að allur kvíði hvarf eins og
dögg fyrir sólu.
Ólafur var alltaf í góðu skapi, aldr-
ei veikur, og stöðugt tilbúinn að grín-
ast með okkur.
„Borðaðu nú meira svo þú stækkir
eitthvað“ var algeng setning við mat-
arborðið, með góðlátlegu brosi.
Óli vann mikið. Mér er það minnis-
stætt þegar hann slasaðist á fingri
og var settur í gifs, eftir 3 daga tók
hann af sér gifsið og fór að vinna, þó
fingurinn væri enn ógróinn.
Kveðjustundin er sár en það er
gott að eiga góðar minningar.
Elsku Ólafur, takk fyrir að hafa
fengið að kynnast þér.
Ég bið góðan guð að styrkja Ingv-
eldi og alla fjölskylduna í sorg og
sárum missi.
Blessuð sé minningin um góðan
mann.
Þín tengdadóttir,
Hulda Þorsteinsdóttir.
Óli frændi hefur kvatt þennan
heim alltof snemma og allt of snöggt.
Minningarnar streyma um huga
okkar sem aldrei fyrr.
Óla fannst gaman að leika og hafði
hann mikla hæfileika á því sviði.
Hann var oft spurður að því hvort
hann væri ekki í Spaugstofunni því
að hann svipaði til hins gamankunna
leikara Pálma Gestssonar. Hann
söng mikið og síðustu mánuðina var
hann í hljómsveit sem kallaði sig
Leikhúsbandið. Hann vann sem bif-
vélavirki hjá bifreiðastöðinni ÞÞÞ á
Akranesi. Okkur eru mjög minnis-
stæð öll ferðalögin og samveru-
stundirnar með Óla og fjölskyldunni.
Eitt sinn þegar við fórum saman í
ferðalag þá vorum við öll í lítilli lödu
samara og við vorum sex í bílnum og
Óli bjargaði því með því að leyfa
tveimur okkar að koma yfir til sín. Í
einu af okkar mörgu ferðalögum
tjölduðum við rétt hjá kirkjugarði og
eina nóttina vorum við krakkarnir að
fara að sofa og þá ákváðu Óli og
pabbi okkar að stríða okkur með því
að þykjast vera draugar og byrjuðu
þeir að hrista tjaldið, og vorum við
náttúrlega rosalega hrædd en svo
sáum við skóna þeirra og vissum að
þetta voru þeir.
Það var alltaf líf og fjör þegar Óli
var annars vegar og mun hans vera
sárt saknað. Hans verður ávallt
minnst og á hann alltaf stað í hjarta
okkar allra.
Ingveldur og börn, guð geymi
ykkur og veiti ykkur styrk til að tak-
ast á við sorgina og þennan mikla
missi.
Gunnar Árni, Ingibjörg,
Ársæll og Kristín Erlingsbörn.
Það rann upp bjartur og fagur
dagur þann 16. júlí sl. og lífið virtist
ætla að leika við okkur. En annað
virtist koma á daginn, skyndilega
dimmdi yfir og fréttirnar bárust
okkur eins og þruma úr heiðskíru
lofti, hann Óli „okkar“ eins og okkur
varð að orði, var dáinn. En hann var
svo ungur voru fyrstu viðbrögð, af
hverju var hann tekinn frá okkur,
fjölskyldu sinni, konu og fimm börn-
um, spyrjum við, en verður fátt um
svör.
Það er skrýtið og erfitt að sitja hér
og skrifa minningarorð um hann Óla
vin okkar sem virtist eiga allt lífið
fram undan og við sem áttum eftir að
brasa fullt saman í leik og starfi. Við
kynntumst Óla fyrir fjórum árum
þegar við fluttum í Borgarnes og fór-
um að starfa með leikdeild umf.
Skallagríms. Við höfum fylgst að síð-
an í gegnum leiklistarstarfið og núna
síðustu tvö ár setið saman í stjórn
leikdeildarinnar. Óli var þó búinn að
vera í leiklistinni áður en við komum
til sögunnar. Óli var góður leikari og
frábær söngmaður, hann söng eins
og engill og við vorum alltaf heilluð
af því að hlusta á hann syngja. Óli
var einkar jákvæður maður og af-
skaplega þægilegur í umgengni,
mikill ljúflingur í alla staði. Hlutirnir
vöfðust aldrei fyrir honum, þeir voru
bara leystir og ekkert vandamál.
Hann var einkar handlaginn og alltaf
að hvort sem það var heima fyrir eða
með okkur, enda ekki ófá smiðs-
höggin sem hann átti í uppsetningu á
leikmynd eða því sem gera þurfti.
Það er mikil vinna sem liggur að baki
því að setja upp leiksýningu og Óli
lagði svo sannarlega sitt af mörkum,
var með okkur að smíða og gera það
sem þurfti ásamt því að leika aðal-
hlutverkið í verkinu. Í sex vikur var
mætt á hverju kvöldi á æfingar eftir
langan vinnudag og um helgar til að
smíða. Dýrmætur tími frá fjölskyld-
unni sem þó var mjög skilningsrík.
Eftir hverja törn heyrðist alltaf í
Óla, nei, nú verð ég ekki með næst,
þetta er komið nóg. En þetta var
bara svo gaman að þegar farið var
næst af stað þá stóðst hann ekki mát-
ið að vera með. Nú síðast í vetur
fengum við að njóta krafta hans er
leikdeildin setti upp verkið Þrek og
tár eftir Ólaf Hauk Símonarson þar
sem Óli lék og söng hlutverk hljóm-
sveitarstjórans Áka Hansen og gerði
með glans, og að hann Óli væri
stressaður maður, það virtist ekki
vera til í honum, átti stundum (eða
yfirleitt) erfitt með að læra texta
(núna brosa eflaust margir) og þótt
textinn væri ekki kominn og aðeins
vika í frumsýningu sagði Óli alltaf,
þetta kemur, hafið engar áhyggjur,
þetta reddast, og sú varð auðvitað
raunin.
Við minnumst Óla með miklum
söknuði sem vinar og félaga, þetta er
stórt skarð í okkar félagsstarfi og
vináttu, það er erfitt að geta ekki
notið hans og hæfileika hans áfram,
en við stöndum í þeirri trú að þeir
eigi eftir að verða nýttir áfram og
einhverjir aðrir fái að njóta þeirra
annars staðar og það ætlum við svo
sannarlega að vona, hvort sem það
er að leika, syngja, smíða eða gera
við bíla.
Við kveðjum þig, elsku Óli, takk
fyrir allar samverustundirnar. Guð
geymi þig.
Elsku Ingveldur, Inga, Linda,
Sævar, Hafdís og Kristín Birta, ykk-
ar missir er mikill, við hugsum til
ykkar og megi guð styrkja ykkur í
sorg ykkar og ávallt vera með ykkur.
Innilegar samúðar- og saknaðar-
kveðjur frá öllum í leikdeild umf.
Skallagríms.
Axel Vatnsdal og
Áslaug Júlíusdóttir.
ÓLAFUR
GUNNARSSON
AFMÆLIS- og minningar-
greinum má skila í tölvupósti
(netfangið er minning@mbl.is,
svar er sent sjálfvirkt um leið
og grein hefur borist) eða á
disklingi. Ef greinin er á disk-
lingi þarf útprentun að fylgja.
Nauðsynlegt er að tilgreina
símanúmer höfundar og/eða
sendanda (vinnusíma og
heimasíma). Ekki er tekið við
handskrifuðum greinum.
Minningargreinum þarf að
fylgja formáli með upplýsing-
um um hvar og hvenær sá sem
fjallað er um er fæddur, hvar
og hvenær dáinn, um foreldra
hans, systkini, maka og börn
og loks hvaðan útförin verður
gerð og klukkan hvað. Ætlast
er til að þetta komi aðeins
fram í formálanum, sem er
feitletraður, en ekki í grein-
unum sjálfum. Þar sem pláss
er takmarkað getur þurft að
fresta birtingu greina, enda
þótt þær berist innan hins til-
tekna frests.
Frágangur
afmælis-
og minning-
argreina