Morgunblaðið - 08.12.2003, Blaðsíða 29

Morgunblaðið - 08.12.2003, Blaðsíða 29
MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 8. DESEMBER 2003 29 Láki afi, í dag munum við fylgja þér til grafar, ganga með þér síðasta spölinn, að þessu sinni. Að þessu sinni, því auðvitað munt þú taka á móti okkur öllum seinna, þegar okk- ar tilvist lýkur í þessu lífi, þá liggja leiðir okkar saman á ný, því trúum við og það erum við búin að ákveða. Á meðan þá vitum við að þú vakir yf- ir okkur og passar, og verður reynsl- unni ríkari á þeim stað sem þú nú til- heyrir þegar við hittumst á ný. Elskulegur afi okkar finnst okkur vera tekinn of fljótt frá okkur eftir að við fengum fréttir af veikindum hans, of stuttur tími, en sem virðist langur, þegar maður veit innst inni af ástvini sem þjáist, þá eru tvær vik- ur langur tími að líða. Þegar svona er komið þá trúir maður að betra sé að yfirgefa líkama sinn, þegar sá sem ræður kallar á mann. Við vitum að þér líður vel núna þar sem þú dvelur og að enginn sársauki hrjáir þig elsku afi. Við sem syrgjum þig nú, hlýjum okkur við góðar minningar frá okkar tímum saman, um afann sem við er- um svo lánsöm að hafa haft hjá okk- ur og kynnst. Afann, sem var alltaf sérstök afalykt af, afann sem fannst besti rúnturinn að keyra um höfnina og virða fyrir sér skipin og tala við mann og annan. Afann, sem var allt- af svo stoltur af öllum sínum nán- ustu, alltaf minntist hann á hvað Onni, Sigga, Fimbi og Agnar sín voru dugleg í því sem þau voru að gera og svona talaði hann um barna- börnin og barnabarnabörnin, öllu sýndi hann áhuga, hvað sem maður tók sér fyrir hendur. Afann sem kall- aði ömmu alltaf „mömmu“ sem öllum fannst svo sætt og alltaf minnti hann mann á það reglulega hvað hann ætti góða konu sem hún Magga amma er. Oft þegar amma var inni í eldhúsi í Langagerðinu að laga kaffi þá sagði hann gjarnan: „Ég er heppinn að eiga hana „mömmu“, ég veit bara ekki hvar ég væri ef ég hefði ekki átt hana.“ Afann sem fannst best að vera í Langagerðinu, eða sumarbú- staðnum. Afann sem vildi alltaf vera á sama bílnum. Afann, sem borgaði alltaf sína reikninga helst degi áður en átti að borga. Afann, sem sagði manni allar löggusögurnar, og bauð manni í bíltúr á löggubíl, og maður fékk að sjá handjárnin og maður horfði á hann með þvílíkri aðdáun og sagði við sjálfan sig: „Ég vil vera eins og Láki afi lögga þegar ég verð stór.“ Afann, sem kom alltaf með skærbleikt skipablys á gamlárskvöld og lýsti upp heilu hverfin, hann kveikti alltaf á því, síðan fékk ein- hver annar að halda á því. Afann, sem fannst svo gaman að leggja kap- al og spila spil. Afann, sem fargaði aldrei neinu, heldur safnaði öllu. Af- ann, sem þekkti alla. Afann, sem við kveðjum nú til hinstu hvíldar með söknuði, með margar hlýjar og góðar minningar. Þakklát erum við fyrir að sólar- geislinn okkar, hún Katrín Eyja, fékk að hitta langafa sinn og að afi fékk að hitta hana, það er okkur mik- ils virði í dag að hann skuli hafa hald- ið í fingur hennar og gefið henni þá hlýju sem hann öllum veitti. „Kötu“ sinni sem hann einn fékk að kalla hana. Katrín Eyja mun halda áfram að heimsækja afa sinn og skoða myndbönd og myndir af honum. Afi talaði alltaf mikið um gamla tíma, og gaman fannst okkur alltaf þegar hann kom í heimsókn til okkar á Klapparstíginn, þá gat hann frætt okkur um hvernig allt var áður fyrr í miðbænum, hvaða verslun var hvar og hver bjó hvar og hvar hann bjó á Njálsgötunni, og hvernig allt saman var. Við gátum farið með honum aft- ur í tímann við það eitt að hlusta á frásögn hans, svo vel skýrði hann frá öllu og mundi allt að unun var að hlusta á. Nú nálgast tími friðar og ljóss, tími þar sem fjölskyldan kemur sam- an og gleðst. Afi, yfir þessar hátíðir munum við hittast fjölskyldan í þín- um garði að heiðra minningu þína. Megi guð og englar ávallt vaka yfir þér elsku afi. Móðir vor sem ert á jörðu, heilagt veri nafn þitt. komi ríki þitt, og veri vilji þinn framkvæmdur í oss, eins og hann er í þér. Eins og þú sendir hvern dag þína engla sendu þá einnig til oss. Fyrirgefið oss vorar syndir, eins og vér bætum fyrir allar vorar syndir gagnvart þér. Og leið oss eigi til sjúkleika, heldur fær oss frá öllu illu, því þín er jörðin líkaminn og heilsan. Amen. (Sigur Rós.) Elsku ástvinir og fjölskylda, guð veri með ykkur. Jón Þór, Eva Björg, Katrín Eyja. Leitaðu að sál dauðans í líkama lífsins, því að líf og dauði er eitt eins og fljótið og sær- inn. Því að hvað er það að deyja annað en að standa nakinn í blænum og hverfa inn í sólskinið? (Kahlil Gibran.) Okkar kæri vinur, mágur og svili Þorlákur hefur kvatt. Á langri sam- veru er margs að minnast. Þegar við öll vorum ung með litlu börnin okkar þá átti ungt fólk ekki einkabíla. Láki átti þó nýjan vörubíl og það var mikil upplifun þegar hann setti boddí á pallinn og allar fjölskyldurnar fóru í berjamó saman. Síðan þá höfum við farið með Möggu og Láka í margar ánægjulegar ferðir bæði innan- og utanlands. Flestar minningarnar eru þó frá samveru á heimilum okkar og í sumarbústaðnum í Hveragerði, sem við eigum saman ásamt þriðju systurinni og manni hennar. Eftir að Láki hætti vörubílaakstri gerðist hann lögreglumaður. Síðustu árin í starfi var hann yfirmaður miðbæj- arstöðvar. Láki þótti sérlega laginn að miðla málum í lögreglustörfum enda maður sátta. Á þeim árum not- aði hann stundum sumarleyfið sitt og fór sem skipverji á skipum Eim- skipafélagsins. Hann hafði mikla ánægju af því og fór Magga með honum nokkrum sinnum. Láki var mikill fjölskyldufaðir og vinamargur og oft gestkvæmt hjá þeim í Langa- gerði. Láki átti við heilsuleysi að stríða undir það síðasta en tók öllu með æðruleysi enda mikill trúmaður. Magga og Láki voru sérlega sam- rýnd hjón, og kom það vel fram í veikindum hans. Að leiðarlokum vilj- um við þakka vini okkar fyrir sam- fylgdina og kveðjum hann með sökn- uði. Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta. Á grænum grundum lætur hann mi hvílast, leiðir mig að vötnum, þar sem ég má næðis njóta. (Úr 23. Davíðssálmi.) Jóna og Björn. Það er skrítin tilfinning að kveðja hinstu kveðju mann sem hefur verið stór hluti af lífi okkar í yfir fimmtíu ár og aldrei borið skugga þar á. Í raun erum við að missa hluta af okkar eigin lífi. Þetta er tilfinning sem grípur um sig við að missa mág sinn og svila Þorlák Runólfsson. Margt er að minnast í gegnum árin, allar góðu stundirnar á ferðalögum í Guðrúnarskála og á heimili þeirra hjóna í Langagerði 50, en þau voru ein af frumbyggjum Smáíbúðahvef- isins. Þorlákur var lögreglumaður af lífi og sál og eignaðist þar fjölda góðra vina. Hann var mikið fyrir fjöl- skyldu sína og naut sín vel með börn- um sínum og barnabörnum, en varla er hægt að minnast á Þorlák nema Magnea komi í hugann svo samrýnd voru þau í allri umhyggju sinni fyrir velferð afkomenda sinna og þá ekki síst hvort fyrir öðru sem kom vel fram í erfiðum veikindum hans. Það er huggun harmi gegn að fylgjast með börnum þeirra fjórum umvefja foreldra sína ást, alúð og umhyggju fyrir velferð þeirra. Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi, hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér. Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi, og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér. (Ingibjörg Sigurðardóttir.) Guðrún og Ögmundur. Stundin líður, tíminn tekur, toll af öllu hér, sviplegt brotthvarf söknuð vekur sorg í hjarta mér. Þó veitir yl í veröld kaldri vermir ætíð mig, að hafa þó á unga aldri eignast vin sem þig. (Hákon Aðalsteinsson.) Valgerður. Nú, þegar Þorlákur Runólfsson, eða hann Láki okkar, er kvaddur, langar mig að minnast hans með nokkrum orðum og þakka honum fyrir samveruna. Fyrir rúmum fimm árum, þegar ég kom inn í fjölskyld- una, kynntist ég heiðurshjónunum Möggu og Láka sem tóku strax vel á móti mér. Það eru svo margar góðar stundir sem ég minnist úr Langa- gerðinu og einnig úr sumarhúsinu þeirra í Hveragerði. Það var alltaf ótrúlega skemmti- legt að vera í kringum hann Láka. Ég man varla eftir honum öðruvísi en brosandi, hann var alltaf segjandi skemmtilegar sögur frá gömlu tím- unum og við hin gátum hlegið enda- laust þótt við hefðum jafnvel heyrt hann segja okkur viðkomandi sögu oft áður. Hann hafði líka kynnst dökkum hliðum lífsins í starfi sínu sem lögreglumaður, og síðar lög- regluvarðstjóri til margra ára, þótt hann talaði aldrei um það, og einu tók ég eftir fljótlega eftir að við kynntumst og það var hversu mikla réttlætiskennd maðurinn hafði. Hann kom alltaf fram við aðra sem jafningja, sama hvaðan þeir komu úr „þjóðfélagsstiganum“. Hann mátti ekki vita af neinu misrétti gagnvart þeim sem minnst máttu sín og þegar ég var að spjalla við hann kom það bersýnilega í ljós, hversu þroskaður og réttsýnn maðurinn var. Það var alltaf gaman að tala við hann um sjó- mennskuna, en hann hafði oft farið með skipum Eimskipa í afleysingar- túra og hann hafði einnig keyrt vöru- bíl lengi, á yngri árum, og endalaust átti hann til sögur frá þeim tímum til að segja. En aldrei var hann glaðari, en þegar stórfjölskyldan var saman- komin við hin ýmsu tilefni. Þá horfði hann stoltur yfir hópinn, börnin sín, alla afkomendurna og hann lék og sprellaði við barnabarnabörnin sín og spjallaði við þá eldri og naut sín vel. Hann var alltaf stoltur af fólkinu sínu og mikið vorum við glöð, þegar þau hjónin birtust, skyndilega í Langholtskirkju um miðjan október sl. þegar Katla Sigríður, dóttir okk- ar, var að syngja með krútt-kórnum, á fallegum sunnudagsmorgni. Hún Magga er búin að standa eins og klettur á bak við hann Láka sinn í veikindunum, ásamt börnum þeirra hjóna. Ég bið Guð um að styrkja Möggu og alla fjölskylduna í sorg- inni og blessa minningu Þorláks Runólfssonar. Magnús Örn Guðmarsson. BALDVIN GRANI BALDURSSON bóndi Rangá, lést á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga laugar- daginn 6. desember. Jón Aðalsteinn Baldvinsson, Margrét Sigtryggsdóttir, Baldur Baldvinsson, Sigrún Aðalgeirsdóttir, Baldvin Kristinn Baldvinsson, Brynhildur Þráinsdóttir, Hildur Baldvinsdóttir, Garðar Jónasson, Friðrikka Baldvinsdóttir, Stefán Haraldsson, og barnabörn. Ástkær eiginmaður minn, faðir okkar, tengda- faðir, afi og langafi, EIRÍKUR BJARNASON bóndi, Sandlækjarkoti, Skeiða- og Gnúpverjahreppi, lést á Ljósheimum föstudaginn 5. desember. Fyrir hönd aðstandenda, Margrét Jóna Eiríksdóttir. Faðir okkar, JÓN VALGEIR ÓLAFSSON, áður búsettur á Búðarstíg, Eyrarbakka, lést á Ljósheimum, Selfossi, að kvöldi miðviku- dagsins 3. desember. Jarðarförin fer fram frá Eyrarbakkakirkju laugardaginn 13. desember kl. 11.00. Börn hins látna. Ástkær móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma, MARÍA BERGÞÓRA ÞORSTEINSDÓTTIR, Þórðarsveig 1, áður Bogahlíð 18, lést á Landspítalanum í Fossvogi þriðjudaginn 2. desember. Jarðarförin fer fram frá Fossvogskirkju þriðju- daginn 9. desember kl. 15.00. Veronika Jóhannsdóttir, Ólafur R. Ingimarsson, Ingveldur Gyða Kristinsdóttir, Jón Kristinn Jónsson, barnabörn, barnabarnabarn og aðrir aðstandendur. Líney Emelía Frið- rika frænka mín, var kvödd hinstu kveðju í kyrrþey, miðvikudag- inn 19. nóvember sl. Henni voru gefin nöfn þriggja systkina sinna sem látist höfðu áður en hún fædd- ist og var hún stolt af þessum nöfn- um sínum. Sú mynd sem kemur í hugann af frænku minni er brúð- hjónamyndin af henni og manni hennar, Gesti Gíslasyni, sem tekin var fyrir u.þ.b. 70 árum. Þessi mynd vakti aðdáun mína þegar ég var barn og enn finnst mér þessi mynd fallegasta brúðhjónamynd sem ég hef séð. Þau voru falleg hjón og vöktu þau mikla athygli í Reykjavík fyrir glæsileik þegar þau voru ung. Líney bar sig alla tíð sér- staklega vel og hugsaði vel um út- litið með dyggum stuðningi einka- dóttur sinnar, Sigrúnar Eddu, sem snyrti hana fallega og greiddi. Líney var einstaklega gestrisin og greiðvikin og vildi allt fyrir alla gera og þótti sjálfsagt að rétta öðr- um hjálparhönd. Hún varð oft undrandi þegar greiðasemi hennar var ekki endurgoldin. Sérstaklega var ég, bróðurdóttir hennar, treg að gera það sem hún bað mig um þegar ég var barn. Stjórnaðist LÍNEY BENTSDÓTTIR ✝ Líney EmilíaFriðrika Bents- dóttir fæddist á Bíldudal 5. desember 1909. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópa- vogi 12. nóvember síðastliðinn og var útför hennar gerð í kyrrþey að hennar ósk. þessi mótþrói aðallega af því að mér fannst hún vilja eigna sér yngri bróður minn, sem hún var mjög hrifin af, en hún sagð- ist hafa fengið hann í afmælisgjöf þar sem hann fæddist á afmæl- isdegi hennar. Ég vildi nú eiga þennan bróður minn ein og var því mjög afbrýðisöm út í hana. En efst í huga mér er þó þakklæti til hennar, þakklæti fyrir hennar hlut í uppeldi mínu. Þakk- læti fyrir að kenna mér að dansa hinn skemmtilega dans Charleston, sem hún sjálf dansaði frábærlega vel. Þakklæti fyrir að reyna að kenna mér að ganga og sitja fal- lega, sem gekk nú frekar illa eins og sjá má á myndum af okkur Sig- rúnu sem börnum, þar sem Sigrún situr teinrétt í baki en ég húki í keng. Þakklæti fyrir mín fyrstu kynni af kvikmyndum þegar hún bauð okkur Sigrúnu, ellefu ára gömlum, með sér í bíó klukkan níu til þess að sjá hina dömulegu Grace Kelly. Þakklæti fyrir mín fyrstu kynni af uppsetningu leikrits þegar við Sigrún fylgdumst með þeim Gesti á æfingum á leikritinu Veð- mál Mæru Lindar hjá Leikfélagi Kópavogs. Þakklæti fyrir ferðirnar með leikfélaginu út á land með hin ýmsu leikrit. Þakklæti fyrir mín fyrstu og einu kynni af sveitinni þegar ég fór með þeim í réttirnar í Þykkvabænum. Hafi Líney Emilía Friðrika föðursystir mín þakkir fyrir allt og allt. Anna.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.