Morgunblaðið - 25.07.2003, Blaðsíða 34
MINNINGAR
34 FÖSTUDAGUR 25. JÚLÍ 2003 MORGUNBLAÐIÐ
✝ Tinna HrönnTryggvadóttir
fæddist í Reykjavík
22. apríl 1981. Hún
lést á heimili sínu í
Keflavík laugardag-
inn 19. júlí síðastlið-
inn. Foreldrar henn-
ar eru Hrafnhildur
Bjarnadóttir starfs-
maður í leikskóla, f.
22. nóvember 1964,
og Tryggvi Þórir
Egilsson læknir, f.
19. apríl 1963. Stjúpi
hennar er Ólafur
Ragnar Elísson bif-
reiðastjóri, f. 15. október 1961,
og eiginkona föður hennar er
Ásta Sigríður Guðmundsdóttir
sjúkraþjálfari, f. 3. apríl 1964.
Systkini Tinnu, sammæðra, eru
Bjarni Þór, f. 4. nóvember 1982,
Signý Ósk, f. 7. apríl 1985, Ólafur
Hrafn, f. 21. júní 1990 og Tómas
Orri, f. 1. október 1998, og syst-
kini hennar samfeðra eru Egill, f.
18. ágúst 1992, Ásgeir f. 20. júní
1994, og Stefanía Ásta, f. 28.
mars 1999.
Tinna bjó með unnusta sínum
Hauki Aðalsteinssyni bifreiða-
stjóra, f. 23. júní 1981. Foreldrar
hans eru Aðalsteinn
Guðbergsson bif-
vélavirki, f. 9. jan-
úar 1948, og Guðríð-
ur Hauksdóttir
verslunarmaður, f.
9. nóvember 1949.
Tinna ólst upp á
Reykjavíkursvæðinu
til þriggja ára ald-
urs. Þá fluttist hún
til Grindavíkur með
móður sinni og
stjúpa og ólst þar
upp síðan auk þess
sem hún átti heimili
hjá föðurfjölskyldu
sinni í Reykjavík. Hún fluttist
heim til unnusta síns sautján ára
gömul, fyrst inn á heimili for-
eldra hans í Njarðvík en síðar,
fyrir tæpum þremur árum, flutt-
ust þau í eigin íbúð í Keflavík.
Hún var við nám í Fjölbrauta-
skóla Suðurnesja samhliða vinnu
á veitingastað í Keflavík. Þá
hafði hún stundað nám í píanó-
leik sem var henni mjög hugleik-
inn. Tinna stundaði auk þess
hestamennsku af miklum krafti.
Útför hennar fer fram frá
Grindavíkurkirkju föstudaginn
25. júlí klukkan 15.
Tinna frænka er dáin. Síðastliðinn
laugardag kom fregnin eins og reið-
arslag og við erum varla búin að átta
okkur enn. Hvernig má það vera að
kornung kona sem geislaði af lífs-
gleði og æskufegurð sé horfin okkur?
Hún stóð á þröskuldi fullorðinsár-
anna og við héldum að hún ætti lífið
fram undan.
Tinna var fyrsta barnabarnið í
fjölskyldunni en foreldrar hennar
voru enn á unglingsaldri þegar hún
fæddist. Hún var gullfallegt barn,
dökk á brún og brá og mikill gleði-
gjafi allt frá þeirri stundu er hún
kom í heiminn. Ömmur hennar og af-
ar tóku mikinn þátt í uppeldi hennar
fyrstu árin og fengum við að fylgjast
með henni þegar hún dvaldist hjá
föðurfólkinu, afa Agli og ömmu
Brynju í Teigagerði. Hún var kraft-
mikil og glöð lítil stúlka sem geislaði
af heilbrigði. Það var því mikið áfall
þegar hún greindist með sykursýki
rúmlega tveggja ára gömul. Við tók
lega á barnadeild þar sem foreldrar
Tinnu, afar og ömmur lærðu að með-
höndla sjúkdóminn. Þetta var erfið-
ur tími en þarna kom þrautseigja
Tinnu litlu og dugnaður vel í ljós.
Aldrei var kvartað og þó að hún væri
haldin alvarlegum sjúkdómi var
Tinna í raun aldrei „sjúklingur“.
Hún lærði fljótt að þekkja einkenni
sykursýkinnar og þegar hún stálp-
aðist fór hún smám saman að geta
meðhöndlað sig sjálf.
Tinna var stóra, skemmtilega
frænka dætra okkar, Þorbjargar og
Brynju, sem voru þremur og sex ár-
um yngri en hún. Þær voru allar
fæddar í apríl: þetta voru vorbörn
fjölskyldunnar. Tinna var alltaf svo
undurgóð frænkum sínum og lék við
þær eins og jafningja þótt yngri
væru. Enda var hátíð í bæ þegar
Tinna kom í heimsókn til afa og
ömmu í Teigagerði. Þá voru haldnar
reglulegar leiksýningar, þar sem
listagyðjurnar þrjár fóru á kostum.
Þær voru allt í öllu og sáu jafnt um
búningahönnun, leikritun og leik-
skrárgerð, að ógleymdum listrænum
tilþrifum á leiksviðinu og hreinum
spuna þegar svo bar undir. Hug-
myndaauðgi og listfengi Tinnu var
þá við brugðið, og hún geislaði af
leikgleði. Lengi verða í minnum
hafðar sýningar eins og „Ljónið og
músin“, „Prinsessan og hesturinn“
og „Karlrembur!“, þar sem ekki var
allt sem sýndist og endalokin iðulega
óvænt.
Ein af mörgum ánægjulegum
minningum frá þessum árum er Ítal-
íuferð sem stórfjölskyldan fór í árið
1988, en þá fengu frænkurnar öllu
stærri sandkassa til að leika sér í en
þær voru vanar, sem var strand-
lengja Adríahafsins. Þá var nú mok-
að og byggt. Eftir að Tryggvi og
Ásta hófu búskap í nágrenni við okk-
ur í Vesturbænum dvaldi Tinna oft
hjá þeim og notuðu frænkurnar þá
hvert tækifæri til að hittast. Þor-
björg fékk líka stundum að fara í
sumarbústað með Tinnu, Ástu og
Tryggva og var þá tekið upp á mörgu
kostulegu. Morgun einn rifu þær
frænkur sig upp fyrir allar aldir til að
þvo sokka í læknum eins og gert var í
gamla daga!
Tinnu var margt til lista lagt. Hún
teiknaði og málaði listavel og vann til
verðlauna á því sviði í skóla. Tinna
lærði líka á píanó hjá ömmu Brynju
og hélt því áfram í tónlistarskólanum
í Grindavík, þar sem hún bjó hjá
móður sinni Hrafnhildi og stjúpa sín-
um Ólafi. Tónlistin vék þó um stund
fyrir öðru áhugamáli, hesta-
mennsku. Foreldrar Tinnu gáfu
henni hest í fermingargjöf og hafði
hún þá á orði að það væri stærsti
dagur sem hún hefði lifað.
Við sáum Tinnu verða að sætri
unglingsstelpu og síðan að geislandi
fallegri ungri konu.Við hittumst
sjaldnar hin síðari ár en alltaf urðu
miklir fagnaðarfundir. Frænkurnar
þrjár náðu strax saman eins og þeg-
ar þær voru litlar, og Hólmfríður
yngsta dóttir okkar fékk að kynnast
stóru frænku sem henni þótti mikið
til um. Tinna var einstaklega frænd-
rækin og gjafmild. Á hverjum jólum
fengu allir í fjölskyldunni eitthvað
fallegt sem hún hafði búið til. Tinna
var mjög barngóð og stolt af syst-
kinunum sínum öllum, en þau eru sjö
alls. Sammæðra henni eru Bjarni
Þór, Signý Ósk, Ólafur Hrafn og
Tómas Orri, en samfeðra eru Egill,
Ásgeir og Stefanía Ásta. Þau hin síð-
arnefndu nutu góðs af heimsóknum
Tinnu til Bandaríkjanna, þar sem
Tryggvi og Ásta voru í námi á síðari
hluta tíunda áratugarins. Alltaf var
glatt og kátt í kringum Tinnu.
Við fylgdumst með afrekum Tinnu
í námi og starfi. Hún keppti á hesta-
mótum og vann til verðlauna. Hún
kynntist ung ástinni sinni, honum
Hauki, og unga parið lifði og hrærð-
ist í hestamennskunni. Þau hófu bú-
skap, fyrst hjá foreldrum hans í
Njarðvík og síðan í eigin íbúð í Kefla-
vík. Hún stundaði nám í Fjölbrauta-
skóla Suðurnesja en gerði hlé á nám-
inu meðan þau voru að koma undir
sig fótunum. Hún var eftirsótt í
vinnu enda harðdugleg og ósérhlífin.
Í byrjun þessa árs hóf Tinna svo aft-
ur nám í fjölbrautaskólanum og lauk
vorprófum með glæsibrag. Næsta
vetur ætlaði hún svo að taka aftur til
við píanóið ásamt skólanum.
Við hittum Tinnu síðast í Teiga-
gerðinu í lok maí en hún var þá í
kaupstaðarferð ásamt systur sinni
Signýju. Hún var að velja sér plöntur
úr garði ömmu og afa til að gróður-
setja í garðinum þeirra Hauks. Sólin
ljómaði og Tinna líka.
Þannig verður hún ávallt í huga
okkar. Stúlkan með hlýja brosið sem
náði alla leið upp í tindrandi brúnu
augun hennar. Hetjan okkar.
Elsku Haukur, Hrafnhildur,
Tryggvi og aðrir aðstandendur, hug-
ur okkar er hjá ykkur. Við biðjum
þess að ykkur megi veitast styrkur
til að takast á við erfiðleikana fram
undan. Það er mikil huggun fólgin í
minningunni um yndislega stúlku
sem var okkur öllum svo mikils virði.
Hún Tinna verður áfram hjá okkur í
anda.
Blessuð sé minning Tinnu Hrann-
ar Tryggvadóttur.
Sveinn, Inga og dætur.
Smávinir fagrir, foldarskart,
fífill í haga, rauð og blá
brekkusóley, vér mættum margt
muna hvort öðru að segja frá
Prýðið þér lengi landið það,
sem lifandi guð hefur fundið stað
ástarsælan, því ástin hans
alls staðar fyllir þarfir manns.
– – –
Faðir og vinur alls sem er,
annastu þennan græna reit.
Blessaðu, faðir, blómin hér,
blessaðu þau í hverri sveit.
Vesalings sóley, sérðu mig?
Sofðu nú vært og byrgðu þig;
– hægur er dúr á daggarnótt –
dreymi þig ljósið, sofðu rótt.
(Jónas Hallgr.)
Elsku Tinna, hjartanlegar þakkir
fyrir allar samverustundirnar.
Afi og amma.
Koma Tinnu frænku í bæinn var
alltaf tilhlökkunarefni og ekki að
ástæðulausu. Við reyndum alltaf að
nýta tíma okkar saman sem best og
hófum því undireins undirbúning að
næsta leikriti eða tískusýningu með
Tinnu í forystu leikhópsins „Tríó“.
Þegar leikhópurinn hafði fundið sér
umfjöllunarefni var farið beinustu
leið í fataskápinn hennar ömmu,
búningar gerðir og síðan skreyttum
við okkur með perlufestunum henn-
ar og slæðunum. Enduðum svo í
einni þvögu fyrir framan baðher-
bergisspegilinn þar sem við mökuð-
um á okkur snyrtivörum heimilisins.
Í leikritunum fékk hver og ein að láta
ljós sitt skína, sumar vildu alltaf
leika prinsessuna en Tinna taldi það
ekki eftir sér að leika minna eftirsótt
hlutverk svo sem föðurinn og gerði
það alltaf af mikilli innlifun.
Þótt við hittum Tinnu sjaldnar
með árunum fundum við til sömu eft-
irvæntingar að fá að hitta hana og
Tinna var alltaf jafn hress og
skemmtileg, kleip í kinnarnar okkar
og knúsaði okkur. Við hittum Tinnu
seinast í afmælisveislu ömmu og
skemmtum okkur hið besta en datt
aldrei annað í hug en að við myndum
hitta hana aftur ótal sinnum.
Elsku Tinna, stóra frænkan okk-
ar, þú sem varst alltaf svo skemmti-
leg, klár og hugmyndarík, við gerð-
um okkur aldrei grein fyrir
alvarleika sjúkdómsins sem þú varst
haldin.
Við áttum eftir að upplifa svo
margt saman. Það eina sem getur
dregið úr sársaukanum á þessari
stundu eru yndislegar minningar um
þig sem við munum aldrei gleyma.
Þorbjörg og Brynja Sveinsdætur.
Ég á bágt með að trúa því að þú
sért farin frá mér. Besta vinkona
mín, áttir allt lífið framundan og
komin með svo mörg plön um fram-
tíðina, alltaf hlæjandi og rjóð í kinn-
um. Þegar ég frétti að þú værir farin
var eins og andardrátturinn væri
tekinn frá mér, þú varst farin frá
mér og ég vildi ekki trúa því. Það er
svo erfitt að hugsa til þess að geta
ekki tekið upp símtólið og hringt í
þig til að spjalla um hitt og þetta eins
og við gerðum alltaf. En ég veit að þú
ert hérna hjá mér og ég á eftir að
hitta þig aftur hinum megin og það
er mér mikil huggun. Ég er mjög
þakklát fyrir allar þessar góðu
stundir sem við áttum saman. Við
vorum svo miklar samlokur þegar
við vorum yngri að það var ekki hægt
að stía okkur sundur. Það var alltaf
svo gaman að koma heim til þín þeg-
ar við vorum litlar, þú áttir svo mikið
Barbie- og Ponydót og við gátum al-
veg gleymt okkur í þessu þegar við
vorum að leika okkur saman. Hraun-
ið var einn af okkar leikvöllum og þar
áttum við lítið bú í mosanum og
reyndum að byggja okkur þar lítinn
kofa sem tókst ekki svo vel. Svo ux-
um við upp úr þessu öllu saman og
vorum allt í einu farnar að spá í
stráka og málningardót.Það voru
ekki fáar stundirnar heima hjá þér
sem við eyddum fyrir framan speg-
ilinn að æfa okkur að mála okkur
með myndir upp úr tímaritum og
ætluðum við sko að verða förðunar-
fræðingar þegar við yrðum stórar.
Stuttu seinna birtist draumaprinsinn
þinn á balli í Stapanum. Þú varst al-
veg yfir þig ástfangin af honum og
ekki löngu eftir það fluttirðu frá
Grindavík til hans í Njarðvík. Fyrir
mig var það mjög erfitt að missa hinn
helminginn minn úr fiskiþorpinu, en
við misstum samt aldrei sambandið
og áttum margar góðar stundir eftir
það. Þú hlóst alltaf svo hátt og mikið
og ég lá alltaf í krampa með þér því
þú varst með svo smitandi hlátur. Þú
varst svo lífsglöð að ég þurfti ekki
einu sinni að segja þér brandara til
þess að fá þig til að hlæja, það var
nóg að segja bara „lopapeysa“.
Elsku Haukur og fjölskylda,
Hrafnhildur og fjölskylda, megi guð
vera hjá ykkur og styrkja ykkur á
þessum erfiðu tímum.
Þín vinkona
Anna Guðrún.
Ég get ekki lýst hvernig mér leið
þegar ég frétti að þú værir dáin. Ég
var svo reið að þú værir tekin frá
okkur svona ung. Þú varst svo lífs-
glöð, alltaf hlæjandi og svo falleg.
Það var svo gaman að vera nálægt
þér því ég gat ekki annað en verið
brosandi. Það var svo gaman að fara
með þér í bíó því þú varst með svo
smitandi hlátur. Þegar við vorum
litlar var svo gaman að koma í heim-
sókn, mamma þín kenndi okkur að
hekla og sagði okkur draugasögur.
Við vorum svo hræddar en vildum
samt alltaf heyra meira. Ég man svo
vel eftir því þegar þú hittir Hauk
fyrst, við vorum á balli í Stapanum
og þú hvarfst, ég og Anna leituðum
að þér úti um allt því þú þurftir að
taka lyfin þín, þá varst þú orðin ást-
fangin á miðju dansgólfi. Alltaf þeg-
ar við hittumst þá var mikið spjallað
og hlegið. Manstu þegar við vorum á
rúntinum uppi á „Hollywood“-hæð-
inni á bílnum hans Hauks og þú fest-
ir bílinn uppi á risasteini? Við urðum
allar rosalega hræddar en hlógum
samt eins og vitleysingar eins og allt-
af. Það var alltaf svo gaman hjá okk-
ur.
Elsku Tinna, þín verður sárt sakn-
að en minningarnar eru svo margar
og góðar sem ég mun varðveita.
Elsku Haukur, Hrafnhildur, Óli,
Signý, Óli Hrafn og Tómas, megi guð
styrkja ykkur í þessari miklu sorg.
Þín vinkona,
Eyrún.
Menn setur hljóða þegar ungt fólk
í blóma lífsins er hrifið burt fyrir-
varalaust. Tinna okkar var lífsglöð
og elskuleg stúlka sem vann hug og
hjörtu okkar allra á Háteigi 21. Það
er ekki hægt að skrifa um Tinnu án
þess að Haukur fylgi með. Í augum
okkar, hinna eldri, voru þau börnin í
húsinu. Það var gaman að fylgjast
með þeim og ræða við þau um allt
milli himins og jarðar. Þau voru um
margt óvenjuþroskuð miðað við ald-
ur. Náttúran og dýrin áttu hug
Tinnu. Hún var mikil hestakona og
það var eftirtektarvert að sjá hve
hundarnir þeirra voru vel siðaðir.
Skömmu fyrir andlát sitt keypti
Tinna píanó og fór að spila eftir
nokkurt hlé, en hún hafði sem barn
lært á píanó. Við fengum að njóta
þess að heyra tónana flæða um húsið.
Með þessum fátæklegu kveðjuorð-
um sendum við Hauki og fjölskyld-
um þeirra beggja okkar innilegustu
samúðarkveðjur.
Fyrir hönd vina þinna á Háteigi
21,
Elísabet Jensdóttir.
Elsku besta vinkona mín, mér
þykir svo vænt um þig. Ég trúi ekki
að skulir vera farin, þú áttir svo mik-
ið eftir. Eins jákvæð og glöð sem þú
alltaf varst. Alla daga geislaði af þér.
Þú hafðir svo fallegt bros og fallega
persónu að geyma. Það er svo óskilj-
anlegt að þú skulir hafa verið tekin
frá okkur, ég skil ekki afhverju Guð
gerir okkur slíkt. Ég man þegar þú
byrjaðir að vinna hjá okkur, við náð-
um srax svo vel saman. Skildum allt-
af hvor aðra, traust og vinátta var
það sem við áttum. Þú varst svo dug-
leg, ég hef aldrei unnið og verið með
neinum eins og þér. Elsku Tinna mín
ég sakna þín svo sárt. En þegar fram
líða stundir munu fallegar minningar
koma í stað sársaukans. Elsku
Tinna, við vorum orðnar bestu vin-
konur og mun ég alltaf geyma minn-
ingu þína í hjarta mínu.
Ég þakka fyrir ástúð alla
indæl minning lifir kær.
Nú mátt þú vina höfði halla,
við herrans brjóst er hvíldin vær.
Í sölum himins sólin skín,
ég sendi kveðju upp til þín.
Elsku Haukur og fjölskylda.
Guð styrki ykkur í sorginni
Innilegar samúðarkveðjur.
Hildur Ingólfsdóttir.
Síðasta laugardag barst okkur sú
harmafregn að Tinna Hrönn, sam-
starfsmanneskja okkar og vinur,
hefði dáið um nóttina. Það eru sorg-
ardagar hjá okkur í vinnunni. Og enn
sárar þegar ung stúlka í blóma lífsins
er tekin svona fljótt frá okkur. Við
sem erum búin að vinna með Tinnu í
þau þrjú ár sem hún hefur starfað
hér, mættum alltaf brosi og hlýju frá
henni, ósérhlífin og dugleg er svo
sannarlega hægt að segja um hana.
Síðasta vetur var hún í Fjöl-
brautaskóla Suðurnesja og nutum
við styrks hennar hér þegar hún gat.
Áhugamál Tinnu var hesta-
mennska og oft var skemmtileg um-
ræða í vinnunni um hestana hennar,
hestaferðir sem hún hafði mjög gam-
an af og ekki síst nærveran í kring-
um hestana.
Elsku Haukur og fjölskylda, megi
Guð styrkja ykkur í sorg ykkar.
Starfsfólk Olsen Olsen.
Síðastliðinn laugardag bárust okk-
ur þær hræðilegu fréttir að skóla-
systir okkar hún Tinna væri farin frá
okkur, aðeins 22 ára. Þegar við minn-
umst Tinnu kemur fyrst í hugann
hlátur, en Tinna var alltaf hlæjandi
og lífsgleðin geislaði af henni. Hún
var bara rétt að byrja lífið og fram-
tíðin blasti við, en eins og segir ein-
hvers staðar þá veit enginn sína ævi
fyrr en öll er. Það er erfitt að sætta
sig við svo ótímabært fráfall ungrar
stúlku og á stundu sem þessari hugs-
um við til þeirra sem næst henni
stóðu:
Elsku Haukur, foreldrar, systkini
og aðrir aðstandendur, Guð veri með
ykkur og styrki.
Farðu í friði, vinur minn kær,
faðirinn mun þig geyma.
Um aldur og ævi þú verður mér nær,
aldrei ég skal þér gleyma.
(Bubbi Morthens)
Elsku Tinna, takk fyrir allt sem þú
varst okkur.
Skólafélagar úr Grunnskóla
Grindavíkur.
Tveggja áratuga baráttu Tinnu við
alvarlega sykursýki er skyndilega
lokið. Eftir standa minningar sem
óþarfi er að fegra og innilegt þakk-
læti fyrir gleðina sem hún færði okk-
ur.
Hugur okkar og samúð er með for-
eldrum hennar, Hrafnhildi og Ólafi,
börnum þeirra og Hauki unnusta
hennar, eins og öllum sem voru svo
lánsamir að þekkja Tinnu litlu.
Hér áttu blómsveig
bundinn af elsku,
blíðri þökk
og blikandi tárum.
Hann fölnar ei
en fagur geymist
í hjörtum allra
ástvina þinna.
(Halla Lovísa Loftsdóttir.)
Guð geymi þig elsku Tinna.
Kolbrún, Phillip og Jessica.
TINNA HRÖNN
TRYGGVADÓTTIR