Lesbók Morgunblaðsins - 06.11.2004, Qupperneq 19
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 6. nóvember 2004 | 19
Lokabindi Normans Sherry’s umævi Grahams Greene hefur
vakið litla hrifningu meðal ættingja
Greene. Bókin,
sem er þriðja
bindi þessa rúm-
lega 2.000 síðna
ævisögusafns,
The Life of Grah-
am Greene, átti
að vera loka-
hnykkur 30 ára ít-
arlegra rann-
sókna Sherry á
ævi rithöfund-
arins. En fyrri tvö bindin hlutu mjög
svo lofsamlega dóma gagnrýnenda
og þóttu veita heil-
stæða mynd af
Greene og afrekum
hans. Þess í stað eru
ættingjar Greene öskuillir í garð
Sherry’s sem hafði gott sem óheftan
aðgang að mörgum einkaskjölum rit-
höfundarins, en Sherry beinir kast-
ljósinu í lokabindi ritsafnsins gott
sem eingöngu að nánum tengslum
Greene við fjölda gleðikvenna sem
og líflegu kynlífi hans og segir höf-
undurinn ómögulegt að líta framhjá
þessum þætti í lífi Greene. Bókin
hefur hlotið mikið lof í Bandaríkj-
unum en breskir gagnrýnendur hafa
fordæmt óhefðbundin stíl Sherry’s
sem fléttað hefur eigin ljóðum saman
við textann. „Þessi bók fjallar ekki
um Graham Greene, heldur Sherry,“
hefur New York Times eftir Francis
Greene, syni rithöfundarins.
Sherry segir hins vegar ekki hægt
að láta fjölskyldu viðfangsefninsins
ákveða frá hverju sé sagt og hverju
sé sleppt og gefur þess utan lítið fyr-
ir dóma bresku gagnrýnendanna
sem hann segir lítið annað en þvætt-
ing, þvaður og markleysu.
Frumraun Arne Lygre á skáld-sagnasviðinu fær ágætis dóma
hjá norska blaðinu Aftenposten sem
segir frásagnirnar tuttugu er fjalla
um einu og sömu konuna skemmti-
lega lesningu. Bókin nefnist Tid
inne, eða Stund innifyrir eins ogkalla
mætti hana á íslensku og eru text-
arnir sumir hverjir fullgildar smá-
sögur en aðrir textar standa sem
stuttar en tengdar frásagnir er fjalla
um tengsl og samkennd sem og rugl-
ingslegar tilraunir manna til að
skapa aðstæður er gera þá sýnilega.
Nýjasta bók Jon Ronson nýtir sérsem viðfangsefni Bandaríkja-
her og hneykslið sem meðferð fanga
í Abu Ghraib
fangelsinu í Írak
olli. Bókin nefnist
The Men Who
Stare at Goats,
eða Mennirnir
sem stara á geit-
ur eins og heiti
hennar gæti út-
lagst. Þar segir
frá leynilegri
deild sem sett var
á fót innan Bandaríkjahers árið 1979
með mestu gáfumennin í huga og
hugmyndir sem voru uppi um að
þjálfa hermenn sem gætu drepið
með augnaráðinu og gengið í gegn-
um veggi. Þótt þær hugmyndir
kunni að virka sérkennilegar í dag er
deildin enn starfandi 25 árum síðar
og greinir Ronson í The Men Who
Stare at Goats frá einkar
sérkennilegum hernaðarleynd-
armálum tengdum stríði rík-
isstjórnar George W. Bush gegn
hryðjuverkum.
Hversdagurinn og dauðleikinneru viðfangsefni Klaus Høeck í
nýjustu ljóðabók hans Hsieh, en
sjálfur segir Høeck í viðtali við
danska blaðið Information að með
aldrinum tapist ímyndunaraflið á
sama tíma og veruleikatengslin
skerpist.
Að mati gagnrýnanda blaðsins er
Hsieh hins vegar frumleg sam-
tvinnun platónskrar hugsunar og al-
kemistans sem skilar sér í gáfulegri
rannsókn á byggingarefni alheims-
ins er verði bæði skýrt og einfalt í
meðförum Høecks sem taki á ljóð-
forminu á íhugulan en jafnframt
tæknilegan máta sem höfði vel til les-
andans.
Erlendar
bækur
Jon Ronson
Graham Greene
V
ér höfum fregnir af raunum krist-
inna bræðra Vorra í Nýja Túle, á
Norðurhjara veraldar.“ Á þessum
orðum hefst erindisbréf háæru-
verðugs erkibiskups í Niðarósi, Jó-
hanns Einars Sokkasonar, til
klerksins Insulo Montanus, virðulegs legáta páfa
og rannsóknarréttardómara með fleiru. Klerki er
ætlað að stýra leiðangri norður í íshaf til að hlúa
að veraldlegri en einkum andlegri heilsu einangr-
aðs safnaðar á Nýja Túle í norðurhöfum.
Fjórtánda öldin er að renna sitt skeið. Versnandi
veðurfar, auknar vetrarhörkur, fimbulkuldar og ís
nær öldina alla hafa hamlað samgöngum svo ræki-
lega að um nokkurra ára skeið hafa skip ekki kom-
ist á leiðarenda og önnur ekki átt afturkvæmt til
Noregs. Montanusi er í er-
indisbréfinu uppálagt að
smíða skip, með leynd, svo
að Hansaveldið komist ekki að ráðagerðinni. Titill
bókarinnar er í raun heitið á skipinu: Ormurinn
stutti. Montanus vill með því minnast Ólafs
Tryggvasonar Noregskonungs sem kristnaði
Norðmenn en hann dó hetjudauða um borð í skipi
sínu Orminum langa. Í kjölfarið fylgir svo saga og
frásögn Montanusar af ævintýraför sinni og hrakn-
ingum norður til Nýja Túle, dvöl hans þar meðal
sóknarbarna sinna, baráttu fyrir sálum þeirra og
endurreisn góðra siða, allt þar til hann yfirgefur
þau eftir tæplega þriggja ára dvöl í landinu.
Saga Montanusar er jafnframt saga af siðferði,
ekki síst hans eigin „heilagleika“ (holdið ku jú
vera veikt) og saga af siðfræði, kristinni og heið-
inni – hvað verður um siðferðið þegar hörmungar
og hungursneyð leiðir til örvæntingar?
Goðsagnir og veruleiki
Í fyrstu hvarflar að manni að Nýja Túle sé eins
konar athugun á mýtunni um týnda landið Túle,
útópían Últíma Túle, landið sem sökk í sæ, og er
einhvers staðar fyrir austan sól og sunnan mána.
En það leynir sér ekki á lýsingum og staðarheitum
að Nýja Túle er ekki (alfarið) skáldað land heldur
einfaldlega og greinilega Grænland.
Ormurinn stutti byggir á sögulegum stað-
reyndum og í raun nýjustu upplýsingum fornleifa-
fræðinga og sagnfræðinga um landnámsbyggðir
norrænna manna á Grænlandi. Með Orminum
stutta er Boucheron í og með að geta í sumar eyð-
urnar í sögu Grænlendinga, þ.e. norrænna manna
á Grænlandi, eftirkomenda Eiríks rauða. Byggð
þeirra lagðist af, mjög skyndilega er sagt, á fjór-
tándu öldinni án þess að vitneskja liggi fyrir um
ástæður þess og afdrif þeirra. Fornleifarann-
sóknir á einstaka stöðum hafa sýnt að þeir skildu
eftir sig eignir, verkfæri, skraut og önnur verð-
mæti, á víðavangi, líkt og þeir hafi þurft að forða
sér í skyndingu.
Du Boucheron, sem segist hafa fengið áhuga á
Íslendingasögum á ferðalögum sínum um Norð-
urlöndin, byggir á Grænlendingasögu og notar
þaðan staðarheiti og mannanöfn. Hann barnar
auðvitað söguna og heitin, ef svo má að orði kom-
ast, enda nokkuð um liðið frá því sögur fóru síðast
af Grænlendingum þegar saga du Boucherons
tekur við. Í biskupsdæminu Görðum, ekki allfjarri
Bröttuhlíð (bæ Eiríks rauða) í Einarsfirði, en allt
þetta kemur heim og saman við staðreyndir, rekst
hann á afkomendur sjálfs Eiríks rauða (sem nam
land árið 986). Þar er einnig að finna höfðingjann
Einar Sokkason (Einarssonar Sokkasonar) en al-
nafni hans kemur við sögu í Grænlendinga þætti.
Á tólftu öld var sá sendur til Noregs til að telja
kóng á að senda biskup til Grænlands. (Lesendur
hafa eflaust tekið eftir því að sjálfur erkibiskupinn
í Niðarósi heitir Jóhann Einar Sokkason en þann-
ig bítur sagan – ormurinn – í skottið á sjálfri sér.)
Við sögu koma líka heiðingjar og skrælingjar
(inúítar?) en leitt hefur verið að því getum að þeir
síðarnefndu hafi útrýmt norrænum mönnum á
Grænlandi. Fyrir því eru þó engar sannanir,
hvorki í sögnum Inúíta né öðrum heimildum.
Hryllingur
Það merkilegasta við Orminn stutta eru kannski
ekki sagnfræðilegar getgátur um afdrif norrænna
manna, heldur frekar „mannlegi þátturinn“ í frá-
sögninni og sannferðugar lýsingar á mannlegu
hlutskipti og hátterni. Haldi einhver að aldur höf-
undarins bjóði upp á teprulegar lýsingar á hrakn-
ingum, skelfilegri neyð, hrottaskap og hreinu sið-
leysi sem viðgengst í sögunni, þá fer sá hinn sami
villur vegar.
Lýsingar du Boucherons segja einmitt þá hlið
sögunnar, og Íslendingasagna, sem eiginlega aldr-
ei er sögð. Ungur höfundur, vel að sér í „splatter“
og nútíma hryllingi ættuðum úr heimi kvikmynda,
gæti eiginlega ekki gert betur. Á leiðinni til Nýja
Túle hrekkst Ormurinn stutti fyrir vindum og
verða Montanus og samferðamann, skipstjóri,
bátsmaður og ræðarar, strandaglópar á ísnum.
Þar svelta þeir heilu og hálfu hungri og þurfa að
þola ýmsar hörmungar, kal og veikindi. Í eymd-
inni er gripið til ýmissa óyndisúrræða til þess að
lifa af. Meira segja klerkur (sem til allrar ham-
ingju á alltaf smá aukabirgðir fyrir sjálfan sig) sér
í gegnum fingur sér við mennina sem leggja sér til
munns saur, hland, kalnar tær og mannakjöt.
Ekki verða lýsingarnar kræsilegri þegar í
mannabyggðir er komið. Á fyrsta bænum sem
þeir koma að er búið að slátra öllum á bænum og
þar ganga þeir um í rjúkandi innyflum og saur
hræðilega útleikinna líka, ungra og aldinna, karla
og kvenna. Allt er með ólíkindum og meðal annars
finna þeir dauðan apa! Seinna kemur í ljós að ap-
ann hafði Jörgen nokkur Úlfssonur Jórsalafari
flutt með sér frá suðurlöndum. Seinna heyrir
klerkur orðróm þess eðlis að apinn hafi verið álit-
inn tákn hins illa og honum kennt um farsóttir og
óáran sem herja á landsmenn; apinn kunni s.s. að
vera ástæða fjöldamorðsins á bænum.
Sakamál og siðferði
Þessi fyrsti fundur þeirra á mannabyggðum er
ráðgáta og sakamál sem klerkur leysir síðar í sög-
unni á þann hátt sem rannsóknarréttardómara
einum er lagið: „Sannanir“ á sekt eru fengnar með
„játningu“ sem heyrist reyndar ekki, nema guðs-
manni, þar sem sá „seki“ er svo illa leikinn af böðl-
um klerks.
Lýsingarnar eiga sér enga hliðstæðu í Íslend-
ingasögum né seinni tíma frásögnum af ýmiss
konar hrottaskap og grimmdarverkum sem sann-
arlega voru framin. Nema þá auðvitað frásagnir af
Tyrkjaráninu og þó ennfremur af Spánverjavíg-
unum 1715 (sem Jón lærði skráði og frekar hljótt
hefur verið um í gegnum aldirnar).
Meðal fyrstu embættisverka Montanusar
klerks er að brenna á báli þann eina prest sem eft-
irlifandi er, í mikilli synd, á staðnum. Þar sem eng-
an tiltækan við er að finna neyðist klerkur að not-
ast við mó sem hefur þann leiða eiginleika að
brenna afar hægt. En allt er hey í harðindum og
Montanus lætur sig, eða öllu heldur syndaselinn,
hafa það.
Það er vissulega mikið verk fyrir höndum í ber-
syndugu samfélagi sem ekki hefur notið leiðsagn-
ar kirkjunnar í áratugi. Siðferðið er ekki skárra en
m.a. kemur fram í Skriftarboðum Þorláks helga,
frá því seint á 12. öld:
Fyrir það skal minnst bjóða þess er í lostasemi er mis-
gert að vakanda manni, ef hann saurgast af blíðlæti við
konu. Meira, ef maður saurgast af höndum sínum sjálfs.
Meira, ef maður saurgast af tré boruðu. Mest ef maður
saurgast af annars karlmanns höndum. […] Ef konur eig-
ast við þangað til er þeim leysir girnd, skal bjóða þvílíka
skrift sem körlum þeim er inn ljótasta hórdóm fremja
sín á millum eða þann er framdur er við ferfætt
kvikendi.1
Montanus, siðferðisstólpinn, þarf vissulega að
beita hörðu og í skýrslu sinni til erkibiskups lýsir
hann angist sinni yfir því og píslum (sem aðeins
Sonurinn hefur þurft að þola meiri) í „stríði sínu
við eigin hjörð“. Ekki er þó laust við að hann slaki
lítillega á kröfunum gagnvart sjálfum sér. Það ját-
ar hann í skýrslunni sem hann skrifar sjálfur. Það
kemur reyndar í ljós í bókarlok að klerkur er ekki
sérlega ábyggilegur sögumaður og syndir hans ef
til vill heldur meiri og alvarlegri en hann vill vera
láta, svo vægt sé til orða tekið.
Hann færist því ekki lítið í fang, Bernard du Bo-
ucheron, í sinni allra fyrstu skáldsögu. En honum
tekst afar vel að segja beinskeytta, berorða,
krassandi sögu sem býður upp á alls konar (heim-
spekilegar) vangaveltur, um siðferði, um hlutverk
kirkjunnar á miðöldum og hugsanlegan þátt henn-
ar í endanlegri hnignun byggðar í Nýja Túle. Þar
að auki er að finna í sögunni sakamál, ástarsögu
og harmleik. Allt þetta á 133 síðum!
Með því að nota skýrsluform tekst höfundi að
segja mikla sögu á fáum blaðsíðum. Bókin byrjar á
erindisbréfi erkibiskups, síðan tekur við skýrsla
Montanusar, þá mögnuð lýsing (höfundar í verk-
inu) af fyrirskipuðum leiðangri skipstjóra Mont-
anusar norður (með vesturströnd Túle/Græn-
lands) í leit að mannabyggðum og æti, skýrsla
klerks á ný og svo lokaorð höfundar. Allt er þetta
sagt í knöppum stíl afar fyrndum en þó læsilegum;
um það eru gagnrýnendur á einu máli. Þrátt fyrir
það er sagan á vissan hátt nútímaleg í anda.
Afrek
Afrek þessa aldraða nýgræðings er ekki lítið. Í
Frakklandi var gefin út nú í haust, skv. upplýs-
ingum úr dagblaðinu Le Figaro, 121 frumraun
skáldsagnahöfunda (eða ein af fjórum útgefnum
frönskum skáldsögum). Það má segja að du
Boucheron hafi slegið öllum hinum við, gagnrýn-
endur hafa lofað Orminn stutta og ekki sakar að
hljóta verðlaun Akademíunnar frönsku. (Það hlýt-
ur þó að hafa glatt hina íhaldssömu Akademíu að
geta verðlaunað (h)eldri mann að þessu sinni.) Það
vakti furðu margra að sjá fyrstu bók höfundar á
gamals aldri á lista yfir tilnefndar bækur Aka-
demíunnar. Þar keppti hann við marga reynda
höfunda og hafði betur.
Bernard du Boucheron, fæddur 18. júlí 1928, til-
heyrir franskri elítu. Hann kemur úr ENA-
skólunum sem útskrifar konur og menn (svokall-
aða „enarka“) í æðstu stöður í samfélaginu. Du
Boucheron hefur sem sagt alla sína tíð verið
stjórnandi í stórfyrirtækjum í tækniiðnaði, fyrst
20 ár í flugvélaiðnaði (hjá Aerospatiale) og síðan
15 ár hjá orkufyrirtækinu Alcatel. Hann ku hafa
verið farsæll í starfi og aldrei látið sig dreyma um
að gefa út bók, þrátt fyrir að hann segist hafa
skrifað „fyrir skrifborðsskúffuna“.
Það var kona Bernards du Boucheron sem
hvatti hann til að senda handrit að sögunni til út-
gefanda. Handritið barst ásamt hundruðum ann-
arra inn um lúgu hjá forlaginu Gallimard sem
ákvað að gefa bókina út. Aðspurður í sjónvarps-
viðtali eftir að verðlaunaveitingin var tilkynnt,
kvaðst du Boucheron áreiðanlega mundu fylgja
fyrstu bókinni eftir með annarri. „Kemur hún úr
skrifborðsskúffunni, eða verður um að ræða nýtt
efni?“ Það kom aðeins á þann gamla en svo sagði
hann: „Nýtt. Þetta verður alveg nýtt efni. Það er
erfitt að gefa út aðra skáldsögu sína eftir svona
viðtökur en ég er ákveðinn.“
1 Sjá m.a. hjá Árna Björnssyni í Merkisdagar á mannsævinni,
Reykjavík: Mál og menning, 1996, bls. 14.
Gamall nýgræðingur
á norðurslóðum
Fyrsta skáldsaga höfundar
hefur vakið óvenju mikla
athygli í Frakklandi nú á
haustdögum. Sagan Court
Serpent (Ormurinn stutti)
hefur fengið afbragðs
dóma og 28. október síð-
astliðinn voru höfundi
hennar veitt árleg verð-
laun Frönsku akademíunn-
ar fyrir bestu skáldsöguna:
Le Grand Prix du Roman
de l’Académie Française
2004. Hér segir frá skáldsögu nýgræðingsins
Bernard du Boucheron, 76 ára fyrrverandi
stjórnanda stórfyrirtækis.
Morgunblaðið/RAX
Sögusviðið Saga Bernards du Boucherons, Ormurinn stutti, gerist í byggðum norrænna manna í Grænlandi.
Hér sést skáli Eiríks rauða og Þjóðhildarkirkja í Brattahlíð við Eiríksfjörð.
Eftir Geir Svansson
geirsv@isl.is
Höfundur er bókmenntafræðingur.