Lesbók Morgunblaðsins

Dagsetning
  • fyrri mánuðurnóvember 2004næsti mánuður
    SuÞrMiFiLa
    31123456
    78910111213
    14151617181920
    21222324252627
    2829301234
    567891011

Lesbók Morgunblaðsins - 06.11.2004, Blaðsíða 13

Lesbók Morgunblaðsins - 06.11.2004, Blaðsíða 13
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 6. nóvember 2004 | 13 SÍÐLA sumars kom út hjá Máli og menn- ingu safn ljóða Steinunnar Sigurðardóttur sem hefur að geyma allar sex ljóðabæk- urnar sem hún hefur sent frá sér til þessa. Sú fyrsta, Sífellur, kom út árið 1969 en sú síðasta, Hugástir, árið 1999 og spanna ljóðabækurnar því þrjá áratugi í höfund- arferli Steinunnar. Á milli þessara tveggja bóka eru síðan Þar og þá (1971), Verks- ummerki (1979), Kartöfluprinsessan (1987) og Kúaskítur og norðurljós (1991). Líklega er óhætt að halda því fram að Steinunn sé betur þekkt sem skáldsagnahöfundur en ljóðskáld því hún hefur sent frá sér fjöl- margar skáldsögur undanfarin ár sem hafa oftar en ekki vakið verðskuldaða athygli og notið mikilla vinsælda. En ef einhverjir aðdáendur skáldsagnahöfundarins Stein- unnar Sigurðardóttur þekkja ekki ljóð- skáldið Steinunni Sigurðardóttur gefst þeim hinum sömu hér gott tækifæri á að kynna sér það síðarnefnda í þessu myndarlega og eigulega safnriti. Það er hins vegar vafasamt að hægt sé að skilja á milli sagnahöfundarins og ljóð- skáldsins eins og gefið er í skyn hér að ofan því sagnastíll Steinunnar hefur sterkan ljóðrænan streng og ljóð hennar eru mörg frásagnarkennd og miðla sögu, jafnvel mik- illi sögu, þótt í knöppu formi sé. Steinunn er til að mynda mikill meistari ljóðabálk- anna og eru margir þeirra ógleymanlegir svo sem: „Nokkrar gusur um dauðann og fleira“ (úr Hugástum 1999), „Á suðurleið með myndasmið og stelpu“ (úr Verks- ummerkjum 1979) og „Sjálfsmyndir á sýn- ingu“ (úr Kúaskít og norðurljósum 1991). Og líkt og í sögum Steinunnar takast á tregi og takmarkalaus húmor í ljóðum hennar sem gerir þau skemmtileg aflestrar um leið og mörg þeirra dvelja lengi í hug- skotinu eftir lesturinn. Hinu harmræna og hinu skoplega fléttar Steinunn oft saman: „Ég hefði getað grátið í morgunsárið / oní kornfleiks á sjóðheitum flugvelli“ (23), en löngum hefur aðalsmerki hennar verið talið hin kaldhæðna skáldskaparvit- und sem víða er að verki og hin djúpa tilfinning fyrir nátt- úrunni sem blasir alls staðar við í ljóðheimi Steinunnar. Náttúruljóð hennar gætu ein og sér skipað henni í fremstu röð íslenskra ljóðskálda því sýn hennar á íslenska náttúru er ætíð fersk, oft óvænt og aldrei klisjukennd. Guðni Elísson bókmennta- fræðingur skrifar formála að ljóðasafninu þar sem hann spyr hvort finna megi í ljóðum Steinunnar „ákveðin leiðarstef, áleitin þemu og minni, ljóð- rænar myndir sem þróast og taka breytingum milli bóka“. Og hann svarar, fyrst stuttlega: „Maður og náttúra, ást, einmanaleiki og aðskilnaður, tími sem eirir engu og dauðinn á næstu grösum,“ og síðan fjallar Guðni í lengra máli um það sem honum finnst helst ein- kenna ljóðagerð Steinunnar. Formáli Guðna er 23 blaðsíður og fjallar hann bæði af innsæi og lærdómi um yrkisefni og aðferðir skáldsins. Formálann má lesa sem inngang og kynningu á ljóðheimi Steinunnar (þannig er hann settur upp) eða (sem er kannski ennþá betra) sem eftirmála, þegar lesandi hefur sjálfur lesið, hugleitt og skilið ljóðin sínum skilningi. Ég hef áður skrifað að sem ljóðskáld hafi Steinunn ótvíræða sérstöðu í íslenskum bókmenntum og að hún sé fáum lík. Rödd hennar er sterk, persónuleg og nútímaleg um leið og hún byggir mjög á klassískri ís- lenskri bókmenntahefð (Laxness og Jónas eru báðir nálægir). Hún er þjóðleg og al- þjóðleg í senn; hún yrkir jöfnum höndum um erlendar borgir og íslenska sveit. Stundum yrkir hún út frá íslenskum ævi- sögum eða þjóðlegum fróðleik; kveikja skáldskaparins á sér engin takmörk. Þá er einnig sterk kvenleg vitund í ljóðum Steinunnar og mjög fjölbreytilegur hópur kvenna á sveimi í ljóðheimum hennar. Þar mætum við smástelpum og gömlum konum, sem allar geta verið mestu æringjar, við les- um um viðkvæmar ástkonur, oft yfirgefnar, sem harma hlut- inn sinn en bíta síðan á jaxlinn, við kynnumst íslenskri skottu sem „leggst á búfé og ærir ey- firska smala“, kartöfluprins- essum sem þrýst er í moldina af þreyttum kóngssonum, og heyrum af kærustum sem eru slegnar af á haustin en rísa upp frá dauðum og stíga upp til himna á páskum. Í heildina er óhætt að fullyrða að ljóðmælandinn sem er yfir og allt í kring í ljóðheimi Steinunnar Sigurðardóttur getur brugðið sér í ýmissa kvikinda líki og engum þarf að leiðast við- kynningin við hann. Heildarsafn ljóða Steinunnar Sigurð- ardóttur ætti að vera bókmenntaunnendum kærkominn kostur enda munu flestar fyrri útgáfur ljóðabóka hennar vera löngu ófáan- legar. En vonandi verður safnrit þetta eng- inn punktur aftan við ljóðagerð Steinunnar sem vafalaust á mörg lönd enn óunnin í landi ljóðlistarinnar (sem virðist vera enn í fullu fjöri þrátt fyrir linnulausar dán- artilkynningar undanfarinna ára). Leggjumst á búfé og ærum eyfirska smala BÆKUR Ljóðasafn Ljóðasafn frá Sífellum til Hugásta Steinunn Sigurðardóttir. Mál og menning 2004, 318 bls. Soffía Auður Birgisdóttir Steinunn Sigurðardóttir Orðræða um skuggann er sjötta þýðingasafn Jóhanns Hjálmarssonar. Elstu ljóðaþýðingarnar í bókinni eru allt að hálfrar aldar gamlar en margar eru þó gerðar á seinni ár- um. Þá nær jarðvist höf- unda allt aftur til níundu aldar þótt flestir séu fædd- ir á síðustu öld. Ferðast er heimshorna á milli, allt frá Argentínu til Írak og frá Samalandi til Kína, og staldrað við hjá ýmsum eftirminnilegum perlum skáldskap- argyðjunnar. JPV útgáfa gefur út. Nýjar bækur VERÐLAUNASAGA Gerðar Kristnýjar, Bát- ur með segli og allt, er þroskasaga ungrar stúlku og á ýmislegt sameiginlegt öðrum slík- um sem litið hafa hér dagsins ljós á síðustu árum. Þótt ytri tími sögunnar sé ekki nema brot úr ári þjónar sá rammi einungis sem gluggi inn í fjarlægari fortíð; er spannar bæði fjölskyldusögu og uppvöxt aðalsögupersón- unnar fram að því augnabliki er sögunni lýk- ur. Verkið er því öðrum þræði saga íslensks samtíma og óhætt að segja að höfundurinn tvinni vel saman strengi úr sögulegu samhengi þjóðfélagsþróunar eft- irstríðsáranna – er fólk var að brjótast frá örbirgð úr þorpum til allsnægta á mölinni – og meg- inþráðinn úr persónulegri sögu aðalsöguhetjunnar sem tilheyrir næstu kynslóð á eftir. Fjöl- skyldusagan sem og sögusviðið nær samtímanum, gefur sann- færandi og kunnuglega mynd, sem er í rökréttu samhengi við innri veruleika þeirra sem bera söguna uppi og þróun persónu- sköpunarinnar eftir því sem verkinu vindur fram. Upphaf sögunnar mark- ast af föðurmissi ungu stúlkunnar Oddfríðar Gunnarsdóttur og hefst í erfidrykkjunni. Les- andinn stendur strax á fyrstu síðunum frammi fyrir einmanaleika hennar og sorg og fær á tilfinninguna að með föður sínum hafi hún bæði misst samherja sinn og þann sem hún samsamar sig við í lífinu. Ljóst er að henni hefur verið útskúfað úr veröld móður sinnar og systur og að hún á enga hlutdeild í þeirra þrönga heimi. Oddfríður vinnur til að byrja með í höfuðvígi staðlaðs kvenleika – snyrtivörubúð, en í umrótinu sem hún upplifir eftir dauða föður síns líður ekki á löngu áður en hún grípur óvænt tækifæri sem henni gefst til að hasla sér völl í harðari heimi blaða- mennskunnar. Hann reynist þó þegar allt kemur til alls vera álíka yfirborðslegur og heimur naglalakks, varalita og ilmvatna – sem Oddfríður er reyndar sérfræðingur í og notar óspart til að greina persónuleika þeirra sem hún umgengst. Brestir eru þó fljótir að koma í upphafsmynd verksins af samheldni og ástríki á milli föður og dóttur. Því fljótlega verður ljóst að Bátur með segli og allt fjallar fyrst og fremst um afleiðingar lyfjaneyslu, heimilis- ofbeldis og vanrækslu. Um mótandi afleið- ingar hennar á Oddfríði sem litla stúlku og síðar tilraunir hennar til að gera þá fortíð upp. Þrátt fyrir að vera alin upp á broddborg- araheimili; þar sem húsbóndinn var sam- kvæmt útfararræðunni „maðurinn með gull- hjartað“ og húsbóndastóllinn stóð „undir hestamyndinni hans Jóhanns Briem“ (bls . 6–7), eyðir Odd- fríður bernsku sinni lömuð af ótta við bræði hans sem hún nefnir svo kaldhæðnislega „Twist and Shout“ (bls. 79). Móðir hennar er engu betri, „var ýmist í lyfjavímu eða reri tóm fram í gráðið“, og „minnti helst á skúffuopnarana í IKEA“ (bls. 134). Vanrækslan hefur ekki aðeins áhrif á innri mann Oddfríðar, heldur einnig ytri að- búnað því til að mynda þótti ekki „taka því að kaupa handa [henni] góða úlpu því [hún] óx svo hratt“ (bls. 48). Í þessum harða heimi kýta þær systur stöðugt og bítast um athygli og náð foreldra sinna, sem ýtir enn frekar undir eyðilegging- armátt heimilislífsins þar sem samstaða þekk- ist ekki og allir standa einir og berskjaldaðir. Sá þráður verksins sem fjallar um blaða- mennskuna, tvískinnung hennar og óheið- arleika slúðurblaðanna virðist til að byrja með vera drifkrafturinn er knýr verkið áfram, en skiptir þó þegar upp er staðið ekki ýkja miklu máli varðandi meginþema þess og niðurstöðu, nema sem táknmynd fyrir þann hljómgrunn sem svikin í innri veruleika hafa í ytri veru- leika sögusviðsins. Segja má að Oddfríði standi í upphafi sögunnar til boða að hefja nýtt líf undir formerkjum lygi og svika í blaðamennskunni og hasla sér völl í heimi hinna fullorðnu á eigin forsendum, sem óneit- anlega eru á þeim tímapunkti óþægilega líkar forsendum foreldra hennar – þ.e.a.s. hvað lífs- lygina varðar. Höfundur verksins gefur þó lesandanum fljótt vísbendingu um að grein- arskrifin sem hún hefur gert samkomulag um geti tekið óvænta stefnu og feli hugsanlega í sér lausn, því upphaf fyrirhugaðrar greinar hljóðar á sama veg og upphaf bókarinnar: „Pöntunin hafði misfarist í bakaríinu …“ (bls. 132). Pöntunin á greininni hjá Oddfríði mis- ferst líka og tekur óvænta stefnu, því úr- vinnslan á skrifunum verður tilefni uppgjörs hennar við bernsku sína og uppvöxt. Það er því líklega engin tilviljun, að börn skuli valda straumhvörfum í lífi hennar, í systursyni sín- um Gunnari Birni og drengnum Bjarti finnur hún þann hreina tón er hún laðast að og er svo mikilvægt mótvægi við alla fölsku hljóm- ana í hennar eigin lífi. Hún gerir sér grein fyrir því að sannleikurinn er afstæður allt eft- ir því frá hvaða sjónarhóli er horft. Hún kemst að því að bernskuminningar þær sem pabbi hennar hafði trúað henni fyrir eru skáldskapur upp úr bók (bls 240), eða m.ö.o. að hver og einn er sinnar eigin gæfu smiður í þeim skilningi að hann er höfundur síns eigin lífs ef hann svo kýs. Báturinn með seglið er tákn slíks skáldskapar – sem öfugt við lífslyg- ina hefur heilandi áhrif. Og það er á valdi Oddfríðar að leyfa öðrum að „eyðileggja“ hann (bls. 289) eða nota hann frekar til að „sigla á honum í kringum allan heiminn“, eins og Bjartur myndi gera (bls. 290). Í verkinu sem heild felst því uppgjör sem er bæði sálfræðilega trúverðugt og sannfærandi í þversögnum sínum. Höfundur reynir ekki að mála einfalda svart/hvíta mynd af lífi þess sem býr við ofbeldi og vanrækslu heldur dregur fram sársauka barns – og síðar full- orðinnar manneskju – sem horfist í augu við þá þversögn að elska þá sem hafa reynst henni verst. Fyrir vikið öðlast sagan þá dýpt sem nauðsynleg er til að gera jafn við- kvæmum og tilfinningalega afstæðum efniviði þau skil að hann nái til lesandans. Yfirborð sögu Gerðar Kristnýjar er allt í senn; yfirveg- að, fyndið og snurðulaust, en það sem er meira um vert er að undir því yfirborði blasir við sjóðheit og sár kvika sem alltof oft birtist í bókmenntunum sem ómarkviss klisja. Lífið er skáldskapur BÆKUR Skáldsaga Eftir Gerði Kristnýju. Vaka Helgafell 2004. 319 bls. Bátur með segli og allt Fríða Björk Ingvarsdóttir Gerður Kristný Heppin er eftir Alice Se- bold en á síðasta ári kom út eftir sama höfund met- sölubókin Svo fögur bein. Bókin fjallar um reynslu höfundar af því þegar henni var nauðgað á fyrsta námsári sínu í há- skóla og baráttu hennar gegn einangrun og for- dómum og við að ná fram réttlæti í dóms- kerfinu. Útgefandi er JPV útgáfa. Benedikt búálfur – Drottning Drekanna er eftir Ólaf Gunnar Guð- laugsson. Á flugi sínu um skóginn rekast Benedikt, Dídí og Daði dreki á grát- andi stúlku. Þau hafa ekki hugmynd um hver hún er – og það sem verra er, hún veit það ekki sjálf. Þau leita ráða hjá Magnúsi mikla, vitrasta álfi skógarins, sem leiðir þau á rétta braut – og sú er ævintýralegri en nokkurt þeirra hefði órað fyrir. Útgefandi er Mál og menning. Verð: 2.490 kr. Fíasól í fínum málum er eftir Kristínu Helgu Gunn- arsdóttur. Um mynd- skreytingar sér Halldór Baldursson. Fíasól er sjö ára stelpa sem fer sínar eigin leiðir. Til dæmis vill hún bara ganga í bleikum fötum og svo hefur hún meira að segja rænt sjoppu, en það var nú alveg óvart og hún gerir það aldrei aftur. Oftar en ekki stangast annars fínar hugmyndir Fíusólar á við það sem fullorðna fólkið vill. Og þá getur hún verið í vondum málum. Útgefandi er Mál og menning. Verð: 2.490 kr. Molly Moon stöðvar heim- inn er eftir Georgiu Byng í íslenskri þýðingu Jóns Karls Helgasonar. Molly Moon er mun- aðarlaus stúlka sem býr yf- ir ótrúlegum dáleiðsluhæfi- leikum. Hún kemst í hann krappan þegar henni er fal- ið að rannsaka umsvif valdagráðugs bandarísks milljónamærings. Útgefandi er bókaforlagið Bjartur. Kápu- hönnun annaðist Ásta S. Guðbjartsdóttir. Verð kr. 2.680. Tommi keppir er þýdd af Sigríði Harðardóttir. Þættirnir um Tomma togvagn eru sýndir í sjón- varpi hér á landi um þessar mundir. Nú fara Tommi og Raggi í kapp- akstur og þegar þrýst er á hnapp- inn á bókinni má heyra „púffið“ í Tomma þeg- ar hann þýtur eftir brautarteinunum eins hratt og hann kemst. Útgefandi er JPV útgáfa. Flóttinn er eftir Sindra Freysson. Bókin fjallar um ungan Þjóðverja, Thomas Lang, sem leggur á flótta þegar Bretar hertaka Ísland og tekst að forðast það að vera náð í meira en ár. Flóttinn er önnur skáld- saga Sindra og styðst hann hér við fjölda viðtala og margra ára rannsóknir á gögnum og heim- ildum. Útgefandi er JPV útgáfa.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað: 06. nóvember (06.11.2004)
https://timarit.is/issue/257940

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.

06. nóvember (06.11.2004)

Aðgerðir: