Morgunblaðið - 18.05.2004, Síða 32

Morgunblaðið - 18.05.2004, Síða 32
UMRÆÐAN 32 ÞRIÐJUDAGUR 18. MAÍ 2004 MORGUNBLAÐIÐ K röfunni um sömu laun fyrir sömu vinnu hefur lengi verið haldið á lofti, enda var ekki van- þörf á og er enn, samkvæmt frétt- um sem berast reglulega frá stétt- arfélögum af launamisrétti milli kynjanna. Sagt hefur verið að laun kvenna séu um 70% af launum karla, sem verður vonandi leiðrétt sem fyrst, eftir því sem meira er fjallað um launamisrétti og nýjar og kröfuharðari kynslóðir koma inn á vinnumarkaðinn. Auðvitað eiga kynin að fá sömu laun fyrir sömu vinnu og starfs- menn eiga að sjálfsögðu að vera metnir að verðleikum hvoru kyninu sem þeir nú tilheyra. Ég verð þó að segja að þegar kostn- aðurinn við að vera kona og vera karl er veginn og metinn, er mjög öfugsnúið að laun kvenna séu yf- irleitt lægri en laun karla. Mér reiknast í það minnsta til að það sé mun dýrara að vera kona en vera karl! Sumir karlar vita það kannski ekki, en það kost- ar skildinginn að vera kona. Tökum þetta frá toppi til táar og byrjum þá auðvitað á hvirfl- inum. Herraklipping er helmingi ódýrari en dömuklipping. Ég borga hátt í 10.000 kr. þegar ég fer í klippingu og geri ráð fyrir því að kostnaðurinn sé svipaður fyrir flestar konur þar sem ég tel að meirihluti íslenskra kvenna liti hár sitt eða fái sér strípur, þótt það eigi auðvitað ekki að vera eitt- hvað náttúrulögmál. Andlitið er einnig ansi stór kostnaðarliður, jafnvel fyrir konur sem mála sig ekki mikið. Dag- krem og næturkrem, sem flestar konur nota – og ég skil reyndar ekki af hverju karlar nota ekki í meira mæli – eru langt frá því að vera gefins. Ætli verðmæti meðal- snyrtibuddunnar sé ekki um 15 þúsund krónur og það þarf reglu- lega að bæta í hana. Flestir karlar raka sig auðvitað, en rakvélablöð og raksápa kosta undir þúsund krónum og það er nóg að fjárfesta í rakvél einu sinni á nokkurra ára fresti. Og fyrst við erum byrjuð á hár- vextinum… Hár vaxa líka á kon- um, en öfugt við karlana gerir samfélagið kröfu um að líkamshár önnur en á höfði og öðrum við- urkenndum stöðum fjúki. Þetta er að sjálfsögðu annað jafnréttismál, ætli konur „þurfi“ að vera svona eða hinsegin vegna ójafnrar stöðu kynjanna? Konur sem ætla að „meika það“ verða einfaldlega að vera sætar. Og hvað skyldi vaxmeðferð kosta sem er áhrifaríkasta aðferð- in? Háreyðing upp að hnjám kost- ar á fjórða þúsund krónur, sam- kvæmt óvísindalegri könnun undirritaðrar. Það er vissulega ekki sársaukalaust fyrir veskið, svo ekki sé talað um blessaða hár- sekkina. Og ef konur vilja vera með nauðasköllótta sköflunga og kálfa, þarf að gera þetta reglu- lega. Það er vissulega hægt að beita öðrum sársaukaminni að- ferðum, eins og að raka hárin af eða taka þau með kremi. Rakst- urinn líklega ódýrastur, túpa af háreyðingarkremi kostar um þús- und krónur og dugar kannski í tvö skipti. Oft er sagt að konur eyði meiri fjármunum í föt en karlar. Ég myndi halda að kven- og karl- mannaföt kosti svipaðar upp- hæðir, en munurinn er sá að karl- ar geta verið í sömu jakkafötunum alla vikuna, skipt um bindi reglu- lega og enginn tekur eftir því að þeir séu alltaf í sömu fötunum. Konum finnst hins vegar að þær verði að eiga mikið af fatnaði því kvenfatnaður er oft meira afger- andi og þar af leiðandi eftir- minnilegri. Það sama á við um skófatnað. Karlar geta átt eitt par af svörtum skóm og annað af brúnum og verið í þeim við hvaða jakkaföt sem er, en konum finnst þær þurfa að eiga mismunandi tegundir af háhæl- uðum skóm og stígvélum til að passa við hina og þessa kjóla og dragtir. Það var heldur ekki að ástæðu- lausu að verkfall flugfreyja hér um árið snerist að hluta til um hversu margar sokkabuxur þær fengu á mánuði. Eitt par af sokka- buxum kostar um þúsund krónur og stundum er nóg að rekast utan í logandi sígarettu eða illa pússuð húsgögn til að það komi lykkjufall. Sokkabuxur geta jafnvel rifnað í fyrsta skipti sem maður fer í þær, þótt lagnin við að koma sér í bux- urnar aukist eftir því sem árin færast yfir. Munur kristallast kannski í því að svartir kvenbómullarsokkar eru iðulega dýrari en karlsokkar – þó að í kvensokkana fari minna efni þar sem konur eru yfirleitt með minni fót en karlar og þó sokkarnir séu í sjálfu sér ná- kvæmlega eins. Svo má auðvitað segja að konur hafi frá náttúrunnar hendi ýmsan kostnað sem karlar hafa ekki, það kostar t.d. nokkra hundraðkalla að hafa blæðingar í hvert sinn og um 10–12 þúsund krónur á ári að vera á pillunni. Konur sem eru komnar á breytingarskeiðið taka náttúrulega ekki pilluna en þá taka hormónalyf tengd breyt- ingaskeiðinu við. Það er vissulega kostnaður sem karlar eru lausir við… Matarinnkaup eru kannski eini liðurinn sem segja mætti að karl- ar eyði meira í að jafnaði en kon- ur, þó vissulega sé það ein- staklingsbundið hvað fólk borðar mikið. Einhverjir halda kannski, eftir að hafa lesið pistilinn hér að ofan, að ég telji að konur eigi að fá hærri laun en karlar þar sem ýmis kostnaður sé því fylgjandi að hafa engan Y-litning í sínu genamengi, en það er alls ekki raunin. Auðvit- að eiga karl og kona að fá sömu laun fyrir sambærilega vinnu, sambærilega ábyrgð og sambæri- legan vinnutíma. Þetta er í raun sáraeinfalt. Kven- kostir og kostnaður Mér reiknast í það minnsta til að það sé mun dýrara að vera kona en vera karl! Sumir karlar vita það kannski ekki, en það kostar skildinginn að vera kona. VIÐHORF Eftir Nínu Björk Jónsdóttur nina@mbl.is FRAM til þess tíma er forseti lýð- veldisins hóf að breyta flugfarseðlum sínum í gríð og erg hafði ég ekki sett mig sérlega vel inn í efnisatriði um- ræðunnar um fjölmiðlafrumvarpið. „Afskipti“ forsetans hafa nú gert það að verkum að sú skoðun sem ég hafði er að breytast. Sú skoðun sem ég hafði mótað mér var sú að skynsamlegt væri að setja eignarhaldi á fjölmiðlum tilteknar skorður. Ég var hins vegar þeirrar skoðunar að vel mætti gefa málinu tíma í sumar til umræðu meðal þjóðarinnar. Sú umræða sem nú hefur vaknað, um hvort forset- inn eigi eða eigi ekki að neita að stað- festa lög sem takmarka eignarhald á fjölmiðlum, gerir það hins vegar að verkum að mér finnst orðið afar mik- ilvægt að frumvarp um eignarhald fjölmiðla verði samþykkt hið fyrsta. Ég hef hingað til staðið í þeirri trú að ég kysi mér fulltrúa á Alþingi sem hefðu það hlutverk að kryfja mál til mergjar og taka upplýstar ákvarðanir um hvaða leikreglur skuli gilda í þjóð- félaginu. Vissulega vil ég hafa skoðanir á því sem þar fer fram og jafnvel leggja orð í belg í opinberri umræðu og nýta mér þann lýðræðislega rétt að láta skoðanir mínar í ljós og reyna þannig að hafa áhrif á fulltrúa mína á Alþingi. Ég treysti því að þeir séu í bestri aðstöðu til að vega og meta mis- munandi sjónarmið og gæta hags- muna minna. Ef ég hins vegar verð óánægður með ákvarðanir þeirra kýs ég þá ekki aftur. Burtséð frá mismunandi skoðunum fræðimanna á því hvort forsetinn hafi raunverulegt vald eða ekki, til að neita að staðfesta lög, er það að mínu mati algjörlega óviðunandi að forsetinn skipti sér af hinni lýð- ræðislegu aðferð sem hingað til hefur verið viðhöfð, og komi fjöl- miðlafrumvarpinu fyrir almenning til að kjósa um. Almenningur er ekki í sömu aðstöðu og þingmenn til að kryfja mál til mergjar. Al- menningur fær ekki á sinn fund milliliðalaust sérfræðinga sem rök- ræða mismunandi sjón- armið. Almenningur fær sínar upplýsingar í gegnum fréttamiðla sem augljóslega hafa hagsmuna að gæta. Í þessu máli er það alvarlegra en ella að setja þetta mikilvæga mál í hendur kjósenda. Ef svo fer má spyrja hver sé raunveru- lega að kjósa? Eru það vel upplýstir einstaklingar sem hafa vegið og metið alla þætti málsins? Eða getur verið að í gegnum veldi sitt sé Norðurljósa- samsteypan búin að móta tiltekna af- stöðu meðal almennings í málinu með einhliða síbylju sinni? Er það nú að koma í ljós, sem fjölmiðlafrumvarpinu er ætlað að sporna gegn, að sam- steypan er orðin of öflug til að við hana verði ráðið? Í það minnsta virðist hún hafa náð til forseta lýðveldisins, „sam- einingartákns“ þjóðarinnar, sem kaus ólíkt öðrum þjóðhöfðingjum að hunsa heimboð dönsku konungsfjölskyld- unnar þegar danski prinsinn gifti sig. Þess í stað sendi hann hina elskulegu eiginkonu sína, Dorrit Moussaef, til að vera fulltrúi þjóðarinnar úr norðri. Svo segir mér hugur að Jóni forseta Sig- urðssyni væri illa brugðið ef hann vissi hverja virðingu forseti lýðveldisins sýndi konunglegu heimboði. Ekki síst þegar haft er í huga að fyrrum sam- herjar forsetans í hinu pólitíska vafstri höfðu boðað að lesið yrði upp úr hinum ýmsustu fagurbókmenntum margra alda, úr ræðustól Alþingis við aðra um- ræðu um fjölmiðlafrumvarpið. Því var lítil hætta á að forseti lýðveldisins gæti ekki áhyggjulaus, með nútíma sam- göngutækni, sinnt því starfi sem hann var kjörinn til og verið fulltrúi þjóðar sinnar og sameiningartákn þar sem augu Evrópu og jafnvel hluta heims- byggðarinnar hvíldu. Forsetanum væri sæmst að biðja íslenska þjóð af- sökunar. Vald það sem fjársterk fjölmiðla- samsteypa virðist hafa til að vernda sjálfa sig er óhugnanlegt. Forseta væri sæmst að biðja íslensku þjóðina afsökunar Gunnar Ármannsson skrifar um forsetann og fjölmiðlafrumvarpið ’Er það nú að koma íljós, sem fjölmiðla- frumvarpinu er ætlað að sporna gegn, að sam- steypan er orðin of öflug til að við hana verði ráðið? ‘ Gunnar Ármannsson Höfundur er héraðsdómslögmaður og framkvæmdastjóri Læknafélags Íslands. SAMKVÆMT útvarpslögunum þarf að sækja um útvarps- og sjón- varpsleyfi til stærsta samkeppnisað- ilans, ríkisvaldsins. Það misnotar laga- setningarvald sitt og setur ýmsar hindranir í veg fyrir keppinauta sína og hyglar sínum skjól- stæðingi. T.d. veita þeir keppi- nautum sínum í einka- eign ekki sjónvarpsleyfi nema til 7 ára í senn. Innan 8 mánaða frá dag- setningu slíks leyfis skal hefja sjónvarpsútsend- ingar. Er ekki í raun verið að banna stofnun og rekstur einkasjónvarps með þessum þröngu reglum? Eru þetta ekki tálmanir sambærilegar við ritskoðun? Setjum okkur í spor þeirra Jóns Óttars Ragnarssonar, Hans Kristjáns Árnasonar og Ólafs H. Jónssonar þeg- ar þeir settu Stöð 2 á stofn. Keppinauturinn Rúv hafði 20 ára forskot, skylduáskrift, fjármagn og ábyrgð ríkisins. Rúv hafði á þessum 20 árum mótað þær kröfur sem íslenski markaðurinn gerð til íslensks sjónvarps. Þess vegna varð Stöð tvö að ná eins miklum jöfn- uði við keppinautinn og hægt var á 8 mánuðum, því öll fjárfesting á undan leyfisveitingunni var gerð með þeirri áhættu að hugsanlegt var að þeir fengju ekki leyfið. Ekkert segir í lög- unum hvaða rétt leyfishafi hefur að þeim 7 árum liðnum. Hann gæti alveg eins misst leyfið. Hann verður því að hagnast það vel að hann geti end- urheimt meginhluta stofnfjárins á sjö árum. Hann verður því að selja áskrift sína dýrt á frjálsum markaði þar sem ríkissjónvarpið ræður verðlagningunni í krafti stöðu sinnar á markaðinum, forréttinda og forskots. Ef annar aðili fær sjónvarpsleyfið eftir þessi sjö ár, getur fyrri leyfishafi í besta falli selt honum fyrirtæki sitt fyrir slikk. Þessi þröngu skilyrði eru orsök þess að einkasjónvarpsstöðvar eru alltaf að sigla í strand fjárhagslega, með reglu- legu millibili. Aðeins auðmenn geta haldið þeim gangandi. Ekkert í frum- varpi menntamálaráðherra eyðir þess- ari óvissu. En lög og reglur eru eitt og framkvæmd þeirra annað. Ísland er dálítið sérstakt í þessum efnum. Lög eru svo oft óskýr og ófullkomin hér á landi að menn afreka mest með því að taka þau ekki allt of hátíð- lega. Ef einhver tæki þetta sjö ára skilyrði al- varlega kæmi enginn ná- lægt þessum rekstri því enginn banki fengist til að lána í slíkt fyrirtæki. Bókstaflega skilið jafngildir þetta skil- yrði algjöru rekstrarbanni. Kjartan Gunnarsson formaður og útvarpsrétt- arnefnd gerðu því hárrétt og í besta samræmi við raunveruleikann að gefa út og endurnýja útvarpsleyfi skilyrð- islaust. Það eru engar reglur til um útvarps- réttarnefnd. Hún er eyland í stjórn- kerfinu, allsráðandi og ábyrgðarlaus. Nýir eigendur tóku við Stöð 2 árið 1990 og væntanleg samkeppni Sýnar ógnaði hörmulegum efnahag hennar, í viðbót við samkeppni Rúv. Báðir aðilar gerðu sér ljóst að hvorugur lifði þetta einvígi af og það varð að samkomulagi að Stöð 2 keypti Sýn. Eftir kaupin kom í ljós að sjónvarpsleyfi Sýnar var fallið niður vegna 8 mánaða reglunnar. Ykk- ar vandi, sögðu seljendur. Kaupendur sóttu um nýtt sjónvarpsleyfi til út- varpsréttarnefndar. Þá var Þorbjörn Broddason, prófessor, formaður henn- ar. Hann setti nýtt skilyrði. Kaup- endur mættu ekki eiga það, sem þeir höfðu keypt, nema a.m.k. í breyttum hlutföllum. Lögfræðingar Stöðvar 2 sáu engan lagalegan grundvöll fyrir þessu óvænta skilyrði, nema helst þann að útvarpsréttarnefnd gæti gert það sem henni sýndist. Málskotsréttur var enginn og svigrúm til að leita til dómstóla ekkert vegna tímaskorts. Þar sem Þorbjörn Broddason er eng- inn valdníðingur var komist að lausn sem hægt var að lifa við. Niðurstaðan var samt sú að réttur sjónvarpsstöðva var enginn. Nú 14 árum seinna er Al- þingi að lögleiða samskonar skilyrði. Eftir það eru menn ekki í neinum vafa um það lengur að þeir eru réttlausir. Stórfurðulegt ákvæði í útvarps- lögum er það að ef leyfishafi verður gjaldþrota fellur leyfi hans niður. Þetta er fjárhagslega mjög óheppilegt og óeðlilegt. Þetta hefur þær afleið- ingar að erfiðara er að fá lánsfé til rekstrarins og menn hafa tilhneigingu til þess að láta sjónvarpsstöðvar ekki fara í gjaldþrot eins og önnur fyr- irtæki. Þetta er óheilbrigt. Skuldir safnast upp því ekki er hægt að hreinsa þær af með gjaldþrotameðferð eins og hægt er við önnur fyrirtæki og efnahagsreikningur þeirra bólgnar upp þangað til aðeins auðfélög geta rekið sjónvörp. Í venjulegri gjaldþrotaskipta- meðferð gæti skiptaráðandi selt nýjum aðila reksturinn skuldlausan og starf- semin haldið áfram. Ég hef leitt hjá mér að ræða þetta mál út frá því að verið sé að ráðast gegn einum aðila. Ég lít þannig á að verið sé að reka þetta mál fyrir einn aðila, ríkissjón- varpið. Það séu sjónarmið flutnings- manna; að hér skulu ekki reknar einkasjónvarpsstöðvar, einungis rík- issjónvarp. Ríkisvaldið hefur aldrei viljað frjálst sjónvarp á Íslandi Jóhann J. Ólafsson skrifar um fjölmiðla ’Ég lít þannig á að veriðsé að reka þetta mál fyr- ir einn aðila, ríkissjón- varpið.‘ Jóhann J. Ólafsson Höfundur er stórkaupmaður.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.