Lesbók Morgunblaðsins - 06.11.2004, Blaðsíða 8
8 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 6. nóvember 2004
É
g hef ekki nákvæma tölu á kortunum en ætli þau
séu ekki um eða yfir þrjú hundruð,“ sagði Os-
wald Dreyer-Eimbcke þegar ég spurði hann
um hve mörg forn Íslandskort væru í safni
hans. „Sennilega eitthvað á fjórða hundraðið,“
bætti hann við.
Nákvæmur fjöldi skiptir reyndar ekki öllu máli í þessu sam-
bandi. Enginn sem kunnugur er kortasöfnum dregur í efa að
safn hans sé langstærsta og verðmætasta safn korta af Íslandi
frá liðnum öldum sem er í einkaeign í heiminum. En að auki á
hann fjölda korta af öðrum löndum og álfum.
Oswald Dreyer-Eimbcke er meðal kunn-
ustu kortasafnara og kortasérfræðinga
heims, hefur stundað ítarlegar rannsóknir
á fornum kortum og skrifað mikið um þau.
Hann hefur verið virkur í samtökum kortafræðinga og áhuga-
manna um kort frá fyrri öldum bæði í Hamborg og Berlín og er
heiðursfélagi Landfræðifélagsins í Hamborg. Þá var hann um
árabil formaður alþjóðasamtaka kortasafnara, International
Map Collectors Society, sem aðsetur hafa í Lundúnum.
Íslandskortin keypt í einum fimmtán löndum
Fundum okkar Oswalds Dreyer-Eimbcke bar fyrst saman í
Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn á síðasta ári þar sem ég sat
í korta- og myndadeild safnsins að kynna mér forn Íslandskort í
tengslum við bók um það efni sem ég hef unnið að nokkur und-
anfarin ár. Erindi hans þangað var að leita álits sérfræðinga
safnsins á nokkrum fornum kortum af Schleswig-Holstein sem
samkvæmt íslenskri málvenju hefur verið nefnt Slésvík-
Holtsetaland. Það var lengi hluti af Danmörku en er nú eitt sam-
bandslanda Þýskalands. Hann var þá að vinna að bók um al-
menna þróun kortagerðar á liðnum öldum en jafnframt hugðist
hann sérstaklega gera skil fornum kortum af Norður-Þýska-
landi, Hamborg og Slésvík-Holtsetalandi.
Í Konungsbókhlöðu rýndi hann með mér í ýmis þeirra gömlu
Íslandskorta sem ég hafði við höndina á langborði kortadeild-
arinnar þá stundina, einkum gömul landabréf af einstökum
landshlutum sem aldrei höfðu verið gefin út eða prentuð. Áhug-
inn skein úr augum hans og sérþekking hans á kortasögu Ís-
lands leyndi sér ekki þegar um kortin var rætt.
Mér hafði lengi verið kunnugt um að hann ætti eitt merkasta
einkasafn fornra Íslandskorta sem til væri og þáði því með þökk-
um boð hans um að heimsækja hann við fyrstu hentugleika og
skoða kortasafnið.
Oswald Dreyer-Eimbcke er ræðismaður Íslands í Hamborg í
Þýskalandi en á skrifstofu hans þar höfðum við mælt okkur mót.
Eftir notalegt spjall ókum við saman til heimilis hans í bænum
Wohltorf am Sachsenwald en þangað er liðlega hálfrar stundar
akstur frá Hamborg. Eiginkona hans, Erika Dreyer-Eimbcke,
tók þar á móti okkur tilbúin með glæsilegan hádegisverð. Síðan
var röðin komin að kortasafninu sem við sátum og skoðuðum
klukkustundum saman.
Mörg kortanna í safninu eru afar sjaldgæf og ekki til nema í
fáeinum einkasöfnum í heiminum. Ég spurði hann hvernig hon-
um hefði tekist að útvega sér öll þessi kort.
„Flest þeirra hef ég fengið hér í Þýskalandi, í Englandi og
Danmörku, einnig drjúgan skerf í Bandaríkjunum en alls munu
þau komin frá einum fimmtán löndum. Þegar ég var að hefja
söfnunina fyrir alvöru um og upp úr 1970 lá leið mín oft til Lond-
on sökum þess að ég var í stjórn alþjóðasamtaka skipamiðlara og
þá gafst mér tækifæri til að kaupa talsvert af kortum sem voru
enn á viðráðanlegu verði hjá fornbókasölum í Englandi. Síðan
hef ég notað hvert tækifæri til að skoða og kaupa kort þar sem
ég hef farið utanlands en drjúgan hluta af safninu hef ég fengið
hér í Þýskalandi. Kortasalar eru líka iðnir við að hafa samband
og láta mig vita ef sjaldgæf kort rekur á fjörur þeirra. Stöku kort
hef ég svo keypt á uppboðum.“
Skálholt og Hólar tvisvar á sama korti
Það er svo sannarlega af ýmsu að taka þegar kortin í þessu
merka einkasafni eru skoðuð. Mörg þeirra eru frá þeim tíma er
stórar eyður voru enn á heimskortum sökum vanþekkingar Evr-
ópumanna á framandi slóðum. Þeirra eigin ríki og landsvæði
voru um það leyti fjarri því að vera rétt teiknuð vegna óná-
kvæmra heimilda.
Hér getur meðal annars að líta mörg elstu prentuð kort af Ís-
landi úr bókum fyrri tíðar.
Fyrst sýnir Dreyer-Eimbcke mér kort frá 16. öld úr bókinni
Isolario, eyjalýsingu Ítalans Beneditto Bordone. Þar gat meðal
annars að líta hvernig ónákvæmar útlínur landsins höfðu verið
skornar í myndamót úr tré og eftir því var þrykkt fyrsta sérkort
af landinu sem vitað er um.
Síðan kemur hann mér algerlega í opna skjöldu með því að
draga fram eintak af umræddri bók Bordones sem hann segist
hafa eignast fyrir allmörgum árum. Bókin var gefin út í nokkr-
um útgáfum á árunum 1528 til 1595 en í henni eru tréristukort af
á annað hundrað eyjum um víða veröld. Þetta er ekki stór bók en
verðmæt engu að síður enda framboðið lítið nú hálfri fimmtu öld
eftir að hún var prentuð í fyrsta sinn. Ekki alls fyrir löngu sá ég
hana boðna hjá bandarískum fornbóka- og kortasala á 2,5 millj-
ónir íslenskra króna.
Í safni Dreyer-Eimbcke eru fjöldamörg forn kort þar sem Ís-
land birtist meðal annarra landa á norðurslóðum.
„Hérna sérðu til dæmis Norðurlandakortið „Schonladia
Nvova“ sem gefið var út í Feneyjum 1561,“ segir Dreyer-
Eimbcke. „Það er sérkennilegt fyrir það að vera trapísulaga.“
Þetta er ein fyrsta útgáfa þess á Ítalíu, úr kortabók Vincenzo
Valgrisi, en sama myndamót hafði áður verið notað í bók þess
virta kortagerðarmanns Giacomo Gastaldi. Þarna er byggt á
korti sem Jacob Ziegler teiknaði og gaf út 1532.
Útlínur Norðurlanda eru á þessum tíma fjarri því sem mæl-
ingar síðari alda leiddu í ljós og allmikið vantar á að Írland, sem
hér er nefnt Hibernia, og norðurhluti Stóra-Bretlands séu með
réttum svip enda kortið teiknað fyrir nærri hálfu árþúsundi. Á
kortinu er heldur ólöguleg eyja merkt með nafninu „Thyle“ und-
an Noregsströndum og rituð þar staðanöfnin „Holen“ og „Skal-
holten“ – Hólar og Skálholt.
Dreyer-Eimbcke bendir á, að fræðimenn greini á um hvort Ís-
land og hin dularfulla sagnaeyja Thule séu eitt og sama fyr-
irbærið. Sumir telji að á þessu korti sé eyja sem merkt er
„Thyle“ alls ekki Ísland heldur sé það teiknað hér sem skagi
vestur úr Lapplandi. Suð-vestantil á honum eru merktir sömu
tveir höfuðstaðir og á eyjunni „Thyle“ með örlítið breyttum rit-
hætti, „Scalholdin“ og „Holensis“. Aðrir kynnu að halda því fram
að skaginn ætti að vera Grænland þótt íslensku örnefnin sé þar
að finna. Hann segir þetta gott dæmi um það hvernig stöðugt sé
hægt að velta vöngum yfir kortum liðinna alda og þeim upplýs-
ingum sem að baki þeim búi.
Lýsing heimsins frá dögum Jóns Arasonar
Kortasafnarinn geðþekki tekur nú upp úr skúffu enn eitt kort af
Norðurlöndum, í þessu tilviki úr kortabók Sebastians Munsters,
Cosmographia. Það er reyndar gert af óþekktum kortagerð-
armanni sem tekið hefur mið af korti Abrahams Ortelíusar af
þessu svæði og er meðal korta sem bætt var í nýja útgáfu bók-
arinnar 1588. Þetta er afar myndrænt kort og fallega litað.
En það er ekki nóg með að Dreyer-Eimbcke eigi kort úr um-
ræddri bók heldur á hann líka bókina sjálfa. Hann sækir Cos-
mografiu Münsters í eldtrausta geymslu og sýnir mér. Münster
var samtímamaður Jóns Arasonar, biskups á Hólum, fæddur
1489 og dáinn 1552. Hann var fyrstur Þjóðverja til að taka sam-
an ítarlega heildarlýsingu á veröldinni og gerði fyrstur korta-
gerðarmanna landabréf af einstökum heimsálfum, þar á meðal af
Ameríku eftir að Kristófer Kólumbus fann hana. Cosmograpia
eða Heimslýsing Münsters var fyrst prentuð árið 1544 í Basel og
endurprentuð alloft um nærri aldar skeið. Það var sérstök til-
finning að handleika þennan merka prentgrip sem bundinn var
inn í geitaskinn og metinn er á 3–5 milljónir króna samkvæmt
verðskrám kortasérfræðinga eftir því hve heilleg eintökin eru. Í
bókinni eru fræðslu- og kynningarkaflar um einstök lönd með
myndum meðal annars af borgum og bæjum. Íslandskaflinn er
skreyttur með tréristumynd af skjaldarmerki landsins, flöttum
þorski með myndarlegri kórónu ofan á.
Heimslýsing Münsters er um 1.400 blaðsíður með um 1.200
tréristumyndum og er talin hafa haft meiri áhrif til aukinnar
þekkingar á landafræði, menningu og sögu en nokkurt annað rit
á 16. öld.
Áhugaverðar heimildir um
hugmyndaauðgi og rangtúlkanir
Þegar frú Erika kom og færði okkur kaffi og kökur ákváðum við
að gera svolítið hlé á kortagrúski og bókaskoðun og talið barst að
störfum húsbóndans. Hann hefur lengi rekið gamalgróið fyr-
irtæki í Hamborg, skipamiðlun, sem ber nafn fjölskyldu hans,
Eimbcke, en það var stofnað 1739. Fyrirtækið tók að sér umboð
fyrir Eimskipafélag Íslands í ársbyrjun 1927. Faðir Oswalds,
Ernst Dreyer-Eimbcke, stýrði fjölskyldufyrirtækinu lengi vel
en sonurinn hóf þar störf árið 1952. Ernst var ræðismaður Ís-
lands í Hamborg frá 1962 til 1973 en þá tók sonur hans við því
embætti og hefur gegnt því síðan. Oswald var jafnframt í ald-
arfjórðung ræðismaður Chile í Kiel. Hann var um langt árabil
eða frá 1960–1996 formaður Íslandsvinafélagsins í Hamborg,
hefur staðið að útgáfu Island-Berichte, fréttabréfs um íslensk
málefni, og látið þau mál til sín taka á margvíslegum sviðum. Þá
hefur hann lengi rekið ferðaskrifstofuna Senator Reisedienst,
ferðast um víða veröld í erindum hennar og sem skipamiðlari um
heimsins höf.
Mér fannst tilvalið að spyrja hvað kveikt hefði áhuga önnum
kafins athafnamanns á fornum kortum og sögu þeirra.
„Upphafið má rekja til þess að sumarið 1968 vann ég að upp-
setningu á sýningu á vegum Íslandsvinafélagsins í Hamborg
sem nefnd var „Ísland fyrr á öldum“. Þar voru meðal annars
sýnd gömul landakort úr eigu Jóns Vestdals, þáverandi forstjóra
Sementsverksmiðju ríkisins, en hann átti gott safn fágætra Ís-
landskorta. Þessi kort vöktu forvitni mína og það má segja að í
kjölfar sýningarinnar hafi ég byrjað kortasöfnun fyrir alvöru.“
Hvað var það sem þér fannst svona heillandi við gömul kort?
„Þau koma manni í beint samband við liðna tíð og birta kunn-
áttu eða fákunnáttu manna á hverjum tíma um umhverfi sitt og
heiminn í kringum þá. Kortin endurspegla landfræðiþekkingu
og getgátur liðinna kynslóða og eru jafnframt áhugaverðar
heimildir um hugmyndaauðgi þeirra sem teiknuðu þau. Lengi
vel sjást á kortunum ýmsar rangtúlkanir og gætu sum þeirra
flokkast sem eins konar skáldskapur þótt engar sögupersónur
blasi þar við. Eftir því sem þekkingunni vindur fram skýrast svo
myndir einstakra landa og landsvæða og loks taka landmælingar
og raunvísindi við. Þá eru kortin ekki lengur gædd þeim töfrum
og dularblæ sem listamenn kortagerðar léðu þeim.“
Lítið vitað um norðurhjarann framan af öldum
En athygli þín sem kortasafnara beindist snemma að Íslandi og
norðurslóðum. Var ekki svo?
„Því er ekki að neita. Tengsl mín við Ísland um árabil og áhugi
á sögu landsins og menningu leiddu til þess að í fyrstu einbeitti
ég mér að söfnun Íslandskorta. Smám saman víkkaði söfn-
unarsviðið, náði til Grænlands og annarra landa í námunda við
norðurheimskautið. Því meira sem ég sökkti mér niður í korta-
fræði og fór að skrifa greinar og bækur um þau efni þeim mun
áhugaverðara þótti mér þetta svæði.“
Menn vissu framan af öldum lítið um norðurhjarann eins og
elstu kortin bera með sér. Ísland hafði fyrst komið fram á landa-
korti nálægt árinu 1000 en Grænland ekki fyrr en árið 1425. Um
langt skeið var Grænlandi nánast skipt í tvennt á landakortum,
þannig að suðurhlutinn var skilinn frá þeim nyrðri með feikna-
stórum firði eða sundi þvert yfir landið.
Á 16. öld fór mynd Íslands á kortum að skýrast til mikilla
muna en það var þó í raun ekki fyrr en upp úr miðri nítjándu öld
að könnun þessa svæðis komst eitthvað á rekspöl og landmæl-
ingar á Íslandi hófust fyrir alvöru. Þar rís hæst afrek Björns
Gunnlaugssonar sem lagði grunn að þeim uppdrætti Íslands sem
gefinn var út í fjórum hlutum 1848 og í einu lagi árið eftir.
Oswald Dreyer-Eimbcke segist hafa lagt kapp á að eignast
sem allra flest þeirra korta sem Ísland birtist á, annaðhvort eitt
eða með öðrum löndum.
„Ég hef þó yfirleitt látið mér nægja eina útgáfu af hverju korti
en góður kunningi minn sem á eitt stærsta kortasafn sem ég veit
um leggur áherslu á að ná í sem flestar prentanir og útgáfur af
hverju korti jafnvel þótt lítið eða ekkert hafi breyst á kortunum
frá einni prentun til annarrar. Af sumum kortum á hann allt að
sex prentanir eða útgáfur.“
Ísland umvafið meiri dulúð en önnur lönd Evrópu
Þegar við snúum okkur aftur að kortasafninu sjálfu spyr ég Os-
wald Dreyer-Eimbcke hvaða atriði á Íslandskortunum fornu
hafi vakið mesta athygli hans og áhuga.
„Þar er af ýmsu að taka og erfitt að draga fram eitthvað eitt.
Ísland hefur lengi verið umvafið meiri dulúð en önnur lönd Evr-
ópu og því framandi í augum þeirra sem áhuga hafa á landabréf-
um. Þá vekja forvitni þær mörgu ævintýrakenndu eyjar sem um
langt skeið eru teiknaðar suður af Íslandi og áttu sér enga stoð í
veruleikanum. En ætli spúandi eldfjöll og aragrúi sæskrímsla
undan ströndum landsins sé ekki meðal þess sem flesta heillar í
fyrstu.“
Og í þessum töluðum orðum leggur kortasérfræðingurinn fyr-
ir framan mig eintak af einu kunnasta og eftirsóttasta Íslands-
korti liðinna alda, korti því sem kennt er við Guðbrand Þorláks-
son biskup á Hólum sem talinn er hafa lagt til þá þekkingu sem
kortið byggðist á og hugsanlega skissu af því. Það var prentað í
fyrsta sinn í viðaukabindi við mikla kortabók Abrahams Ortelí-
usar. Á það er grafið ártalið 1585 en kortið var fyrst prentað árið
Getgátur um Ísland
Oswald Dreyer-Eimbcke er kortasérfræðingur og ræð-
ismaður Íslands í Hamborg og eigandi stærsta einkasafns
fornra Íslandskorta. Hér er rætt við hann um kortasafnið sem
hefur meðal annars að geyma kunnasta og eftirsóttasta Ís-
landskort liðinna alda, kort sem kennt er við Guðbrand Þor-
láksson biskup á Hólum.
Eftir Ólaf Ragnarsson
olafur.ragnarsson-
@ismark.is
Oswald Dreyer-Eimbcke Hér er Oswald á heimili sínu með eintak sitt af Chosmo-
graphiu Sebastians Munsters sem var fyrst prentuð árið 1544.
Fyrsta Íslandskortið Fyrsta sérkort af Íslandi prentað í
bók Ítalans Benedetto Bordone, Isolario, frá 1528.