Lesbók Morgunblaðsins - 06.11.2004, Blaðsíða 18
18 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 6. nóvember 2004
BEST OF Grim er ævisaga teikni-
myndapersónunnar Grim, frá fæð-
ingu hans í París árið 1995 fram til
dagsins í dag, eins og hann birtist í
teikningum, tölvuútprentum og mál-
verkum. Flestir þekkja Grim, annað
sjálf rithöfundarins og myndlist-
armannsins Hallgríms Helgasonar.
Það er ekki að undra að Grim hafi
orðið til á tíunda áratug síðustu ald-
ar og sé afkvæmi myndlistarmanns
af kynslóðinni sem nú er skriðin yfir
fertugt og rúmlega það. Ég held að
yngri kynslóðir hafi ekki upplifað þá
listrænu kreppu sem ríkti hjá leit-
andi listamönnum á níunda og tí-
unda áratug, þegar búið var að gera
allt og meira að segja kaldhæðnin
orðin þreytt, – í dag virðist það ekki
lengur vera vandamál að eitthvað
hafi verið gert áður. Persónan Grim
er viðbrögð við leiða þess sem er dá-
lítið blasé, hefur séð allt en er þó viti
bornari en svo að halda að hann sé
þar með einhverju nær. Hann hefur
dvalist bæði í NY og París, hluti af
honum á sér draum um frægð og
frama en einnig býr í honum einlæg
leit að því sem máli skiptir í veröld-
inni og listinni. Þannig skiptast kald-
hæðnar teikningar sem gera grín að
inntaki eða inntaksleysi samtíma-
listarinnar á við einlægari myndir
eins og þá sem sýnir Grim reyna að
fanga vangasvip feimnu kólumbísku
stúlkunnar í metró – eða er hann
kannski bara að stæla Gauguin? Það
er aldrei að vita þar sem Grim er á
ferð. Á þessum árum er það þó aug-
ljóst að listheimurinn og það sem
honum fylgir, kennsla, markaðs-
setning, frægð o.s.frv. á hug hans
allan. Grim er líka útlendingur í Par-
ís og tjáir sig um það, húmorísk til-
finning hans fyrir hljómfalli tungu-
málsins kemur skemmtilega fram,
t.d. í teikningunni Paris Taxi. Grim
er nokkuð fyndinn á þessum árum,
hann er líka örvæntingarfullur og
leitandi en fyndnin er meira áber-
andi en síðar. Hallgrímur leggur
nokkuð í teikningar sínar og ljær
þeim þannig meiri alvörublæ sem
myndlistarverkum, hann skissar
ekki hratt í teiknimyndasögustíl.
Þegar Grim birtist í Fókus 1998
stígur hann út úr hinum þrönga list-
heimi og umfjöll-
unarefni hans
verður sam-
mannlegs
eða kannski
réttara
sagt sam-
karllegs
eðlis.
Húmorinn
hér er mjög
lágstemmd-
ur vægast sagt
og sannarlega ís-
lenskur í gegn. Grim
leggur þó ekki upp úr því
að vera íslenskur, hann er miklu
frekar evrópskur – kannski gerir
þetta hann einmitt ofuríslenskan,
því við erum alltaf að reyna að
sleppa frá sveitamennskunni og ekk-
ert er sveitalegra en það. Grim er
sér líka meðvitandi um þetta. En
ekki er hann náttúrubarn, svo mikið
er víst, og tilraunir hans til að tala
við blóm, tré og fugla eru með því
fyndnara hjá honum. Grim er karl-
maður og nokkuð af húmornum er
kallahúmor sem gengur út á mis-
heppnað kynlíf og annað í þeim dúr.
Hann er þó þannig gerður að konur
geta alveg brosað út í annað líka, svo
aulalegur er hann eins og honum er
ætlað. Það fær mann til að velta því
fyrir sér hvernig kvenútgáfan af
Grim væri, enn hafa íslenskar konur
ekki lagt fyrir sig teiknimyndasögu-
gerð af þessu tagi og er hér með
auglýst eftir því. Okkur vantar aðrar
fyrirmyndir en stelpurnar í Beðmál-
um og Bridget Jones, ég þekki enga
konu sem líkist þeim eða þeirra lífi á
nokkurn hátt. Spurning hvort marg-
ir karlmenn finni sig í Grim? Hann á
sér reyndar svo margar mannlegar
hliðar að ég held að margir af báðum
kynjum finni til samkenndar með
honum. Ekki síst í þeim myndum
sem eru tvímælalaust hápunkturinn
á ferli hans, tölvuútprentin frá 2000–
03. Myndir á borð við Frí, Ég á mér
draum, Úti og fleiri í þeirri seríu eru
sannarlega eitthvað það besta sem
fram hefur komið hjá íslenskum
myndlistarmanni á síðustu árum og
vonandi eigum við eftir að sjá fleiri í
þeim dúr. Í þessum verkum tekst
Hallgrími að láta draum sinn rætast
um list sem er „á hinum skemmti-
legu landamærum há- og lágmenn-
ingar: … einföld, snjöll og strætis-
vön en þó einnig óræð og marg-
slungin og umfram allt afsprengi
síns eigin tíma“. (HH. Best of Grim.
s. 137) Myndin Frí er sérstaklega
eftirminnileg sem birtingarmynd
hins ofurvenjulega, áhorfandinn
hlær og grætur í senn. Þannig er
Grim þegar hann er bestur.
Það er sannarlega fengur í Grim
eins og hann leggur sig og það leikur
enginn vafi á því að hér er alvöru-
myndlist á ferð. Hallgrímur veit allt-
af nákvæmlega hvað hann er að gera
og leikur sér á snjallan hátt með
möguleika samspils orða og mynda.
Ég vona að Grim verði langra líf-
daga auðið.
Ragna Sigurðardóttir
BÆKUR
Teiknimyndasögur
eftir Hallgrím Helgason. – 141 bls.
Mál og menning 2004.
Best of Grim
Hallgrímur Helgason Grim
Alvöru list
Nýjar bækur
Með köldu blóði
er eftir skoska
spennusagnahöf-
undinn Ian Rank-
in. Þýðandi er
Anna María
Hilmarsdóttir.
Sagan fjallar
um rannsóknar-
lögreglumanninn
Rebus sem þekktur er úr sam-
nefndum sjónvarpsþáttum.
Tveir unglingar eru myrtir í skóla
og morðinginn, uppgjafahermaður
og einfari, fremur síðan sjálfsmorð.
Málið leiðir John Rebus lögreglu-
varðstjóra ofan í fortíð morðingjans
en einnig ofan í sína eigin fortíð.
Morðinginn átti vini og óvini á ólík-
legustu stöðum, jafnt meðal stjórn-
málamanna sem ungra Gota, og
skildi eftir sig slóð leyndarmála og
lyga. En Rebus horfist einnig í augu
við eigin vandamál. Smákrimmi,
sem hefur ofsótt Siophan Clarke að-
stoðarvarðstjóra finnst látinn –
brenndur inni á heimili sínu. Og
Rebus er nýkominn af sjúkrahúsi,
skaðbrenndur á báðum höndum.
Útgefandi er Skrudda.
Á leið til upp-
lýsingar er eftir
Friðrik G. Ol-
geirsson sagn-
fræðing.
Bókagerð á
Íslandi á sér
langa sögu og
bókasöfn í einni
eða annarri
mynd hafa lengi verið til. Mun
styttra er síðan til varð sérstök
stétt fólks sem sér um rekstur
bókasafna og enn styttra er síðan
fyrstu háskólamenntuðu bókaverð-
irnir komu til sögunnar. Árið 1960
stofnuðu bókaverðir í fyrsta sinn
með sér félag. Árið 1973 stofnuðu
bókasafnsfræðingar sitt eigið félag.
Á leið til upplýsingar segir sögu
Bókavarðafélags Íslands sem starf-
aði á árunum 1960–1999, aðild-
arfélaga þess, og Félags bókasafns-
fræðinga sem starfaði á árunum
1973–1999. Einnig er sagt frá ýms-
um hópum bókavarða og bóka-
safnsfræðinga sem starfað hafa um
lengri eða skemmri tíma án þess að
hafa átt aðild að áðurnefndum sam-
tökum. Greint er frá upphafi
kennslu í bókasafnsfræði við Há-
skóla Íslands og þróun fræðigrein-
arinnar síðustu áratugina. Loks eru
kaflar um Þjónustumiðstöð bóka-
safna, Kvennasögusafn Íslands,
Samstarfsnefnd um upplýsingamál
og NORDINFO.
Bókin er 317 blaðsíður og var
prentuð í Gutenberg hf. Útgefandi
er Upplýsing – Félag bókasafns- og
upplýsingafræða.
FÉLAGAR í Síung og Borgarbókasafnið í
Reykjavík bjóða börnum og fullorðnum til
mikillar upplestrarhátíðar úr barna- og ung-
lingabókum í Grófarhúsi, Tryggvagötu 15, á
morgun sunnudaginn 7. nóvember. Þar ætla
tólf höfundar að lesa upp úr glænýjum bókum
fyrir börn, unglinga og foreldra og til að allir
geti gengið að sínu uppáhaldsefni vísu ætla
höfundarnir að skipta sér í tvo hópa og lesa
fyrir eldri hópinn á 1. hæðinni og fyrir yngri
börnin á 2. hæðinni.
„Ég vil sérstaklega hvetja eldri börnin og
unglingana til að koma því það eru svo spenn-
andi bækur að koma út í þeim flokki. Titlar
eins og Ránið, Sverðberinn, Vítahringur og
Drekagaldur bera líka með sér fyrirheit um
æsilega viðburði enda eru þetta sögur af ung-
lingum í baráttu við alls kyns yfirnáttúruleg
öfl,“ segir Iðunn Steinsdóttir rithöfundur.
Þetta er í fyrsta sinn sem Síung-félagar taka
sig saman og lesa upp úr bókum sínum. Eftir
upplestur hvers höfundar gefst áheyrendum
svo tækifæri til að spjalla við höfundinn um
efni bókarinnar og hvaðeina sem þeir vilja
vita.
Lesið verður úr eftirfarandi bókum á fyrstu
hæðinni fyrir eldri áheyrendur: Frosnu tærnar
– Sigrún Eldjárn, Drekagaldur – Elías Snæ-
land Jónsson, Galdur Vísdómsbókarinnar – Ið-
unn Steinsdóttir, Ránið – Gunnhildur Hrólfs-
dóttir, Undir 4 augu – Þorgrímur Þráinsson,
Vítahringur – Kristín Steinsdóttir, Sverðber-
inn – Ragnheiður Gestsdóttir.
Á annarri hæð fyrir yngri börnin verður les-
ið úr: Af því að mér þykir svo vænt um þig –
Kristín Steinsdóttir, Nei, sagði litla skrímslið –
Áslaug Jónsdóttir, Bangsabörnin – Anna
Brynjúlfsdóttir, Fíasól í fínum málum – Kristín
Helga Gunnarsdóttir, Frosnu tærnar – Sigrún
Eldjárn, Snuðra og Tuðra laga til í herberginu
sínu – Iðunn Steinsdóttir, Leiðin til Leikheima
– Elín Elísabet Jóhannsdóttir, Blíðfinnur og
svörtu teningarnir, Lokaorustan – Þorvaldur
Þorsteinsson Þá verður boðið upp á hressingu
bæði fyrir börn og fullorðna.
Kristín Helga
Gunnarsdóttir
Kristín
Steinsdóttir
Ragnheiður
Gestsdóttir
Áslaug
Jónsdóttir
Sigrún
Eldjárn
Þorgrímur
Þráinsson
Bókaveisla barnanna í Grófinni
Þorvaldur
Þorsteinsson
DYNKUR er þriðja bók Brians
Pilkingtons um íslensku tröllin og
gefur þeim tveimur fyrstu, Allt um
tröllin og Hlunk, ekkert eftir nema
síður sé. Brian hefur löngu sýnt
hversu mikill listateiknari og
myndskreytari hann er, myndir
hans eru einstaklega lifandi, hlýjar
og gæddar leiftrandi ímyndunarafli
og kímni. Það er skemmtileg til-
hugsun að fyrir ungum börnum eru
tröllabækur Pilkingtons eins og
sannar sögur, kannski sérstaklega
fyrsta bókin sem lýsir tröllum og
lífi þeirra líkt og dýrafræðibók.
Brian sýnir meira að
segja tröllaskrift og
birtir fiskaljóð á trölla-
máli í nýjustu bókinni.
Þessi nálgun Brians
við tröllin er áhuga-
verð, hann hikar ekki
við að skapa sinn eigin
tröllaheim lauslega
byggðan á íslenskri
þjóðtrú og setja hann
fram sem staðreynd.
Hann notar íslenskt
landslag sem bakgrunn
í myndum sínum og
ljær þeim þannig þjóð-
legan blæ, síðan not-
færir hann sér t.d.
vitneskju um lækningamátt ís-
lenskra jurta í bókinni um Dynk.
Brian kynnir íslenskum börnum
þjóðtrú og fróðleiks-
mola um náttúru og
dýr á lipurlegan og
skemmtilegan hátt,
tröllin eru mátulega
gróf og tröllsleg í
háttum til að vera
spennandi og nógu
mannleg til að vera
krúttleg. Tröllasög-
urnar sýna hvað við
eigum auðugan arf og
hvað hann hefur þeim
að bjóða sem hafa
ímyndunarafl og
sköpunarkraft til að
skapa úr honum nýj-
an heim. Á síðari ár-
um hefur vissulega orðið vakning í
að sækja í þennan arf en fáir virð-
ast ná þeim léttleika og nútímalegu
frásögn sem Brian leikur sér að.
Eflaust eiga Harry Potter og
Hringadróttinssaga eitthvað í því
að hvers kyns ævintýraheimar eiga
kannski greiðari leið að fullorðnum
og börnum í dag og það er þá ein-
ungis af hinu góða, ég held það sé
komið nóg af barnabókum um
tannlæknaferðir og flokkun í
Sorpu. Tröllabækurnar eru einmitt
frábært dæmi um það hvernig
hægt er að miðla fróðleik til barna
án þess að glata snertingunni við
ævintýrið og hið undursamlega,
fjársjóði bernskunnar. Þær höfða
til nokkuð breiðs aldurshóps, litlu
börnin geta skoðað myndirnar og
þau stærri skemmt sér við fróð-
leiksmolana um lifnaðarhætti trölla.
Ragna Sigurðardóttir
BÆKUR
Börn
texti og myndir eftir Brian Pilkington, 26
bls. Mál og menning 2004
Dynkur
Brian Pilkington
Af lifnaðarháttum trölla
Eftirmál er eft-
ir feðgana
Njörð P. Njarð-
vík og Frey
Njarðarson.
„Þeir dagar
koma að Fritz
fær algert ógeð
á hreint öllu.
Hann fær and-
styggð á dópinu
og öllu sem því
er tengt, harkinu, höstlinu, díler-
unum og félögunum, ef félaga skyldi
kalla, á falsinu, lygunum, útigang-
inum … En þrátt fyrir ógeðið kemst
ekki að honum sú hugsun að hann
geti lifað án heróíns. Um leið vaknar
samt áköf þrá eftir „eðlilegu“ og
„venjulegu“ lífi. Bara ekki án heró-
íns.“
Fyrir tveimur áratugum sögðu
sömu höfundar frá reynslu sama
pilts í sögunni Ekkert mál. Þá var
hann kallaður Freddý og bjó í Kaup-
mannahöfn. Nú gegnir hann nafninu
Fritz og heldur til í Amsterdam. En
þetta er sami maður, í sama víta-
hringnum sem þrengir að honum
eins og ósýnilegur fjötur. Löng bar-
átta við fíknina hefur stundum fært
honum góða daga, en oftar en ekki
dýpri niðurlægingu og þjáningu en
orð fá lýst. Þýðir nokkuð að láta sig
dreyma um að verða frjáls af eitrinu
sem engu eirir?
Útgefandi er JPV útgáfa. Bókin
er 216 bls.