Morgunblaðið - 17.05.2004, Síða 14

Morgunblaðið - 17.05.2004, Síða 14
ERLENT 14 MÁNUDAGUR 17. MAÍ 2004 MORGUNBLAÐIÐ DONALD Rumsfeld, varnarmála- ráðherra Bandaríkjanna, samþykkti leynilega áætlun, sem leyfði þær yf- irheyrsluaðferðir, sem notaðar voru í Abu Ghraib-fangelsinu í Bagdad. Er þessu haldið fram í tímaritinu The New Yorker en talsmenn varnar- málaráðuneytisins vísa því á bug sem „samsæriskenndu slúðri“. Rannsóknarblaðamaðurinn Seymour Hersh segir í greininni, sem sagt hefur verið frá á fréttavef tímaritsins en kemur á götuna eftir viku, að Rumsfeld hafi á síðasta ári samþykkt „háleynilega áætlun“, sem „hvatti til, að fangar væru beittir lík- amlegum þvingunum og kynferðis- legri niðurlægingu til að fá þá til að segja frá starfsemi uppreisnar- manna í Írak“. Hefur Hersh þetta eftir ónefndum leyniþjónustumönn- um, núverandi og fyrrverandi. Lawrence Di Rita, talsmaður varnarmálaráðuneytisins, segir í yf- irlýsingu, að „enginn ábyrgur emb- ættismaður í ráðuneytinu hefur lagt blessun sína yfir þær aðferðir, sem sjá má á nýbirtum myndum og myndböndum“. Segir hann ennfrem- ur, að fullyrðingarnar séu „firra og ónafngreint, samsæriskennt slúður“. „Gerið það, sem þið viljið“ Í greininni í The New Yorker seg- ir, að fyrrnefnd áætlun sé kölluð SAP (Special-Access Program) og að reglurnar séu í sem stystu máli þess- ar: „Takið alla, sem þið þurfið að taka. Gerið það, sem þið viljið.“ Í greininni segir einnig, að ákvörð- un Rumsfelds um að beita þessum aðferðum í Írak, eftir að þeim hefði verið beitt í Afganistan, hefði mætt andstöðu hjá fulltrúum bandarískra leyniþjónustustofnana. „Þeir sögðu: „Kemur ekki til mála. Við féllumst á þetta við yfirheyrslur í Afganistan yfir mikilvægum hryðju- verkamönnum en nú viljið þið, að þessum aðferðum verði beitt við leigubílstjóra og aðra óbreytta borg- ara, við ættingja þeirra og fólk, sem handtekið er úti á götu,““ segir Hersh og hefur eftir fyrrverandi leyniþjónustumanni. Segir þessi heimildamaður að því er fram kemur hjá Hersh, að CIA, bandaríska leyniþjónustan, hafi mót- mælt starfsaðferðunum í Abu Ghraib og hætt afskiptum af fangels- inu. Átti ekki að spyrjast Hersh segir, að Rumsfeld hafi lát- ið Steve Cambone, yfirmann leyni- þjónustu varnarmálaráðuneytisins, um að útfæra áætlunina en hafi síðan samþykkt hana ásamt Richard Myers hershöfðingja og yfirmanni bandaríska herráðsins. Við yfir- heyrslur fyrir þingnefnd neitaði Rumsfeld, að nokkur yfirmaður hefði samþykkt misþyrmingar. „Hvað þá varðaði var þetta leyni- leg áætlun, sem átti ekki að spyrjast út fyrir varnarmálaráðuneytið,“ hef- ur Hersh eftir heimildamanni sínum en Hersh, sem er margverðlaunaður blaðamaður, kom fyrstur með frétt- ina um morðin í My Lai í Víetnam 1968 þegar bandarískir hermenn tóku af lífi óbreytta borgara. Einnig í Camp Cropper Dagblaðið The New York Times sagði frá því á laugardag, að mis- þyrmingar á föngum hefðu einnig átt sér stað í Camp Cropper við Bagdad og raunar fyrr en í Abu Ghraib-fang- elsinu. Íraki, sem þar var fangi, skýrði Rauða krossinum frá því, að hann hefði verið handjárnaður, hetta dregin yfir höfuð honum og hann barinn, hótað dauða, migið á hann og sparkað í höfuðið, bak og klof. Þá hefði honum verið haldið vakandi í fjóra sólarhringa og hafnaboltakylfa bundin upp í munninn. Grein eftir Seymour Hersh í bandaríska tímaritinu The New Yorker Rumsfeld sagður hafa sam- þykkt yfirheyrsluaðferðirnar Talsmaður Pentagons vísar því á bug sem „samsæriskenndu slúðri“ Washington. AP, AFP. AP Donald Rumsfeld og Richard Myers, yfirmaður bandaríska herráðsins, á fundi með varnarmálanefnd öldungadeildarinnar í síðustu viku. Hersh seg- ir, að þeir hafi báðir samþykkt háleynilega áætlun um yfirheyrsluaðferðir. JACK Straw, utanríkisráðherra Bretlands, sagði í gær, að Tony Blair forsætisráðherra ætlaði ekki að segja af sér þrátt fyrir vaxandi gagnrýni vegna Íraksstríðsins. Kannanir sýna, að vinsældir Blairs hafa aldrei verið minni. „Forsætisráðherrann er við stjórnvölinn og mun stýra áfram ár- angursríkustu ríkisstjórn, sem setið hefur í Bretlandi í 60 ár,“ sagði Straw í viðtali við BBC, breska rík- isútvarpið. Sagði hann, að það væri misskilningur ef fólk héldi, að Blair myndi hlaupast undan merkjum vegna orðróms og vangaveltna í fjöl- miðlum. Undir þetta hafa tekið sum- ir aðrir frammámenn í Verka- mannaflokknum og segja þeir, að Blair ætli sér að leiða Íraksmálin til lykta. Ýmsir fréttaskýrendur spá því, að Blair muni segja af sér fyrir kosn- ingar á næsta ári og skoðanakönn- un, sem Sunday Times birti í gær, sýnir, að 46% kjósenda vilja, að hann segi af sér fyrir kosningar og önnur 22%, að hann geri það strax eftir kosningarnar. Aðeins 20% vildu, að hann yrði áfram forsætis- ráðherra bæri Verkamannaflokkur- inn sigur úr býtum. 93% sögðu, að Blair væri nú að gjalda Íraksstríðs- ins. The Sunday Telegraph sagði í gær, að margir þingmenn Verka- mannaflokksins ætluðu að krefjast samþykkis þingsins við að senda fleiri hermenn til Íraks en talið er, að það verði fellt. Sagði blaðið, að það gæti aftur flýtt fyrir falli Blairs. AP Tony Blair á tröppum Downing- strætis 10. Breskir fjölmiðlar segja, að innan Verkamannaflokksins séu menn farnir að skipa sér í fylkingar með tilliti til nýs leiðtoga. Segja Blair ekki vera á förum Hefur aldrei verið óvinsælli meðal kjósenda London. AFP. TUTTUGU og átta manns slösuðust þegar farþegalest fór út af tein- unum fyrir norðan Genúa á Ítalíu í gær. Fyrstu fréttir hermdu, að alls hefðu þrjár farþegalestir farið út af sporinu en hið rétta er, að örfáum mínútum eftir slysið rákust á hana tvær lestar, sem voru að fara í gagnstæða átt. Björgunar- og slökkviliðsmenn voru fljótir á vett- vang ásamt þyrlum og Rauði kross- inn flutti um 100 farþega, sem ekk- ert amaði að, á áfangastað með bílum. Ekki er ljóst hvað slysinu olli en haft var eftir lestarstjóranum, að eitthvað hefði verið athugavert við teinana. Þegar lestin fór út af þeim rakst hún á hús, sem enginn var í á þeim tíma, og skemmdi það töluvert.AP Lestar- slys á Ítalíu ÁFENGISNEYSLA Finna hefur stóraukist vegna þeirrar ákvörðunar finnsku stjórnarinnar að lækka álög- ur á áfengi um tæpan þriðjung, að sögn finnska dagblaðsins Huvud- stadsbladet. Hefur verið lagt að stjórninni að hækka álögurnar aftur en hún segir það sé ekki hægt vegna reglna Evrópusambandsins. Verðlækkunin hefur orðið til þess að ofbeldisglæpum hefur fjölgað og fleiri hafa verið staðnir að ölvun við akstur, að sögn Huvudstadsbladet. Fregnir herma einnig að fleiri en áð- ur hafi verið lagðir inn á sjúkrahús vegna ofdrykkju og áfengisneysla unglinga hafi stóraukist. „Aðeins um slæma kosti að velja“ Liisa Hyssälä, umönnunarráð- herra Finnlands, segir að áfengis- neyslan hafi aukist meira en stjórnin hafi búist við. Hún segir þó, að ekki liggi fyrir tölur um áfengissöluna eftir að álögur á brennda drykki voru lækkaðar um 30% í mars vegna inngöngu Eistlands í ESB 1. maí. Markmið stjórninnar var að koma í veg fyrir að Finnar flykktust til Eist- lands, þar sem áfengisverð er miklu lægra. Liisa Hyssälä sagði að þótt tekjur ríkisins minnkuðu um 15 milljónir evra á mánuði (1,3 milljarða kr.) vegna verðlækkunarinnar teldi stjórnin að ákvörðunin væri rétt. „Við getum ekki afturkallað lækk- unina, það er ekki hægt samkvæmt reglum Evrópusambandsins. Það er aðeins um slæma kosti að velja.“ Finnar flykkjast til Eistlands Þrátt fyrir verðlækkunina hafa Finnar flykkst til Eistlands í því skyni að kaupa áfengi eftir inngöngu landsins í Evrópusambandið. „Jussi, sjáðu! Koskenkorva-flask- an kostar bara 10 evrur, þetta er brjálæði,“ hrópaði ungur Finni upp yfir sig þegar hann sá verðið á eft- irlætis finnska vodkanu sínu í áfeng- isverslun í Tallinn, höfuðborg Eist- lands. „Og þetta er lítraflaska,“ sagði verslunareigandinn, finnskur at- hafnamaður. Lítri af Koskenkorva kostar 10,80 evrur í Eistlandi (950 kr.) en 20,20 evrur í Finnlandi (1.800 kr.). Búist er við að innganga Eistlands í Evrópusambandið leiði til upp- gangs í svokallaðri „áfengisferða- þjónustu“ í landinu. Ferjuflotinn, sem siglir milli Helsinki og Tallinn, hefur því verið stækkaður og alls geta ferjurnar flutt um 20.000 manns í hvora átt á dag. Þrítugur Finni var á meðal þeirra fyrstu sem fóru til Tallinn eftir inn- göngu Eistlands í ESB og hann keypti þar áfengi fyrir brúðkaup sitt síðar í mánuðinum. „Ég keypti 25 kassa af bjór, 100 flöskur af léttvíni og 12 lítra af brenndum drykkjum. Ég sparaði um helminginn af verð- inu í Alko [áfengisverslun finnska ríkisins], að minnsta kosti 1.500 evr- ur [132.000 krónur].“ „ESB er frábært,“ hrópaði Finn- inn þegar hann var spurður álits á inngöngu Eistlands í sambandið. Liisa Hyssälä er þó ekki hrifin. „Það er tilgangslaust að vera áfram í Evrópusambandinu ef það verður til þess að fólk svolgrar eins og kameldýr,“ sagði ráðherrann. Áfengisneysla Finna stóreykst vegna verðlækkunar Stjórnin hvött til að hækka áfengisskattana ’Það er tilgangslaustað vera áfram í ESB ef það verður til þess að fólk svolgrar eins og kameldýr.‘

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.