Lesbók Morgunblaðsins - 06.11.2004, Blaðsíða 10
10 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 6. nóvember 2004
C
arl Th. Dreyer (1889–1968)
telst vafalítið til merkustu
kvikmyndagerðarmanna í
heiminum og myndir hans
hafa haft víðtæk áhrif á list-
ræna sköpun innan kvik-
myndasögunnar. Ásamt Robert Bresson og
Yasajiro Ozu er hann frumkvöðull „trans-
cendental cinema“ sem hefur verið þýtt sem
óræð nálgun í kvikmyndagerð eða hand-
anveruleiki. Dreyer fór nýjar leiðir til að
nálgast viðfangsefnið og fanga það á filmu,
auk þess sem hann lagði mikla áherslu á fag-
urfræðileg vinnubrögð og háspekileg umfjöll-
unarefni.
Verk Dreyers eru fyrir löngu viðurkennd
listaverk og myndrænum stíl hans í Písl-
arsögu Jóhönnu af Örk hefur verið líkt við
myndverk meistara á
borð við Giotto,
Vermeer og Van Der
Weyden. En Dreyer var ekki spámaður í
sínu föðurlandi. Hann gerði fjórtán myndir á
sextíu ára ferli, þar af aðeins sjö í Danmörku,
og leið iðulega langur tími á milli framleiðslu
kvikmynda hans. Dreyer átti mjög erfitt með
fjármögnun verka sinna, m.a. þar sem hann
átti erfitt með að beygja sig undir markaðs-
lögmál samtímans. Hann var því gagnrýndur
fyrir fullkomnunaráráttu og ósveigjanleika.
Norræn gullöld
Í fyrri heimsstyrjöldinni hófst stutt gullöld í
kvikmyndagerð á Norðurlöndunum og byrj-
aði hún í Svíþjóð. Uppfinningasamur kvik-
myndatökumaður að nafni Charles Magn-
usson tók við rekstri Svensk Filmindustri og
hóf framleiðslu listrænna kvikmynda þar sem
efniviðnum var komið til skila á ferskan hátt.
Magnusson hvatti kvikmyndagerðarmenn til
að taka landslagsmyndir utandyra, en ekki í
myndveri eins og þá tíðkaðist. Þessi nýjung
léði kvikmyndunum ljóðræn blæbrigði sem
átti hvergi sinn líka á Vesturlöndum. Auk
þess var sænskum kvikmyndargerð-
armönnum fengur að skáldverkum Selmu
Lagerlöf, en þekktustu kvikmyndargerð-
armenn Svíþjóðar á þessum tíma, Mauritz
Stiller og Victor Sjöström, sóttu efnivið sinn í
frægustu verk hennar. Stiller hafði þegar
gert tvær kvikmyndir byggðar á skáldverk-
um Lagerlöf áður en hann gerði Gösta Berl-
ings saga árið 1924 sem leiddi til kynningar á
Gretu Garbo.
Á þessu tímabili beindist jafnframt áhugi
nágrannaþjóðanna að náttúrufegurð Íslands.
Sjöström gerði Bjerg-Eyvind och hans
hustru (1917) eftir leikriti Jóhanns Sigurjóns-
sonar um Fjalla-Eyvind og Höllu og Saga
Borgarættarinnar var gerð eftir samnefndri
skáldsögu Gunnars Gunnarssonar og tekin
hér á landi árið 1919. Myndin var framleidd
af danska kvikmyndafyrirtækinu Nordisk
Film, sem var stofnað árið 1906, og er eitt af
elstu starfandi kvikmyndafyrirtækjum í
heiminum.
Dreyer hóf kvikmyndaferil sinn sem hand-
ritshöfundur fyrir Nordisk film.
Hann gerðist blaðamaður að loknu námi og
starfaði ma. fyrir Berlingske Tidende og
Politiken, auk þess sem hann stofnaði dag-
blaðið Riget árið 1910, rúmlega tvítugur að
aldri, ásamt nokkrum hugsjónamönnum.
Blaðið sigldi fljótlega í gjaldþrot og Dreyer
gerðist blaðamaður fyrir Ekstra Bladet og
starfaði jafnframt sem leiðbeinandi við tökur
hjá Nordisk Film þar sem loftbelgir komu
við sögu, en Dreyer hafði mikinn áhuga á
tækninýjungum í flugmálum og ritaði margar
blaðagreinar um slíkt, auk þess sem hann
starfaði við gerð handrita. Í fyrstu kvikmynd
Dreyers, Præsidenten (1918), bregður strax
fyrir þeirri tilhneigingu hans að fylgja list-
rænni sannfæringu sinni eftir í öllum atrið-
um. Hann notaði bæði lærða og ólærða leik-
ara til að koma svipbrigðum og látbragði til
skila á þann hátt sem hann vildi, auk þess
sem hann hafnaði íburðarmiklum sviðs-
myndum og búningum til að skapa sterkara
raunsæi. Í myndinni koma fram áhrif úr hans
eigin bernsku, sem setti djúpt mark á hann,
og bregður fyrir í myndum hans á einn eða
annan hátt.
Óvenjuleg bernska
Dreyer var sonur ógiftrar ráðskonu að nafni
Josefine Bernhardine Nilsson sem hélt heim-
ili fyrir barnsföður sinn. Henni var komið
fyrir á dönsku heimili til að ala son sinn sem
hún skírði Karl Nielsen. Drengurinn flæktist
á milli tveggja fósturheimila áður en honum
var komið fyrir hjá dönskum prentsmið, Carl
Theodor Dreyer, og eiginkonu hans, Inger
Marie.
Hjónin voru strangtrúuð og var dreng-
urinn skírður eftir fósturföður sínum þegar
hann var tveggja ára að aldri. Áður en geng-
ið var frá ættleiðingunni varð Josefine Nils-
son barnshafandi á ný og reyndi hún að
koma af stað fósturláti með því að taka inn
lyf en lét lífið af völdum ofeitrunar. Dreyer-
hjónin fengu því ekki greitt með drengnum
eins og þeim hafði verið lofað. Ekki er vitað
hvenær Dreyer frétti um uppruna sinn og ör-
lög móður sinnar en þessi harmleikur setti
órjúfanlegt mark á hann.
Hann ólst upp við lítið ástríki hjá Dreyer-
hjónunum og rauf tengsl við fjölskylduna
ungur að árum.
Þessi óvenjulega bernska hefur sjálfsagt
átt sinn þátt í því að Dreyer tók gjarnan fyr-
ir stöðu kvenna í samfélaginu og samúð hans
með ofsóttum, fórnfúsum og kúguðum konum
er augljós og sett í víðara samhengi í mynd-
um hans. Í Præsidenten er greinilega skír-
skotun til líffræðilegrar móður Dreyers en
þar er góð og græskulaus kona, Victorine að
nafni, táldregin af vinnuveitanda sínum og
síðar leidd fyrir rétt, sökuð um að hafa valdið
dauða nýfædds barns síns. Í Húsbóndinn á
heimilinu (Master of the House, 1925) bregð-
ur Dreyer upp miskunnarlausri mynd af
sambandi hjóna þar sem eiginmaðurinn kúg-
ar eiginkonu sína, sem reynir að réttlæta
hegðun hans. Í Gertrud (1964) leitar kven-
hetjan að skilyrðislausum kærleik og í Orð-
inu (Ordet, 1955) er kvenhetjan Inger hold-
gervingur móðurinnar, sem er gædd óbilandi
festu og kærleik, en er jafnframt jarðbundin
og fús til að leysa nánast óleysanlegan
ágreining innan fjölskyldunnar. Jóhanna í
Píslarsögu Jóhönnu af Örk er holdgervingur
konu, sem lætur lífið fyrir trú
sína, en Dreyer tekur jafn-
framt afstöðu með henni sem
ofsóttri konu í heimi þar sem
karlmenn ráða ríkjum.
Jóhanna af Örk
Dreyer var víðförull leikstjóri
og gerði kvikmyndir í Svíþjóð,
Noregi, Þýskalandi og Frakk-
landi en þar gerði hann tíma-
mótaverkið Píslarsögu Jó-
hönnu af Örk (La Passion de
Jeanne d’Arc, 1928). Hús-
bóndinn á heimilinu hafði vak-
ið miklar vinsældir í Frakk-
landi og framleiðendur
Société Générale de Films
fóru þess á leit við Dreyer að
hann notaði sögulegan efnivið
í næstu kvikmynd og valdi
hann að gera mynd um Jóhönnu af Örk.
Sögusviðið er Rúðuborg í Frakklandi árið
1431 þegar hundrað ára stríðið er í algleym-
ingi. Nítján ára gömul bóndastúlka að nafni
Jeanne er dæmd til dauða af kirkjurétti fyrir
villutrú og brennd á báli. Dreyer fór óhefð-
bundnar leiðir í notkun myndmáls og svið-
setningar til að ná fram sálfræðilegu
raunsæi, þar sem hann lýsir síðasta sólar-
hringnum í lífi Jóhönnu af Örk. Í því skyni
lagði hann megináherslu á nákvæmni sviðs-
myndarinnar. Hann hannaði kastalann í
Rúðuborg eftir miðaldalíkani og hafði bún-
ingana einfalda í sniðum. Hann notaði óspart
nærmyndir til að skapa hughrif og ná fram
óræðri nálgun eða áhrifum handanveruleika.
Tjáningarríkt andliti Renée Marie Falc-
onnetti, sem leikur Jóhönnu, er ófarðað, birt-
an skörp í miðju myndskeiðs en skuggar við
jaðrana svo að áhorfandinn upplifir þjáningu
hennar og trúarlega sannfæringu í gegnum
þessa túlkun sem var jafn óvenjuleg á þessu
tímabili og hún er mögnuð.
Dreyer notaði gögn kirkjuréttarins í atrið-
unum þar sem Jóhanna er spurð í þaula um
trú sína annars vegar og þjóðrækni hins veg-
ar, vitanlega í millitextum, þar sem myndin
er þögul. Megintema myndarinnar er trúin,
þjáningin og náðin. Jóhönnu tekst að halda
mannlegri reisn við ómanneskjulegar kring-
umstæður; hún er nánast guðleg vera en eld-
móður hennar og kærleikur gera hana jafn-
framt að konu af holdi og blóði, enda skynja
áhorfendur þjáningu hennar sem mannveru.
Dreyer kallaði þessa túlkun raungerða dulúð
en þar kallast á raddir hins háleita og hins
holdlega. Myndin er talin eitt af meist-
araverkum klassískra kvikmynda frá þögla
tímabilinu.
Auðug arfleifð
Dreyer hafði miklar mætur á verkum banda-
ríska kvikmyndagerðarmannsins D.W. Griff-
iths og heillaðist af franska súrrealismanum
á þriðja áratugnum þegar hann dvaldi í
Frakklandi. Áhrifa súrrealismans gætir í
myndinni Vampyr, fyrstu talmynd Dreyers
frá 1931, en margir telja hana eins konar
mótvægi við Píslargöngu Jóhönnu af Örk.
Myndin naut lítilla vinsælda og leiddi það til
sambandsslita við framleiðendur Dreyers í
Frakklandi. Hann hætti að gera
kvikmyndir um hríð og sneri sér
aftur að blaðamennsku. Hann tók
aftur upp kvikmyndagerð snemma
á fimmta áratugnum og hélt áfram
að kanna sambandið á milli hins
raunverulega og hins óraunveru-
lega og að rannsaka flókið sálarlíf
og stöðu kvenna í myndum á borð
við Orðið og Gertrud, sem var síð-
asta kvikmynd hans. Hann skrifaði
jafnframt handrit að kvikmyndinni
Medeu eftir leikriti Evripídes, en
hún varð ekki að kvikmynd fyrr en
samlandi og aðdáandi Dreyers,
Lars Von Trier, gerði hana fyrir
danska sjónvarpið árið 1988.
Dreyer lést árið 1968 og skildi
eftir sig auðuga arfleifð sem hefur
haft víðtæk áhrif á kvikmyndasög-
una.
Hægt væri að skrifa heila bók
um áhrif Dreyers á einstaka kvik-
myndagerðarmenn en hér er aðeins
rúm til að nefna örfá dæmi. Áhrifa
Dreyers gætir einna helst í með-
höndlun ljóss og skugga og notkun
nærmynda í kvikmyndum Ingmars
Bergmans, Béla Tarr, Andrejs
Tarkovskís og Lars Von Triers, sem
eiga það sameiginlegt með Dreyer
að afhjúpa nekt sálarinnar, leggja
áherslu á samsömun áhorfandans við persón-
urnar, fara óhefðbundnar leiðir til að vekja
tilfinningaleg viðbrögð og spyrja þráfaldlega
stórra spurninga í myndum sínum, svo örfá
dæmi séu tekin.
Peter Cowie bendir á í bók sinni Le Cin-
éma des pays nordiques (1990) að í síðusta
mynd Tarkovskís, Fórninni (The Sacrifice,
1986), gæti sterkra áhrifa frá Vampyr
Dreyers. Í stuttmynd Martins Scorseses,
New York Stories (1989), er skemmtileg til-
vísun í Mikael (1924) eftir Dreyer. Í einu at-
riðinu í mynd Scorseses er listmálarinn kom-
inn í þrot.
Skuggarnir ljúkast smám saman um hann
og gleypa hann en málverk hans opinberast
áhorfendum í áhrifaríku ljósflæði.
Lars Von Trier segir sjálfur að meðal eft-
irlætismynda sinna sé Orðið eftir Dreyer og
Spegillinn (Mirror, 1974) eftir Tarkovskí.
Áhrifa Bergmans gætir vissulega líka í
myndum hans; Von Trier afhjúpar sálarlíf
kvenna á áhrifaríkan hátt og nálgunin er á
stundum afar hörð og óvægin.
Von Trier kvaðst hafa viljað nota viðhorf
Dreyers til trúarinnar í myndinni Brimbroti
(Breaking the Waves, 1996) þar sem hann
álítur að trúin, sem endurspeglast í myndum
Dreyers, sé fyrst og fremst mannúðleg og að
hann gagnrýni aldrei Guð sjálfan, aðeins
hvernig mennirnir misnota trúna. Bess í áð-
urnefndri kvikmynd Von Triers er persónu-
gervingur þessa viðhorfs en kveikjan að
verkinu er að miklu leyti Píslarsaga Jóhönnu
af Örk og Gertrud. „Konan er miðja mynd-
arinnar eins og konurnar í myndum Dreyers,
konur sem þjást,“ er haft eftir Lars Von
Trier í viðtali í Sight and Sound Magazine
árið 1996.
Dreyer taldi að hlutverk kvikmyndanna
væri ekki að skapa fullkomið raunsæi, heldur
væri það fólgið í því að skapa trúverðugt
jafnvægi á milli raunveruleika og óraunveru-
leika. Hann var þessu viðhorfi trúr til dauða-
dags og því oft misskilinn og vanmetinn.
Franska nýbylgjan með Jean-Luc Godard,
Francois Truffaut og Henri-George Clouzot í
fararbroddi varð einna fyrst til að viðurkenna
Dreyer sem einn af meisturum kvikmynda-
sögunnar og var hann loksins heiðraður á
frumsýningu Gertrud í París árið 1964,
þremur árum áður en hann lést. Arfleifðin,
sem hann skilur eftir sig, á vafalítið eftir að
veita mörgum öðrum kvikmyndagerð-
armönnum innblástur þegar fram líða stund-
ir.
Portrait de Carl Th Dreyer – Ib Monty, La Fondation
Gouvernamentale du Film, Kaupmannahöfn, 1965 Le
Cinéma des pays nordiques – Peter Cowie, Paris, 1990
Drum, Jean and Dale D., My Only Great Passion: The Life
and Films of Carl Theodor Dreyer (Lanham: Scarecrow
Press, 2000).
Carney, Ray, Speaking the Language of Desire: The Films
of Carl Dreyer (Cambridge: Cambridge University Press,
1989).
Bordwell, David, The Films of Carl Theodor Dreyer
(Berkeley: University of California Press, 1995).
Schrader, Paul, Transcendental Style in Film: Ozu,
Bresson, Dreyer (New York: Da Capo Press, 1988).
The History of World Cinema – David Robinson, London
1973. Útvarpsviðtal við Dreyer í New perspective on the
Arts and Science, 1950. Viðtal við Lars Von Trier í Sights
and Sound Magazine, 1996.
Í upphafi var Dreyer …
Úr Orðinu eftir Dreyer „Í Orðinu (Ordet, 1955) er kvenhetjan Inger holdgervingur móðurinnar, sem er gædd óbil-
andi festu og kærleik, en er jafnframt jarðbundin og fús til að leysa nánast óleysanlegan ágreining innan fjöl-
skyldunnar.“
Jóhanna af Örk Renée Marie Falconetti í hlutverki Jóhönnu af Örk.
Myndin er talin ein af meistaraverkum klassískra kvikmynda frá
þögla tímabilinu.
Höfundur er kvikmyndafræðingur og rithöfundur.
Danska kvikmyndaleikstjórans Carls Th.
Dreyers verður minnst með pallborðs-
umræðum í Norræna húsinu 10. nóvember,
auk þess sem Ríkissjónvarpið sýnir heim-
ildamyndina Myten Dreyer sama kvöld.
Fimmtudagskvöldið 11. nóvember gefst kvik-
mynda- og tónlistarunnendum síðan kostur á
að sjá tímamótaverk Dreyers, Píslarsögu Jó-
hönnu af Örk, frá 1928 við undirleik Sinfón-
íuhljómsveitar Íslands í Háskólabíói í sam-
starfi við Kvikmyndasafn Íslands.
Eftir Oddnýju Sen
oddnysen@hotmail.com